• Sunnubraut 13, 300 Akranes
 • Mán - Föst: 8.00 - 16.00
17
Jan

Minnum á kynningarfundinn um kjarasamning við Samband íslenskra sveitafélaga

Við viljum minna alla okkar félagsmenn á kynningarfundinn um nýgerðan kjarasamning við Samband íslenskra sveitafélaga sem haldinn verður á Gamla kaupfélaginu mánudaginn 20. Janúar kl. 17.00.

Formaður félagsins mun fara ítarlega yfir helstu atriði kjarasamningsins sem og hvað þessi kjarasamningur er að skila í krónum talið til handa þeim sem taka laun eftir samningum.

En rétt er að geta þess að þeir sem heyra undir kjarasamning Verkalýðsfélags Akraness við Samband íslenskra sveitafélaga eru þeir félagsmenn VLFA sem starfa hjá Akraneskaupstað, Hvalfjarðasveit og á dvalarheimilinu Höfða.

Einnig er rétt að geta þess að hægt verður að kjósa um kjarasamninginn að kynningu lokinni sem og á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13 til kl. 16:00 fimmtudaginn 23. Janúar.

 

VLFA hvetur þá sem heyra undir kjarasamning eindregið til að mæta.

Hér er hægt að lesa samninginn sem kosið er um

16
Jan

Greiðslur úr sjúkrasjóði Verkalýðsfélags Akraness námu tæpum 80 milljónum árið 2019

Það er afar ánægjulegt að sjá að félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness eru virkir í að nýta sér rétt til til hina ýmsu styrkja sem félagið býður uppá úr sjúkrasjóði félagsins, en rétt tæplega 900 félagsmenn nýtu sér þennan rétt.

Greiðslur úr sjúkrasjóði Verkalýðsfélags Akraness námu 78.402.880 milljónum króna fyrir árið 2019 og jukust greiðslur á milli árana 2018 og 2019 um 14,5%

Sá styrkur sem jókst mest á milli ára var styrkur vegna sálfræðiþjónustu, en hann jókst um 121,1% á milli ára. Einnig jukust greiðslur vegna fæðingarstyrks verulega eða um 47% á milli ára, en rétt er að geta þess að þessi styrkur var hækkaður umtalsvert á síðasta ári eða úr 100.000 kr. í 150.000 kr.

Eins og áður sagði er afar ánægjulegt að sjá hversu margir nýta sér rétt sinn til endurgreiðslu úr sjóðnum.

 

Hérna að neðan er skiptingin á milli styrkarflokka sem félagið býður upp.

 

Sjúkradagpenningar     43.142.407
Fæðingarstyrkur      11.239.000
Heilsufarskoðun         6.704.037
Heilsueflingarstyrkur         6.556.045
Gleraugnastyrkur         3.923.476
Sjúkranudd         2.277.359
Sálfræðistyrkur         2.029.835
Dánarbætur         1.320.098
Gleraugastyrkur ba             440.090
Tæknifrjógun            300.000
Heyrnatækjastyrkur            280.000
Göngugreining            108.866
Barnadagpeningar              81.667
Samtals     78.402.880
10
Jan

Verkalýðsfélag Akraness undirritaði nýjan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga

Eftir stífar samningarviðræður Verkalýðsfélags Akraness við Samband íslenskra sveitarfélaga síðustu daga, tókst að undirrita nýjan kjarasamning sem gildir fyrir félagsmenn VLFA sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit.

Formaður félagsins er gríðarlega ánægður með að tekist hafi að ganga frá þessum samningi enda liðnir 9 mánuðir frá því að kjarasamningurinn rann út.

Formaður er mjög ánægður með kjarasamninginn en hann er í megin atriðum í anda Lífskjarasamningsins sem gerður var á hinum almenna vinnumarkaði.

Helstu atriði kjarasamningsins eru þessi:

 • 1. janúar 2020 hækka launataxtar um 17.000 kr.
 • 1. apríl 2020 hækka launataxtar um 24.000 kr.
 • 1. janúar 2021 hækka launataxtar um 24.000 kr.
 • 1. janúar 2022 hækka launataxtar um 25.000 kr.
 • 1. janúar 2023 hækka launataxtar um sömu upphæð og um verður samið á hinum almenna vinnumarkaði en þessi kjarasamningur gildir til 30. september 2023.

Leiðrétting vegna afturvirkni samningsins nemur 90.000 kr. fyrir fullt starf og kemur til útborgunar 1. febrúar næstkomandi.

