• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

09
Des

Kjarasamningsviðræður við Norðurál hafnar

Í dag var fyrsti samningafundurinn á milli stéttarfélaganna og Norðuráls, en núverandi kjarasamningur rennur út um komandi áramót og því stuttur tími sem samningsaðilar hafa til að ganga frá nýjum kjarasamningi áður en sá eldri rennur út.

Á þessum fyrsta samningafundi var lögð fram kröfugerð stéttarfélaganna og var gerð ítarleg grein fyrir henni en kröfugerðin er í 16 liðum. Eins og alltaf var kröfugerðin unnin í samvinnu við starfsmenn Norðuráls m.a með því að halda tvo opna fundi með starfsmönnum þar sem áherslur í kröfugerðinni voru mótaðar.

Nú liggur fyrir að okkar samningsaðilar hafa fengið kröfugerðina í hendur og var ákveðið að næsti fundur yrði á næsta mánudag en á þeim fundi munu forsvarsmenn Norðuráls væntanlega svara efnislega þeim liðum í kröfugerðinni sem eru undir í þessum viðræðum.

Það er svo sem ekkert launungarmál að aðalkrafan sem starfsmenn leggja langmestu áherslu á er að samið verði með sambærilegum hætti og gert var í síðasta kjarasamningi á milli aðila þ.e.a.s að laun taki mið að launavísitölu Hagstofunnar en það er ófrávíkjanleg krafa af hálfu starfsmanna.

05
Des

Málið sem VLFA vann í gær í Félagsdómi hefur mikið fordæmisgildi

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá vann Verkalýðsfélag Akraness mál gegn Sambandi íslenskra sveitafélaga er laut að rétti tímakaupsfólks til eingreiðslu að fjárhæð 42.500 kr. sem greidd var þann 1. febrúar á þessu ári.

En á óskiljanlegan hátt túlkaði Samband íslenskra sveitafélaga þessa eingreiðslu með þeim hætti að skilja ætti tímakaupsfólk eitt eftir án réttar til greiðslunnar.

Það er skemmst frá því að segja eins áður hefur komið fram að Félagsdómur tók undir allar dómkröfur Verkalýðsfélags Akraness og vann félagið því fullnaðar sigur í málinu sem kom formanni ekki á óvart enda blasti við að málatilbúnaður Sambands íslenskra sveitafélaga stóðst ekki eina einustu skoðun.

En það er morgunljóst að þessi dómur hefur mikið fordæmisgildi enda voru rök lögmanns Sambands íslenskra sveitafélaga þau að hvorki Reykjavíkurborg né ríkið hafi greitt umrædda eingreiðslu til starfsmanna sem tóku laun eftir tímakaupi.

Það er ekki bara það að Sveitafélögin, Ríkið og Reykjavíkurborg þurfi að greiða tímakaupsfólki umrædda eingreiðslu sem kemur út úr þessum dómi, heldur einnig það að búið er að hlunnfara tímakaupsfólk illilega þegar kemur að því að reikna út rétt til orlofs-og desemberuppbótar.

En sveitafélögin hafa einungis reiknað dagvinnutíma út þegar verið er að reikna út starfshlutfall sem myndar rétt til hversu háar orlofs-og desemberuppbætur tímakaupsfólk á rétt á, en ekki allt vinnuframlag þeirra eins og vinnu sem unnin er utan dagvinnutíma. En í dómi Félagsdóms er skýrt kveðið á um að starfshlutfall eigi að reiknast í samræmi við vinnuframlag.

Þetta hefur gert það að verkum að Verkalýðsfélag Akraness hefur nú þegar gert þá kröfu á Akraneskaupstað að sveitafélagið leiðrétti útreikning á orlofs-og desemberuppbótum tímakaupsfólks 4 ár aftur í tímann.

En það er alveg ljóst að þó nokkuð margir starfsmenn sveitafélaganna vítt og breitt um landið eiga rétt á leiðréttingu og það er verulega umhugsunarvert  hvernig Samband íslenskra sveitafélaga túlkar ranglega réttindi þeirra sem lökustu kjörin hafa hjá sveitafélögunum.

