• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

14
Feb

Áttundi samningafundur við Norðurál haldinn í gær

Áttundi samningafundurinn vegna kjarasamnings Norðuráls var haldinn í gær. Á þessum fundi var haldið áfram að fara yfir stöðuna sem lýtur að því að bjóða starfsmönnum möguleika á því að skipta um vaktakerfi eða úr 12 tíma kerfi yfir í 8 tíma kerfi. Þessi vinna er á lokametrunum.

Einnig voru aðrar kröfur ræddar í gær og kom formaður því á framfæri við forsvarsmenn Norðuráls að mikilvægt væri nú að klára samninginn þannig að hægt væri að leggja hann í dóm starfsmanna Norðuráls.

Vonast formaður til þess að á næsta fundi sem verður á fimmtudaginn í næstu viku að það fari að sjást til lands í þessum viðræðum þótt vissulega sé nokkur atriði ókláruð og brugðið getur til beggja átta hvað þau atriði varðar.

Það er hins vegar rétt að geta þess að þessar viðræður hafa gengið bara nokkuð vel til þessa þrátt fyrir að viðfangsefnið sé afar flókið enda um mikla kerfisbreytingu að ræða hvað vaktarkerfið varðar.

14
Feb

Kjarasamningur við Elkem Ísland undirritaður í gær

Í gær undirritaði Verkalýðsfélag Akraness, ásamt trúnaðarmönnum og hinum stéttarfélögunum sem eiga aðild að kjarasamningi Elkem Ísland undir nýjan kjarasamning við forsvarsmenn Elkem.

Það er skemmst frá því að segja að kjarasamningurinn gildir einungis til næstu ármóta sem var ósk fyrirtækisins. En eins og kom fram hér á heimsíðunni í október á síðasta ári þá hækkaði raforkusamningur fyrirtækisins við Landsvirkjun gríðarlega eða sem nam 1,3 milljarði á ári.

Forstjóri Elkem sagði í kjölfarið á fundi að fyrirtækið þyrfti að grípa til róttækra hagræðingaraðgerða m.a. með því að fækka starfsmönnum um 15%. Hann sagði einnig að framtíð fyrirtækisins myndi ráðast á næstu 12 til 14 mánuðum og á þessari forsendu treysti fyrirtækið sér ekki til að gera lengri kjarasamning.

Þessi kjarasamningur er því gerður í ljósi þessara aðstæðna og munu laun starfsmanna hækka um 2,5% frá 1. Janúar 2020 auk þess verður orlof starfsmanna aukið og tvær svokallaðir skilavaktir aflagðar.

Verkalýðsfélag Akraness mun kynna kjarasamninginn næsta miðvikudag (19. febrúar) og verða tveir fundir haldnir á Gamla Kaupfélaginu, en sá fyrri hefst klukkan 13:00 og sá síðari klukkan 18:30.

10
Feb

Tímakaupsfólk hjá Akraneskaupstað fékk leiðréttingu á eingreiðslum sem nam rúmum 3,2 milljónum

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá kom upp ágreiningur við Sambands íslenskra sveitafélaga um það hvort tímakaupsfólk ætti rétt á eingreiðslu sem kom til útborgunar í febrúar í fyrra.

Verkalýðsfélag Akraness hélt því staðfastlega fram að tímakaupsfólk ætti eins og aðrir starfsmenn sveitafélaganna rétt á umræddri eingreiðslu en Samband íslenskra sveitafélaga var á öndverðu meiði hvað það varðaði.

Verkalýðsfélag Akraness sá sig knúið að fara með málið fyrir Félagsdóm og er skemmst frá því að segja að dómurinn tók undir allar dómskröfur félagsins í málinu.  Núna er búið að greiða eingreiðsluna til tímakaupsfólks á Akranesi og nemur leiðréttingin í heildina 1.347.970 kr.

Eftir að þessi dómur í Félagsdómi var kveðinn upp kom í ljós að önnur eingreiðsla sem greidd var út í ágúst á síðasta ári vegna dráttar á nýjum kjarasamningi var ekki heldur rétt reiknuð út hjá tímakaupsfólki og gerði Verkalýðsfélag Akraness athugsemdir við hana við Akraneskaupstað.  Ekki var ágreiningur um að sú eingreiðsla væri vitlaust reiknuð út og var hún því leiðrétt og nam sú leiðrétting 1.855.304 kr.

Samtals hefur því Verkalýðsfélag Akraness náð að verja réttindi tímakaupsfólks í þessum tveimur málum að fjárhæð 3.203.274 kr.

