• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
 • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

13
Apr

Ótrúleg vinnubörgð varðandi breytingu á lögum um lífeyrissjóði

Á fimmtudaginn kom eins og þruma úr heiðskíru lofti frumvarp um breytingar á lögum um lífeyrissjóði. Þetta frumvarp lýtur að því að því að hækka lögfestingu á lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóðanna úr 12% í 15,5%. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um að iðgjaldið renni inn í samtrygginguna en launafólk hafi heimild til að setja 3,5% af 15,5% í svokallaða tilgreinda séreign en það þurfi þá að hafa samband við viðkomandi lífeyrissjóð kjósi það að gera svo.

Það er einnig kveðið á um í frumvarpinu að launafólk eigi ekki að byrja að greiða í lífeyrissjóð 16 ára eins og nú sé heldur verði það við 18 ára aldur. Formaður spyr: eiga þá laun þeirra sem eru á aldrinum 16 til 18 ára að hækka sem nemur 11,5% eða eiga atvinnurekendur að hagnast á þessari breytingu sem nemur gjaldfrjálsum iðgjöldum upp á 11,5% í 2 ár?

Þetta þýðir sparnað fyrir atvinnulífið upp á tæpar 800 milljónir á ári. Hugsið ykkur það á að taka 800 milljónir af unga fólkinu og færa yfir til atvinnurekenda.

Ekkert mál að fresta greiðslum í lífeyrissjóði úr 16 árum í 18 ár en látið þá unga fólkið fá þessar 800 milljónir annaðhvort í formi 11,5% launahækkunar eða sem inneign í séreignasjóði.

Ekki „stela“ 800 milljónum af unga fólkinu á ári með því að lauma svona frumvarpi í gegn!

Það er fleira sem er alveg ótrúlegt í þessu frumvarpi en eins og lífeyrisþegar vita er lífeyririnn verðtryggður ef þannig má að orði komast og hann tekur breytingum samkvæmt neysluvísitölu Hagstofunnar og koma þær breytingar fram mánaðarlega í núgildandi lögum. En í frumvarpinu er kveðið á um að hækkun á lífeyri launafólks komi ekki til framkvæmda nema einu sinni á ári. Þannig að lífeyrisþegar fá ekki verðbætur ofan á verðbætur mánaðarlega eins og nú er.

Þetta þýðir að einstaklingur sem er 67 ára og er með 350 þúsund í lífeyri verður af verðbótum sem nema tæpum 70 þúsundum á ári miðað við 4% verðbólgu.

Frá 67 ára töku lífeyris til 83 ára aldurs væri búið að hafa af þessum lífeyrisþega rétt tæpar 2 milljónir króna!

Ekki lauma fram frumvarpi sem „stelur“ af lífeyrisþegum 2 milljónum af lífeyri þeirra með þessum breytingum á 16 ára tímabili á töku lífeyris. Væri fróðlegt að vita sparnað lífeyrissjóðanna ef þessi breyting færi í gegn. Ugglaust er um marga milljarða að ræða!

Já, ekkert mál breyta lögum í þessa átt hjá lífeyrisþegum en að gera slíkt á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimilanna nei, það kemur þessari ríkisstjórn ekki til hugar. Ekkert mál að leggja verðbætur ofan á skuldir heimilanna í hverjum mánuði en það þarf að stoppa af að lífeyrisþegar fái verðbætur ofan á verðbætur í hverjum mánuði.

Þetta er alls ekki það eina sem er algjört rugl í þessu frumvarpi því það er tryggt að t.d. sjómenn sem eru með 12% hámark í lífeyrissjóð fari ekki í 15,5%, þá á að undanskilja frá lögunum. Já, stjórnvöld vilja koma vel fram við útgerðamenn og ekki leggja frekari álögur á þá.

Verkalýðsfélag Akraness hefur lengi barist fyrir því að launafólk hafi aukið val og frelsi til að ákvarða hvar og hvernig það ráðstafar sínum lífeyri. VLFA hefur barist fyrir því að auka rétt fólks til að setja sinn lífeyri í svokallaða frjálsa séreign en í dag er lágmarks iðgjaldið 12% en flestir eru að greiða 15,5% í iðgjöld. VLFA hefur barist fyrir því að launafólk ráði sjálft hvert það setur 3,5% sem eru umfram lágmarks iðgjaldið eins og lögin kveða á um í dag. Það eigi að hafa val hvort það setur það í samtrygginguna eða frjálsa séreign.

