• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

29
Dec

Laun á Grundartangasvæðinu hækka um 6,21% 1. janúar 2026

Laun starfsfólks hjá Norðuráli, Elkem Ísland, Klafa og öðrum fyrirtækjum á Grundartangasvæðinu hækka um 6,21% frá og með 1. janúar 2026, samkvæmt gildandi kjarasamningum.

Launahækkunin byggir á ákvæðum kjarasamninga þar sem miðað er við þróun launavísitölu á hinum almenna vinnumarkaði á tímabilinu frá september 2024 til september 2025. Á því tímabili hækkaði launavísitalan um 6,53%, en samkvæmt samningunum skulu laun hækka um 95% af þeirri hækkun, sem leiðir til 6,21% launahækkunar.

Hækkunin hefur veruleg áhrif á laun starfsfólks. Sem dæmi má nefna að grunnlaun með hæfnisálagi hjá Norðuráli hækka um 29 þúsund krónur upp í um 35 þúsund krónur á mánuði, eftir stöðu og launaflokki. Þá má reikna með að heildarlaun vaktavinnufólks í kerskála hækki um 49 þúsund krónur upp í um 59 þúsund krónur á mánuði.

Auk mánaðarlauna hækka einnig orlofs- og desemberuppbætur um 6,21%. Hvor uppbót hækkar úr 308.776 krónum í 327.957 krónur, sem nemur 19.181 krónu hækkun hvor um sig. Samtals nema orlofs- og desemberuppbætur því 655.914 krónum og hækka samtals um 38.362 krónur.

Launahækkunin endurspeglar sjálfvirka tengingu kjarasamninga við þróun launa á almennum vinnumarkaði og tryggir að starfsfólk á Grundartangasvæðinu fylgi almennri launaþróun í landinu.

 

29
Dec

Verkalýðsfélag Akraness tapaði máli gegn Norðuráli um stórhátíðarálag – niðurstaðan vekur mikla undrun

Verkalýðsfélag Akraness (VLFA) höfðaði mál gegn Norðuráli fyrir Félagsdómi vegna ágreinings um greiðslur fyrir vinnu á stórhátíðardögum. Félagið krafðist þess að viðurkennt yrði að starfsfólk Norðuráls í vaktavinnu ætti rétt á sérstökum greiðslum fyrir vinnu á stórhátíðum og helgidögum, líkt og almennt gildir um annað launafólk á íslenskum vinnumarkaði. Félagsdómur hafnaði kröfunni og sýknaði Norðurál, með þeim afleiðingum að VLFA tapaði málinu.

Niðurstaða dómsins þykir afar undarleg og vekur alvarlegar spurningar um túlkun kjarasamninga. Félagsdómur byggir niðurstöðu sína á þeirri forsendu að fast meðalvaktaálag vaktavinnufólks eigi að dekka vinnu á þeim dögum sem vaktir falla, þar á meðal á rauðum dögum og stórhátíðardögum. Að mati VLFA er sú niðurstaða gjörsamlega óskiljanleg.

Í dóminum er í raun gengið út frá því að 30% vaktarálag á kvöldin, 55% vaktarálag um helgar og 60% vaktarálag á næturvinnu eigi jafnframt að dekka vinnu á rauðum dögum sem falla á virka daga, mánudaga til föstudaga, sem og alla stórhátíðardaga. Þetta er með öllu óútskýranlegt, enda eru þessir dagar ekki hluti af hefðbundnu vaktamynstri heldur sérstakir helgidagar sem njóta sérstakrar verndar í kjarasamningum.

Í kjarasamningum er skýrt kveðið á um hvernig greiða skuli fyrir vinnu á helgidögum og stórhátíðardögum. Þar segir að vinna á helgidögum skuli greidd með yfirvinnukaupi, 1,14%, og vinna á stórhátíðardögum með stórhátíðarkaupi, 1,57%. Þessi ákvæði eru skýr og afdráttarlaus. Þrátt fyrir það kemst Félagsdómur að þeirri niðurstöðu að þessi grein eigi einungis við um dagvinnufólk.