En leiðréttingum vegna vangreiddra launa hjá tímakaupsfólki er ekki lokið, því leiðrétta á eftir útreikning á orlofs-og desemberuppbótum tvö ár aftur í tímann.

08
Feb

Tveggja daga trúnaðarmannanámskeiði VLFA lauk í gær

Í gær lauk tveggja daga trúnaðarmannanámskeiði fyrir trúnaðarmenn Verkalýðsfélags Akraness.

Á þessu námskeiði var kenndur þriðji hluti námskeiða fyrir trúnaðarmenn,  en þessi hluti laut að lestri á launaseðlum og launaútreikningum sem kennt var fyrri daginn, en síðari dagurinn laut að almannatryggingum og lífeyrissjóðum.

Það voru 14 trúnaðarmenn Verkalýðsfélags Akraness sem voru skráðir á þetta námskeið,  það skiptir öll stéttarfélög miklu máli að vera með öfluga trúnaðarmenn enda eru þeir tengiliðir stéttarfélaganna inn á vinnustaðina.

08
Feb

Ísfiskur tekið til gjaldþrotaskipta

Eitt höggið enn sem við Akurnesingar verðum fyrir er orðið að staðreynd, en í dag rann upp sú stund að stjórn Ísfisks hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu og því klárlega komið á hreint að endurkoma tæplega 50 starfsmanna í fiskvinnslu til starfa hjá þessu ágæta fyrirtæki verður ekki að veruleika.

Það liggur fyrir að flestir eygðu þá von að Ísfiskur myndi ná að endurfjármagna sig og hefja vinnslu af fullum krafti að nýju, eftir nokkra mánaða hlé, en nú er þeirri draumsýn endalega lokið.

Það má segja að það séu takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja miklar hremmingar á eitt samfélag  í atvinnumálum, en það verður ekkert undan því litið að atvinnuástand hér á Akranesi er ekki glæsilegt um þessar mundir og er þar vægt til orða kveðið.

Að hugsa sér að fyrirkomulag um stjórn fiskveiða skuli vera þess valdandi að einn stærsti útgerðabær landsins skuli hafa verið lagður í rúst, hvað varðar veiðar og vinnslu sjávarafurða.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill minna á að fyrir sameiningu Haraldar Böðvarssonar & co við Granda árið 2004 störfuðu 350 manns hjá fyrirtækinu og fyrirtækið greiddi út laun það árið fyrir 2,2 milljarða, núvirt eru þetta 4,7 milljarðar. Það var landað um 170 þúsundum tonna á Akranesi árið 2004, en í dag er allt farið.

Nú kalla sum sveitarfélög eftir mótvægisaðgerðum frá stjórnvöldum vegna loðnubrests, en hvað megum við Akurnesingar segja þar sem öllum aflaheimildum okkar hefur nánast verið rænt af samfélaginu vegna græðgisvæðingar tengdum framsalskerfinu.

Takið eftir, enn og aftur, að árið 2004 greiddi Haraldur Böðvarsson laun vegna veiða og vinnslu inn í okkar samfélag sem námu 2,2 milljörðum, núvirt 4,7 milljarðar og ekkert kom í staðin. Til að setja þetta í samhengi þá væri þetta eins og að Reykjavíkurborg myndi missa launagreiðenda sem greiddi laun fyrir 75 milljarða á ári!

Var einhver að tala um að einhver sveitafélög þyrftu mótvægisaðgerðir? Já, við Akurnesingar þurfum svo sannarlega mótvægisaðgerðir af hálfu stjórnvalda, enda er ábyrgð stjórnmálamanna á þessum hamförum sem nú hefur enn og aftur riðið yfir okkar dásamlega samfélag verið mikil.

Verkalýðsfélag Akraness hefur verið á fullu að aðstoða félagsmenn sína sem ekki fengu greidd laun sín frá því september á síðasta ári og mun Verkalýðsfélag Akraness lána öllum þeim félagsmönnum sínum 250 þúsund krónur strax eftir helgi með veði í kröfu á Ábyrgðarsjóðlauna. En vangreidd laun starfsmanna Ísfisks nema rétt tæpum 42 milljónum króna til félagsmanna VLFA.

Hugur formanns og stjórnar Verkalýðsfélags Akraness er hjá félagsmönnum sínum sem hafa þurft, enn og aftur að upplifa tekjumissi og atvinnumissi, en stór hluti þeirra sem starfaði hjá Ísfiski fengu uppsögn hjá HB Granda þegar þeir fóru í skjóli nætur í burtu frá Akranesi með allar okkar aflaheimildir árið 2017.

