• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Mar

Formaður VLFA kosinn formaður Starfsgreinasambands Íslands

Í gær á þingi SGS var Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness kosinn formaður Starfsgreinasambands Íslands en rétt er að geta þess að SGS er fjölmennasta landssamband verkafólks á Íslandi og stærsta landssambandið innan ASÍ með samtals um 72 þúsund félagsmenn.

Kosið var á milli hans og Þórarins Sverrissonar formanns stéttarfélags Öldunnar í Skagafirði. Vilhjálmur fékk 54% atkvæða og kom fram í ræðu hans eftir að kjörinu hafi verið lýst að hann væri djúp snortinn yfir þessum stuðningi og traust sem þingfulltrúar SGS hefðu sýnt honum við að gegna þessu krefjandi verkefni sem er að gegna forystu SGS.

Vilhjálmur fór yfir í ræðu sinni um hvaða mál hann hefur lagt mestu áherslu á, á undanförnum árum en þau hafa m.a. verið eftirfarandi:

En hver eru helstu áherslumálin mín sem forystumaður í verkalýðshreyfingunni á liðnum 17 árum?

Jú, þau hafa verið eftirfarandi:

  • Ég hef ætíð lagt ofuráherslu á að samið sé í formi krónutöluhækkana, enda liggur fyrir að prósentuhækkanir eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gera ekkert annað en að auka ójöfnuð á íslenskum vinnumarkaði.
  • Það þarf að tryggja réttarstöðu launafólks gagnvart grófum kjarasamningsbrotum með skýrum févítis ákvæðum í lögum og/eða í kjarasamningum. Einnig er brýnt að tryggja að launafólk tapi ekki launakröfum sínum á grundvelli „tómlætis“ fyrir dómstólum.
  • Það þarf að berjast áfram gegn okurvöxtum, verðtryggingu og græðgisvæðingu fjármálakerfisins.
  • Það þarf að styrkja húsnæðismarkaðinn og stöðu leigjenda m.a. með því að setja á leiguþak.
  • Það þarf að endurskoða lífeyrissjóðskerfið þar sem hagsmunir sjóðsfélaga verði hafðir að leiðarljósi og tryggja þarf að lífeyrissjóðirnir komi að þjóðarátaki í uppbyggingu á húsnæði fyrir tekjulágt fólk á íslenskum húsnæðismarkaði.
  • Það er einnig mikilvægt að halda áfram að létta á skattbyrði þeirra tekjulægstu.
  • Taka þarf á arðsemisgræðgi fyrirtækja enda eru það á endanum launafólk og neytendur sem þurfa að greiða fyrir arðsemismarkmið fyrirtækja í formi hærra vöruverðs og lægra kaupgjalds.
  • Síðast en ekki síst hef ég ætíð barist gegn öllum hugmyndum um að komið verði á nýju vinnumarkaðsmódeli í anda Salek samkomulagsins, enda gengur það út á að skerða og takmarka samnings- og verkfallsrétt launafólks. Mikilvægt er fyrir launafólk að muna að samningsfrelsi og verkfallsréttur launafólks er hornsteinninn í íslenskri verkalýðshreyfingu og þann rétt þarf að verja með öllum tiltækum ráðum.

Í lok ræðurnar sem kom að við verðum að halda áfram að stíga þétt og kröftug skref í baráttunni fyrir bætum kjörum verkafólks. Það er hins vegar mikilvægt að allt verkafólk átti sig á því að réttinda- og kjarabarátta er eilífðarverkefni sem lýkur aldrei, hvorki í komandi kjarasamningum eða í kjarasamningum framtíðarinnar

Það er hins vegar ekkert náttúrulögmál að lágmarkslaun dugi ekki fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar, eða að hér viðgangist okurvextir, okurleiga, húsnæðisskortur og hátt vöruverð á öllum sviðum. 

Nei, ekkert af þessu er náttúrulögmál heldur mannanna verk sem hægt er að breyta. Það eina sem þarf er kjarkur, vilji og þor!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image