VLFA bendir á að ekkert í orðalagi greinarinnar styðji slíka túlkun. Í greininni er hvergi tekið fram að hún eigi aðeins við um dagvinnumenn né eru þar að finna undanþágur fyrir vaktavinnufólk í stóriðjum. Að mati félagsins er hér um að ræða túlkun sem hvorki byggir á texta samningsins né á almennum lögskýringarsjónarmiðum.

Sérstaka athygli vekur að málið tapaðist meðal annars vegna bréfs frá árinu 1999. Í því bréfi var viðurkennt að stórhátíðarálag væri hvorki innifalið í né tekið tillit til þess við útreikning á meðalvaktaálagi. Í kjölfarið samþykkti Norðurál einhliða að greiða stórhátíðarkaup á stórhátíðardögum, að frádregnu yfirvinnukaupi. Sú framkvæmd mun halda áfram, enda byggir hún á umræddu bréfi frá árinu 1999, sem Félagsdómur lagði til grundvallar í niðurstöðu sinni.

VLFA telur þessa framkvæmd algerlega fráleita og án allrar stoðar í kjarasamningum. Slíkur frádráttur á yfirvinnukaupi frá stórhátíðarkaupi þekkist ekki á íslenskum vinnumarkaði og er ekki sambærilegur við neina almenna framkvæmd. Enginn á íslenskum vinnumarkaði „er á yfirvinnukaupi“ á stórhátíðardögum með þeim hætti að heimilt sé að draga það frá sérstökum stórhátíðargreiðslum.

VLFA bendir jafnframt á að félagið hefði mun frekar getað skilið þá niðurstöðu að dregið yrði meðalvaktaálagið frá stórhátíðarkaupi, enda væri þá um að ræða frádrátt á greiðslu sem ætlað er að dekka vaktavinnu almennt. Slíkt var hins vegar ekki niðurstaða Félagsdóms, heldur var viðhaldið frádrætti á yfirvinnukaupi sem á sér enga stoð í kjarasamningum.

Þrátt fyrir þessa viðurkenningu að stórhátíðarálag sé ekki innifalið í meðalvaktaálagi komst Félagsdómur engu að síður að þeirri niðurstöðu að ekki væri um samningsbundna skyldu að ræða. VLFA telur það með ólíkindum og telur að niðurstaðan leiði til þess að starfsfólk í vaktavinnu í stóriðjum á Grundartanga standi verr að vígi en annað launafólk þegar kemur að greiðslum fyrir vinnu á helgidögum og stórhátíðum.

VLFA bendir jafnframt á að þróun kjarasamninga á íslenskum vinnumarkaði síðustu ár hafi gengið í þveröfuga átt við niðurstöðu Félagsdóms. Í nánast öllum kjarasamningum hefur verið lögð rík áhersla á að styrkja stöðu vaktavinnufólks, bæði á almennum markaði og hjá hinu opinbera, meðal annars með hækkandi vaktarálögum og skýrari ákvæðum um greiðslur vegna vinnu á helgidögum og stórhátíðum. Sú þróun byggir á rannsóknum sem sýna að vaktavinna er krefjandi og getur verið heilsuspillandi til lengri tíma.

Þrátt fyrir þessa viðurkenndu þróun kemst Félagsdómur að þeirri niðurstöðu að starfsmenn Norðuráls eigi ekki rétt á slíkum greiðslum, ólíkt því sem gildir um launafólk almennt á íslenskum vinnumarkaði. Að mati VLFA er þessi niðurstaða bæði í andstöðu við texta kjarasamninga og við þá stefnu sem vinnumarkaðurinn í heild hefur markað um að bæta kjör og vernd vaktavinnufólks.

Enn fremur vekur athygli að þau stéttarfélög sem eiga aðild að kjarasamningum við Norðurál eru þau sömu og eiga aðild að kjarasamningum við Elkem. Þrátt fyrir það hefur starfsfólk Elkem í vaktavinnu nánast ekkert fengið greitt sérstaklega fyrir vinnu á stórhátíðardögum, þrátt fyrir að vinnufyrirkomulag sé í grundvallaratriðum hið sama í báðum verksmiðjum. VLFA telur óskiljanlegt að þessi mismunur hafi ekki verið gerður að umtalsefni fyrr.