Formaður VLFA vísar ábyrðinni á stjórnmálamenn sem hafa skapað þetta umhverfi í kringum fiskveiðistjórnunarkerfið þar sem einstaka útgerðamenn eða útgerðir geta labbað út úr greininni og skilið fólkið eftir í djúpum sárum og um leið veitt samfélaginu öllu þungt högg í kviðinn með þeim afleiðingum að samfélagið er í keng!

05
Feb

Sjöundi samningafundur við Norðurál haldinn í dag

Í dag var sjöundi kjarasamningsfundurinn með forsvarsmönnum Norðuráls haldinn en þetta var ágætis fundur.

Eins og fram hefur komið þá er eitt að aðalverkefnum í þessum viðræðum að kanna og reyna hvort hægt sé að ná niðurstöðu um að breyta vaktakerfi í kerskála og steypuskála úr 12 tíma vöktum í 8 tíma vaktir eins og tíðakast í öllum sambærilegum verksmiðjum.

Það er skemmst frá því að segja að við sjáum til lands í þeirri vinnu og er upplagið nánast frágengið og því orðið ljóst að vaktavinnufólk mun fá tækifæri til þess að kjósa um hvort fólk vilji óbreytt 12 tíma vaktakerfi eða fara yfir á 8 tíma fjölskylduvænna og manneskjulegra vaktakerfi.

Nú liggur fyrir að ræða þarf önnur kjaraatriði eins og launabreytingar en þar er ófrávíkjanleg krafa frá starfsmönnum að halda áfram að miða launabreytingar við launavísitöluna.

Næsti fundur verður í næstu viku en vonast formaður til þess að eftir hálfan mánuð eða svo verði kominn á nýr kjarasamningur til handa starfsmönnum Norðuráls.

05
Feb

Formaður VLFA og bæjarstjóri Akraneskaupstaðar funduðu með íbúum Holtsflatar og Eyraflatar

Í gær hélt Verkalýðsfélag Akraness og bæjarstjóri Akraneskaupstaðar fund með íbúum á Holtsflöt 4 og Eyrarflöt 2 og var fundurinn haldinn á Gamla kaupfélaginu.

En til fundarins var boðað vegna þeirrar skelfilegu stöðu sem upp kom þegar leigufélagið Heimavellir ákvað allt í einu að selja allar leiguíbúðir félagsins til nýrra aðila sem ekki hafa í hyggju að leigja þær áfram út, heldur að selja þær.

Við þennan siðlausa gjörning Heimavalla voru 26 fjölskyldur settar í fullkoma óvissu um framtíð þess að hafa öruggt húsnæði.

Það var mat formanns VLFA og bæjarstjóra Akraneskaupstaðar að við þessu neyðarástandi hjá þessu ágæta fólki yrði að bregðast við og á þeirri forsendu fór formaður VLFA í það að leita að íbúðum til að lágmarka þann skaða og óvissu sem þetta siðlausa framferði Heimavalla hafði skapað umræddum íbúum.

Það jákvæða var að á fyrstu stigum málsins höfðu eigendur Uppbyggingar sem eiga Asparskóga 29 sem er nýtt fjölbýlishús samband við formann VLFA og bæjarstjóra Akraneskaupstaðar og bauðst til að bregðast við þessu neyðarástandi með því að koma með allt að 10 íbúðir inná leigumarkaðinn handa þessu fólki.

En hér er um að ræða 5 þriggja herbergja íbúðir og 5 fjögurra herbergja íbúðir og er vert að þakka eigendum Uppbyggingar fyrir að bregðast svona vel við þessum aðstæðum.

En eftir samtal við eigendur Uppbyggingar var ákveðið að bjóða fólki að taka íbúðirnar á svokallaðri kaupleigu sem byggist á því að þegar svokölluð hlutdeildarlán verða orðin að lögum og fólkið uppfyllir þau skilyrði sem verða í kringum hlutdeildarlánin þá verði hægt að nota hluta af leiguverðinu sem útborgun í íbúðinni ef fólk vill kaupa hana.  Þetta er mjög jákvætt en nú er bara að bíða eftir að hlutdeildarlánin verða lögfest en áætlað er að það verði á vorþinginu.

