• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Nov

Tæplega 1300 félagsmenn hafa nýtt sér greiðslur úr sjúkrasjóði

Félagsmenn hafa verið afar duglegir við að nýta sér hina ýmsu styrki úr sjúkrasjóði félagsins en tæplega 1.300 félagsmenn hafa nýtt sér þá þjónustu það sem af er ári. Fæðingarstyrkurinn er alltaf gríðarlega vel nýttur en 83 foreldrar hafa fengið greiddan fæðingarstyrk á þessu tímabili. Þá hafa 366 félagsmenn nýtt sér heilsufarsskoðunarstyrkinn og 355 félagsmenn hafa fengið greiddan heilsueflingarstyrk. Það sem af er þessu ári er aukning á greiðslum úr sjúkrasjóði 30% en á síðasta aðalfundi félagsins voru hinir ýmsu styrkir félagsins hækkaðir umtalsvert sem meðal annars skýrir þá aukningu. 

Einnig hafa félagsmenn verið afar duglegir að nýta sér nýjung sem félagið býður upp á sem eru afsláttarávísanir í flug frá bæði Icelandair og Play. Með þessari niðurgreiðslu félagsins hafa félagsmenn náð að spara sér í heildina sem nemur 2,5 milljónum króna. Félagið hefur keypt ávísanir fyrir 9 milljónir og fær afslátt vegna magnkaupa og þeim afslætti er skilað til félagsmanna ásamt niðurgreiðslu því til viðbótar. Það þýðir að fyrir hverja ávísun að andvirði 25.000 kr. greiðir félagsmaðurinn 19.000 kr. og hver félagsmaður má kaupa 5 ávísanir á ári þannig að viðkomandi getur sparað sér 30.000 kr. með þessum hætti. Það er óhætt að segja að þessi nýjung hafi svo sannarlega fallið í góðan jarðveg meðal félagsmanna.  

27
Oct

Formaður VLFA endurkjörinn sem formaður SGS

Rétt í þessu lauk 9. þingi Starfsgreinasambands Íslands á Hotel Natura í Reykjavík. Þar átti Verkalýðsfélag Akraness 11 þingfulltrúa en þingið stóð yfir frá 25.-27. október.

Það er skemmst frá því að segja að Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA og SGS fékk mótframboð sem formaður SGS og mótframboðið var frá Signýju Jóhannesdóttur, fyrrverandi formanni Stéttarfélags Vesturlands og varaforseta ASÍ.

Niðurstaða kosningarinnar var afdráttarlaus en Vilhjálmur hlaut 81,1% atkvæða sem er frábær niðurstaða og veitir honum sem formanni mikinn styrk í þeim störfum sem eru framundan. Það var einnig afar ánægjulegt að sjá að varaformaður SGS, Guðbjörg Kristmundsdóttir, hafi verið sjálfkjörin áfram sem varaformaður enda hefur samstarf hennar og formannsins verið gríðarlega gott síðustu tvö ár.

Á þinginu fór einnig fram mjög góð vinna í málefnanefndum en þing SGS er æðsta vald sambandsins sem mótar stefnu og áherslur sambandsins í hinum ýmsu málum eins og til dæmis í kjara- og byggðamálum. Þessi vinna mun auðvelda forystu SGS að fylgja eftir áherslum og stefnum sem æðsta vald sambandsins í komandi kjaraviðræðum.

Áherslur þingsins eru til dæmis eftirfarandi:

Að samið verði í anda lífskjarasamningsins frá árinu 2019.

Að samið verði um krónutöluhækkanir.

Að samið verði um að halda áfram að lagfæra launatöflu verkafólks.

Að ráðist verði í kerfisbreytingar varðandi fjármálamarkaðinn og búið til nýtt húsnæðislánakerfi.

Að Landsbankinn verði að samfélagsbanka.

Að fengnir verði óháðir, erlendir aðilar til að meta kosti og galla íslensku krónunnar sem og að kanna kosti og galla þess að taka upp annan gjaldmiðil.

 

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um það sem þingið samþykkti sem áherslur en hægt er að lesa um áherslur þingsins inni á heimasíðu SGS á sérstökum þingvef.

25
Oct

Íbúðafélagið Bjarg afhendir 11 íbúðir á Akranesi í dag

Bjarg íbúðafélag sem verkalýðshreyfingin stofnaði mun afhenda 11 íbúðir hér á Akranesi í dag. Forsvarsmenn Bjargs sýndu bæjarstjórn Akraness og formanni VLFA íbúðirnar áðan en þær íbúðir sem verða afhentar í dag eru tveggja, þriggja og fjögurra herbergja. Þetta er fyrsti áfangi af þremur sem nú er verið að reisa hér á Akranesi. Í mars er áætlað að afhenda 5 íbúðir og í maí verða afhentar 8 íbúðir svo samtals eru þetta 24 íbúðir. Fyrir eru 33 íbúðir í útleigu á vegum Bjargs hér á Akranesi þannig að samtals verða íbúðirnar 57 í vor. Rétt er að geta þess að Bjarg er óhagnaðardrifið félag þar sem leiguverð er umtalsvert lægra heldur en gerist á hinum almenna leigumarkaði og gagnast tekjulægri fjölskyldum vel.