En eins og áður sagði hefur þessi dómur umtalsvert fordæmisgildi fyrir tímakaupsfólk og hvetur formaður Verkalýðsfélags Akraness starfsmenn vítt og breitt um landið sem og þá sem starfa hjá ríki og Reykjavíkurborg að kanna réttarstöðu sína í ljósi þessa dóms.

 

HÉR má lesa dóinn í heild.

04
Des

Verkalýðsfélag Akraness vinnur mál gegn Sambandi íslenskra sveitafélaga fyrir Félagsdómi

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness Sambandi íslenskra sveitafélaga fyrir félagsdóm. Málið laut að því að í kjarasamningi sem gerður var 2016 samþykkt að verða við ósk Sambands íslenskra sveitafélaga að láta kjarasamninginn gilda ekki til 1. Janúar 2019 heldur til 31. mars 2019 eða nánar tilgetið að lengja samninginn um þrjá mánuði.

Til að bæta starfsmönnum upp það tekjutap sem hlaust við þessa þriggja mánaða lengingu á samningum var starfsmönnum boðin 42.500 króna eingreiðsla fyrir 100% starf sem átti að koma til útborgunar 1. febrúar 2019, en orðrétt hljóðaði ákvæðið svona:

„Grein 1.2. hljóði svo: Sérstök eingreiðsla, kr. 42.500, greiðist þann 1. febrúar 2019 hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem er við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfsíma og starfshlutfall í desember“

Það ótrúlega gerist síðan að þegar eingreiðslan er greidd út þá greiða Akraneskaupstaður og Hvalfjarðasveit hana ekki út til svokallaðs tímakaupsfólks og þegar VLFA kallar eftir skýringum frá þessum aðilum hverju það sætti að greiðsla hafi ekki borist til tímakaupsfólk.

Svarið sem félagið fékk var að þetta væru tilmæli frá Sambandi íslenskra sveitafélaga að tímakaupsfólk ætti ekki þennan rétt, sem var vægast sagt undarleg niðurstaða.

Félagið hafði samband við Samband íslenskra sveitafélaga og kallaði eftir útskýringum á þessum tilmælum til sveitafélaga og eftir nokkra fundi þar sem sambandið óskaði eftir að fá að skoða þessa ákvörðun sína betur var niðurstaðan að hún skildi standa óhögguð. Rök þeirra voru m.a. þau að Reykjavíkurborg og Ríkið hafi ekki greitt þessa eingreiðslu til tímakaupsfólks.

Nú er hins vegar dómur fallinn í Félagsdómi þar sem tekið var undir allar kröfur Verkalýðsfélags Akraness en í dómsorði Félagsdóms segir orðrétt:

"Viðurkennt er að félagsmenn stefnanda Verkalýðsfélags Akraness, sem voru við störf hjá stefndu, Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit, í desember 2018 og voru enn í starfi í janúar 2019 og unnu starf sem fellur undir kafla 1.4. í kjarasamningi réttargæslustefnda, Samband íslenskra sveitafélaga, og stefnanda sem upphafslega átti að gilda frá 1. maí 2011 til 30. Júní 2014, eigi rétt á eingreiðslu samkvæmt grein 1.2 í kjarasamningum, eins og henni var breytt með 5. kafla samkomulagsins sömu aðila um breytingu og framlengingu kjarasamningsins, sem gilti frá 1. janúar 2016 til 31. mars 2019

Stefndu Akraneskaupstaður og Hvalfjarðasveit, greiði Verkalýðsfélagi Akraness, 500.000 krónur í málskostnað."

Formaður er afar ánægður með þennan dóm sem sýnir enn og aftur að félagið stendur vörð um réttindi sinna félagsmanna í hvívetna og vílar ekki fyrir sér að fara með mál fyrir dómstóla til að verja þau réttindi.

