• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

28
Dec

Aðalfundi Sjómanna- og vélstjóradeildar lokið

Rétt í þessu lauk aðalfundi sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa var samþykkt ályktun þar sem það er harmað innilega að starfsöryggi sjómanna sé ógnað vegna ágreinings útgerðarmanna við stjórnvöld vegna auðlindagjalds. Fram kom í máli fundarmanna að þeir séu verulega óánægðir með að ekki skuli vera búið að ná fram kjarasamningi ennþá og það sé ekki undir neinum kringumstæðum hægt að sætta sig við þann drátt sem orðið hefur á nýjum kjarasamningi en nú eru liðin tvö ár frá því að eldri kjarasamningur rann út.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum:

  

Ályktun

 

Aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness harmar þá óvissu sem upp er komin varðandi kjör og starfsöryggi sjómanna og fiskvinnslufólks vegna ágreinings sjávarútvegsfyrirtækja við stjórnvöld.

Á þeirri forsendu telur aðalfundurinn það afar brýnt að áðurnefndir aðilar leysi þennan ágreining sín á milli þannig að sjávarútvegurinn geti haldið áfram að vaxa og dafna og að sá vöxtur leiði til fjölgunar í greininni  í stað fækkunar eins nú stefnir í. 

Aðalfundurinn skorar á Landssamband útgerðarmanna að ganga tafarlaust frá kjarasamningi við sjómenn því það er með öllu ólíðandi að sjómenn séu búnir að vera samningslausir í heil tvö ár.

Aðalfundur sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness vill að það komi skýrt fram að það mun aldrei koma til greina að sjómenn taki á sig lækkun á sínum kjörum vegna ágreinings  útgerðarmanna við stjórnvöld vegna auðlindagjaldsins og vill fundurinn minna útgerðarmenn á að stjórnvöld hafa ráðist á kjör sjómanna með því að afnema sjómannaafsláttinn í áföngum á liðnum árum.  Það er því morgunljóst að sjómenn munu krefjast þess að þeim verði m.a bætt upp það fjárhagstjón sem þeir hafa orðið fyrir vegna skerðingar á sjómannaafslættinum.

28
Dec

Jólafundur stjórnar- og trúnaðarráðs haldinn í gær

Hinn árlegi jólafundur stjórnar- og trúnaðarráðs var haldinn í gær en á dagskrá fundarins var farið yfir starfsemi liðins árs. Fundarmenn byrjuðu á því að rísa úr sætum og minnast Jóhanns Arnar Matthíassonar sem gegnt hafði stjórnarmennsku í félaginu í áratugi og það af stakri snilld en hann féll frá í ágústmánuði á þessu ári.

Formaður fór yfir starfsemi félagsins og kom fram að rekstur félagsins hefur gengið mjög vel á öllum sviðum og hefur orðið fjölgun í félaginu á liðnum mánuðum. Mikið hefur gengið á í hinum ýmsu baráttumálum hjá félaginu og fór hann meðal annars ítarlega yfir málsóknina gegn verðtryggingunni en þingfest verður í því máli strax eftir áramót. Það kom einnig fram í máli hans að frá því að ný stjórn tók við þann 19. nóvember 2003 hefur félagið innheimt vegna hinna ýmsu kjarasamningsbrota fyrir félagsmenn yfir 200 milljónir króna. Félagið hefur verið reist upp frá rústum ef að þannig má að orði komast, jafnt félagslega sem fjárhagslega á þessum 9 árum enda var félagið rekið á yfirdrætti þegar núverandi stjórn tók við síðla árs 2003.

Það kom fram í máli stjórnar- og trúnaðarráðsmanna að þeir væru stoltir af starfsemi félagsins enda hefur félagið verið áberandi í allri þjóðfélagsumræðu er lýtur að hinum ýmsu hagsmunamálum fyrir félagið og almenning í þessu landi.