Nei þetta má ekki, allt skal renna til lífeyrissjóðanna og síðan á að lögfesta og flækja lífeyriskerfið enn frekar með einhverjum viðbótar bastarði sem ber heitið tilgreind séreign.

Það sorglega í þessu er að ekkert samráð var haft við stéttarfélögin sem hafa lögvarða hagsmuni af því að semja um kaup og kjör sinna félagsmanna. En lífeyrisréttindi eru klárlega hluti af kjarasamningum stéttarfélaganna og það er á þeirra valdsviði samkvæmt öllum gildandi lögum.

Málið er að VLFA var langt komið með að semja við Elkem Ísland á Grundartanga um að 12% af 15,5% iðgjaldinu færi í samtrygginguna og starfsmenn mættu velja að setja 3,5% í frjálsa séreign ef þeir vildu svo.

Samtök atvinnulífsins og forseti ASÍ segja nei, það eruð ekki þið sem sjáið um að semja um lífeyrismál, þau eru á forræði SA og ASÍ. En orðrétt sagði forseti ASÍ í pósti til formanns um daginn: „Lífeyrissjóðirnir hvíla á kjarasamningi á milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands en samningsumboðið er ekki hjá hverju stéttarfélagi fyrir sig eins og löngu er orðið ljóst.“

Já stéttarfélögunum kemur þetta bara ekkert við né félagsmönnum þeirra þrátt fyrir að öll lög kveði á um annað.

Hér er um gríðarlega hagsmuni að ræða fyrir launafólk og því hefur félagið falið lögmanni VLFA að stefna ASÍ og Samtökum atvinnulífsins sem segja að samningsumboð stéttarfélaganna nái ekki yfir lífeyrismál í kjarasamningum. Slíkt þvaður hefur enga lagastoð!

Formaður VLFA skal fúslega viðurkenna að þessi skefjalausa meðvirkni með lífeyrissjóðskerfinu af hálfu forystu ASÍ er með öllu óskiljanleg. Formaður vill að haft verði samráð við stéttarfélögin sem hafa lögvarða hagsmuni í þessum málum og að lágmarksiðgjald verði áfram 12% en launafólk fái heimild til að ráðstafa viðbótinni sem er 3,5% í frjálsa séreign kjósi það svo.

VLFA hafnar því að SA og ASÍ geti tekið yfir lögvarða hagsmuni félagsins við að gæta að lífeyrisréttindum félagsmanna VLFA og á þeirri forsendu verður þessum aðilum stefnt fyrir félagsdóm.

Formann langar að spyrja ykkur launafólk: Viljið þið hafa val um að ráðstafa 3,5% af 15,5% í frjálsa séreign? Það er mitt mat að launafólk verði að láta í sér heyra til að koma í veg fyrir að fámenn klíka ákveði og miðstýri rétti launafólks varðandi hvar og hvernig það vill ráðstafa sínum lífeyri.

07
Apr

Helstu atriði sem koma fram í Tíund blaði ríkisskattstjóra um skuldir og eignir einstaklinga fyrir árið 2019

Helstu atriði frá ríkisskattstjóra vegna tekna og skulda einstaklinga vegna ársins 2019.

 

 • Launatekjur einstaklinga árið 2019 námu 1330 milljörðum
 • Greiðslur frá Tryggingastofnun námu 150 milljörðum
 • Atvinnuleysisbætur námu 19 milljörðum
 • Greiðslur úr lífeyrissjóðum námu 150 milljörðum
 • Greiðslur úr séreignasjóðum námu 12 milljörðum

 

Opinber gjöld einstaklinga

 • Samtals nam tekjuskattur einstaklinga 466 milljörðum.
  • Tekjuskattur ríkisins 206 milljarðar
  • Útsvar sveitarfélaganna 244 milljarðar
  • Útvarpsgjald 4 milljarðar
  • Framkvæmdasjóður aldraðra 3 milljarðar

 

Barna- og vaxtabætur

 • Barnabætur námu 12 milljörðum
 • Vaxtabætur námu 3 milljörðum

 

Skuldir og eignir einstaklinga

 • Heildar skuldir námu 2266 milljörðum
 • Heildar eignir einstaklinga námu 7557 milljörðum
  • Rétt er að geta þess að vegna hækkunar fasteignaverðs hækkuðu eignir um 444 milljarða á milli ára og skuldir jukust um 117 milljarða
  • Einnig er rétt að geta þess að af heildar eignum upp á 7557 milljarða er eign vegna fasteigna 5619 milljarðar. Mismunurinn milli skulda og heildar eigna er vegna eigna í innistæðum í bönkum, hlutabréfum, ökutækjum og öðrum eignum.