Nú mun félagið gera þá skýlausu kröfu að þessi eingreiðsla verði greidd eins fljótt og kostur er til allra þeirra sem heyra undir dómsorð Félagsdóms

29
Nóv

Framtíð Elkem Ísland á Grundartanga ræðst á næstu 12 til 14 mánuðum

Í gær fundaði formaður með starfsmönnum Elkem Ísland á Grundartanga vegna komandi kjarasamninga en kjarasamningur starfsmanna Elkem rennur út um komandi áramót.  

Fundirnir voru haldnir í mötuneyti fyrirtækisins, þar sem farið var yfir stöðuna en það er skemmst frá því að semja að nú sé verið að semja þegar viðsjárverðir tímar eru framundan hjá fyrirtækinu. Eins eins og allir vita þá náði Landsvirkjun að knýja í gegn gríðarlega hækkun á raforkuverði til fyrirtækisins á grundvelli einokunnar.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness opnaði fundinn á því að fara yfir það að forstjóri fyrirtækisins hefur ítrekað sagt að fyrirtækið treystir sér ekki til að gera til lengri kjarasamning en í 12 mánuði vegna þeirra óvissu sem er uppi eftir að raforkukostnaður fyrirtækisins snarhækkaði.

Fram kom í máli formanns að þessi hækkun á raforku nemi um 1,3 milljörðum til viðbótar þeim 3 milljörðum sem fyrirtækið var að greiða fyrir þau 127 MW sem fyrirtækið notar í sína framleiðslu og er þessi hækkun yfir 43 % hækkun.

Það kom fram í yfirferð formanns að í dag nemi launakostnaður fyrirtækisins um 2,2 milljörðum á ári og því er þessi hækkun á raforkunni um 1,3 milljarð um 59% af öllum launakostnaði, en það er ígildi þess að Elkem myndi ráða um 118 nýja starfsmenn og hafa ekkert fyrir þá að gera annað en að greiða þeim laun.

Það kom líka fram hjá formanni að meðaltalshagnaður Elkem frá árinu 1998 til ársins 2018 er 789 milljónir á ári og því þurfi ekki mikla snillinga í hagfræði til að sjá að svona meðaltalshagnaður dugar vart til að mæta raforkuhækkun upp á 1,3 milljarð á ári og með þessari hækkun er verið að þurrka alla framlegð fyrirtækisins upp. Formaður sagði að með þessari hækkun á raforku sést glöggt að staðan er alvarleg, enda er verið að kippa samkeppnishæfni fyrirtækja í orkusæknum iðnaði í burtu með þetta mikilli hækkun.

Það var ítrekað aftur það sem forstjóri Elkem hefur sagt ekki bara við formann VLFA heldur einnig við trúnaðarmenn um að það ráðist á næstu 12 til 14 mánuðum hver framtíð fyrirtækisins verður hér á landi. En á þessum forsendum óvissunnar vill Elkem ekki gera lengri kjarasamning en til 12 mánaða og forstjóri Elkem hefur líka sagt að þeir hafi vegna þessa ekki svigrúm til mikilla launabreytinga. Enda hefur fyrirtækið nú þegar gripið til mjög mikilla hagræðingaraðgerða til að mæta þessum aukna rekstrarkostnaði vegna hækkunar á raforku.

Formaður fór yfir að búið er að tilkynna starfsmönnum að fyrirtækið ætlar að grípa til róttækra mótvægisaðgerða t.d. með því að lækka launakostnað um 322 milljónir á ári sem er lækkun um rúm 15%. En það verður m.a. gert með því að fækka starfsmönnum um 15%

Einnig hefur fyrirtækið tilkynnt um fjárfestingarstopp, nema það sem lýtur að nauðsynlegu viðhaldi búnaðar og einnig mun þetta koma niður á þeim fyrirtækjum sem eru að þjónusta fyrirtækið. Á þessu sést að staðan er alvarleg enda er verið að kippa samkeppnishæfni fyrirtækja í orkusæknum iðnaði í burtu með þetta mikilli hækkun. Það er ekki bara að raforkana sé að hækka hjá Elkem Ísland heldur er hún einnig að hækka gríðarlega hjá Norðuráli og nemur sú hækkun um 4 milljörðum á ári til viðbótar þeim 12 milljörðum sem þeir eru að greiða fyrir orkuna fyrir nýjan raforkusamning. Bara raforkuhækkun hjá Norðuráli og Elkem nemur samtals um 5,3 milljörðum á ári, en það er meira en allur sjávarútvegur greiðir í auðlindargjöld á næsta ári sem er um 5 milljarðar.

