• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

04
Jan

Fæðingarstyrkur VLFA gríðarlega vinsæll hjá félagsmönnum!

Verkalýðsfélag Akraness býr yfir öflugum sjúkrasjóði þar sem félagsmönnum okkar er boðið uppá margvíslega styrki úr sjóðnum. Á árinu 2021 greiddi sjúkrasjóður upp undir 100 milljónir í formi sjúkradagpeninga og styrkja til félagsmanna en tæplega 1300 félagsmenn notfærðu sér þá styrki sem VLFA býður sínum félagsmönnum uppá, sem er 43% félagsmanna.

Eins og alltaf þá eru hæðstu greiðslurnar úr sjúkrasjóðnum vegna sjúkradagpeninga og námu þær greiðslur um 50 milljónum í fyrra, en rétt til greiðslu sjúkradagpeninga eiga þeir félagsmenn sem lokið hafa veikindarétti hjá sínum atvinnurekanda og eru áfram veikir.

Það er ánægjulegt að segja frá því að hæsti einstaki styrkurinn sem VLFA greiddi út er fæðingarstyrkurinn. Félagsmaður í VLFA sem eignast barn á rétt á slíkum styrk sem nemur 150.000 kr. og ef báðir foreldrar eru í félaginu þá nemur styrkurinn samtals 300.000 kr.   En 90 foreldrar eignuðust barn á árinu 2021 og nam heildarupphæð fæðingarstyrks rétt tæpum 13 milljónum í fyrra.

377 félagsmenn nýttu sér heilsufarskoðunarstyrkinn en hann nemur 50% af reikningi að hámarki 30 þúsund og nam heildarupphæðin tæpri 7,5 milljón á árinu 2021. Fyrir nokkrum árum var þessi styrkur útvíkkaður þannig að félagsmenn gátu komið með reikning vegna tannlæknakostnaðar og eru um 65% af öllum endurgreiðslum vegna þessa styrks vegna tannlæknakostnaðar.

Einnig er rétt að upplýsa að heilsueflingarstyrkurinn er alltaf mjög vinsæll hjá félagsmönnum VLFA en um 300 félagsmenn þáðu þann styrk og nam heildarupphæð heilsueflingarstyrksins rúmum 7 milljónum.

Sem betur fer er sjúkrasjóður Verkalýðsfélags Akraness öflugur og stendur vel fjárhagslega og það er stefna stjórnar félagsins að láta félagsmenn ætíð njóta góðs af góðri afkomu félagsins með því að bæta við styrkjum eða hækka fjárhæðir einstakra styrkja og verður engin undantekning þar á í ár.

En slíkar breytingar eru alltaf tilkynntar á aðalfundi félagsins og taka gildi næstu mánaðarmót eftir aðalfund.

30
Dec

Dagbækur og dagatöl 2022 í boði fyrir félagsmenn VLFA

Verkalýðsfélag Akraness býður félagsmönnum sínum skipulagsdagbók og dagatöl 2022 merkt félaginu á meðan birgðar endast en um takmarkað magn er að ræða.

Stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness óska félagsmönnum sínum og launafólki öllu gleðilegs nýtt ár og þökk fyrir árið sem senn er á enda.

27
Dec

Verkalýðsfélag Akraness leigir íbúð á Torreviejasvæðinu á Spáni

Verkalýðsfélag Akraness hefur ákveðið að bjóða félagsmönnum sínum uppá möguleika á að leigja íbúð á Torreviejasvæðinu sem félagið hefur tekið á leigu frá 25. maí 2022 til 31. ágúst 2022.