Hins vegar liggur fyrir að fjögra herbergja íbúðirnar munu ekki rúmast innan tekjumarka hlutdeildarlánanna og því verða þær leigðar í langtímaleigu.  Það ber svo sannarlega að þakka eigendum Uppbyggingar fyrir þeirra framlag við að koma til móts við þetta neyðarástand sem skapast hefur hjá þessu fólki.

Þetta voru ekki einu íbúðirnar sem formaður VLFA og bæjarstjóri Akraness náðu að útvega í þetta neyðarverkefni heldur var íbúum tilkynnt að íbúðir væru lausar á Holtsflöt 6.  En þar var um þrjár þriggja herbergja og ein fjögurra herberja.  Síðan var íbúum einnig tilkynnt að formaður VLFA og bæjarstjóri Akraneskaupstaðar hefðu reddað þremur þriggja herbergja leiguíbúðum á Asparskógum.

Einnig fór bæjarstjóri Akraneskaupstaðar yfir aðrar lausnir sem hann er að vinna að með Mannvirkjastofnun og einnig leigufélaginu Bjargi en ekki væri hægt að greina nákvæmlega frá þeirri vinnu þar sem hún væri á frumstigi.

Þetta var mjög góður fundur og ánægjulegt að finna þakklætið frá íbúum í okkar garð vegna þeirra vinnu sem við höfum lagt í þetta neyðarverkefni.  En ljóst er að öll þessi úrræði munu ekki uppfylla þarfir og væntingar allra, því miður.

04
Feb

Formaður fundaði með starfsmönnum Þorpsins í gærkveldi

Í gær átti formaður félagsins góðan kynningarfund með starfsmönnum Þorpsins á Akranesi en Þorpið er m.a. félagsmiðstöð fyrir unglinga.

Formaður fór yfir réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði sem og nýgerðan kjarasamning félagsins við Akraneskaupstað að ógleymdum þeim réttindum sem starfsmenn öðlast við að vera félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness.

Þetta var hörku fundur og var afar ánægjulegt að heyra hversu margar og fjölbreytar spurningar starfsmenn Þorpsins komu með á fundinum. Formaður lagði mikla áherslu á að starfsmenn kynntu sér vel réttindi sín í kjarasamningum og færu ávallt vel yfir launaseðla sína um hver mánaðarmót.

Á fundinum var kosinn trúnaðarmaður en um 25 starfsmenn starfa hjá Þorpinu.

03
Feb

Formenn, VLFA, VR og bæjarstjóri Akranes funda með íbúum sem leigðu hjá Heimavöllum á morgun

Á morgun mun formaður Verkalýðsfélags Akraness, bæjarstjórinn á Akranesi og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR funda með íbúum á Holtsflöt 4 og Eyrarflöt 2 vegna þess neyðarástands sem hefur skapast eftir að Heimavellir ákváðu að selja allar leiguíbúðir félagsins hér á Akranesi.

Formaður og bæjarstjórinn hafa verið að reyna að aðstoða þá einstaklinga sem eru að lenda í klónum á þessari siðlausu ákvörðun Heimavalla m.a. með því að leita að íbúðum til leigu handa þessum einstaklingum sem þarna eiga í hlut.

Það hefur gengið nokkuð vel og verða möguleikar í stöðunni kynntar fyrir íbúum á fundinum á morgun. Einnig mun formaður VR fara yfir hugmyndir að nýjum svokölluðum hlutdeildarlánum.

En til upprifjunar á málinu þá hefur formaður fjallað um þá framkvæmd sem leigufélagið Heimavellir gerðu og þann ótrúlegan gjörning og siðlausa athæfi sem laut að því að selja bæði Holtsflöt 4 og Eyrarflöt 2 með þeim afleiðingum að nánast 26 fjölskyldur er í fullkominni angist og kvíða vegna þess að þau verða húsnæðislaus á næstu mánuðum.

Eins og flestir vita þá keyptu Heimavellir þessar íbúðir af Íbúðalánasjóði og sérkjörum á sínum tíma með þeim formerkjum að tryggja öflugan og tryggan leigumarkað hér á Akranesi.

En nú örfáum árum síðar hafa Heimavellir pakkað saman og selt nánast allar eignir sem þeir fengu á sérkjörum frá Íbúðalánasjóði á sínum tíma.

En hvað skyldi nú Heimavellir hafa selt íbúðirnar á til nýrra eigenda? Jú, ég hef aflað mér þær upplýsingar og hef kaupsamninga undir höndum og þar kemur í ljós að 18 íbúðir að Holtsflöt 4 voru seldar á 582 milljónir sem gerir að meðaltali rétt rúmar 32 milljónir á íbúð! En rétt er að geta þess að fasteignamat fyrir árið 2020 var rétt tæpar 860 milljónir eða 276 milljónum undir fasteignamati eða 47%.