Farm kom í máli formanns að staðan væri gríðarlega erfið og mikilvægt að finna lausn og ná að semja þannig að allir geti verið á eitt sáttir. Það kom fram í máli formanns að hann er afar ósáttur ef það á að koma í hlut starfsmanna að taka þátt í að greiða fyrir þessa óbilgjörnu hækkun á raforkukostnaði fyrirtækisins.

En starfsmenn voru sammála um að finna leið þar sem farin yrði blönduð leið að launahækkun og auknu fríi starfsmanna þannig að starfsmenn myndu fá hækkun sem nemur ígildi hækkunar launavísitölunnar á síðustu 12 mánuðum og er nú verið að reyna að finna leið til að loka þeim hugmyndum.

Það er algerlega óþolandi og ólíðandi að ríkisfyrirtæki í einokunarstöðu eins og Landsvirkjun sé að ógna lífsviðurværi og atvinnuöryggi þúsunda starfsmanna í orkusæknum iðnaði með þessari græðgisvæðingu sem þar er ástunduð þegar kemur að endurnýjun á raforkusamningum fyrirtækja í þessum iðnaði.

Það er með ólíkindum að standa í þeim sporum að framtíð þessa mikilvæga fyrirtækis á okkar félagssvæði skuli ráðast á næstu 12 til 14 mánuðum vegna þess að ríkisfyrirtækið Landsvirkjun er nánast búið að eyðaleggja alla samkeppnisstöðu fyrirtækisins gagnvart öðrum fyrirtækjum innan samsteypunnar.

Verkalýðsfélag Akraness ætlar að berjast fyrir því að þetta fyrirtæki fái að halda áfram rekstri hér á landi og haldi áfram að vera okkur Akurnesingum jafnmikilvægt og það hefur verið síðustu 40 ár.

Við munum finna lausn á þessari kjaradeilu og berjast síðan til síðasta manns um að tryggja áframhaldandi samkeppnishæfni þessa fyrirtækisins hér á landi. 

22
Nóv

Styrkur úr sjúkrasjóði vegna sálfræðiþjónstu hefur aukist um 138% á milli ára

Alls hafa 1033 félagsmenn hafa nýtt sér hina ýmsu styrki sem sjúkrasjóður félagsins bíður félagsmönnum sínum upp á frá 1. janúar 2019 til 1. nóvember á þessu ári.

Töluverð aukning er á greiðslum úr sjóðnum á milli ára en Verkalýðsfélag Akraness hefur á liðnum árum verið að fjölga styrkjum sem og að hækka upphæðir á þeim styrkjum sem fyrir eru. En það er ætíð gert ef afkoma félagsins gefur tilefni til enda er það stefna stjórnar félagsins að láta félagsmenn ætíð njóta þess ef rekstur félagsins skilar jákvæðri rekstrarafkomu.

Á aðalfundi félagsins í apríl á þessu ári var t.d. ákveðið að fæðingarstyrkur myndi hækka úr 100.000 kr. í 150.000 krónur og ef báðir foreldrar eru félagsmenn nemur styrkurinn 300.000 kr. Einnig hækkaði heilsueflingarstyrkurinn úr 25.000 kr. í 30.000 kr. sem og gleraugnastyrkurinn úr 45.000 í 50.000 kr. En þessi hækkun á styrkjum er tilkomin eins og áður sagði vegna góðrar afkomu félagsins enda er það stefna stjórnar að láta félagsmenn ætíð njóta góðrar afkomu félagsins með einum eða öðrum hætti.

Greiðslur vegna fæðingarstyrks hefur t.d. hækkað á milli ára um 28,7% og nemur upphæðin tæpum 10 milljónum sem greitt hefur verið til félagsmanna vegna fæðingarstyrks.

