• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

16
Apr

Kosningar hjá starfsmönnum Norðuráls og ELKEM

Í dag var opnað fyrir rafrænar kosningar hjá starfsmönnum bæði Elkem og Norðuráls.

Við hvetjum alla starfsmenn sem eiga aðild að þessum samningum að taka þátt og kjósa.

Hér er hægt að nálgast kynningarefni fyrir báða samningana : 

NORÐURÁL

ELKEM

Eins og áður sagði, þá er kosningin rafræn og nauðsynlegt er að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum.

Kosningu lýkur svo kl. 12:00 á hádegi  þriðjudaginn 22. apríl.

Þitt atvæði skiptir máli !

 

 

14
Apr

Kynningar á nýjum kjarasamningi Norðuráls hafnar á fullu

Formaður byrjaði daginn snemma í morgun og var mættur upp í Norðurál kl. 6:30 til að kynna nýjan kjarasamning fyrir starfsmönnum sem voru að ljúka næturvöktum. Að þeirri kynningu lokinni kynnti hann samninginn fyrir þeim sem voru að koma á dagvakt. Fór formaður ítarlega yfir innihald samningsins og var ekki annað að skynja en að starfsmenn virtust almennt vera ánægðir með það sem samningurinn innihélt þó ugglaust sé það alltaf þannig að menn vilji "meira."

Samningurinn er að skila um eða yfir 50.000 kr. launahækkun eða 6,15% til allra starfsmanna á fyrsta ári og síðan er hann tengdur við launavísitölu Hagstofunnar og það sama á við um aðrar launabreytingar eins og orlofs- og desemberuppbætur. Formaður mun síðan síðar í dag kynna samninginn fyrir vöktunum sem eru að fara á kvöldvakt og ljúka síðan kynningunum á morgun 15. apríl kl. 17 með kynningu í Bíóhöllinni á Akranesi fyrir þær vaktir sem eru í vaktafríi.

Hægt er að skoða kynninguna hér og eru starfsmenn hvattir til að hafa samband við formann eða trúnaðarmenn ef einhverjar spurningar vakna. 

11
Apr

Kjarasamningur við Elkem Ísland undirritaður hjá Ríkissáttasemjara í dag

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni var kjarasamningur Elkem Ísland felldur ekki alls fyrir löngu. Því fékk samninganefndin það hlutverk að leita leiða til að ganga frá nýjum kjarasamningi og það skal fúslega viðurkennast að það hefur ekki gengið þrautalaust því það er ætíð erfitt að vinna með slík verkefni enda hafa samningsaðilar yfirleitt teygt sig eins langt og kostur er við gerð upphaflega kjarasamningsins.

Þrátt fyrir þá staðreynd þá náðist að bæta við kjarasamninginn en dagmenn eru að fá 0,11% viðbót við sínar launabreytingar og hjá vaktmönnum náðist samkomulag um svokallaða rauða daga sem falla frá mánudegi til föstudags en það var sett inn í vaktaálagið sem gerir það að verkum að vaktaálagið fer úr 37,62% í 38,26% sem skilar vaktmönnum 0,43% launahækkun eða tæpum 50.000 kr. á ársgrundvelli. Öll laun hækka um tæp 6,1% eða með sambærilegum hætti og var gert í Norðurálssamningnum. Einnig náðist að tryggja að greitt verði fyrir stórhátíðardaga sem sambærilegum hætti og gert er í Norðuráli en ágreiningur um þetta mál mun fara fyrir Félagsdóm og ef það mál vinnst þar mun koma til afturvirkni eða eins og dómur mun kveða á um. En þessi breyting mun skila því að starfsmenn munu fá allt að 20.000 kr. fyrir 8 tíma vakt á stórhátíðardegi en voru áður einungis að fá rétt um 2.900 kr. Hér er um umtalsverða kjarabót að ræða sem getur skilað, þegar allir stórhátíðardagar eru teknir með, allt að 80.000 kr. kjarauppbót á ársgrundvelli. 

Orlofs- og desemberuppbætur hækka umtalsvert eða í 308.776 kr. og verða samtals 617.551 kr. og hækka því um 35.595 kr. á ári. 