 

Vaxtagjöld

 • Einstaklingar greiddu í heildina 113 milljarða í vaxtagjöld árið 2019
  • Þar af námu vextir vegna íbúðarhúsnæðis 77 milljörðum.

Það vekur óneitanlega athygli að vaxtabætur hafa lækkað gríðarlega eða úr 6 milljörðum 2015 í 3 milljarða 2019 þrátt fyrir að heildar upphæð vaxtagjalda sé svipuð og hún var 2015. Skýringin liggur í skerðingum á hækkun á fasteignaverði sem er að mínu mati galið.

 

Niðurstaða

Það er mat mitt að það sé gríðarlega mikilvægt fyrir almennt launafólk að vera miklu meira vakandi yfir því í hvað er verið að eyða skatttekjum almennings enda eins og þarna kemur fram nema útsvarstekjur og tekjuskattur ríkissjóðs hátt í 500 milljörðum króna af launatekjum launafólks.

 

Vissulega er það líka afar athyglisvert að heildar eignir einstaklinga og heimila skuli nema 5291 milljarði meira heldur en skuldir og er það jákvætt svo langt sem það nær enda held ég að þarna endurspeglist umtalsverð misskipting, óréttlæti og ójöfnuður á milli hinna tekjulágu og tekjuháu.

 

Vissulega ber þó að nefna að sú gríðarlega hækkun fasteignaverðs sem orðið hefur á liðnum árum er í raun og veru ekkert annað heldur en bókhaldsleg hækkun enda liggur fyrir að ef fólk þarf að selja eina eign sem hefur hækkað mikið í verði þarf það væntanlega að kaupa nýja með sömu hækkun.

 

Það er einnig rétt að geta þess að þessi samantekt ríkisskattstjóra sem fram kemur í Tíund er fyrir árið 2019 og má ætla að vaxtagjöld almennings fyrir árið 2020 verði umtalsvert lægri heldur en þau voru fyrir árið 2019 enda hafa vaxtakjör lækkað mikið sem hefur gert það að verkum að ráðstöfunartekjur skuldsettra heimila hafa aukist töluvert í kjölfar endurfjármögnunar heimilanna á húsnæðislánum sínum.

 

En aðalmálið er að koma í veg fyrir misskiptingu, óréttlæti og ójöfnuð og jafna byrðar þess sem lítið hafa og þeirra sem meira hafa.

06
Apr

156 félagsmenn án atvinnu í febrúar 2021

Það er engum vafa undirorpið að atvinnuleysi er eitur í beinum íslensks samfélags og eitt af hlutverkum stéttarfélaga er klárlega að verja störf og atvinnustig á sínum félagssvæðum.

En eftir að COVID 19 skall á í febrúar í fyrra jókst atvinnuleysi vítt og breitt um landið gríðarlega en sem betur fer hefur félagssvæði VLFA farið betur út úr atvinnuleysinu sem fylgdi í kjölfarið en mörg sveitarfélög. Þrátt fyrir að félagssvæði VLFA sé undir landsmeðaltalinu og langt undir atvinnuleysistölum sem Suðurnesjamenn eru að glíma við er atvinnuleysið of mikið.  

Eftir að COVID skall á fór atvinnuleysið mest í að 314 félagsmenn VLFA voru án atvinnu en það var í mars í fyrra. Eftir mars í fyrra hefur dregið úr atvinnuleysi og hefur það verið nokkuð stöðugt á bilinu 180 niður í 160 félagsmenn sem eru án atvinnu í mánuði hverjum. Í febrúar síðastliðnum voru 156 félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness án atvinnu.

Í febrúar voru 88 karlar og 69 konur sem tilheyrðu VLFA án atvinnu. Rétt er að geta þess að hugsanlega eru fleiri án atvinnu en þetta eru þeir sem taka ákvörðun um að greiða til stéttarfélagsins til að viðhalda sínum réttindum í félaginu.

Það er einnig rétt að upplýsa að áður en COVID skall á þá voru 93 félagsmenn án atvinnu, en eru í dag 156 eins og áður sagði.