Það sem vekur töluverða athygli þegar styrkveitingar eru skoðaðar er að greiðslur vegna sálfræðiþjónustu hafa aukist um 138% á milli ára og spurning hvort kvíði og streita sé að aukast hjá okkar félagsmönnum sem kallar á að félagsmenn séu duglegri við að leita sér sálfræðiþjónustu.

Formaður fagnar því að félagsmenn séu duglegir að nýta sér þá styrki sem eru í boði fyrir félagsmenn sem og aðra þjónustu sem félagið bíður uppá.

 

Það er okkur afar mikilvægt að félagsmenn okkar séu meðvitaðir um hvaða styrkir eru í boði fyrir þá, en HÉR er hægt að sjá hvað Verkalýðsfélag Akraness gerir fyrir sitt fólk.

14
Nóv

Formaður fundar með öllum starfsmönnum leikskólum Akraneskaupstaðar

Í morgun var formaður VLFA  með stöðufund vegna kjarasamnings félagsins við Samband íslenskra sveitafélaga með öllum ófaglærðum starfsmönnum á leikskólum Akraneskaupstaðar, en fundurinn var haldinn á leikskólanum Vallarseli.

Mjög góð mæting var á fundinn og fór formaður ítarlega yfir kröfugerð félagsins sem og þær viðræður sem félagið hefur átt við Samband íslenskra sveitafélaga.

Formaður fór yfir að kröfugerðin byggðist að stórum hluta á því sem samið var um í lífskjarasamningum. Einnig fór formaður vel yfir hugmyndir að styttingu á vinnuvikunni, en þessi fundur var mjög góður og fjölmargar góðar spurningar komu frá starfsmönnum um hin ýmsu atriði sem tengjast þeirra starfi og réttindum.

Það er með ólíkindum hversu mikla þolinmæði starfsmenn á leikskólum bæjarins sýna miðað við að kjarasamningur þeirra rann út fyrir átta mánuðum síðan en formaður vonast til að kjaraviðræðurnar fari að klárast fljótlega.  

Það er algjörlega morgunljóst að starfsmenn leikskóla sem eru að langstærstum hluta konur eru að vinna og frábært starf sem er gríðarlega mikilvægt og oft á tíðum krefjandi og það á alltof lágum launum.

14
Nóv

Fundur með starfsmönnum Norðuráls vegna komandi kjarasamninga

Í gær hélt Verkalýðsfélag Akraness fund með starfsmönnum Norðuráls vegna komandi kjarasamninga en samningur félagsins við Norðurál rennur út um áramótin.

Á þessum fundi voru þær vaktir sem ekki komust á fyrri fundinn sem haldinn var fyrir um hálfum mánuði síðan,  á fundinum fór formaður félagsins yfir hvaða árangur síðasti kjarasamningur skilaði starfsmönnum í launahækkanir. En fram kom í máli hans að síðasti samningur hafi verið einn sá besti sem félagið hefur gert frá því Norðurál hóf starfsemi sína á Grundartanga árið 1998.

Hann sýndi að síðasti samningur hefur skilað starfsmanni með 10 ára starfsreynslu rúmum 227 þúsund króna hækkun á mánaðarlaunum, en heildarlaun vaktavinnumanns eftir 10 ár með öllu fyrir 182 vinnustundir nema tæpum 800 þúsundum á mánuði.

Hann nefndi að það hafi verið góð ákvörðun að tengja launabreytingar starfsmanna við hækkun á launavísitölunni, en í þessum 5 ára samningi námu hækkanir starfsmanna rétt rúmum 42%

Hann fór einnig yfir að hann teldi mikilvægt að leggja ofuráherslu á að halda áfram að notast við launavísitölu Hagstofunnar til launabreytinga til handa starfsmönnum Norðuráls.

Einnig fór hann yfir nokkur önnur atriði sem VLFA telur mikilvægt að leggja áherslu á í komandi kjarasamningum og voru fundarmenn á eitt sáttir með þær hugmyndir.