Íbúðirnar líta gríðarlega vel út, allur frágangur til fyrirmyndar og ljóst að það mun ekki væsa um leigjendur í þessum nýju íbúðum. Fallegt útsýni er af svölum íbúðanna þar sem hægt er að sjá hið dásamlega Akrafjall í allri sinni dýrð.

23
Oct

24. október 2023

Þriðjudaginn 24. október verður skrifstofa félagsins lokuð í tilefni af baráttudegi kvenna og kvára.

Opnum aftur kl 8:00 miðvikudaginn 25. október.

Baráttukveðjur 

17
Oct

Sjö barna föður sagt upp eftir 17 ára starf hjá Norðuráli!

Eitt af erfiðustu verkefnunum sem forystumaður í stéttarfélagi þarf takast á við er þegar félagsmenn mínir koma til mín eftir að hafa verið sagt upp störfum og misst lífsviðurværi sitt.

Oft eru svona mál afar tilfinningaþrungin enda grípur fólk sem verður fyrir því að vera sagt upp mikið vonleysi og hræðsla við að missa lífsviðurværi sinnar fjölskyldu.

Ábyrgð atvinnurekanda þegar kemur að uppsögnum er mikil þótt vissulega komi svo sannarlega upp atvik eða ástæður þar sem nauðsynlegt er að segja fólki upp. Ástæður eins og samdráttur, erfiðleikar í rekstri, skipulagsbreytingar eða jafnvel að viðkomandi aðili hefur gerast brotlegur í starfi. Allt eru þetta atvik sem lítið er hægt að segja við ef rétt er að uppsögninni staðið og forsendur fyrir uppsögn eru byggðar á faglegum og réttum forsendum.

Ástæða þess að formaður skrifar þennan pistil er að á laugardagsmorgunn er að hann fékk hringingu frá félagsmanni sínum sem tjáði formanninum að honum hefði verið sagt upp störfum hjá Norðuráli. Þessi umræddi starfsmaður hafði unnið í 17 ár hjá Norðuráli og á þessum 17 árum hafði hann hvorki fengið munnlega né skriflega áminningu að eigin sögn. Þessu til viðbótar var hann sjö barna faðir og var því eðlilega að framfleyta afar þungu heimili fjárhagslega.

Umræddur starfsmaður tjáði formanninum að hann hefði verið kallaður á fund með framkvæmdastjóra steypuskálans og mannauðsstjóra þar sem honum var tjáð að honum væri sagt upp störfum og bæri að yfirgefa vinnustaðinn.

En hver var ástæðan sem þessum sjö barna föður með 17 ára starfsreynslu var gefin fyrir uppsögninni? Jú ástæðan var að hann var væri að tala illa um fyrirtækið og hafi mætt á fjölskylduskemmtun sem Norðurál hélt án þess að skrá sig! Umræddur starfsmaður mótmælti harðlega á umræddum fundi að hann væri að tala illa um fyrirtækið en það hafði ekki áhrif á uppsögnina sem framkvæmdastjóri steypuskála hafði skellt í andlitið á mínum félagsmanni.

Við þessa frásögn félagsmanns míns fann formaður VLFA til mikillar reiði fyrir hans hönd en jafnframt fann formaðurinn gríðarlega til með honum að verða fyrir þessari uppsögn enda maður með 17 ára starfsreynslu, aldrei fengið áminningu og þessu til viðbótar að framfleyta stórri fjölskyldu.

Eins og alltaf þegar formaður VLFA fær svona uppsagnir inn á borð til sín sem byggðar eru á svona stórundarlegum forsendum sem að mati formanns standast ekki eina einustu skoðun leita hann upplýsinga til að sannreyna hvort frásögn félagsmannsins séu rétt. Formaður hafði því samband við samstarfsfélaga hans víða í Norðuráli til að kanna allar hliðar málsins og eyddi formaður VLFA laugardagsmorgni í að komast til botns í þessari undarlegu uppsögn.

Það er skemmst frá því að segja að allir sem formaðurinn talaði við sem hafa starfað með umræddum félagsmanni hjá Norðuráli gáfu honum afar góð meðmæli og vísuðu því algerlega á bug að félagsmaður VLFA hafi ástundað að tala illa um fyrirtækið.

Það vill nú þannig til að þessi umræddi félagsmaður hefur oft komið á skrifstofu formanns til að ræða um hinn ýmsu kjaramál og réttindi og í öll þau skipti sem hann hefur komið til viðræðna við hann hefur hann aldrei verið að kasta rýrð á fyrirtækið.

