• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

06
Sep

Fyrsti samningafundur með Samtökum atvinnulífsins

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands fundaði með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins í höfuðstöðvum SA í morgun og var þetta fyrsti formlegi samningafundurinn. Rétt er þó að geta þess að SGS afhenti SA kröfugerð sína 22. júní eða fyrir rúmum 2 mánuðum síðan.

 

Á fundinum var gengið frá viðræðuáætlun og voru samningsaðilar sammála því að reyna eftir fremsta megni að láta þessar kjaraviðræður ganga eins hratt og vel fyrir sig og kostur er. Fram kom í máli formanns SGS að æði margt hafi breyst til verri vegar frá því að kröfugerðin var lögð fram 22. júní þar sem hinir ýmsu kostnaðarliðir hafa hækkað umtalsvert og því ljóst að alvarleg staða er komin upp. Það verður sameiginlegt verkefni að ná að ganga frá kjarasamningum þannig að okkur takist að auka ráðstöfunartekjur okkar félagsmanna þar sem markmiðið er að allir geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn.

06
Sep

Formannafundur SGS var haldinn í gær

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands var haldinn í gær á Hótel Natura þar sem farið var yfir hin ýmsu mál. Að sjálfsögðu voru komandi kjarasamningar þar efst á baugi. Það kom skýrt fram hjá formönnum að staðan í komandi kjaraviðræðum er snúin enda liggur fyrir að þær gríðarlegu kostnaðarhækkanir sem orðið hafa á öllum sviðum hafa áhrif á lífskjör félagsmanna. Það má segja að þessi misserin sé að skapast sannkölluð lífskjarakrísa. Leigurverð hefur hækkað mikið, vextir sömuleiðis sem og allar nauðsynjavörur og það er samróma álit formanna SGS að bæta þurfi stöðu félagsmanna eins og kostur er í komandi kjaraviðræðum.

 

Einnig kom nýráðinn framkvæmdastjóri, Björg Bjarnadóttir, á fundinn og kynnti sig. Óskuðu formenn henni til hamingju með starfið með ósk um gott samstarf.

11
Aug

Forsætisráðherra fundaði með formanni í gær

Í gær kom Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Henný Hinz aðstoðarmanni ríkistjórnarinnar á sviði vinnumarkaðsmála í heimsókn á skrifstofu félagsins.

Með formanni VLFA og SGS á fundinum sat nýráðinn framkvæmdastjóri SGS Björg Bjarnadóttir. Eðli málsins samkvæmt voru komandi kjaraviðræður á hinum almenna vinnumarkaði aðalumræðuefnið og kom formaður SGS því vel á framfæri hverjar áherslur SGS eru í komandi kjarasamningum.

Það kom fram í máli formanns að hann hefur verulegar áhyggjur af komandi kjaraviðræðum í ljósi þess að enn og aftur hefur grátkór auðvaldsins hafið upp raust sína að ekkert sé til skiptanna og svigrúm til launabreytinga sé ekkert.

Formaður sýndi forsætisráðherra fyrirsagnir sem birst hafa í fjölmiðlum í aðdraganda kjarasamninga á liðum árum og áratugum og þar sést að aldrei hefur við svigrúm til launahækkana þegar kemur að því að semja fyrir verkafólk, aldrei!

Formaður vék einnig að stöðu útflutningsgreina þar sem allar hagtölur sýna að blússandi gangur er hjá þeim öllum.   Álverin skiluðu um 50 milljörðum í hagnað í fyrra, kísilverin skiluðu einnig frábæri afkomu, þrjú stærstu sjávarútvegsfyrirtækin skiluðu yfir 40 milljörðum í hagnað og einnig liggur fyrir að ferðaþjónustan er á blússandi uppleið, enda landið nánast uppselt.

Spáð er að arðgreiðslur til fyrirtækja muni nema um 200 milljörðum á þessu ári og samt voga hagsmunaaðilar auðvaldsins sér að halda því fram að ekkert sé til skiptanna.