VLFA leggur jafnframt áherslu á að morgunljóst sé að þessi niðurstaða verði ekki látin átölulaus. Undir engum kringumstæðum verður samþykkt að vaktavinnufólk í stóriðjum á Grundartanga njóti lakari réttinda en annað launafólk á íslenskum vinnumarkaði. Málið verður því óhjákvæmilega sett á dagskrá í næstu kjarasamningum og verður barist fyrir því af fullum þunga að réttur til greiðslna fyrir vinnu á helgidögum og stórhátíðum verði skýrður og tryggður með ótvíræðum hætti.

12
Dec

Breytingar á leigu orlofshúsa - sem taka gildi á nýju ári

Á nýju ári mun Verkalýðsfélag Akraness taka í notkun nýtt félaga- og orlofskerfi.

Rafrænar bókanir orlofshúsa munu færast frá félagavef og yfir á Mínar síður sem verða aðgengilegar í byrjun árs.

Af þessum sökum mun gamli félagvefurinn loka frá og með áramótum og ekki verður hægt að bóka orlofshús í nokkra daga á meðan yfirfærsla á sér stað.

Leiðbeiningar um bókanir verða aðgengilegar á heimasíðu félagsins. Starfsfólk mun leiðbeina og aðstoða enda getur oft verið erfitt að aðlagast nýjum leiðum.

Á sama tíma og nýtt félaga- og orlofskerfi verður tekið í notkun þá munu verða ákveðnar breytingar varðandi orlofshúsaleigur.

1. Við bókun orlofshúss verður innheimt staðfestingargjald, 1.000 kr., sem er óendurgreiðanlegt og greiðist innan tveggja daga.

2. Við bókun verður hægt að velja á milli þess að greiða strax með korti eða fá greiðsluseðil sendan í heimabanka. Greiða þarf greiðsluseðil 10 dögum fyrir upphaf leigu, annars fellur leiga niður.

3. Leiguverð hækkar frá 1. janúar. Helgarleiga í húsum í verðflokki 1 er 18.000 kr. og í verðflokki 2 er 20.000 kr. Helgarleiga er alltaf frá föstudegi til mánudags.

4. Leiguverð reiknast þannig upphafsgjald + verð fyrir hverja nótt reiknast sem leiguverð.

5. Sumarleiga verður áfram vikuleiga og úthlutun ákvarðast af fjölda punkta.

6. Leigurverð sumarið 2026 

Verðflokkur 1 - 20.000 kr.

Verðflokkur 2 - 30.000 kr. 

27
Nov

Ágreiningur um greiðslur á stórhátíðardögum hjá Norðuráli tekinn fyrir í Félagsdómi

Ágreiningur um greiðslu fyrir vinnu á stórhátíðardögum hjá Norðuráli var tekinn fyrir í Félagsdómi þriðjudaginn 24. nóvember. Verkalýðsfélag Akraness og nágrennis (VLFA) stefndi fyrirtækinu í kjölfar þess að félagið telur að Norðurál hafi ekki greitt starfsmönnum samkvæmt ákvæðum kjarasamnings um laun á stórhátíðardögum.

Forsendur málsins lúta að túlkun á greiðslufyrirkomulagi sem gildir um starfsmenn sem vinna yfir stórhátíðir. VLFA telur að Norðurál hafi ekki framfylgt skýrum ákvæðum kjarasamnings og leitaði því réttar með því að vísa málinu til Félagsdóms.

Formaður VLFA, sem gaf skýrslu fyrir dómnum, segir að málflutningurinn hafi farið vel fram og að sjónarmið félagsins hafi komið skýrt og rökstuddt fram. Hann ítrekar þó að eins og í öllum dómsmálum séu bæði niðurstöður og úrslit óviss, og að líkur séu jafnar á því hvort málið vinnist eða tapist.

VLFA gerir ráð fyrir að niðurstaða dómstólsins liggi fyrir fyrir jól.