Það er einlæg von allra að ljósið við enda ganganna fari að sjást enda hafa sóttvarnaryfirvöld talað um að von sé til að búið verði að bólusetja þorra þjóðarinnar fyrir júlílok og þá ætti ferðaþjónustan að geta tekið við sér á nýjan leik.

Þrátt fyrir að það sjái vonandi fyrir endann á afleiðingum af COVID vegna bólusetningar þjóðarinnar þá er rétt að geta þess að stjórnvöld hafa gripið til víðtækra vinnumarkaðsaðgerða sem klárlega eiga að geta dregið umtalsvert úr núverandi atvinnuleysi og er það von verkalýðshreyfingarinnar að sem flestir nýti sér þau úrræði sem þar eru í boði og kynni sér þau vel inni á vef Vinnumálastofnunar.

29
Mar

Fyrri úthlutun fór fram í dag

Í dag keyrðum við fyrri úthlutun sumarhúsana okkar.  

Alls voru 113 vikum úthlutað, en þó nokkrar vikur eru enn lausar.  Félagsmenn geta séð inni á félagavefnum hvort þeir hafi fengið úthlutað.

Einnig sendum við tölvupóst á alla sem sóttu um og eru með netföngin sín skráð hjá okkur.

Gjalddagi fyrri úthlutunarinnar er þann12. apríl og strax þann 13. apríl keyrum við endurúthlutun. 

Ef þú fékkst ekki úthlutað núna er mjög sniðugt að kíkja inn á félagavefinn og athuga/breyta umsókninni fyrir endurúthlutun.

23
Mar

Meðallaun hæst hjá Snók þjónustu árið 2020

Formaður skoðaði meðallaun félagsmanna samkvæmt iðgjaldaskrá félagsins í nokkrum fyrirtækjum en rétt er að geta þess sérstaklega að ekki er tekið tillit til vinnustunda né starfshlutfall. Hér er einungis verið að kanna meðallaun í nokkrum fyrirtækjum á félagssvæði VLFA óháð vinnuframlagi og starfshlutfalli.

Hæstu meðallaunin út frá áðurnefndum forsendum eru hjá Snók þjónustu en það eru starfsmenn sem þjónusta stóriðjufyrirtækin t.d. á Grundartanga. En meðallaunin í fyrra námu rétt tæpum 738 þúsundum á mánuði.

Næst hæstu meðallaunin voru hjá Norðuráli en þau námu rétt tæpum 724 þúsundum á mánuði.

Þriðju hæstu meðallaunin voru hjá Elkem Ísland á Grundartanga en þau námu rétt tæpum 687 þúsundum á mánuði.

Það ber að taka meðallaunin hjá Akraneskaupstað með miklum fyrirvara þar sem fjöldi fólks sem starfar hjá Akraneskaupstað er í skertu starfshlutfalli eða nánar tilgetið ekki í 100% starfi en meðallaunin hjá Akraneskaupstað voru einungis 274 þúsund á mánuði.

22
Mar

Farið í vinnustaðaeftirlit

Á síðasta föstudag fór formaður í svokallað vinnustaðaeftirlit á byggingarsvæði þar sem verið er að byggja tvær blokkir en áætlað er að byggingartíminn standi yfir í allt að tvö ár.

Í þessari vinnustaðaeftirlitsferð var óskað upplýsingum um vinnustaðaskírteini, ráðningarsamningum og launaseðlum og er aðalvertakinn að kalla eftir þeim upplýsingum frá undirverktökum sem ekki lágu fyrir þegar eftirlitið fór fram.

Samtarfsvilji aðalverktakans sem sér um byggingu á þessum blokkum var mjög gott og kom fram að hann leggur mikla áherslu að allir undirverktakar sem komi að verkinu uppfylli allar þær reglur og kjör sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

17
Mar

Er verið að ástunda stórfelldan launaþjófnað í loðnusjómönnum?

Nú er ég ekki í neinum vafa um að stjórnvöld og Alþingi Íslendinga verði að láta opinbera rannsóknaraðila kryfja nýafstaðna loðnuvertíð til mergjar.

Maður hlýtur að spyrja sig hvort að útgerðir sem stunduðu veiðar á loðnu á vertíðinni sem nú er nýlokið hafi verið að ástunda einn mesta launaþjófnað og skattsvik sem framin hafa verið á Íslandi um langt árabil.

