• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Hópurinn borðaði hádegismat á Hellu á Stracta Hotel Hópurinn borðaði hádegismat á Hellu á Stracta Hotel
05
Sep

Ferð eldri félaga 2025

Árleg ferð félagsins með eldri félagsmenn var farin í gær og heppnaðist vel. Lagt var af stað kl. 9 og ekið sem leið lá til Hveragerðis. Leiðsögumaður í ferðinni var Gísli Einarsson og sagði hann frá ýmsu áhugaverðu á leiðinni, meðal annars frá skáldum Hveragerðis. Fyrsti viðkomustaður var kirkjan í Hveragerði en þar var vel tekið á móti hópnum með stuttri kynningu á kirkjunni og safnaðarheimilinu og að henni lokinni var öllum frjálst að ganga um og skoða.

Næst  var haldið í Hespuhúsið í Ölfusinu en þar er Guðrún Bjarnadóttir með opna jurtalitunarvinnustofu. Guðrún tók á móti hópnum og sagði frá sínum verkefnum og vinnustofunni. Hún sýndi svo þeim sem vildu hvernig jurtalitunin fer fram. Vinnustofan er mjög rúmgóð og ýmislegt hægt að skoða en einnig hægt að fá sér sæti og slaka á eða glugga í bók. Guðrún selur jurtalitað garn en jafnframt fullgerðar prjónavörur, spil og púsl. Eftir að hafa fræðst og verslað hjá Guðrúnu hélt hópurinn áfram ferð sinni.

Hádegismaturinn var borðaður á Stracta hóteli á Hellu og þar fengu allir góðan mat og  drykk og var þjónustan til fyrirmyndar. Boðið var upp á lambakjöt í aðalrétt og litlar pavlovur í eftirrétt. Allir fóru saddir og sælir af stað aftur og ekið var að Sólheimum í Grímsnesi.

Á Sólheimum fékk hópurinn fræðslu um starf Sesselju Hreindísar Sigmundsdóttur og hvernig hún með mikilli elju og framsýni stofnaði Sólheima árið 1930. Nú 95 árum síðar er starfið á Sólheimum í miklum blóma og var bæði áhugavert og gaman að fá að heyra um það. Sólheimahús var skoðað en það er húsið sem Sesselja reisti á fyrstu árum Sólheima og þar bjó hún ásamt börnunum. Eftir að hafa gengið um svæðið fékk hópurinn kaffi, hjónabandssælu og pönnukökur í kaffihúsi Sólheima.

Að lokinni heimsókn að Sólheimum var komið að heimferð. Komið var til Akraness á slaginu kl. 18 og voru allir ánægðir með viðburðaríkan dag í góðum félagsskap. 

Myndir frá ferðinni má sjá hér

Fréttir

Nýjar fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image