Formaður vék einnig að því að í lífskjarasamningum hafi verkalýðshreyfingin lagt grunn að því að skapa stöðugleika í formi lágrar verðbólgu og hagstæðra vaxtakjara fyrir launafólk en ytri aðstæður eins framboðskortur á húsnæði, Covid og stríðið í Úkraníu hafi valdið því að verðbólgan hefur farið á flug að nýju.

Allt atriði sem launafólk ber ekki nokkra ábyrgð á og því fráleitt að ætlast til þess að launafólk leggi til fórnir enn og aftur enda hefur nánast allur ávinningur af síðasta kjarasamningi sogast í burtu yfir til fjármálakerfisins, einnig hafa leigjendur þurft að þola miklar hækkanir að ógleymdum aukum útgjöldum vegna hækkunar á matar og bensínverði sem og aðrar hækkanir sem dunið hafa á neytendum.

Formaður vék einnig að því hvernig munurinn er á milli íslensku vístölunnar og Samræmdri vísitölu neysluverðs sem mæld er eins í 27 ríkjum ESB og EES. En vegna þess að við erum með eigið húsnæði inní íslensku vísitölunni þá hefur hún ætíð mælst mun hærri en samræmda vísitalan sem leiðir til þess að verðtryggðar skuldir heimilanna og leiguverð hefur hækkað mun meira fyrir vikið.

Það var gott að fá tækifæri til að koma þessum áherslum milliliðalaust til forsætisráðherra og ber formaður þá von að hún hafi meðtekið þá alvarlegu stöðu sem blasir við launafólki og heimilum og var m.a. staðfest í könnun sem Fréttablaðið lét gera þar sem fram kom að 33,3% eiga í erfiðleikum að ná endum saman um hver mánaðarmót!

08
Aug

Ríkissáttasemjari í heimsókn á skrifstofu VLFA

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari kom í heimsókn á skrifstofu félagsins í morgun og átti tæplega tveggja tíma samtal við formann VLFA sem jafnframt er formaður SGS.

Eðli málsins samkvæmt voru komandi kjaraviðræður á hinum almenna vinnumarkaði aðalumræðuefnið. En ljóst er að komandi kjarasamningar verða afar snúnar og erfiðar, enda ljóst að nánast allur ávinningur af síðasta kjarasamningi er búin að sogast í burtu vegna vaxandi verðbólgu og hækkandi vaxta og leiguverðs.

Það verður mikil áskorun að ná saman nýjum kjarasamningi sem tryggir og varðveitir kaupmátt launafólks, enda liggur fyrir að lífskjarasamningurinn átti að tryggja lága verðbólgu og hagstæðari vaxtakjör. Þau markmið náðust á fyrra hluta samningstímabilsins en á síðustu 12 mánuðum eða svo hefur svo sannarlega hallað undan fæti með hækkandi verðbólgu og hækkandi vöxtum.

Eitt er víst að lífskjarasamningurinn var skynsamur og launafólk gerði allt rétt enda voru allir sammála um að hann myndi tryggja stöðugleika í íslensku samfélagi. Hins vegar er utanaðkomandi atriði eins og framboðsskortur af íbúðarhúsnæði og áhrif af Covid og stríðinu í Úkraníu sem hafa keyrt verðbólguna upp hér á landi sem og víðar um heimsbyggðina.

Eitt er víst að verkalýðshreyfingin verður að verja lífskjör sinna félagsmanna með öllum tiltækum ráðum og muni komandi kjarasamningar ráðast af því að eyða og draga úr óréttlæti, misskiptingu og ójöfnuði í íslensku samfélagi.

Þetta var gott spjall við Aðalstein, enda er ríkissáttasemjara umhugað að þjónusta samningsaðila eins vel og kostur þegar kjaraviðræður eru í gangi milli samningsaðila.

27
Jul

Björg Bjarnadóttir ráðin sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands

Björg Bjarnadóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands og mun hún hefja störf 1. október næstkomandi.

