• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

09
Dec

Kjarasamningsviðræður við stóriðjurnar hafnar af fullum þunga

Um næstu áramót munu kjarasamningar bæði Norðuráls og Elkem Ísland renna út og eðli málsins samkvæmt eru kjaraviðræður við þessa aðila hafnar af fullum krafti. Rétt er að geta þess að flestir félagsmenn VLFA tilheyra þessum fyrirtækjum og því skipta þessir kjarasamningar félagið miklu máli.

Nú liggur fyrir að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði voru stefnumarkandi fyrir allan vinnumarkaðinn og því munu komandi kjarasamningar við stóriðjurnar á Grundartanga markast af þeirri launastefnu sem þar var mótuð. Enda gengu kjarasamingar á almennum vinnumarkaði út á að skapa skilyrði fyrir lækkandi verðbólgu og vexti og að auka þannig ráðstöfunartekjur fólks með fleiri þáttum en beinum launahækkunum.

Búið er að halda þrjá fundi með hvorum samningsaðila fyrir sig, það er að segja Norðuráli og Elkem, og hafa þeir fundir til þessa gengið ágætlega. Næsti fundur er á dagskrá 17. desember næstkomandi.

09
Dec

VLFA styrkir góðgerðamál

Undanfarin ár hefur Verkalýðsfélag Akraness styrkt góðgerðamál í aðdraganda jóla og í ár er engin breyting þar á. Félagið styrkir mæðrastyrksnefnd Akraness sem sér um að aðstoða þá sem höllustum fæti standa í okkar samfélagi. Einnig var Amma Andrea styrkt í ár en hún hefur unnið ótrúlegt sjálfboðastarf gagnvart fólki sem glímir við margvíslegan vanda.

25
Nov

Fundað með bankastjórum

Eins og flestir vita var eitt af meginverkefnum síðustu kjarasamninga að semja með þeim hætti að sköpuð yrðu skilyrði fyrir lækkun verðbólgu og vaxta og hefur það sýnt sig að það er að raungerast. Verðbólgan var 6,6% þegar kjarasamningar voru undirritaðir og stýrivextir stóðu í 9,25% en núna er verðbólgan komin niður í 5,1% og stýrivextir í 8,5%. Vissulega eru vonbrigði að Seðlabankinn sé ekki búinn að lækka vexti umtalsvert meira en raun ber vitni en allir greiningaraðilar tala um að stýrivaxtalækkunarferli sé hafið af fullum þunga.

Það voru hinsvegar gríðarleg vonbrigði að sjá að bæði Íslandsbanki og Arion banki hafa hækkað verðtryggða vexti sína umtalsvert og nægir í þessu samhengi að nefna að Arion banki hefur á rúmum 60 dögum hækkað breytilega verðtryggða vexti um 1% og Íslandsbanki um 0,8%. Þetta gera þeir þrátt fyrir að verðbólga sé á hraðri niðurleið og stýrivextir hafi lækkað um 0,75%. Verkalýðsfélag Akraness gagnrýndi þessa ákvörðun viðskiptabankanna tveggja harðlega og fyrir helgina átti formaður í samskiptum við bankastjóra tveggja af viðskiptabönkunum þremur. Annan þeirra talaði hann við símleiðis en átti svo ásamt formanni Samtaka atvinnulífsins fund með forsvarsmönnum Landsbankans þar sem farið var yfir stöðuna. Það var ánægjulegt að á þeim fundi tilkynnti bankastjóri Landsbankans að bankinn hefði ekki í hyggju að hækka verðtryggða vexti. Það er alveg ljóst að það þarf að veita fjármálakerfinu kröftugt aðhald og kom fram í máli formanns við báða þessa bankastjóra að það myndi félagið gera nú sem hingað til. En það er æði margt sem bendir til þess að verðtrygging sé aðalorsakavaldur þess að við búum við tvöfalt eða jafnvel þrefalt hærra vaxtastig en þau lönd sem við viljum bera okkur saman við.