Hin leigða eign er ný íbúð á jarðhæð í íbúðakjarnanum “Resid GALA” sem er við götuna “Calle Canala” í bæjarfélaginu Orihuela Costa á Torreviejasvæðinu en póstnúmerið er 03189 og tilvísunarnúmer íbúðarinnar hjá Spánarheimili er 137017.
Hægt er að fá nánari lýsingu á eigninni hér:

https://spanarheimili.is/leiguskra/listing/playa-flamenca-gala-jardhaedb/

Eigin er í ca klukkustundar akstursfjarlægð frá Alicante flugvellinum, en hægt er að bóka akstur til og frá flugvelli inni á https://spann.is/akstur/

Eignin er leigð með öllu því sem eigninni fylgir og fylgja skal miðað við eðlilega heimilisnotkun. Leigjandinn þarf að  skoða og kynna sér vel lýsingu, leiguskilmála  og myndir af eigninni. 

Þessi orlofsmöguleiki verður auglýstur betur í janúar en það mun gilda svokallað punktakerfi eins og þegar um sumarúthlutun er annarra orlofshúsa félagsins er framkvæmdar.

27
Dec

Miklar endurbætur á íbúðum VLFA á Akureyri

Um þessar mundir standa yfir gríðarlegar endurbætur á öllum þremur íbúðum sem Verkalýðsfélag Akraness á Akureyri en félagið á þrjár íbúðir í Furulundi 8.

Núna er framkvæmdum lokið á einni íbúðinni og er áætlað framkvæmdum á hinum tveimur verði lokið í janúar og febrúar.

Eins og áður sagði þá er þetta miklar endurbætur sem lúta nánast að öllum innviðum íbúðina svo sem gólfefni, hurðar, eldhúsinnréttingar, baðherbergi og síðan eru þær allar málaðar að nýju.

Hér eru myndir eftir breytingar

22
Dec

Gleðileg jól

Stjórn og starfsmenn Verkalýðsfélags Akraness óskar félagsmönnum sínum sem og landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.

Þökkum ánægjuleg samskipti á árinu sem nú er að líða.

22
Dec

Opnunartími yfir jól og áramót

Þorláksmessa 23. desember lokað

Aðfangadagur 24. desember lokað

Mánudagur 27. Desember opnum klukkan 12.

28. desember til 30 desember opið frá 08.00- 15.00

Gamlársdagur lokað

Mánudagur 3. Janúar opnum klukkan 12:00

14
Dec

VLFA hefur innheimt rúmar 10 milljónir á árinu vegna kjarasamningsbrota

Það sem er af þessu ári hefur Verkalýðsfélag Akraness innheimt vegna kjarasamningsbrota og ágreinings um túlkun kjarasamninga rúmlega 10 milljónir króna.

Það má segja að árið sem nú er að líða hafi kjarasamningsbrot verið með minnsta móti miðað við mörg önnur ár. En réttindavarðveisla fyrir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness hefur ætíð verið stór partur af starfsemi skrifstofunnar, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðu félagsins þá hefur félagið innheimt vegna vangreiddra launa og ágreinings vegna túlkunar á ráðningarsamningum og kjarasamningum rétt rúman einn milljarð frá árinu 2004.

Í þessu samhengi er ekki verið að taka tillit til margfeldisáhrifa sem sum réttindamálin hafa síðan leitt af sér til framtíðar. Stærsta einstaka málið sem félagið hefur innheimt fyrir sína félagsmenn er mál sem vannst fyrir dómstólum gegn Hval á síðasta ári en það skilaði um 100 milljónum.

Það er morgunljóst að mikilvægi stéttarfélaga við að varðveita kjarasamningsleg réttindi sinna félagsmanna er gríðarlegt enda leikurinn á milli launamannsins og atvinnurekandans afar ójafn og er formaður nokkuð viss um að nánast ekkert af þessum málum hefðu fallið starfsmönnum í hag nema með aðkomu stéttarfélagsins.

09
Dec

Veiðikort og gjafakort á Íslandshótelum með allt að 55% afslætti til félagsmanna

Nú geta félagsmenn keypti Veiðikortið fyrir árið 2022 á skrifstofu félagsins. Veiðikortin kosta 8.900 krónur en félagsmenn greiða 4.000 krónur fyrir þau.


Veiðikortin hafa notið mikilla vinsælda hjá félagsmönnum enda hægt að veiða í 36 vötnum vítt og breytt um landið.  