28
Dec

Formaður félagsins valinn Vestlendingur ársins 2012

Formaður Verkalýðsfélags Akraness var valinn Vestlendingur ársins 2012 af lesendum héraðsblaðsins Skessuhorns en um 24 aðilar fengu tilnefningu og samkvæmt upplýsingum frá Skessuhorni fékk formaður félagsins langflest atkvæði.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness lítur á þetta sem viðurkenningu fyrir þá miklu baráttu sem félagið hefur staðið í er lítur að hinum ýmsu hagsmunamálum fyrir íslenska launþega sem og skuldsett heimili. Verður þetta kjör að teljast nokkuð athyglisvert í ljósi þess að verkalýðshreyfingin hefur verið að mælast í svokölluðum ruslflokki slag í slag í þeim könnunum sem gerðar hafa verið enda hefur gríðarleg gjá verið á milli hins almenna félagsmanns innan ASÍ og forystu hreyfingarinnar. Þetta sýnir að sú stefna sem Verkalýðsfélag Akraness hefur tekið í til dæmis verðtryggingarmálum og leiðréttingu á skuldum heimilanna nýtur mikils stuðnings á meðal almennings í þessu landi. Einnig hefur barátta félagsins fyrir auknu lýðræði í lífeyrissjóðunum átt mikinn stuðning á meðal almennings og ugglaust hafa allir þessir þættir spilað saman þegar fólk hefur tekið ákvörðun um hvern skyldi kjósa í þessu kjöri um Vestlending ársins.

Formaður vill ítreka það að hann lítur á þetta sem viðurkenningu fyrir starfsmenn félagsins, stjórn þess og í raun og veru fyrir Verkalýðsfélag Akraness allt eins og það leggur sig.

21
Dec

Opnunartími skrifstofu um jól og áramót

Opnunartími skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness  yfir jól og áramót verður sem hér segir:

24. desember Aðfangadagur - lokað
25. desember Jóladagur - lokað
26. desember Annar í jólum - lokað

27. desember - opið kl. 12:00 - 16:00

28. desember - opið kl. 08:00 - 16:00

31. desember Gamlársdagur - lokað
1. janúar Nýársdagur - lokað
2. janúar - opið kl. 12:00 - 16:00

Styrkir og aðrar greiðslur úr sjóðum félagsins verða greiddar föstudaginn 28. desember. Umsóknir og öll gögn þurfa því að hafa borist skrifstofu í lok dags 27. desember til að ná útborgun fyrir áramót.

20
Dec

Orlofshús - Allt uppbókað um jól og áramót

Félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness finnst greinilega eftirsóknarvert að fara út úr bænum og dvelja í orlofshúsi yfir jól og áramót. Þótt eitthvað sé laust um næstu helgi þá er uppbókað í öllum bústöðum félagsins frá aðfangadegi og fram yfir áramót og komust færri að en vildu.

Nýtingin á orlofshúsunum hefur reyndar verið einstaklega góð í allt haust og sárasjaldan sem leiga hefur fallið niður um helgi.

Til að fylgjast með lausum orlofshúsum er best að hafa aðgang að Félagavefnum (sjá rauðan hnapp hér til hægri). Hægt er að sækja um aðgang á skrifstofu félagsins eða á sjálfum Félagavefnum. Einnig er hægt að fá upplýsingar og bóka laus orlofshús á skrifstofu félagsins Sunnubraut 13 eða í síma 4309900. Svo er ekki verra að vera áskrifandi að síðu félagsins á Facebook, þar eru settar inn tilkynningar ef forföll verða.

18
Dec

Verðtryggingarmálið verður þingfest strax eftir áramót

Því miður náðist ekki að þingfesta dómsmálið um ólögmæti verðtryggingarinnar fyrir jól eins og til stóð. Ástæðan er sú að málið er mjög yfirgripsmikið, en að höfðu samráði við lögmann þá var það sameiginleg niðurstaða að bíða með þingfestinguna þar til strax eftir áramót. Gerð stefnunnar er langt komin og mun hún verða þingfest að öllum líkindum þann 4. janúar næstkomandi.

