• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Sep

25 starfsmenn sagt upp hjá Norðuráli

Í dag var 25 starfsmönnum Norðuráls sagt upp störfum. Allir sem missa vinnuna starfa á framleiðslusviði fyrirtækisins, en þar starfar stór meirihluti allra starfsmanna.

Ástæðan sem gefin er fyrir þessum aðgerðum er aukinn framleiðslukostnaður sem hefur skapað erfiðar aðstæður í rekstri fyrirtækisins. Þrátt fyrir það breytir það ekki þeirri staðreynd að þetta eru mjög þung tíðindi fyrir þá einstaklinga sem nú missa lífsviðurværi sitt og fjölskyldur þeirra.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir:


„Það er þyngra en tárum taki að þurfa enn á ný að horfa upp á fjölda félagsmanna missa störf sín. Þetta er gífurlegt áfall fyrir samfélagið okkar á Akranesi og sár staða fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að styðja félagsmenn okkar í gegnum þessar aðstæður.“

 

Akranes hefur á liðnum árum og áratugum þurft að þola margvíslegar hremmingar í atvinnumálum. Við höfum séð stór fyrirtæki dragast saman eða hætta starfsemi með miklum samfélagslegum afleiðingum. Því eru uppsagnirnar hjá Norðuráli ekki aðeins áfall fyrir þá 25 sem missa vinnuna, heldur minna þær okkur líka á hve brothætt atvinnuöryggi getur verið í samfélagi sem er háð fáum, stórum vinnuveitendum.

VLFA mun fylgjast grannt með framvindu mála og standa vörð um hagsmuni félagsmanna á þessum erfiðu tímum.

05
Sep

Ferð eldri félaga 2025

Árleg ferð félagsins með eldri félagsmenn var farin í gær og heppnaðist vel. Lagt var af stað kl. 9 og ekið sem leið lá til Hveragerðis. Leiðsögumaður í ferðinni var Gísli Einarsson og sagði hann frá ýmsu áhugaverðu á leiðinni, meðal annars frá skáldum Hveragerðis. Fyrsti viðkomustaður var kirkjan í Hveragerði en þar var vel tekið á móti hópnum með stuttri kynningu á kirkjunni og safnaðarheimilinu og að henni lokinni var öllum frjálst að ganga um og skoða.

Næst  var haldið í Hespuhúsið í Ölfusinu en þar er Guðrún Bjarnadóttir með opna jurtalitunarvinnustofu. Guðrún tók á móti hópnum og sagði frá sínum verkefnum og vinnustofunni. Hún sýndi svo þeim sem vildu hvernig jurtalitunin fer fram. Vinnustofan er mjög rúmgóð og ýmislegt hægt að skoða en einnig hægt að fá sér sæti og slaka á eða glugga í bók. Guðrún selur jurtalitað garn en jafnframt fullgerðar prjónavörur, spil og púsl. Eftir að hafa fræðst og verslað hjá Guðrúnu hélt hópurinn áfram ferð sinni.

Hádegismaturinn var borðaður á Stracta hóteli á Hellu og þar fengu allir góðan mat og  drykk og var þjónustan til fyrirmyndar. Boðið var upp á lambakjöt í aðalrétt og litlar pavlovur í eftirrétt. Allir fóru saddir og sælir af stað aftur og ekið var að Sólheimum í Grímsnesi.

Á Sólheimum fékk hópurinn fræðslu um starf Sesselju Hreindísar Sigmundsdóttur og hvernig hún með mikilli elju og framsýni stofnaði Sólheima árið 1930. Nú 95 árum síðar er starfið á Sólheimum í miklum blóma og var bæði áhugavert og gaman að fá að heyra um það. Sólheimahús var skoðað en það er húsið sem Sesselja reisti á fyrstu árum Sólheima og þar bjó hún ásamt börnunum. Eftir að hafa gengið um svæðið fékk hópurinn kaffi, hjónabandssælu og pönnukökur í kaffihúsi Sólheima.

Að lokinni heimsókn að Sólheimum var komið að heimferð. Komið var til Akraness á slaginu kl. 18 og voru allir ánægðir með viðburðaríkan dag í góðum félagsskap. 

Myndir frá ferðinni má sjá hér

21
Aug

Breytingar á bótareglum sjúkrasjóðs

Á aðalfundi félagsins í maí sl. voru breytingar gerðar á eftirfarandi styrkjum og tóku gildi 31. maí 2025.