27
Nov

Formaður SGS og forseti ASÍ heimsóttu Drífanda stéttarfélag og kynntu sér atvinnulífið í Vestmannaeyjum

Formaður Starfsgreinasambands Íslands, Villi, ásamt Finnbirni Hermannssyni forseta ASÍ og Róberti hagfræðingi ASÍ, heimsóttu nýverið Vestmannaeyjar í boði Drífanda stéttarfélags og Sjómannafélagsins Jötuns. Þar tóku á móti þeim þau Arnar Hjaltalín og Guðný Kjartansdóttir fyrir hönd Drífanda ásamt Kolbeini frá Jötni.

Á fundi með fulltrúum félaganna var farið yfir helstu baráttumál launafólks í Eyjum, meðal annars samgöngumál, heilbrigðisþjónustu og réttindamál starfsfólks. Mikil áhersla var lögð á mikilvægi þess að þjónusta og innviðir tryggi búsetuöryggi og jafna möguleika íbúa í sjávarbyggðum og öðrum brothættum samfélögum.


Heimsókn í Laxey – stórfelld uppbygging og gífurleg verðmætasköpun í kortunum

Að loknum fundi heimsótti hópurinn landeldisfyrirtækið Laxey, þar sem mikil uppbygging stendur yfir. Fyrstu löxunum var slátrað fyrir skemmstu, samtals um 150 tonnum, og fóru um 98% framleiðslunnar í hæsta gæðaflokk.

Starfsemin er í örum vexti og búist er við að hún nái fullum afköstum á næstu 5–7 árum. Áætlaðar útflutningstekjur fyrirtækisins gætu þá numið um 43 milljörðum króna á ári, sem jafnast á við sterka loðnuvertíð. Um 100 starfsmenn vinna nú hjá fyrirtækinu og ljóst er að afleidd störf verða fjölmörg í tengslum við vöxt og þróun starfseminnar.

Sérstaka athygli vekur að ríflega helmingur eignarhluta Laxeyjar er í höndum Eyjamanna, 30% er í eigu lífeyrissjóða og einungis 20% erlent fjármagn. Um er að ræða mikilvægt atvinnuverkefni fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum og þjóðarbúið í heild.


Heimsókn til Vinnslustöðvarinnar – 5 milljarða fjárfesting í nýjum mannvirkjum

Einnig var farið í heimsókn til Vinnslustöðvarinnar, þar sem ráðist hefur verið í mikla uppbyggingu vinnsluhúsa sem nemur um 5 milljörðum króna.

Á fundi með stjórnendum fyrirtækisins voru veiðigjöld og áhrif þeirra á rekstur og störf í greininni til umræðu. Fulltrúar VLFA og ASÍ lögðu áherslu á mikilvægi þess að skoða áhrif veiðigjalda af kostgæfni og tryggja að þau leiði hvorki til samþjöppunar né minna atvinnuöryggis sjómanna og fiskvinnslufólks.

Markmið VLFA og ASÍ eru skýr: að tryggja fyrirtækjum góð rekstrarskilyrði til að fjárfesta, skapa störf og greiða laun sem endurspegla verðmætasköpunina í greininni.


Öflugt samfélag sem stendur á sterkum stoðum

Heimsóknin til Vestmannaeyja var afar upplýsandi og staðfesti enn á ný þann kraft og metnað sem býr í samfélaginu. Þar er unnið markvisst að verðmætasköpun sem skilar sér í atvinnuöryggi, tekjum og framtíðaruppbyggingu – ekki aðeins fyrir Eyjar heldur fyrir landið allt.

VLFA sendir Arnari, Guðnýju og Kolbeini kærar þakkir fyrir hlýjar móttökur og faglegt samtal.

Vestmannaeyjar eru samfélag með skýra sýn: að byggja framtíð sína á sterkum atvinnugreinum, nýsköpun og virku samspili fólks, fyrirtækja og stéttarfélaga.

07
Nov

Graf­alvarleg staða í starfsum­hverfi á Vesturlandi – áhrif á vinnu­markaðinn og útflutning

Á Vesturlandi er nú að myndast afar alvarleg staða vegna bilunar hjá Norðurál á áliðnaði, sem leggur stór­an hluta atvinnu­lífsins á svæðinu undir þrýsting. Í frétt Vísis kemur fram að framleiðsla í annarri af tveimur kerlínum álversins á Grundartanga hafi verið stöðvuð í lok október vegna bilunar í tveimur spennum. visir.is

Samkvæmt nýjustu áætlunum Norðuráls er ekki gert ráð fyrir að kerlið komi í fullan gang fyrr en eftir 11 til 12 mánuði. visir.is
Þetta þýðir verulegan útflutnings­tap og hefur bein og óbein áhrif fyrir vinnu­markaðinn á svæðinu.