Nú liggur fyrir að hefja þarf viðræður fljótlega enda mikilvægt að reyna að láta nýjan kjarasamning taka við að þeim sem rennur út um áramótin

14
Nóv

Formaður með erindi í Háskóla Íslands

Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands sem kennir m.a. vinnumarkaðsfræði óskaði eftir því við formann félagsins að hann kæmi í tíma hjá sér með erindi um verkalýðshreyfinguna og atriðum henni tengdri.

En þetta var í sjötta skiptið sem formaður VLFA er með slíkt erindi í Háskólanum, enda mikilvægt að kynna starf verkalýðshreyfingarinnar sem víðast.

Formaður fór vítt og breitt yfir í erindi sínu og m.a. rakti hann ítarlega aðdragandann að gerð lífkjarasamningsins og þá hugsun sem lá þar að baki og aðferðafræðina við að klára þann samning.

Formaður fór einnig yfir Sjómannaverkfallið og þá erfiðu deilu sem háð var árið 2017 en þetta var lengsta verkfall í sögu ríkissáttasemjara.

Fjölmargar spurningar frá komu frá nemendum Gylfa sem formaður reyndi eftir bestu samvisku að svara eins vel og kostur var en þessi heimsókn í Háskólann var mjög gefandi og gott að geta miðlað upplýsingum til háskólanemenda um starfsemi og mikilvægi verkalýðshreyfingarinnar

13
Nóv

VLFA var með mál fyrir félagsdómi vegna Norðuráls í gær

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness Norðuráli fyrir félagsdóm vegna grófra brota á vikulegum frídegi á einum starfsmanni Norðuráls.

En samkvæmt tímaskýrslum sem lagðar voru fyrir dóminn kom fram að á fjögurra ára tímabili vantaði 125 daga vegna svokallaðs frídags. En réttur til vikulegs frídags skapast ef starfsmaður vinnur samfellt í 7 daga eða meira.

 Í þessu máli liggur fyrir að umræddur starfsmaður vann allt að 65 daga samfellt án þess að fá frí eða vikulegan frídag bættan.

Þá er einnig rétt að geta þess að frá 8. ágúst til 10. janúar 2017/2018 fékk starfsmaðurinn einungis 4 daga í frí og þar af voru 3 vegna jólahátíðarinnar.

Það er gjörsamlega með ólíkindum að stórfyrirtæki eins og Norðurál skuli voga sér að misnota starfsmenn sína með jafn grófum hætti eins og í þessu máli án þess að virða greiðslu á svokölluðum vikulegum frídegi.

Einnig er rétt að geta þess að lögmaður Norðuráls viðurkenndi fyrir dómi að brotið hafi verið á manninum, hins vegar voru þeir ekki tilbúnir að viðurkenna öll brotin né aðferðafræðina við útreikning á þeim dögum sem VLFA telur að vanti að endurgreiða umræddum starfsmanni vegna vikulegs frídags.

Niðurstaða félagsdóms mun væntanlega liggja fyrir eftir tvær til þrjár vikur

07
Nóv

Ótrúlegur vitnisburður forsvarsmanns Sambands íslenskra sveitafélaga fyrir Félagsdómi

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness Sambandi íslenskra sveitafélaga fyrir félagsdóm. Málið laut að því að í kjarasamningi sem gerður var 2016 samþykkt að verða við ósk Sambands íslenskra sveitafélaga að láta kjarasamninginn gilda ekki til 1. Janúar 2019 heldur til 31. mars 2019 eða nánar tilgetið að lengja samninginn um þrjá mánuði.