  • Glasa- og tæknifrjóvgun, ættleiðing: styrkur hækkaður úr 100.000 kr. í 200.000 kr. 
  • Heilsuefling: ekki er lengur hægt að nota styrkinn vegna kaupa á skóm, fatnaði, búnaði eða aðgangslyklum.

Breyting á heilsueflingarstyrk er gerð í samræmi við lög og reglur um tekjuskatt nr. 90/2003. Styrkurinn er áfram að hámarki 55.000 kr. á hverjum 12 mánuðum (50% af reikningi) og hægt að nota hann vegna kaupa á kortum á líkamsræktarstöðvum og sundstöðum, hjá íþróttafélögum, vegna æfinga/þjálfunar hjá þjálfara og annarri skipulagðri hreyfingu.

Félagið hvetur félagsmenn til að kynna sér þá styrki sem veittir eru á hverjum tíma og hvað þeir fela í sér.

Upplýsingar um styrki eru aðgengilegir á heimasíðu félagsins, www.vlfa.is - sjúkrasjóður

Þeir styrkir sem félagið veitir eru;

  • Fæðingarstyrkur
  • Meðferð sjúkraþjálfara, sjúkranuddara, kírópraktors
  • Styrkur vegna glasa- og tæknifrjóvgunar og ættleiðingar
  • Styrkur vegna heilsufarsskoðunar, undir það fellur m.a. tannlæknakostnaður
  • Styrkur vegna gleraugna og linsukaupa
  • Styrkur vegna heyrnartækjakaupa
  • Heilsueflingarstyrkur
  • Viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi, fjölskylduráðgjafa og ADHD greining hjá sálfræðingi
  • Styrkur vegna göngugreiningar og innleggja
02
Jun

Sjómannadagurinn 2025

Verkalýðsfélag Akraness óskar öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn.

Lagður var blómsveigur við minningarreit um týnda sjómenn í kirkjugarðinum á Akranesi og við guðþjónustu í Akraneskirkju var íslenskum sjómönnum þökkuð mikilvæg störf við oft á tíðum krefjandi aðstæður.

Í guðþjónustunni voru heiðraðir bræðurnir Einar Vignir og Eymar Einarssynir, fyrrum sjómenn, fyrir sín störf til sjós.

Að lokinni guðþjónustu var lagður blómsveigur við styttu sjómannsins á Akratorgi en styttan var reist til minningar um látna sjómenn.

Sjómannadagurinn er mikilvægur hátíðisdagur, bæði til að minnast þeirra sem hafa í gegnum árin og áratugina stundað sjóinn sem og að þakka þeim sem sinna enn þessari mikilvægu starfsgrein. Sjómenn eiga stóran sess í sögu þjóðarinnar.

28
May

Orlofshús félagsins í Bláskógum í Svínadal tekið í gegn

Eins og ætíð reynir Verkalýðsfélag Akraness að halda orlofshúsum sínum eins vel við og kostur er. Einn mikilvægasti þátturinn varðandi ástand húsanna er að félagsmenn gangi vel um. Mikilvægt er að félagsmenn hafi það að leiðarljósi að ganga frá orlofshúsunum eins og þeir myndu sjálfir vilja koma að þeim. Með góðri umgengni endist búnaður húsanna betur og gott er að hafa í huga að húsin eru sameiginleg eign félagsmanna.  

Alltaf er af nógu að taka hvað varðar almennar endurbætur á húsum félagsins og nú er nýlokið gríðarlegum endurbótum á sumarhúsi félagsins í Bláskógum í Svínadal. Þar má segja að nánast allt hafi verið endurnýjað í húsinu enda eru Bláskógar eitt af elstu orlofshúsum félagsins og var kominn tími á að gefa því góða yfirhalningu. Skipt var um gólfefni, allir veggir rifnir niður og byggðir upp, skipt um eldhúsinnréttingu, baðherbergið tekið í gegn, settur upp aðgengilegri stigi til að komast upp á svefnloftið og bústaðurinn málaður að innan. Bústaðurinn er eins og nýr ef þannig má að orði komast og vonandi verða félagsmenn ánægðir með þessar endurbætur enda skiptir máli að halda eignum félagsins vel við. Hægt er að sjá myndir af húsinu eftir breytingar hér. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image