Áhrifin fyrir útflutning og hagkerfi

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálmur Birgisson, varar við að um stórt vondt mál sé að ræða: „Við skulum alveg átta okkur á því að hér er verið að tala um tapaðar útflutningstekjur sem nema upp undir sex milljörðum króna á mánuði. Þannig að hver mánuður er mjög dýr fyrir íslenskt þjóðarbú.“ visir.is

Í nýrri hagspá ASÍ er gert ráð fyrir að áhrif bilunarinnar gætu varað í sex mánuði í grunn­sviðs­tökum með hagvexti 1,6 % — og ef lengra dregur, allt að tólf mánuði með hagvexti aðeins ~0,9%. visir.is

Áhrif á vinnu­markaðinn og á svæðið

Vilhjálmur bendir á að áhrifin ná lengra en aðeins til áliðnaðarins: „Þau munu klárlega finna óbeint fyrir því af fullum þunga þegar framleiðslan dregst saman um sextíu og sex prósent. Þannig að ég hef áhyggjur af því að þetta dragist lengi.“ visir.is

Þar að auki eru að minnsta kosti fimmtíu afleysingarmenn sem áður tóku vaktir hjá Norðuráli nú án vinnu. „Ef þessi sviðsmynd teiknast upp, þá verða ekki sumarafleysingar eins og verið hefur, þar sem eitt hundrað til tvö hundruð manns fá vinnu, þannig að þetta hefur víðtæk áhrif,“ segir Vilhjálmur. visir.is

Ríkisstjórn og viðbrögð

Fjár­mála­ráðherra, Daði Már Kristófersson, sagði að um slæm tíðindi væri að ræða og að ríkisstjórnin hefði gert sér grein fyrir að staðan gæti orðið mjög þröng. visir.is
Hann tók fram að einkafyrirtæki á Íslandi reka starfsemi sína á eigin ábyrgð, og að ríkisstjórnin hygðist ekki grípa til sérstakra aðgerða vegna Norðuráls að svo stöddu. visir.is

Þarf aðgerðir og sýn verkalýðshreyfingar

Sem formaður Verkalýðsfélags Akraness tel ég mikilvægt að horfa til þess hvaða áhrif þessi bilun hefur á starfið og öryggi okkar félagsmanna — bæði beint hjá fyrirtækinu og hjá þeim fjölmörgu fyrirtækjum sem þjónusta álvers­rekstur á svæðinu.
Það er brýnt að tryggja að allar leiðir til að stytta viðgerðarfasa séu skoðaðar, að nærtækur vinnu­markaður sé styrktur og að samfélagið á Akranesi og Vesturlandi fái viðeigandi stuðning ef framleiðslan dregst saman og starfsemi fyrirtækja raskast.


Við munum fylgjast náið með fram­gangi málsins og halda félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness upplýstum um stöðuna og mögulega áhrif bæði á vinnu og samfélag.
Ef einhver félags­manna hefur spurningar eða vill ræða um áhrifin á þeirra stöðu, endilega hafðu samband.

Með kveðju,
Vilhjálmur Birgisson
Formaður Verkalýðsfélags Akraness

22
Oct

Alvarlegt áfall á Grundartanga – framleiðsla dregst saman um 66%

Staðan á Grundartanga er nú mjög alvarleg eftir að búið er að slökkva á 340 kerum af 520, sem þýðir að einungis um 180 ker eru nú í rekstri. Þetta jafngildir framleiðslugetu álíka og var árið 2001 og undirstrikar hversu mikið áfall þetta er fyrir starfsemina, starfsfólkið og samfélagið á Akranesi og í nærsveitum.