Það kom einnig fram hjá samstarfsmönnum að félagsmaðurinn hafi ætíð unnið verk sín af samviskusemi og dugnaði og það kom líka fram hjá starfsmönnum að vaktin sem hann var á sé í áfalli eftir þessa óskiljanlegu uppsögn. Ekki bara það heldur fékk formaðurinn að heyra að mórallinn í steypuskálanum öllum væri við frostmark eftir þessa uppsögn því fólki fannst hún ósanngjörn og algerlega byggð á röngum forsendum. Rétt er að geta þess að félagsmaður VLFA hefur vegna þess að hann er að reka þungt heimili þurft að taka mikið af aukavöktum til að framfleyta sér og sinni fjölskyldu og hefur því unnið með öllum vakthópum í steypuskálanum.

Þótt samúð formanns liggi algerlega hjá umræddum félagsmanni sem varð fyrir þessari óskiljanlegu uppsögn af hálfu framkvæmdastjóra steypuskálans þá finnur hann líka til með samstarfsfólki hans sem finnur eðlilega fyrir depurð og ótta eftir svona uppsögn.

Að öllu þessu sögðu er þessi uppsögn óskiljanleg, ósanngjörn og fyrir neðan allar hellur enda með ólíkindum að byggja uppsögn á einhverju sem ekki er sannleikanum samkvæmt og það eftir að viðkomandi hefur starfað við og þjónustað fyrirtækið í 17 ár.

Það er ábyrgðarhlutur að vera atvinnurekandi og það þarf að koma fram við starfsmenn ef sanngirni og virðingu þegar svona veigamiklar ákvarðanir eru teknar, enda eru atvinnurekendur að véla með lífsafkomu sinna starfsmanna. Munum að mannauður er hjarta hvers fyrirtækis og uppsagnir sem byggjast á röngum forsendum bera merki þess að verið sé að reka óttastjórnun og eigi að vera öðrum „víti til varnaðar.“

Svoleiðis mannauðsstefna getur aldrei endað með öðru en skipsbroti enda lifir ekkert fyrirtæki af ef ekki er fyrir dugnað og kraft þeirra sem starfa á gólfinu ef svo má að orði komast. Það er fólkið sem skapar hagnað fyrirtækja.

Formaður VLFA reyndi að fá þessari ákvörðun hnekkt en því miður tókst það ekki og því sá hann sig knúinn til að skrifa um þetta mál enda er hlutverk stéttarfélaga að verja atvinnuöryggi og lífsafkomu sinna félagsmanna með kjafti og klóm og það reynum við í Verkalýðsfélagi Akraness ætíð að gera.

Formanni VLFA er gjörsamlega misboðið hvað þessa uppsögn varðar og þetta er alls ekki fyrsta uppsögn í Norðuráli sem formanninum verður misboðið yfir!

12
Oct

Við skorum á ykkur!

Boðað er til kvennaverkfalls þann 24. október næstkomandi undir yfirskriftinni Kallarðu þetta jafnrétti?  Verkalýðsfélag Akraness skorar á félagsfólk að leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir jafnrétti á þessum degi. VLFA skorar einnig á fyrirtæki að sýna samstöðu í verki svo konur og kvár geti lagt niður störf þennan dag, án skerðingar á launum.

Samtök launafólks ásamt fjölmörgum öðrum baráttusamtökum kvenna og hinsegin fólks standa að þessum degi í ár. Konur og kvár sem það geta eru hvött til að mæta ekki til vinnu þennan dag og sinna jafnframt ekki þeim störfum og ábyrgð sem felst í annarri og þriðju vaktinni.

Kvennafrídagurinn 24. október var fyrst haldinn árið 1975 þegar um 90% kvenna á Íslandi lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags þeirra fyrir samfélagið. Margt hefur áunnist frá þessum tíma en markmiðinu er ekki náð, konur og karlar standa enn ekki jafnfætis á vinnumarkaði. Krafa þessa baráttudags í ár er að störf kvenna verði metin að verðleikum og að kynbundnu ofbeldi verði útrýmt.

VLFA hvetur konur og kvár sem það geta til að taka fullan þátt í þessum mikilvæga degi. Útifundir verða haldnir víða um land í tilefni dagsins, í Reykjavík verður haldinn fundur á Arnarhóli og hefst hann kl. 14:00. VLFA hvetur einnig fyrirtæki til þess að stuðla að því að konur og kvár geti tekið þátt í deginum eins og til hans er boðað.

Verkalýðsfélag Akraness vill koma því skýrt á framfæri að Kvennaverkfallið er þó ekki verkfall eins og vinnulöggjöfin kveður á um. Launafólk tekur þátt á eigin forsendum og hvetur félagskonur VLFA til að fá heimild hjá sínum yfirmanni til að taka þátt og berjast fyrir jafnrétti.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image