Björg starfaði sem skrifstofustjóri hjá einu af aðildarfélögum SGS í um 13 ár og þekkir því innviði í starfsemi stéttarfélaga mjög vel. Frá 2018 hefur Björg starfað við kennslu í Fjölbrautarskóla Vesturlands ásamt því að gegna stöðu forstöðumanns bókasafns og sjá um skjalavörslu fyrir fjölbrautarskólann. Hún hefur einnig starfað sem VIRK-ráðgjafi fyrir öll stéttarfélögin á Akranesi og var einn af fyrstu ráðgjöfum sjóðsins og tók þátt í þróun og uppbyggingu þjónustunnar frá upphafi. Hún sat sem aðalmaður í stjórn Festu lífeyrissjóðs frá 2013-2015 og sem varamaður frá 2015-2019 auk þess sem hún sat í verðlagsnefnd búvara á árunum 2015-2017. Þá hefur Björg sinnt hinum ýmsu félags- og sjálfboðaliðastörfum, m.a. umsjón með vikulegu barnastarfi hjá Rauða krossinum.

Björg hefur lokið meistaranámi í upplýsingarfræði (MIS-gráða), ásamt því að vera með viðbótardiplóma í opinberri stjórnsýslu, kennsluréttindi á meistarastigi og starfsréttindi sem grunn- og framhaldsskólakennari. Hún er auk þess með BA-próf í íslensku og stúdentspróf af félagsfræðibraut.

Ráðningarferlið var í höndum Hagvangs en alls bárust 13 umsóknir um stöðuna. Starfsgreinasambandið býður velkomna til starfa og óskar henni velfarnaðar í störfum sínum fyrir sambandið.

 
21
Jul

Sumarfrí

Vikuna 25. júlí til og með 29. júlí er skrifstofa félagsins lokuð vegna sumarleyfa.

Við opnum aftur þriðjudaginn 2. ágúst.

Ef erindið er mjög nauðynlegt má senda okkur póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. 

 

 

24
Jun

Kröfugerð SGS afhent Samtökum atvinnulífsins

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands afhenti fulltrúum Samtaka atvinnulífsins kröfugerð 17 aðildarfélaga sambandsins á síðasta miðvikudag. Í kröfugerðinni kemur skýrt fram að SGS leggur áherslu á að samið verði í anda þeirrar hugmyndafræði sem gert var í svokölluðum lífskjarasamningi þar sem horft var á krónutöluhækkanir sem og hagvaxtarauka ásamt fjölmörgum öðrum kröfum er lúta að hinum ýmsu réttindum félagsmanna.

Það er alveg ljóst að ef það á að takast að ganga frá kjarasamningum í haust þarf að mynda sterka keðju sem samanstendur af aðilum vinnumarkaðarins, stjórnvöldum, sveitarfélögum, verslun og þjónustu sem og aðkomu Seðlabankans. Þær kostnaðarhækkanir sem dunið hafa á launafólki, heimilum og neytendum á liðnum mánuðum, kostnaðarhækkanir sem nema í sumum tilfellum tugþúsunda aukningu á greiðslubyrði, munu ekki verða látnar átölulausar og því mikilvægt að allir komi að borðinu.

Það er einnig ljóst að ef ekki næst að auka ráðstöfunartekjur launafólks með margvíslegum hætti þá er verkalýðshreyfingunni nauðugur sá kostur að gera það að fullu í gegnum kjarasamningna í formi kauphækkana.

Viðræður munu hefjast að fullu að loknum sumarleyfum þó vissulega muni óformlegt spjall eiga sér stað áður en formlegar viðræður hefjast.

13
Jun

Sjómannadagurinn

Verkalýðsfélag Akraness vill óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn.

Sjómannadagurinn byrjaði á minningarorðum við minningarreit um týnda sjómenn í kirkjugarðinum hér á Akranesi, en þar var lagður blómsveigur til minningar um þá sjómenn sem ekki hafa fundist og hvíla hina votu gröf.