Af hverju segi ég þetta? Jú, það er vegna þess að meðalverð sem íslenskir sjómenn fengu greitt samkvæmt opinberum fréttum var 100 kr. pr. kíló á þessari vertíð. Hins vegar liggur fyrir að meðalverðið sem Norðmenn fengu var 225 kr. pr. kíló fyrir rúm 12 þúsund tonn sem þeir veiddu af loðnu við Íslandsstrendur á loðnuvertíðinni 2021.

Rétt er að rifja upp Kastljósviðtal sem ég og Heiðrún Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi vorum í fyrir 2 árum eða svo. Þar var umræðuefnið gríðarlegur verðmunur á aflaverðmæti milli Íslands og Noregs á makríl. En í því viðtali sagði framkvæmdastjóri SFS að verðmunurinn fælist m.a. í því að íslensku skipin væru að veiða makrílinn þegar fituinnhald á makríl væri minna og hann því verðminni.

Þetta voru sem sagt rökin sem Heiðrún kom með á þeim mikla verðmun sem hefur verið á makríl milli Noregs og Íslands en hvaða rök skildi framkvæmdastjóri SFS koma með núna? Sérstaklega í ljósi þess að íslensku skipin veiddu loðnuna þegar hrognafylling var mun meiri en hjá norsku skipunum en það liggur fyrir að hrogn loðnunnar eru verðmætasta afurðin í loðnuveiðunum.

Þetta þýðir að ef eitthvað ætti að vera þá ætti meðalverðið til íslensku sjómannanna að vera enn hærra en greitt var til norsku skipana sem var eins og áður sagði 225 kr. pr. kíló. Hvernig má þetta vera? Að meðalverðið sé 100 kr. á meðan norsku skipin fá 225 kr. og það fyrir verðminni afurð og hvað með að bera saman epli og epli en ekki epli og appelsínur eins og Heiðrún sakaði mig um að gera í áðurnefndu Kastljósviðtali um verðlagningu á markrílafurðum.

Hvað er það sem veldur þessum gríðarlega verðmun enn og aftur? Og bara þannig að því sé haldið til haga þá á þessi verðmunur á milli norsku skipanna og íslensku ekki einungis við hvað loðnu varðar, þetta á líka við aðrar uppsjávartegundir eins og síld og makríl eins og margoft hefur verið fjallað um.

En það er ekki „bara“ að verið sé að hlunnfara íslenska sjómenn með því að greiða ekki rétt verð til sjómanna, það er líka verið að hlunnfara íslensku þjóðina í formi skatttekna og hafnargjalda.

Mér reiknast til að ef íslenskir sjómenn hefðu í það minnsta fengið sama meðalverð og norskir sjómenn fengu fyrir loðnuna sem þeir veiddu við Íslandsstrendur á nýafstaðinni loðnuvertíð þá hefði aflahlutur íslenskra sjómanna verið 1,4 milljarði hærri en hann var og ríki og sveitarfélög urðu því af 652 milljónum í skatttekjum.

Ætlar einhver að segja að þetta mál þarfnist ekki opinberrar rannsóknar? Hvar eru stjórnvöld og alþingismenn? Ætla stjórnvöld að láta útgerðina sem er með veiðar og vinnslu á sömu hendi ákvarða og skammta verð til sjómanna til að koma sér hjá því að greiða rétt verð til sjómanna með umtalsverðum skaða ekki bara fyrir sjómenn heldur einnig fyrir ríki og sveitarfélög í formi opinberra gjalda?

Nei, meðan ekki liggja fyrir gögn og alvöru útskýringar af hálfu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á þessum gríðarlega verðmun loðnu á milli Noregs og Íslands er ekki hægt að kalla þetta neitt annað en einn stærsta launaþjófnað um langt árabil.

Ég kalla enn og aftur eftir opinberri óháðri rannsókn á þessum verðmun sem er að skaða íslenskt samfélag illilega. En þessi verðmunur á milli meðalverða sem greidd voru er að hafa af íslenskum sjómönnum eins og áður sagði 1,4 milljarða sem er um 30% af öllum auðlindagjöldum sem sjávarútvegurinn greiðir á þessu ári!

Það má því segja að íslenskir loðnusjómenn séu látnir greiða 30% af auðlindagjöldum í sjávarútvegi í ár vegna þess að verið er að hlunnfara þá illilega með því að greiða ekki hæsta verð eins skýrt er kveðið á um í kjarasamningi sjómanna!