Samningurinn gildir í 4 ár og munu launabreytingar verða tengdar við 95% af launavísitölu en þá aðferðafræði þekkja starfsmenn stóriðju á Grundartanga mjög vel og hefur hún reynst ábatasöm fyrir þá á liðnum árum enda tryggir launavísitalan allt það launaskrið sem verður á íslenskum vinnumarkaði. Heildarlaun ofngæslumanna frá 1. janúar 2025 eru að hækka um 49.552 kr. hjá byrjanda og hjá starfsmanni með 10 ára starfsreynslu um tæpar 60.000 kr. eða 6,67%. Með hækkun á orlofs- og desemberuppbótum nemur prósentuhækkunin yfir 7%. Dagmenn eru að hækka frá 36.378 kr. upp í tæpar 43.000 kr. á mánuði og með orlofs- og desemberuppbótum nemur þeirra hækkun 6,5%. 

Hægt er að skoða kynningu um samninginn hér og skorar formaður VLFA á alla starfsmenn að kynna sér ítarlega hvað fellst í þessum samningi enda er það mat hans að kjarasamningurinn sé gríðarlega góður þó alltaf sé það þannig að menn vilji fá meira. En samningurinn er að skila meira en þeir samningar sem gerðir hafa verið í þessari kjarasamningslotu sé tekið tillit til meðaltals hækkunar launavísitölunnar á liðnum árum og áratugum. 

11
Apr

Kjarasamningur við Norðurál undirritaður í gær

Nýr kjarasamningur við Norðurál var undirritaður í húsakynnum ríkissáttasemjara í gær og er það mat formanns félagsins að niðurstaðan sé mjög góð fyrir starfsmenn Norðuráls. Laun starfsmanna Norðuráls munu hækka um 6,15% frá 1. janúar 2025 sem og orlofs- og desemberuppbætur en samningurinn gildir í 5 ár og munu laun starfsmanna hækka samkvæmt 95% af launavísitölu Hagstofunnar fyrir hin árin sem og aðrir kjaraliðir. 

Orlofs- og desemberuppbæturnar munu til að mynda í upphafi samnings verða 308.973 kr. hvor fyrir sig eða samtals 617.946 kr. og hækka um 35.790 kr. samtals. Rétt er að geta þess að laun vaktavinnufólks eru að meðaltali að hækka um rúmar 50.000 kr. á mánuði en samningurinn gildir afturvirkt frá 1. janúar 2025 og því munu starfsmenn eiga von á eingreiðslu vegna afturvirkni sem nemur um eða yfir 200.000 kr. 

Einnig var samið um að allir fastráðnir starfsmenn sem starfað hafa í 1 ár hjá fyrirtækinu fái einn auka frídag en fastráðið starfsfólk á 8 klukkustunda vöktum í 5 vakta kerfinu fær 1 dag að auki eftir 1 ár í starfi eða samtals 2 daga. 

Einnig verður meiri sveigjanleiki á orlofi starfsmanna en gert var samkomulag um að starfsmenn muni hafa heimild til að færa allt að 50% af vetrarorlofi yfir á sumarorlofstímabil sem á að gagnast fólki vel ef það vill lengja hjá sér sumarfríið. En þetta er heimildarákvæði sem starfsmenn munu hafa. 

Ítarleg kynning á samningnum mun fara fram í næstu viku og rafræn atvkæðagreiðsla um kjarasamninginn mun væntanlega hefjast á miðvikudaginn í næstu viku en verður auglýst nánar. Formaður skorar á félagsmenn sína að hafa samband vilji þeir nánari upplýsingar um atriði samningsins.

04
Apr

Sumarleiga orlofshúsa 2025

Félagsmenn athugið

Opnað hefur verið fyrir umsóknir vegna útleigu orlofshúsa sumarið 2025.

Umsóknarferstur er til 14. apríl. 

Sótt er um á félagavef - hér - eða með umsókn á skrifstofu.

Nánari upplýsingar um orlofshús og fyrirkomulag úthlutunar má sjá á orlofssíðu félagsins - https://www.vlfa.is/index.php/orlofssjodhur

 

 

02
Apr

Kosningu um verkföll í báðum verksmiðjunum á Grundartanga frestað fram í næstu viku

Í gær var fundað í kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness og þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningi við Elkem Ísland á Grundartanga í húsakynnum ríkissáttasemjara. En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá átti kosning til verkfalls í verksmiðjunni að hefjast á morgun en undirbúningi að kosningunni er lokið.

Í ljósi þess að ögn betri tónn var í forsvarsmönnum Elkem til að reyna að leysa þau örfáu ágreiningsatriði sem starfsmenn hafa haft orð á að vanti til að hægt sé að skrifa undir samning hefur VLFA ákveðið að fresta kosningu um verkfall fram í næstu viku. Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar næsta föstudag þar sem reynt verður að leysa endanlega úr þessum deiluatriðum.