Allir sem þekkja til vinnu og reksturs álvera vita og átta sig á alvarleikanum þegar búið er að slökkva á jafn stórum hluta kera. Það er morgunljóst að þetta er ekki stöðvun sem varir í nokkra daga eða vikur, heldur miklu umfangsmeira ástand sem mun taka tíma að leysa.

Fjölmargir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness hafa haft samband við félagið á liðnum sólarhring. Eðlilega er fólk bæði óttaslegið og kvíðið yfir stöðunni sem upp er komin. Því er afar mikilvægt að upplýsingagjöf til starfsmanna byggist á eins áreiðanlegum og traustum upplýsingum og kostur er, svo tryggja megi gagnsæi og ró í þessum erfiðu aðstæðum.

Allir sem þekkja til vita að stóriðjurnar á Grundartanga eru lífæð okkar Akurnesinga. Þegar sú æð stíplast getur það svo sannarlega haft alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu okkar og samfélagið allt. Þess vegna er brýnt að unnið sé hratt, skipulega og af fullri alvöru að því að koma starfseminni aftur í eðlilegt horf.

Verkalýðsfélag Akraness hefur kallað eftir upplýsingum um stöðuna, en eins og hún er nú eru allir sem vettlingi geta valdið að reyna að lágmarka skaðann og meta umfangið. Vonandi skýrist málið betur á morgun og næstu daga, en ljóst er að um mjög alvarlega stöðu er að ræða.

Þetta áfall kemur jafnframt á sama tíma og Elkem Ísland hefur tilkynnt að draga eigi úr framleiðslu í verksmiðjum félagsins á Íslandi vegna krefjandi markaðsaðstæðna, en það verður gert með því að slökkva á einum af þremur ofnum fyrirtækisins í allt að tvo mánuði. Slíkar aðgerðir endurspegla þær miklu áskoranir sem fyrirtækin í orkufrekum iðnaði standa nú frammi fyrir.

Stóriðjan á Grundartanga skapar um 151 milljarð króna í útflutningstekjur á ári, sem eru tæplega 8% af öllum útflutningstekjum þjóðarinnar. Slík starfsemi skiptir því ekki aðeins miklu máli fyrir okkur hér á Akranesi og í nærsveitum, heldur einnig fyrir þjóðarbúið allt.

Það er mikilvægt að við stöndum saman, styðjum við starfsfólkið og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að starfsemin komist sem fyrst aftur í eðlilegt horf.

14
Oct

Formaður VLFA endurkjörinn formaður Starfsgreinasambands Íslands

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, var á 10. þingi Starfsgreinasambands Íslands (SGS) endurkjörinn formaður sambandsins til næstu tveggja ára. Þingið, sem fram fór í Hofi á Akureyri, stóð yfir í þrjá daga og safnaði saman 135 fulltrúum frá öllum 18 aðildarfélögum SGS víðs vegar að af landinu. Þar ríkti einstök samheldni, kraftur og baráttusókn sem undirstrikuðu styrk hreyfingarinnar.

Á þinginu voru samþykktar sjö afar mikilvægar ályktanir sem snerta kjarnahagsmuni launafólks. Þær fjalla meðal annars um byggðastefnu, starfsemi PCC á Bakka, húsnæðismál, kjara- og leikskólamál, lífeyrismál og starfsemi erlendra vörsluaðila lífeyrissparnaðar. Allar samþykktir og niðurstöður þingsins má nálgast á sérstökum þingvef SGS.

Eftir endurkjörið flutti formaðurinn ræðu þar sem hann lagði áherslu á mikilvægi samstöðu og sameiginlegrar baráttu:

„Hvorki stjórnvöld né atvinnurekendur geta hunsað okkur ef við stöndum saman sem eitt afl. Ég hef setið mörg þingin í áranna rás og hef í raun aldrei fundið fyrir jafnmikilli samstöðu og nú – og samt krafti – og það skiptir öllu máli.“

Að lokum var þakkað fyrir traustið og undirstrikað að áfram verði staðið fast í baráttunni fyrir réttindum og kjörum launafólks.


Samstaðan er okkar sterkasta vopn – baráttan heldur áfram.

