• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15

Um stofnun Verkalýðsfélags Akraness

Það var fimmtudaginn 9. okt. 1924, að allmargir sjómenn og verkamenn og ein kona, komu saman til fundar í Báruhúsinu á Akranesi, í þeim tilgangi að vinna að undirbúningi að stofnun verkalýðsfélags á Akranesi.

Það fólk sem hér var samankomið, var hert í miskunnarlausri baráttu fyrir lífshagsmunum sínum og heimila sinna.  Þetta voru menn, sem sóttu sjóinn á litlum vélbátum og sumir á opnum árabátum, af miklu kappi, - verkamenn sem báru daginn út og daginn inn, og kona sú, sem getið er í fundargerðinni, vann við fiskþvott, en slíkt starf var að mestu unnið í óupphituðu húsnæði, og stundum undir beru lofti, og kom fyrir að brjóta þurfti ís af þvottakörunum áður en fiskþvottur gæti hafist.

Fundarstjóri á þessum fundi var kjörinn Sveinbjörn Oddsson, og fundarritari Sæmundur Friðriksson.  Frummælandi á þessum undirbúningsfundi var Oddur Sveinsson á Akri.

Hann flutti snjallt erindi um alþýðuhreyfinguna í Evrópu, og lýsti starfi hennar og stefnu, og hversu miklu hún gæti komið til leiðar með starfsemi sinni.  Hvatti Oddur eindregið til stofnunar verkalýðsfélags hér á Akranesi.

Þá ræddi Sæmundur Friðriksson, um stofnun verkalýðsfélags, og lýsti því hversu mikla þýðingu slíkur félagsskapur gæti haft fyrir verkalýðinn á sjó og landi, bæði í kaupgjalds- og atvinnumálum.

Sveinbjörn Oddsson kvað ekki hægt á einu kvöldi, að sýna fram á hvernig best væri ráðin bót á öllu því sem umbóta þurfti með, og lýsti á hvern hátt hann hyggði, að verkalýðsfélag gæti náð árangri ef stofnað yrði.

Auk þess töluðu þeir Þorsteinn Benediktsson og Sigurður Jörundsson, og mæltu þeir báðir með stofnun verkalýðsfélags.  Þess ber að geta, að bræðurnir frá Teig, Ásgrímur, Sigurjón og Stefán, stuðluðu mjög að stofnun félagsins.

Á fundi þessum var kosin 5 manna nefnd, til þess að vinna að frekari undirbúningi.  Kosningu hlutu eftirtaldir menn:  Sveinbjörn Oddsson, Sæmundur Friðriksson, Jörgen Hansson, Indriði Jónsson og Oddur Sveinsson.

Þá var kosin 9 manna nefnd til þess að gera tillögur um stjórn fyrir væntanlegt félag og hlutu kosningu eftirtaldir:  Indriði Jónsson, Sigurjón Sigurðsson, Sigurður Björnsson, Eiríkur Guðmundsson, Jónas Guðmundsson, Ólafur Kristjánsson, Gísli Einarsson, Halldór Sigurðsson og frú Sveinsína Sveinsdóttir.  Síðan var fundi frestað og framhaldsfundur boðaður hinn 14. okt. 1924.

 

Framhaldsfundur var haldinn boðaðan fundardag, og þá lagt fram frumvarp að lögum fyrir félagið og það samþykkt samhljóða á fundinum.  Stofndagur Verkalýðsfélags Akraness er því 14. október 1924.  Stofnendur munu hafa verið alls 108 að tölu.

1. grein laganna hljóðaði svo:

            Félagið heitir:  Verkalýðsfélag Akraness.  Starfssvið:  Ytri-Akraneshreppur.

2. grein.

            Tilgangur félagsins er að efla og styðja hag og menningu alþýðunnar á því svæði, sem félagið nær yfir, með því að vinna að sjálfsbjargarviðleitni almennings, ákveða vinnutíma og kaupgjald, og með sjálfstæðri þátttöku alþýðunnar í stjórnmálum lands og sveitarfélags, allt í samræmi við önnur verkalýðsfélög og Alþýðusambandið.

Fyrsta stjórn félagsins var skipuð eftirtöldum mönnum:  Formaður:  Sæmundur Friðriksson; ritari:  Oddur Sveinsson og féhirðir Eiríkur Guðmundsson, Tungu.  Meðstjórnendur:  Jörgen Hansson og Ágúst Ásbjörnsson; varaformaður:  Sveinbjörn Oddsson; vararitari:  Gísli Gíslason og varaféhirðir:  Jónas Guðmundsson.

Formenn Verkalýðsfélags Akraness frá stofnun þess á árinu 1924

1924-1925         Sæmundur Friðriksson

1925-1937         Sveinbjörn Oddsson

1937-1961         Hálfdán Sveinsson

1961-1966         Guðmundur Kristinn Ólafsson

1966-1981         Skúli Þórðarson

1981-1986         Agnar Jónsson

1986-1989         Guðmundur M. Jónsson

1989-2003         Hervar Gunnarsson

2003-                 Vilhjálmur Elías Birgisson

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image