Heimavellir seldu einnig 8 íbúðir á Eyrarflöt 2 til sömu aðila á 190 milljónir sem gerir að meðaltalsverð á pr. íbúð var 23,7 milljónir. Hins vegar nemur fasteignamat fyrir árið 2020 á þessum 8 íbúðum á Eyrarflötinni um 260 milljónum eða 37% undir fasteignamati.

Með öðrum orðum þá seldu Heimavellir þessum nýju eigendum Eyrarflöt 2 og Holtsflöt 4 þessar tvær blokkir 341 milljónum undir fasteignamati. En rétt er að geta þess að Holtsflöt 4 var byggð árið 2007 og er meðaltals fermetri á íbúð á Holtsflötinni 123 fermetrar. Eyrarflöt 2 var byggð árið 2004 og meðalfermetri á íbúð 78,6 fermetrar.

Það sem líka vekur undrun mína er að Íbúðarlánasjóður virðist blessa söluna á Eyrarflötinni því það voru kvaðir sem kváðu á um að óheimilt væri að hafa eigendaskipti á íbúð sem hvílir lán til leiguhúsnæðis, nema að til komi samþykki stjórnar Íbúðalánssjóðs. Það er ekki að sjá annað en að stjórn Íbúðalánssjóðs hafi heimilað þessi eigendaskipti og það þrátt fyrir að selja eigi allar íbúðirnar!

Það er algjörlega með ólíkindum að Heimavellir skuli hafa vogað sér að selja þessar eignir langt undir fasteignamati án þess að bjóða leigjendum kaup á íbúðunum með sama gríðarlega afslætti og þarna átti sér stað. Siðleysið og vanvirðingin gagnvart sínum leigjendum er algert og það er eins og forsvarsmenn Heimavalla hafa algerlega gleymt þeirri staðreynd að á bakvið þennan gjörning eru manneskjur og barnafólk sem þurfa að þjást og lifa við mikinn kvíða við að finna sér og sínum þak yfir höfuðið.

Ég ítreka enn og aftur það sem ég hef áður skrifað um þetta mál hafi Heimavellir algera skömm fyrir þessa ómanneskjulegu framkomu gagnvart grandalausum leigjendum!

29
Jan

Sjötti samningafundur við Norðurál var í gær

Í gær var haldinn sjötti kjarasamningafundurinn með forsvarsmönnum Norðuráls og hafa viðræðurnar gengið þokkalega til þessa.

Aðalfókusinn á síðustu fundum hefur verið á þær hugmyndir að breyta vaktakerfinu í kerskála og steypuskála - úr 12 tíma vaktakerfi í 8 tíma vaktakerfi eins og tíðkast í öllum sambærilegum verksmiðjum í orkusæknum iðnaði.

En hér yrði um gríðarlega breytingu um að ræða ef samkomulag næst en í 12 tíma vaktakerfinu eru starfsmenn að skila 182 vinnustundum á mánuði en í 8 tíma vaktakerfinu er starfsmenn að skila 145,6 vinnustundum á mánuði.

Þetta myndi leiða af sér að á nýju 8 tíma vaktakerfi myndu starfsmenn skila að meðaltali að frádregnu orlofi 1552 vinnustundum í stað 1876 vinnustundum á ári,  sem þýðir að vaktavinnumenn í Norðuráli myndu vinna 324 vinnustundum minna en þeir gera á 12 tíma vaktakerfinu. Sem þýðir einnig að starfsmenn skila að jafnaði 27 vinnustundum minna á mánuði eða heilum 2 mánuðum minna á ári en í 12 tíma vaktakerfinu.

Það er morgunljóst og sést á öllum hinum verksmiðjunum að þetta 8 tíma vaktakerfi er mun manneskjulegra og fjölskylduvænna að ógleymdu því að það er lýðheilsumál að draga úr miklu vinnuframlagi vaktavinnufólks sem vinnur alla daga ársins jafnt að degi, kveldi eða nóttu.

Hins vegar liggur fyrir að aðalkrafa starfsmanna NA er að samið verði með sama hætti og í síðasta kjarasamningi hvað launabreytingar varðar en þar verið að tala um að laun starfsmanna Norðurál hækki í takt við launavísitölubreytingar.

Næsti fundur hefur verið boðaður þriðjudaginn 4  febrúar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image