Í næstu viku býður Verkalýðsfélagið einnig upp á að félagsmenn geti keypt gjafabréf frá Íslandshótelum.


Orlofssjóður niðurgreiðir gjafabréf hjá Íslandshótelum til félagsmanna. Einn punktur er dregin af félagsmanni fyrir hvert keypt gjafabréf. Hver félagsmaður getur keypt fimm gjafabréf á ári.
Gjafabréfið gildir sem gisting í 2ja manna herbergi með morgunverði í eina nótt á 3* Íslandshóteli að eigin vali. Ef félagsmenn vilja fara á 4* hótel þarf að greiða 5.000 krónum meira.  

Gjafabréfin kosta 14.900 krónur en félagsmenn kaupa þau á 8.000 krónur og býðst því félagsmönnum 46% afsláttur á umræddum gjafabréfum og 55% afsláttur á veiðikortunum.

25
Nov

Dómur fallinn í Félagsdómi um samningsumboð um lífeyrismál

Í fyrradag féll dómur í Félagsdómi í máli sem Verkalýðsfélag Akraness höfðaði gegn Samtökum atvinnulífsins, en SA óskaði eftir að Alþýðusamband Íslands myndi gerast réttargæsluaðili í málinu.

Málið laut að kröfu um að viðurkennt sé af Félagsdómi að Verkalýðsfélag Akraness sé með samningsumboð til þess að semja um ráðstöfun framlags til lífeyrissjóða í kjarasamningi VLFA við Elkem Ísland á Grundartanga.

Í öðru lagi krafðist VLFA fyrir Félagsdómi að viðurkennt verði iðgjald í lífeyrissjóð fyrir félagsmenn VLFA verði 12%. Starfsmaður greiði 4% og 8% koma frá atvinnurekenda. Til viðbótar 8% mótframlagi fyrirtækisins í lífeyrissjóð koma 3,5% sem félagsmenn VLFA ákveða hvort þeir ráðstafa í samtrygginguna í sínum lífeyrissjóði, tilgreinda séreign eða í frjálsan viðbótarsparnað.

Niðurstaða Félagsdóms var með þeim hætti að Verkalýðsfélag Akraness náði sínu fram en þó ekki með þeim hætti sem félagið lagði upp með. Enda voru Samtök atvinnulífsins sýknuð af kröfu félagsins að svo stöddu eins og sagt er í dómsorði.

Þetta þýðir að VLFA og Elkem munu þurfa að gera nýtt samkomulag um rétt starfsmanna til að ráðstafa 3,5% af 15,5% framlagi í lífeyrissjóðina að eigin vali þ.e.a.s í samtrygginguna, tilgreinda séreign eða frjálsan viðbótarsparnað.

Formaður félagsins hefur sett sig nú þegar í samband við forstjóra Elkem Ísland með því að markmiði að klára nýtt samkomulag en það samkomulag mun heimila starfsmönnum áðurnefnda ráðstöfun á 3,5%. Samkvæmda dómi Félagsdóms myndi það samkomulag mega koma til framkvæmda 1. nóvember á næsta ári eða á sama tíma og kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði renna út.  Því má segja að eina sem VLFA náði ekki fram í þessum dómi var að umrætt val á ráðstöfun tæki strax gildi en heimilt er að gera nýtt samkomulag sem kveður á um að þessi heimild taki gildi 1. nóvember á næsta ári eins og áður sagði.

Það er mikilvægt að það komi skýrt fram að VLFA og Elkem Ísland voru sammála um að semja með þeim hætti að starfsmenn fyrirtækisins hefðu aukið val til að ráðstafa sínum kjarasamningsbundnum iðgjöldum í lífeyrissjóð með ofangreindum hætti.

Hins vegar voru það ASÍ og Samtök atvinnulífsins sem komu í veg fyrir að sá samningur sem VLFA gerði við forsvarsmenn Elkem virkjaðist og því var það sameiginleg niðurstaða að skjóta málinu til Félagsdóms.