Það er rétt að geta þess að það átti ekki einungis að hefjast kosning um verkfall hjá Elkem heldur einnig hjá Norðuráli en samningur Norðuráls rann út um síðustu áramót eins og hjá Elkem. Til þessa hafa viðræður þar verið algjörlega árangurslausar.

Í gær átti formaður óformlegt samtal við Gunnar Guðlaugsson forstjóra Norðuráls á Grundartanga og var það samtal að mörgu leyti ágætt og gaf formanni von um að hægt yrði að leysa þá deilu án átaka þótt vissulega sé ekkert fast í hendi hvað það varðar. 

Ríkissáttasemjari hefur einnig boðað samningsaðila sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls til fundar á næsta föstudag og í ljósi þessa samtals formanns VLFA og forstjóra Norðuráls og vilja forstjórans til að koma viðræðunum á fullt skrið þá hefur Verkalýðsfélag Akraness einnig ákveðið að fresta kosningu um vinnustöðvun í Norðuráli fram í næstu viku.

Vonandi tekst að leysa þessi ágreiningsmál í báðum verksmiðjunum enda ótækt að starfsfólk sé búið að vera án launahækkana í 15 mánuði á sama tíma og allt hefur hækkað í íslensku samfélagi.

Vissulega getur brugðið til beggja vona í báðum þessum viðræðum en eftir jákvæðari tón þá telur VLFA það skynsamlegt að gera loka atlögu að þessum viðræðum á föstudaginn. Ef það ekki tekst er ljóst að kosning um vinnustöðvun mun hefjast í næstu viku í báðum verksmiðjunum hjá félagsmönnum VLFA.

En það er ögn bjartara yfir þessum viðræðum núna en ljóst eins og áður sagði að það geti dregið snöggt fyrir sólu en það kemur í ljós á föstudaginn.

28
Mar

Kosið um verkfall í Norðuráli

Nú eru liðnir þrír mánuðir frá því að kjarasamningur starfsmanna Norðuráls rann út. Skemmst er frá því að segja að ekkert sé að frétta í þessari deilu og afskaplega lítinn vilja að finna af hálfu fyrirtækisins til þess að ganga frá kjarasamningi þannig að starfsmenn fái launahækkun til að standa undir hinum ýmsu hækkunum sem almenningur í þessu landi hefur þurft að þola á liðnum misserum. Það er þyngra en tárum taki að vita að jafn öflugt fyrirtæki og Norðurál er skuli ekki leggja sig meira fram við að ganga frá kjarasamningi enda eru liðnir 15 mánuðir frá því að starfsmenn fengu síðast launahækkun en á sama tímabili hefur verðlag, afborganir af húsnæði og fleira stökkbreyst.

Það er líka umhugsunarefni að þegar kjarasamningsgerð við þetta öfluga fyrirtæki er skoðuð aftur í tímann tekur oft mjög marga mánuði að ganga frá kjarasamningi og sem dæmi þá tók 9 mánuði að ganga frá samningi þegar kjarasamningur Norðuráls var síðast laus. Það er rétt að geta þess að Norðurál er með umtalsverða vörn hvað vinnustöðvun varðar og sem dæmi þá má ekki kjósa um verkfall fyrr en 3 mánuðum eftir að kjarasamningur rennur út sem er þá núna um mánaðarmótin og síðan líða aðrir 3 mánuðir þar til að niðurkeyrsla á kerjum fyrirtækisins hefst samkvæmt grein um vinnustöðvun í kjarasamningi.

Á þessari forsendu er ekkert annað í stöðunni en að nýta fyrsta tækifæri til þess að kjósa um vinnustöðvun enda engin teikn á lofti um vilja fyrirtækisins til þess að hefja kröftuga vinnu við að ganga frá nýjum kjarasamningi. Kjarasamningi sem tekur tillit til eðli þessarar starfsemi enda er vinna í stóriðjum erfið, krefjandi og oft á tíðum hættuleg. Með öðrum orðum, þetta eru ekki hefðbundin verkamannastörf. Þetta er öflugt útflutningsfyrirtæki sem hefur skilað góðri afkomu í gegnum tíðina og því mikilvægt að fyrirtæki af þessari stærðargráðu sýni vilja til að ganga hratt, vel og örugglega frá launabreytingum til handa sínu starfsfólki. Enda eru fyrirtæki ekkert án öflugra starfsmanna. Að þessu sögðu tilkynnti formaður á fundi hjá ríkissáttasemjara í gær að VLFA muni hefja undirbúning að kosningu um verkfall og stefnir félagið á að hefja kosningu á fimmtudaginn í næstu viku enda engin önnur staða á vellinum en að sýna fulla staðfestu í að knýja fram sanngjarnan og réttlátan kjarasamning.