Það er hinsvegar með ólíkindum að verða vitni að því að lífeyrissjóðirnir hafa verið að hækka verðtryggða vexti að undanförnu og nægir að nefna að Gildi lífeyrissjóður hækkaði vexti í október um 0,4% og Lífeyrissjóður verslunarmanna mun hækka þá um 0,2% 1. desember. Eitt er víst að ef viðskiptabankarnir þrír eiga í erfiðleikum með að útskýra og færa rök fyrir sinni vaxtahækkun þá geta lífeyrissjóðirnir á engan hátt réttlætt sínar hækkanir enda liggur fyrir að lífeyrissjóðirnir eru að lána fé sem sjóðsfélagarnir leggja inn og þurfa þar af leiðandi ekki að fjármagna sig og eru einnig undanþegnir ýmsum gjöldum sem viðskiptabankarnir greiða. Þetta er algjörlega til skammar því það er mat formanns að lífeyrissjóðir eigi ekki undir nokkrum kringumstæðum að vera með hærri en 3,5% raunávöxtun á útlánum til sjóðsfélaga, einfaldlega vegna þess að það er það ávöxtunarviðmið sem sjóðirnir miða við. Þetta er eitthvað sem verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins þurfa og verða að ræða til að tryggja réttlát lánakjör til sjóðsfélaga og sporna við okurvöxtum fjármálakerfisins.

08
Nov

Kjarasamningur undirritaður við Faxaflóahafnir

Verkalýðsfélag Akranes undirritaði nýjan kjarasamning við Faxaflóahafnir en þessi samningur gildir fyrir gæslumenn á Grundartangasvæðinu. Kjarasamningurinn byggir að öllu leyti á þeirri launastefnu sem mörkuð var á hinum almenna vinnumarkaði í mars síðastliðnum og mun byrjendataxti ár hvert hækka um 23.750 kr. Ásamt því munu koma 0,7% til viðbótar í svokallaðan félagsmannasjóð sem greiddur verður út til starfsmanna í apríl ár hvert. Samtals mun félagsmannasjóðurinn nema 1,7% eftir þennan nýja samning. Orlofs- og desemberuppbætur hækka til samræmis því sem gerðist á hinum almenna vinnumarkaði.

Verkalýðsfélag Akraness vill vera ábyrgt og verja þá launastefnu sem mörkuð var enda liggur fyrir að ávinningurinn af því að ná niður verðbólgu og vöxtum er gríðarlegur og nú eru öll teikn á lofti um að það sé að byrja að skila árangri enda er verðbólgan á niðurleið og nemur 5,1%. Stýrivaxtalækkunarferli Seðlabankans er jafnframt hafið en við síðustu ákvörðun bankans lækkuðu stýrivextir um 0,25% og vonast formaður eftir að sjá allt að 0,50% lækkun þann 20. nóvember þegar næsti stýrivaxtaákvörðunardagur verður.

14
Oct

Verkalýðsfélag Akraness er 100 ára í dag

Verkalýðsfélag Akraness fagnar 100 ára afmæli í dag en það var stofnað þann 14. október 1924. Á þeirri öld sem liðin er hafa orðið gríðarlegar breytingar á atvinnulífinu, margir sigrar hafa unnist í verkalýðsbaráttunni og jafnframt hafa verið erfiðari tímar þar sem hert hefur að. Á þessum stóru tímamótum er Verkalýðsfélag Akraness bæði félagslega og fjárhagslega sterkt og heldur áfram að vinna með hag sinna félagsmanna fyrir brjósti enda eru alltaf næg verkefni til staðar þegar kemur að því að verja kaup og kjör verkafólks.

Í tilefni af 100 ára afmælinu hélt félagið opið hús á skrifstofunni að Þjóðbraut 1 föstudaginn 11. október á milli kl. 13 og 17. Boðið var upp á léttar veitingar og ýmsar gamlar myndir og munir voru til sýnis. Gríðarlega góð mæting var á opna húsið en gestir voru nokkur hundruð talsins og naut fólk þess að koma saman og samgleðjast félaginu.

Að kvöldi 11. október voru haldnir afmælistónleikar í Bíóhöllinni þar sem Helgi Björns og Reiðmenn vindanna skemmtu fyrir fullu húsi og voru þeir tónleikar mjög vel heppnaðir á allan hátt.  

Um leið og félagið þakkar öllum þeim sem sáu sér fært að koma og fagna afmælinu síðastliðinn föstudag óskar það félagsmönnum sínum innilega til hamingju með daginn.

Í tilefni afmælisins gaf félagið út afmælisrit þar sem farið er yfir sögu Verkalýðsfélags Akraness. Hægt er að nálgast ritið á skrifstofu félagsins en það verður einnig fljótlega aðgengilegt í rafrænni útgáfu.

Myndir frá föstudeginum má sjá hér.

09
Oct

Formaður fundaði með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis

Í gær fundaði formaður VLFA og SGS með efnahags- og viðskiptanefnd vegna hinna ýmsu laga sem nú liggja fyrir á Alþingi en SGS skilaði inn umsögn vegna tveggja mála. Annað laut að afnámi laga vegna kauptryggingar fiskvinnslufólks og hitt að hugmyndum um skerðingar og afnám á framlagi vegna jöfnunar á örorkubyrði.