25
Sep

25 starfsmenn sagt upp hjá Norðuráli

Í dag var 25 starfsmönnum Norðuráls sagt upp störfum. Allir sem missa vinnuna starfa á framleiðslusviði fyrirtækisins, en þar starfar stór meirihluti allra starfsmanna.

Ástæðan sem gefin er fyrir þessum aðgerðum er aukinn framleiðslukostnaður sem hefur skapað erfiðar aðstæður í rekstri fyrirtækisins. Þrátt fyrir það breytir það ekki þeirri staðreynd að þetta eru mjög þung tíðindi fyrir þá einstaklinga sem nú missa lífsviðurværi sitt og fjölskyldur þeirra.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir:


„Það er þyngra en tárum taki að þurfa enn á ný að horfa upp á fjölda félagsmanna missa störf sín. Þetta er gífurlegt áfall fyrir samfélagið okkar á Akranesi og sár staða fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga. Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að styðja félagsmenn okkar í gegnum þessar aðstæður.“

 

Akranes hefur á liðnum árum og áratugum þurft að þola margvíslegar hremmingar í atvinnumálum. Við höfum séð stór fyrirtæki dragast saman eða hætta starfsemi með miklum samfélagslegum afleiðingum. Því eru uppsagnirnar hjá Norðuráli ekki aðeins áfall fyrir þá 25 sem missa vinnuna, heldur minna þær okkur líka á hve brothætt atvinnuöryggi getur verið í samfélagi sem er háð fáum, stórum vinnuveitendum.

VLFA mun fylgjast grannt með framvindu mála og standa vörð um hagsmuni félagsmanna á þessum erfiðu tímum.

05
Sep

Ferð eldri félaga 2025

Árleg ferð félagsins með eldri félagsmenn var farin í gær og heppnaðist vel. Lagt var af stað kl. 9 og ekið sem leið lá til Hveragerðis. Leiðsögumaður í ferðinni var Gísli Einarsson og sagði hann frá ýmsu áhugaverðu á leiðinni, meðal annars frá skáldum Hveragerðis. Fyrsti viðkomustaður var kirkjan í Hveragerði en þar var vel tekið á móti hópnum með stuttri kynningu á kirkjunni og safnaðarheimilinu og að henni lokinni var öllum frjálst að ganga um og skoða.

Næst  var haldið í Hespuhúsið í Ölfusinu en þar er Guðrún Bjarnadóttir með opna jurtalitunarvinnustofu. Guðrún tók á móti hópnum og sagði frá sínum verkefnum og vinnustofunni. Hún sýndi svo þeim sem vildu hvernig jurtalitunin fer fram. Vinnustofan er mjög rúmgóð og ýmislegt hægt að skoða en einnig hægt að fá sér sæti og slaka á eða glugga í bók. Guðrún selur jurtalitað garn en jafnframt fullgerðar prjónavörur, spil og púsl. Eftir að hafa fræðst og verslað hjá Guðrúnu hélt hópurinn áfram ferð sinni.

Hádegismaturinn var borðaður á Stracta hóteli á Hellu og þar fengu allir góðan mat og  drykk og var þjónustan til fyrirmyndar. Boðið var upp á lambakjöt í aðalrétt og litlar pavlovur í eftirrétt. Allir fóru saddir og sælir af stað aftur og ekið var að Sólheimum í Grímsnesi.

Á Sólheimum fékk hópurinn fræðslu um starf Sesselju Hreindísar Sigmundsdóttur og hvernig hún með mikilli elju og framsýni stofnaði Sólheima árið 1930. Nú 95 árum síðar er starfið á Sólheimum í miklum blóma og var bæði áhugavert og gaman að fá að heyra um það. Sólheimahús var skoðað en það er húsið sem Sesselja reisti á fyrstu árum Sólheima og þar bjó hún ásamt börnunum. Eftir að hafa gengið um svæðið fékk hópurinn kaffi, hjónabandssælu og pönnukökur í kaffihúsi Sólheima.

Að lokinni heimsókn að Sólheimum var komið að heimferð. Komið var til Akraness á slaginu kl. 18 og voru allir ánægðir með viðburðaríkan dag í góðum félagsskap. 

Myndir frá ferðinni má sjá hér

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image