 

28
Mar

Kosning um verkfall í Elkem hefst í næstu viku

Í gær var haldinn fyrsti fundur hjá ríkissáttasemjara eftir að kjarasamningur við Elkem var felldur með 58% greiddra atkvæða. Frá því að kjarasamningurinn var felldur hefur formaður talað við tugi manna til að reyna að átta sig á hvað varð þess valdandi að kjarasamningurinn var felldur. Almennt voru starfsmenn eftir þessum samtölum að dæma sáttir við kjarasamninginn. Það sem stendur upp úr eftir þessi samtöl er að það er launamunur á milli grunnlauna dagmanna og vaktmanna sem er búinn að vera við lýði í hartnær 30 ár sem vaktmenn eru afar ósáttir með en sá munur nemur 2,15%. Einnig komu fram einhver atriði til viðbótar sem þyrfti að lagfæra þó það hafi ekki komið skýrt fram en þó ber að geta þess að dagvinnumenn sem vinna 5. hverju helgi telja mikilvægt að fá einhverja umbun fyrir þá vinnutörn.

Þessum skilaboðum kom formaður VLFA rækilega á framfæri og hefur svosem átt í samtölum bæði við forsvarsmenn fyrirtækisins og SA sem fara með samningsumboð fyrir fyrirtækið en það hefur ekki borið árangur til þessa né bar það árangur á fundinum í gær.

Í ljósi þeirra staðreynda tilkynnti formaður Verkalýðsfélags Akraness á fundinum í gær að félagið væri nauðbeygt  til að boða til vinnustöðvunar og að undirbúningur að kosningu um verkfall meðal félagsmanna VLFA færi á fulla ferð. Stefnt verður að því að kosning um vinnustöðvun muni hefjast á fimmtudaginn í næstu viku. Félagið hefur ekki aðra kosti eftir að starfsmenn hafa fellt samninginn með jafn afgerandi hætti og raun ber vitni og samtöl til að finna lausn á málinu hafa ekki borið árangur. Formaður er að undirbúa hvaða hópar innan fyrirtækisins munu taka þátt í slíkri kosningu.

Formanni er ekki kunnugt um hvort hin fjögur stéttarfélögin sem eiga aðild að samningnum ætli að fylgja VLFA eftir með kosningu um vinnustöðvun en það er þeirra að svara því hvort þau hafi í hyggju að gera slíkt eða ekki en VLFA er staðráðið í að svara kalli starfsmanna sem felldu samninginn með 58% atkvæða enda ekkert annað í stöðunni eins og áður sagði. 

En vissulega er það einlæg von Verkalýðsfélags Akraness að hægt verði að leysa þessa deilu áður en til kosninga kemur enda er það bjargföst trú félagsins að kjarasamningurinn sé mjög góður. Félagið gerir sér hinsvegar algjörlega grein fyrir því að áðurnefndu atriði þarf að finna lausn á til að sátt ríki til framtíðar.  

21
Mar

Kauptaxtaauki tekur gildi 1. apríl – Lágmarkstaxtar hækka um 0,58%

Kauptaxtar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hækka um 0,58% frá 1. apríl næstkomandi. Ástæða hækkunarinnar er sú að kauptaxtaauki, sem samið var um í kjarasamningunum, verður virkjaður þá. Það er gert vegna þess að launavísitala á almennum markaði hefur hækkað umfram umsamdar taxtahækkanir í kjarasamningnum. 

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru undirritaðir í mars á síðasta ári, 2024. Í þeim er ákvæði þess efnis að sérstök launa- og forsendunefnd, skipuð fulltrúum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, skuli úrskurða um sérstakan kauptaxtaauka í mars ár hvert út samningstímann. Sýni launavísitala Hagstofu Íslands fyrir almenna vinnumarkaðinn að laun hafi hækkað umfram hækkun lægstu kauptaxta í kjarasamningunum skuli því bæta verkafólki það upp með kauptaxtaauka. 