17
Mar

Bjarg íbúðafélag auglýsir

Tvær 2ja herbergja leiguíbúðir Bjargs í Asparskógum

Íbúðirnar eru 52,8 m² og eru á 2. hæð, í tveggja hæða húsi.

Áætlað leiguverð er kr. 105.000 á mánuði. Hlutfall íbúðar í sameiginlegum kostnaði er kr. 7.076 á mánuði. 

Leigutakar eiga almennt rétt á húsnæðisbótum og í einhverjum tilfellum sérstökum húsnæðisstuðningi til að koma til móts við leigugjaldið. 

Önnur íbúðin getur verið laus fljótlega og hin frá 1. júlí 2021.

Umsóknir og nánari upplýsingar á heimasíðu Bjargs, www. bjargibudafelag.is

Úthlutun hlýtur sá umsækjandi sem uppfyllir öll skilyrði um úthlutun; hefur greitt til stéttarfélags innan ASÍ eða BSRB í a.mk. 16 mánuð, litið til sl. 24 mánuði við úthlutun og er innan tekjumarka,

þá að skattskyldar tekjur séu ekki hærri en 6.420.000/8.988.000 (einstaklingur/hjón) skv. skattaframtali og hefur lægsta númer á biðlista hjá Bjargi.

11
Mar

Opið fyrir orlofshúsaumsóknir sumarið 2021

Nú er búið að opna fyrir umsóknir í orlofshúsin okkar í sumar.

Á sumrin er boðið upp á dvöl í orlofshúsum félagsins í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum, Ölfusborgum, Kjós og öllum þremur íbúðunum á Akureyri.

Alls á félagið 11 íbúðir/sumarhús.   Við höfum einnig verið með á leigu sumaríbúð í Vestmannaeyjum. 

Vegna fjölda ábendinga munu skiptidagar verða miðvikudagar.

Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins.

Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli.

Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá eldri úthlutað. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu.

Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar.

Fyrir endurúthlutun er heimilt að breyta umsóknum og leggja inn nýjar. Eftir eindaga endurúthlutunar verða lausar vikur auglýstar hér á heimasíðunni og hægt verður að bóka þær á Félagavefnum og á skrifstofu félagsins.

Gildir þá hin ágæta regla: Fyrstur kemur, fyrstur fær.

Hér eru helstu dagssetningarnar varðandi sumarið: 

26. mars - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús

29.mars - Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá svarbréf í pósti (einnig er hægt að sjá strax hvort bókun hafi myndast inni á Félagavefnum)

12. apríl  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

13.apríl  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

 - Kl. 12:00 - Fyrstir koma, fyrstir fá! Þeir sem fyrstir koma geta bókað lausar vikur, líka á Félagavefnum (athugið að eftir eindaga endurúthlutunar getur lausum vikum fjölgað)

21.apríl - Eindagi endurúthlutunar, ógreiddar vikur verða lausar til bókunar á Félagavefnum.

Hér er hægt að skrá sig inn á félagavefinn

Hér er bæklingurinn um sumarhúsin 

Hér er umsóknareyðublað sem hægt er að prenta út.

10
Mar

Fundað í kjaradeilu VLFA og Elkem Ísland

Samningafundur var haldinn vegna kjarasamnings félagsins við Elkem Ísland í gær. Ágætis gangur var í viðræðunum í gær en búið er að samlesa kjarasamninginn og taka út þau ákvæði og bókanir sem ekki eiga við lengur.

Einnig var launaliðurinn og atriði honum tengd til umræðu á fundinum og miðað við ganginn í viðræðunum og þann árangur sem náðist í gær þá telur formaður allt eins líklegt að það takist að klára samninginn í næstu viku.

En rétt er að geta þess að samningurinn rann út um síðustu áramót og eru því liðnir rúmir 3 mánuðir frá því samningurinn rann út en að sjálfsögðu mun samningurinn gilda frá þeim tíma sem hann rann út.

Næsti fundur verður í næstu viku en enn standa örfá atriði útaf og því getur alveg brugðið til beggja vona um að það takist að klára nýjan kjarasamning í næstu viku. En formaður eygir þá von að þau atriði sem útaf standa leysist einnig farsællega.

Eins og áður hefur komið fram þá byggist kjarasamningurinn upp á sambærilegum launabreytingum og samið var um hjá Norðuráli en sá samningur gaf rúm 7% í upphafshækkun í heildina.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image