Það var þyngra en tárum taki að sjá að ASÍ og Samtök atvinnulífsins skulu hafa tekið höndum saman um að leggjast gegn því að samningsrétturinn um lífeyrismál væru ekki hjá stéttarfélögunum heldur hjá ASÍ og SA og vísuðu í samning frá árinu 1996 og árinu 1995 um lífeyrismál.

Ekki bara það heldur hélt lögmaður ASÍ því fram fyrir Félagsdómi að starfsmenn Elkem og annarra starfsmanna sem hafa sjálfstæðan kjarasamning við stóriðjur væru búnir að afsala sér rétti til að semja um iðgjöld til lífeyrissjóða nánast til eilífðar.

Þetta var svo ótrúlegur málflutningur því í öllum lögum þar sem kveðið er á um stéttarfélög er skýrt kveðið á um að það eru þau sem fara með samningsumboð fyrir sína félagsmenn til að semja um kaup og kjör þeirra og iðgjöld til lífeyrissjóða eru svo sannarlega hluti af starfskjörum launafólks.

Því miður hélt formaður að Félagsdómur myndi dæma eftir lögunum en í þessu máli var greinilegt að Félagsdómur sló skjaldborg um „kerfið“ og það mætti ekki rugga lífeyriskerfinu og gekk dómur mjög langt í að gera það.

Rétt er þó að geta þess að dómsorðið er afar undarlegt enda segir í því að SA og ASÍ séu sýknuð „að svo stöddu“.

Málið snérist um það að SA og ASÍ sögðust vera með samningsumboðið vegna lífeyrismála hjá sér en kjarasamningur starfsmanna Elkem Ísland er sjálfstæður kjarasamningur og VLFA fer alfarið með samningsumboðið í þeirri kjarasamningsgerð og hefur alla tíð gert. Hefur t.d. aldrei falið öðrum umboð til samningsgerðar fyrir sína félagsmenn í stóriðjusamningunum.

Þrátt fyrir þessa staðreynd og að kjarasamningurinn sé sjálfstæður þá vildi Félagsdómur meina að kaflinn um lífeyrismál á almenna vinnumarkaðnum frá 2016 gilti fyrir starfsmenn Elkem. En þeir komu hvergi nærri þeim kjarasamningi hvorki fengu kynningu á honum né kusu um hann samt þótti Félagsdómi eðlilegt að segja að sjálfstæður kjarasamningur félagsins við Elkem gilti ekki um lífeyrismál.

Þótt vissulega séu vonbrigði að málið hafi ekki unnist að fullu þá er þetta viss sigur eina sem gerist er að starfsmenn verða að bíða til 1. nóvember 2022 með að ráðstafa þessum 3,5% að eigin vild. Einnig liggur fyrir að VLFA hefur tekið af allan vafa í náinni framtíð að ASÍ fer alls ekki með samningsumboð um lífeyrismál fyrir félagið heldur mun félagið alfarið sjá um þau mál sjálft.

16
Nov

Fundað með starfsmönnum íþróttamannvirkja Akraneskaupstaðar

Í gær hélt formaður félagsins tvær kynningar um styttingu á vinnuvikunni fyrir starfsmenn íþróttamannvirkja Akraneskaupstaðar. Fyrri kynningin fór fram fyrir starfsmenn í íþróttahúsinu að Vesturgötu og síðari kynningin fór fram fyrir starfsmenn sem starfa í íþróttamiðstöðinni að Jaðarsbökkum.

Formaður fór ítarlega yfir helstu breytingar hvað varðar styttinguna svo sem breytingu á vaktarálögum, vaktahvata, breytingargjaldi, vægi vinnustunda og fleiri þáttum er lúta að styttingunni.

Fjölmargar spurningar komu til formanns og voru flestir sammála að fyrirkomulagið við styttingu vinnuvikunnar væri afar flókið.

Einnig fór formaður yfir þá þjónustu sem félagið býður félagsmönnum sínum upp á svo sem styrkjum úr sjúkrasjóði sem og þjónustuna sem orlofssjóður er með fyrir sína félagsmenn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image