Umrædd nefnd kom saman til fundar fyrir tveimur vikum, 7. mars. Í ljósi þess að launavísitala hefur hækkað umfram taxtahækkanir úrskurðaði nefndin að virkja skyldi kauptaxtauka, um 0,58% sem fyrr segir. Er það fullt hlutfall umframhækkunarinnar sem orðin er á launavísitölu miðað við kauptaxta. Allir lágmarkstaxtar kjarasamninga munu hækka um það hlutfall.

Meginmarkmið stöðugleikasamninganna sem undirritaðir voru í fyrra var að ná niður verðbólgu og að vextir yrðu lækkaðir. Hvoru tveggja hefur raungerst á sama tíma og kaupmáttur launa hefur aukist. Forsendur eru fyrir framhaldi þar á, þó ýmsar blikur séu á lofti á alþjóðavettvangi. Forsendunefndin hvetur stjórnvöld, Seðlabankann og fyrirtæki til að vinna áfram að markmiðum samninganna en einnig er brýnt að ríki og sveitarfélög gæti hófs í hækkunum gjalda og stuðli einnig að uppbyggingu íbúða. 

Yfirlýsing launa- og forsendunefndar fer hér að neðan.

Kauptaxtaauki tekur gildi 1. apríl 

Launa- og forsendunefnd kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, sem skipuð er fulltrúum frá ASÍ og SA, kom saman til fyrsta fundar föstudaginn 7. mars. Á fundinum var úrskurðað að kauptaxtaauki virkjist frá og með 1. apríl næstkomandi. Kauptaxtaaukinn felur í sér að kauptaxtar kjarasamninga hækki um 0,58% frá og með 1. apríl og skýrist af því að launavísitala á almennum markaði hækkaði umfram umsamdar taxtahækkanir viðmiðunartaxtans á fyrsta tímabili stöðugleikasamningsins.

Nefndinni, sem starfar samkvæmt kjarasamningum á árunum 2024-2028, ber að fylgjast með framvindu efnahagslífs og mögulegum áhrifum á markmið samninga um minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Nefndinni ber jafnframt að leggja mat á samningsforsendur í september 2025 og september 2026. 

Verðbólga gengið niður og kaupmáttur aukist 

Meginmarkmið samninganna er að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Verðbólga mældist um 8% þegar undirbúningur kjarasamninga hófst haustið 2023. Forsendunefndin er sammála um að árangur samninganna hafi verið merkjanlegur, verðbólga mælist í dag 4,2% en 2,7% ef horft er fram hjá áhrifum húsnæðisverðs. Kaupmáttur launa hefur aukist á fyrsta ári samnings. 

Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferli í október síðastliðnum og hafa stýrivextir lækkað um 1,50 prósentur frá gerð samninga. Á sama tíma hefur aðhald peningastefnunnar aukist og raunvextir hækkað. 

Aukin óvissa um efnahagshorfur 

Forsendur eru fyrir áframhaldandi hjöðnun verðbólgu á næstu mánuðum og þar með frekari lækkun vaxta. Hins vegar hefur alþjóðleg óvissa um efnahagshorfur aukist og hætta á að Ísland verði fyrir áhrifum af vaxandi átökum á alþjóðavettvangi og viðskiptastríðum. Forsendunefndin telur mikilvægt að stjórnvöld, Seðlabanki Íslands og fyrirtæki vinni áfram að markmiðum samninganna og skapi þannig forsendur fyrir áframhaldandi minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Þar telur nefndin brýnt að ríki og sveitarfélög vinni með peningastefnunni, gæti hófs í álagningu gjalda og taki markviss skref í íbúðauppbyggingu.

18
Mar

Kjarasamningur við Elkem Ísland felldur

Núna í hádeginu lauk kosningu um nýgerðan kjarasamning stéttarfélaganna við Elkem Ísland og var samningurinn felldur með 58,12% greiddra atkvæða.

Á kjörskrá voru 151 og greiddu 77,48% atkvæði.

 

Atkvæðin skiptust með eftirfarandi hætti:

 

Nei sögðu 68 eða 58,12%

sögðu 45 eða 38,46%

Þeir sem ekki tóku afstöðu voru 4 eða 3,42%

 

Formaður félagsins mun boða félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem heyra undir umræddan kjarasamning til fundar í næstu viku þar sem ákvörðun verður tekin um næstu skref. Mikilvægt er að greina í hverju óánægjan er fólgin og athuga hvort möguleiki verði á að leysa þau atriði sem starfsmenn telja að útaf standi án átaka. Félagið mun auglýsa dagsetningu þegar hún liggur fyrir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image