Að lokinni minningarstundinni var haldinn guðsþjónusta í Akraneskirkju sem var virkilega falleg, en þar var íslenskum sjómönnum þakkað þeirra frábæra framlag til gjaldeyrisöflunar fyrir þjóðarbúið. Að lokinni guðsþjónustunni var haldið að Akratorgi þar sem blómsveigur var lagður að styttu sjómannsins til minningar um látna sjómenn.

Það er mikilvægt fyrir almenning í þessu landi að þakka og sýna íslenskum sjómönnum virðingu fyrir þeirra störf sem eru oft á tíðum hættuleg og við krefjandi aðstæður, en eitt er víst að íslenskt samfélag væri ekki jafn sterkt ef ekki væri fyrir þá gjaldeyrisöflun sem sjómenn og fiskvinnslufólk skapar dag hvern.

09
Jun

Veiðileyfi í Svínadal endurgreitt að hámarki 5.900 kr.

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn á félagið endurgreiðir félagsmönnum sínum veiðileyfi í vötnunum í Svínadal að fjárhæð 5.900 kr. En í Svínadal í Hvalfirði eru 3 vötn, Eyrarvatn, Þórisstaðavatn og Geitabergsvatn.

Í þeim veiðist urriði, bleikja, sjóbirtingur og eitthvað af laxi þegar kemur fram á sumarið.

Hægt er að kaupa dagleyfi á kr. 2.500.- eða Sumarkort á kr. 5.900.- sem gilda í öll vötnin í allt sumar.

Frítt er fyrir börn 14 ára og yngri í fylgd með veiðileyfishafa.

Dagleyfin og Sumarkortin eru seld í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Eins og áður hefur komið fram endurgreiðir Verkalýðsfélag Akraness veðileyfin að hámarki 5900 kr..

25
May

Kjaramálaráðstefna SGS haldin á Hótel Örk

Kjaramálaráðstefna Starfsgreinasambands Íslands var haldin á Hótel Örk dagana 23. og 24. maí. Þar var unnið að drögum að komandi kröfugerð vegna kjarasamninganna sem losna í haust.

Það er skemmst frá því að segja að öll aðildarfélög SGS hafa nú þegar skilað umboði og kröfugerðum til SGS að undanskildum Stéttarfélagi Vesturlands og Eflingu. Ástæðan fyrir því að Efling hefur ekki skilað umboði og kröfugerð er vegna aðstæðna í félaginu en mikil vinna er við að koma skipulagi á starfsemi félagsins og því dregst hjá þeim að geta gengið frá sinni kröfugerð. Að sjálfsögðu er tekið tillit til slíkra aðstæðna en tíminn mun leiða í ljós hvort Efling muni ekki örugglega koma með okkur í komandi kjaraviðræður og telur formaður umtalsverðar líkur á að svo verði.

Það var ánægjulegt að sjá að mikill samhljómur var í kröfugerðum aðildarfélaga SGS en fyrri dag ráðstefnunnar gerðu formenn aðildarfélaga SGS grein fyrir kröfugerðum frá sínum félögum og eins og áður sagði voru kröfugerðirnar margar hverjar samhljóma.

Það sem stóð upp úr var að flestir vilja halda áfram með þá hugmyndafræði sem byggð var upp í lífskjarasamningnum sem undirritaður var í apríl 2019 og mun kröfugerð SGS væntanlega endurspegla þá hugmyndafræði. En það er ljóst að aðkoma stjórnvalda að kjarasamningunum í haust þarf að vera umtalsverð eins og hún var 2019. Því er mikilvægt að þríhliða viðræður eigi sér stað, það er að segja atvinnurekendur, verkalýðshreyfingin og stjórnvöld, ef á að vera hægt að ganga frá kjarasamningum í haust.

Gengið verður endanlega frá kröfugerðinni 8. júní en þá verður fundur haldinn á Grand Hóteli þar sem kosið verður um kröfugerðina og kosið í viðræðunefnd sem og tilkynnt hverjir munu leiða hvern hóp fyrir sig.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image