Eins og áður hefur komið fram þá snýr stefnan að því hvort löglegt sé að lána flókna fjármálagerninga, svokallaðar afleiður, til einstaklinga og heimila eða hvort slíkt stangist á við MiFid reglurnar. Fjölmargir hafa styrkt málareksturinn, en eðli málsins samkvæmt er gríðarlega dýrt að fara með svona mál í gegnum bæði dómsstigin og er áætlað að kostnaðurinn verði á þriðju milljón króna. En sem betur fer hafa fjölmörg stéttarfélög og einstaklingar stutt Verkalýðsfélag Akraness í þessu  máli, en þau stéttarfélög sem hafa stutt félagið nú þegar eru:

  • Framsýn stéttarfélag
  • Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur
  • Sjómannafélag Íslands
  • Verkalýðsfélag Snæfellinga
  • Félag Málmtæknimanna Akureyri
  • Stéttarfélagið Samstaða
  • Verkalýðsfélag Grindarvíkur
  • Verkalýðsfélag Þórshafnar

Það er alveg ljóst að hér er um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða fyrir skuldsett heimili þessa lands en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðu félagsins þá hefur verðtryggingin leikið skuldsett hemili skelfilega á liðnum árum og áætlað er að skuldir heimilanna hafi hækkað um 400 milljarða frá 1. jan 2008 vegna hennar. Og á síðustu 12 mánuðum hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um 60 milljarða króna.

12
Dec

Verkalýðsfélag Akraness hefur styrkt góðgerðafélög um 5 milljónir á liðnum árum.

Jólaúthlutun til þeirra sem eiga í fjárhagslegum erfiðleikum fer víða fram um þessar mundir. Myndin er frá Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur.Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði í sérstakan styrktarsjóð Verkalýðsfélags Akraness sem nota á til að styrkja góðgerðamál á félagssvæði VLFA.

Á grundvelli þessa samnings við Landsbankann ákvað stjórn félagsins á fundi sínum á þriðjudag að styrkja Mæðrastyrksnefnd Akraness og styrktarsjóð Akraneskirkju um sambærilega upphæð og undanfarin ár. Séra Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur okkar Skagamanna mun sjá um að útdeila þeim fjármunum sem runnu til styrktarsjóðs Akraneskirkju til fjölskyldna sem eiga í fjárhagsvandræðum.  Verkalýðsfélag Akraness hefur frá árinu 2005 styrkt hin ýmsu góðgerðasamtök hér á Akranesi um tæpar 5 milljónir króna í gegnum þennan samning sem félagið gerði við Landsbankann á Akranesi.

Stjórn félagsins er afar ánægð með að geta komið þessum góðgerðasamtökum til hjálpar með þessu framlögum. 

Það er alveg ljóst að gríðarlegur fjöldi fólks á um sárt að binda fjárhagslega um þessar mundir sökum þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Á þeirri forsendu er jákvætt að geta aðstoðað einhverja sem eiga í tímabundnum erfiðleikum fjárhagslega við að halda gleðilega jólahátíð.

10
Dec

Félagsmenn duglegir að nýta styrki frá VLFA

Félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness hafa verið mjög duglegir að nýta sér réttindi sín, en það sem af er þessu ári hafa styrkir úr sjúkrasjóði aukist um 29% miðað við sama tímabil í fyrra. Mestu munar um hækkun Fæðingarstyrks, en um síðustu áramót var hann tvöfaldaður og hækkaði hann úr 35.000 krónum upp í 70.000 krónur. Alls hafa útgjöld vegna fæðingarstyrks á þessu tímabili aukist um 129%. Útgjöld vegna annarra styrkja hafa einnig aukist umtalsvert.

Verkalýðsfélag Akraness hefur ávallt reynt að kynna félagsmönnum réttindi þeirra eins vel og kostur er bæði hér á heimasíðunni, í blöðum og með auglýsingum. Miðað við þessa aukningu er greinilegt að þetta er að skila sér og félagsmenn eru betur meðvitaðir um það sem þeim býðst hjá sínu stéttarfélagi.