Til að bæta starfsmönnum upp það tekjutap sem hlaust við þessa þriggja mánaða lengingu á samningum var starfsmönnum boðin 42.500 króna eingreiðsla fyrir 100% starf sem átti að koma til útborgunar 1. febrúar 2019, en orðrétt hljóðaði ákvæðið svona:

„Grein 1.2. hljóði svo: Sérstök eingreiðsla, kr. 42.500, greiðist þann 1. febrúar 2019 hverjum starfsmanni miðað við fullt starf sem er við störf í desember 2018 og er enn í starfi í janúar 2019. Upphæðin greiðist hlutfallslega miðað við starfsíma og starfshlutfall í desember“

Það ótrúlega gerist síðan að þegar eingreiðslan er greidd út þá greiða Akraneskaupstaður og Hvalfjarðasveit hana ekki út til svokallaðs tímakaupsfólks og þegar VLFA kallar eftir skýringum frá þessum aðilum hverju það sætti að greiðsla hafi ekki borist til tímakaupsfólksvar

svarið sem félagið fékk var að þetta væru tilmæli frá Sambandi íslenskra sveitafélaga að tímakaupsfólk ætti ekki þennan rétt, sem var vægast sagt undarleg niðurstaða.

Félagið hafði samband við Samband íslenskra sveitafélaga og kallaði eftir útskýringum á þessum tilmælum til sveitafélaga og eftir nokkra fundi þar sem sambandið óskaði eftir að fá að skoða þessa ákvörðun sína betur var niðurstaðan að hún skildi standa óhögguð. Rök þeirra voru m.a. þau að Reykjavíkurborg og Ríkið hafi ekki greitt þessa eingreiðslu til tímakaupsfólks.

Þegar þessi niðurstaða frá sambandinu lá orðið fyrir var ekkert annað en að stefna málinu fyrir Félagsdóm enda stenst það ekki nokkra skoðun að ekki hafi átt að bætta tímakaupsfólki upp tekjutapið vegna lengingar á samningum um þrjá mánuði eins og öðrum starfsmönnum sveitafélaganna. Enda var tekjutap þessara einstaklinga það sama og hjá öðrum starfsmönnum eða nánar tilgetið eftir starfstíma og starfshlutfalli.

Það er hins vegar rétt að upplýsa það að eftir málflutninginn í gær tjáði Árni Stefán Jónsson fyrrverandi formaður SFR og núverandi i formaður Sameyki  formanni VLFA að það væri ekki rétt að ríkið hafi ekki greitt umrædda eingreiðslu til tímakaupsfólks eins og Samband íslenskra sveitafélaga héldu fram. Þetta voru reyndar ekki einu ósannindin sem ullu uppúr formanni Launanefndar sveitafélaga fyrir félagsdómi í gær.

Hún hélt því t.d. fram fyrir félagsdómi í gær að starfsmenn á tímakaupi hjá sveitafélögunum ættu ekki rétt á orlofs-og desemberuppbótum og slíkar uppbætur hafi ekki verið greiddar út til tímakaupsfólks hjá sveitafélögunum. Þessi ummæli eru algjör ósannindi og með ólíkindum að formaður launanefndar skuli hafa vogað sér að halda slíku fram.

Hún viðurkenndi þó fyrir dómi að sveitafélögin hafi verið að misnota ákvæði um tímakaupsfólk í kjarasamningum enda fjölmörg dæmi um að tímakaupsfólk sé að vinna vinnustundir sem skila allt að 80% starfshlutfalli, en orðrétt segir í þetta í samningum: „Starfsmann skal ráða á mánaðarlaun/starfshlutfall ef reglubundin vinnuskylda hans er 20% á mánuði eða meira.

Það er ljóst eftir þennan málflutning í gær fyrir félagdómi að erfitt er að treysta forsvarsmönnum sveitafélagsins sem víla ekki fyrir sér að segja ósatt eiðsvarnir fyrir dómi. Formaður trúir ekki öðru en að Félagsdómur sendi Sambandi íslenskra sveitafélaga skýr skilaboð í dómsorði sínu enda ömurlegt að sjá hvernig brotið hefur verið gróflega á réttindum tímakaupsfólks í kjarasamningi við Samband íslenskra sveitafélaga.

Dómsniðurstöðu er að vænta eftir eina til tvær vikur og er formaður verulega bjartsýnn á VLFA vinni þetta mál enda allt þetta mál Sambandi íslenskra sveitafélaga til skammar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image