Formaður kom því hátt og skýrt á framfæri við efnahags- og viðskiptanefnd að ef hugmyndir þeirra varðandi skerðingu og afnám á framlagi vegna jöfnunar á örorkubyrði verða að veruleika þá er það alvarleg árás á réttindi verkafólks í lífeyrissjóðunum. Lífeyrissjóðir verkfólks sem vinnur erfiðisvinnu eru með langmesta örorkubyrði af öllum á íslenskum vinnumarkaði og sökum þess er réttindaávinnsla minni en hjá öðrum sjóðum. Framlagið í núverandi mynd dugar ekki einu sinni til að jafna þennan mun og því ótrúlegt að verið sé að ræða um að skerða eða afnema það en framlagið hefur verið til þess fallið að jafna þann óréttláta mun sem er á milli lífeyrissjóða og skerðing þess eða niðurfelling mun skerða enn frekar réttindaávinnslu verkafólks.

 

 

 

 

02
Oct

100 ára afmæli Verkalýðsfélags Akraness

OPIÐ HÚS

VERKALÝÐSFÉLAG AKRANESS 100 ÁRA

Í tilefni af 100 ára afmæli Verkalýðsfélags Akraness verður opið hús

föstudaginn 11. október kl. 13-17 á skrifstofu félagsins að Þjóðbraut 1.

Allir hjartanlega velkomnir og fagna þessum merku tímamótum

Léttar veitingar í boði.

AFMÆLISTÓNLEIKAR

Að kvöldi föstudagins býður félagið félagsmönnum á tónleika í Bíóhöllinni Akranesi kl. 20.30

Helgi Björns og reiðmenn vindanna

Félagsmenn (18 ára og eldri) geta nálgast miða á skrifstofu félagsins frá og með 3. október.

Ath. takmarkað magn miða. 

 

06
Sep

Ferð eldri félaga Verkalýðsfélags Akraness 5. september 2024

Í árlegri ferð eldri félaga var farið vestur á Snæfellsnes. Gísli Einarsson leiddi ferðina eins og honum er einum lagið.

Fyrsta stopp var í gestastofu Snæfellsness á Breiðabliki og þar var skoðuð sýning um sjókonur á Snæfellsnesi.

Þaðan lá svo leiðin í Stykkishólm og í Stykkishólmskirkju tók sóknarpresturinn sr. Gunnar Eiríkur Hauksson á móti hópnum og sagði frá kirkjunni. Stykkishólmskirkja var vígð árið 1990, teiknuð af Jóni Haraldssyni arkitekt, altaristaflan María með barnið er eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur. Í kirkjunni er glæsilegt pípuorgel af Klais gerð sem var tekið í notkun árið 2012.

thumbnail image27       thumbnail image21

Tekið var vel á móti hópnum í hádegisverði á Fosshótel Stykkishólmi.

Allir gátu tekið vel til matar síns en boðið var upp á lambakjöt og meðlæti og sorbet ís í eftirrétt. Gísli spilaði á harmonikkuna og hópurinn söng með.

thumbnail image5 3 

Ætlunin var að fara í gestastofu Snæfellsjökulsþjóðgarðs á Hellissandi en mikill vindur var á norðanverðu nesinu og planinu var breytt og ákveðið að fara í gestastofu Snæfellsjökulsþjóðgarðs á Malarrifi í staðinn.

Á Malarrifi er þema sýningar vermaðurinn og náttúran. Hópurinn fékk stutta kynningu á staðnum frá starfsmanni Snæfellsjökulsþjóðgarðs og varð einhvers vísara um staðinn.

20240905 144255  thumbnail_image8_3.jpg 

 

thumbnail image19   thumbnail image8 4 

Boðið var upp á kaffi og köku á Snjófell Restaurant á Arnarstapa áður en haldið var heim á leið eftir góðan og vindasaman dag.

Fleiri myndir úr ferðinni má finna hér 

 

02
Sep

Ferð eldri félagsmanna 5. september nk.

Ferð eldri félagsmanna á Snæfellsnes er á fimmtudaginn 5. september.

Allir eldri félagsmenn, 70 ára og eldri, Verkalýðsfélags Akraness ættu að vera búnir að fá sent bréf með upplýsingum um ferðina.

Hvetjum þá félagmsenn sem áhuga hafa á að koma með að hafa samband við skrifstofuna í síma 430-9900.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image