07
Dec

Skattastefna stjórnvalda stefnir atvinnuöryggi fólks í sjávarútvegi í stórhættu

Eins og fram hefur komið í fréttum ríkir nú umtalsverð óvissa varðandi atvinnuöryggi sjómanna, fiskvinnslufólks og annarra sem starfa í sjávarútvegi. Ástæðan er einföld, hið nýja auðlindagjald ríkisstjórnarinnar hefur stefnt atvinnuöryggi þessa fólks í verulega hættu. Í fréttum í gær kom fram að 62 starfsmönnum hefur nú verið sagt upp hjá þremur útgerðarfyrirtækjum og er ekki ólíklegt að mun fleiri uppsagnir séu nú í burðarliðnum.

Þetta nýja auðlindagjald virðist í fljótu bragði vera algjörlega vanhugsað enda er verið að leggja umtalsverðar byrðar á útgerðina. Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur verið í sambandi við tvo útgerðarmenn sem eru í smábátaútgerð hér á Akranesi og í máli þeirra kom fram að það sé algjörlega búið að rústa þessari grein og þeir hafi ekki nokkurn áhuga á að starfa áfram við þessar aðstæður. Annar þeirra sagðist hafa greitt rétt rúmar 600 þúsund krónur í auðlindagjald fyrir ári síðan en nú væri hann hins vegar kominn með reikning í hendurnar sem kveður á um 2,7 milljónir í auðlindagjald og hann áætlar að af þessum litla kvóta sem hann er með fari aflaverðmæti 20-30 tonna í það eitt að standa undir kostnaði vegna hins nýja auðlindagjalds. Sömu sögu er að segja af hinum útgerðarmanninum, hann greiddi 800 þúsund krónur í auðlindagjald á síðasta ári en hefur nú fengið reikning upp á 4 milljónir króna. Báðir sögðu þeir að þeir hefðu í hyggju að hætta þessari starfsemi vegna skattastefnu stjórnvalda, enda er þeim ekki lengur gert kleift að starfa í þessari grein. Það kom einnig fram í fréttum í dag að fjölmargar smærri útgerðir séu nú að íhuga að selja sínar útgerðir og hætta starfsemi.

Formaður félagsins óttast að atvinnuöryggi hundruð ef ekki þúsunda sjómanna sé stefnt í voða vegna þessa auðlindagjalds. Rétt væri að sjávarútvegurinn myndi greiða eðlilegt og sanngjarnt auðlindagjald en það auðlindagjald má ekki vera með þeim hætti að atvinnuöryggi áðurnefndra aðila sé stefnt í tvísýnu eins og nú er gert. Formaður VLFA vill sjá útgerðina geta vaxið og dafnað þannig að hún geti hækkað laun þeirra sem starfa í greininni sem klárlega myndi skila sér í auknum tekjum fyrir ríkissjóð sem og sveitarfélög og einnig að útgerðinni séu gerð þannig rekstrarskilyrði af hálfu stjórnvalda að það leiði til fjölgunar starfa í greininni en ekki fækkunar eins og nú er að eiga sér stað enda er það til hagsbóta fyrir allt samfélagið.

Það er þyngra en tárum taki að núverandi stjórnvöld virðast eiga í heilögu stríði við þrjár mikilvægustu atvinnugreinar þessa lands, það er að segja útgerðina, stóriðjuna og nú síðast ferðaþjónustuna. Það var t.d. gengið frá samkomulagi við stóriðjurnar um fyrirframgreiddan skatt árið 2010 sem átti að renna út á þessu ári en nú hafa stjórnvöld tilkynnt eins og svo oft áður að þau ætli að svíkja það samkomulag og hafa framlengt skattheimtuna. Hvernig eiga erlendir fjárfestar að hafa nokkurn áhuga á að fjárfesta hér á landi þegar ekki er hægt að treysta undirrituðum samkomulögum þar að lútandi. Ekki þar fyrir utan að verkalýðshreyfingin þekkir það mætavel að ekki er hægt að treysta núverandi stjórnvöldum þó undirritað samkomulag hafi verið gert og nægir að nefna í því samhengi öll þau samkomulög sem gerð hafa verið samhliða kjarasamningum sem nú hafa verið svikin að stórum hluta.

