• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Oct

Alvarlegt áfall á Grundartanga – framleiðsla dregst saman um 66%

Staðan á Grundartanga er nú mjög alvarleg eftir að búið er að slökkva á 340 kerum af 520, sem þýðir að einungis um 180 ker eru nú í rekstri. Þetta jafngildir framleiðslugetu álíka og var árið 2001 og undirstrikar hversu mikið áfall þetta er fyrir starfsemina, starfsfólkið og samfélagið á Akranesi og í nærsveitum.

Allir sem þekkja til vinnu og reksturs álvera vita og átta sig á alvarleikanum þegar búið er að slökkva á jafn stórum hluta kera. Það er morgunljóst að þetta er ekki stöðvun sem varir í nokkra daga eða vikur, heldur miklu umfangsmeira ástand sem mun taka tíma að leysa.

Fjölmargir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness hafa haft samband við félagið á liðnum sólarhring. Eðlilega er fólk bæði óttaslegið og kvíðið yfir stöðunni sem upp er komin. Því er afar mikilvægt að upplýsingagjöf til starfsmanna byggist á eins áreiðanlegum og traustum upplýsingum og kostur er, svo tryggja megi gagnsæi og ró í þessum erfiðu aðstæðum.

Allir sem þekkja til vita að stóriðjurnar á Grundartanga eru lífæð okkar Akurnesinga. Þegar sú æð stíplast getur það svo sannarlega haft alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu okkar og samfélagið allt. Þess vegna er brýnt að unnið sé hratt, skipulega og af fullri alvöru að því að koma starfseminni aftur í eðlilegt horf.

Verkalýðsfélag Akraness hefur kallað eftir upplýsingum um stöðuna, en eins og hún er nú eru allir sem vettlingi geta valdið að reyna að lágmarka skaðann og meta umfangið. Vonandi skýrist málið betur á morgun og næstu daga, en ljóst er að um mjög alvarlega stöðu er að ræða.

Þetta áfall kemur jafnframt á sama tíma og Elkem Ísland hefur tilkynnt að draga eigi úr framleiðslu í verksmiðjum félagsins á Íslandi vegna krefjandi markaðsaðstæðna, en það verður gert með því að slökkva á einum af þremur ofnum fyrirtækisins í allt að tvo mánuði. Slíkar aðgerðir endurspegla þær miklu áskoranir sem fyrirtækin í orkufrekum iðnaði standa nú frammi fyrir.

Stóriðjan á Grundartanga skapar um 151 milljarð króna í útflutningstekjur á ári, sem eru tæplega 8% af öllum útflutningstekjum þjóðarinnar. Slík starfsemi skiptir því ekki aðeins miklu máli fyrir okkur hér á Akranesi og í nærsveitum, heldur einnig fyrir þjóðarbúið allt.

Það er mikilvægt að við stöndum saman, styðjum við starfsfólkið og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að starfsemin komist sem fyrst aftur í eðlilegt horf.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image