Það er hins vegar alveg ljóst að ríkissjóður þarf að auka skatttekjur sínar en það má ekki vera með þeim hætti að það hafi þveröfug áhrif og leiði frekar til tekjurýrnunar ríkissjóðs heldur en aukningar. Sem dæmi þá hafa skattahækkanir ríkisstjórnarinnar frá því hún tók við hækkað verðtryggðar skuldir heimilanna um vel á þriðja tug milljarða vegna áhrifa hækkana á neysluvísitölunni.

Samtök atvinnulífsins hafa bent á að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar frá því hún tók við hafi leitt til þess að skattbyrði hverrar fjögurra manna fjölskyldu hafi aukist um 1 milljón króna á hverju ári. Verkalýðsfélag Akraness skorar á stjórnvöld að endurskoða þessa skattastefnu sína því það gengur ekki upp að verið sé að ganga af heimilunum dauðum sem og að fyrirtækjum og atvinnuöryggi heillar atvinnugreinar sé stefnt í voða eins og nú er að gerast. Hér er um dauðans alvöru að ræða og Verkalýðsfélagi Akraness ber skylda til þess að verja störf sinna félagsmanna með kjafti og klóm. Hér fara hagsmunir atvinnulífsins og stéttarfélagsins svo sannarlega saman enda er hér um lífsafkomu félagsmanna í húfi. VLFA skorar einnig á stjórnvöld og útgerðarmenn að setjast niður og reyna að finna lausn á þessari deilu þar sem það má ekki undir nokkrum kringumstæðum gerast að störfum innan sjávarútvegsins sé stefnt í hættu á þennan hátt.

06
Dec

Við viljum ekki hafa verðtryggð jól

Barátta Verkalýðsfélags Akraness gegn verðtryggingunni hefur víða fengið hljómgrunn. Nú hefur hljómsveitin Grasasnar frá Borgarbyggð og sönghópurinn Stúkurnar frá Akranesi gefið út nýtt jólalag: (við viljum ekki hafa) Verðtryggð jól.

Í fréttatilkynningu vegna útgáfu lagsins segir: "Allir aðstendur lagsins og myndbandsins eru frá Vesturlandi og vilja með þessu verki sínu lýsa yfir samstöðu með Verkalýðsfélagi Akraness svo og Hagsmunasamtökum heimilanna  sem tekið hafa forystu og stefnt stjórnvöldum á grundvelli þess að lög um verðtryggingu séu ólögleg.  Flytjendur líta svo á verðtygging sé mannréttindabrot sem skapi óbærilega stöðu fyrir fjölskyldufólk og heimili í landinu. Með framlagi sínu vilja þeir leggja sitt litla lóð á vogarskálarnar í  von um að vekja fólk til umhugsunar og aðgerða gegn þessu séríslenska óréttlæti."

Verkalýðsfélag Akraness þakkar innilega fyrir þennan hljómfagra stuðning enda munar um hvert einasta lóð sem lagt er á vogarskálarnar gegn verðtryggingunni. Stuðningur sem þessi er algerlega ómetanlegur. Það er gaman að geta þess að ein úr sönghópnum Stúkurnar er starfsmaður á skrifstofu VLFA. Rétt í þessu var að berast myndband sem Friðþjófur Helgason hefur gert við lagið og er hægt að sjá það með því að smella hér.

Textinn með laginu er svohljóðandi:

Syngjum saman lítið lag um jólin,

saman skulum finna okkur skjól.

Syngjum hátt og snjallt, svo það heyrist út um allt.

Við viljum ekki hafa verðtryggð jól.

 

Þingmenn svíkja sannfæringu sína,

fjármagnsfurstar spinna flækjustig.

Leiðast hönd í hönd með belti og axlabönd

á meðan sigla heimili í slig.

 

Öfugsnúið réttlæti hér ríkir,

gjafirnar fá glæframenn og fól.

Fjölskyldanna lán, skuldaklafi og smán

Aftengjum vitlaus vísitölu tól.

 

Kominn tími til að opna  augun

blekkingarnar blasa öllum við.

Forsendan er falin og afleiðingin galin,

Koma svo, þetta þolir ekki bið. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image