Það var einnig samið um svokallaðan félagssjóð sem virkar þannig að launagreiðandi greiðir mánaðarlega framlag í félagsmannasjóð sem nemur 1,5% af heildarlaunum starfsmanna. Greiðsla úr sjóðnum fer fram 1. febrúar ár hvert. En fyrsta greiðsla úr sjóðnum kemur strax til útborgunar 1. febrúar næstkomandi og verður sú upphæð 61.000 kr. fyrir fullt starfshlutfall. Upphæðin greiðist hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall.

Samtals munu því starfsmenn í fullu starfshlutfalli fá samtals 151.000 kr. greiddar út 1. febrúar fyrir afturvirkni og þennan nýja Félagssjóð.

Í þessum kjarasamningi var samið um að svokallaður hagvaxtaauki myndi einnig gilda fyrir félagsmenn VLFA sem starfa hjá Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit eins og um var samið í Lífskjarasamningum.

Samið var við um styttingu vinnuvikunnar með þeim hætti að frá 1. apríl 2020, mun hver vinnudagur styttast um 13 mínútur. Akraneskaupstaður og Verkalýðsfélag Akraness eru sammála um að vinna að því að taka upp svokallaðan mínútubanka. Þar sem starfsmenn geta safnað sér upp mínútum sem birtist á launaseðli starfsmanns.

Eins og áður sagði er stefnt að því að inneign mínútna verði sýnileg á launaseðli hvers starfsmanns og stefnt er að því að nokkrir kostir verði í boði um hvernig starfsmenn muni nýta sér uppsöfnun á 13 mínútna styttingu á dag. Fólk getur stytt hverja vinnuviku um 65 mínútur, eða safnað upp í heila daga. En rétt er að geta þess að þessi 13 mínútna stytting nemur um 7 heilum auka frídögum yfir árið fyrir fullt starf. Nánari útfærsla á þessu verður unnin í nánu samstarfi við Akraneskaupstað og Hvalfjarðasveit og vonandi liggur endanleg útfærsla fyrir 1. apríl.

Þetta voru helstu atriði í þessum nýja samningi, en rétt er vekja sérstaka athygli á því að tvær launahækkanir koma til á þessu ári, önnur sem nemur 17.000 kr. og hin eftir þrjá mánuði uppá 24.000 krónur. Þannig að á næstu þremur mánuðum munu launataxtar hækka um 41 þúsund krónur. Einnig er rétt að vekja athygli á því að innan eins árs hafa launataxtar starfsmanna Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðasveitar sem eru með 6% persónuálagsstig hækkað um tæpar 69.000 kr. á mánuði.

Sem dæmi þá hækka grunnlaun sundlaugarvarða með 6% persónuálagsstigum frá undirritun til 1. janúar á næsta ári í launaflokki 128 úr 355.133 kr. í 424.033 og hafa því hækkað á einu ári um 68.920 krónur á einu ári.

Það er mat formanns að þetta sé afar góður kjarasamningur þótt alltaf megi gera betur og baráttan fyrir bættum kjörum verkafólks lýkur aldrei.

Formaður vil þakka bæjarstjóra Akraneskaupstaðar fyrir hans framlag við að leysa þessa löngu kjaradeilu.

Að lokum er rétt að geta þess að formaður mun kynna kjarasamninginn ítarlega en það verður auglýst í næstu viku.

Hér má skoða samninginn, og við hvetjum alla starfsmenn sveitarfélagana að skoða samningana.

09
Jan

Formaður fundaði með bæjarstjóra og oddvitum sveitarstjórnarflokkanna

Formaður félagsins óskaði eftir í síðustu viku að funda með öllum oddvitum sveitastjórnarflokkanna á Akranesi sem og bæjarstjóra, vegna þeirra grafalvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félagsins við Samband íslenskra sveitafélaga. En eins og flestum er kunnugt um rann kjarasamningurinn út á milli aðila 31. mars á síðasta ári og því hafa starfsmenn Akraneskaupstaðar verið samningslausir í 9 mánuði.

Bæjarstjóri brást hratt og vel við erindi VLFA og var þessi fundur haldinn þriðjudaginn 7. janúar. Á þessum fundi voru tvö mál til umfjöllunar; annars vegar kjarasamningur félagsins við Samband íslenskra sveitafélaga og hins vegar nýfallinn dómur félagsdóms er lýtur að réttindum tímakaupsfólks hjá Akraneskaupstað.

Formaður VLFA fór ítarlega yfir stöðu í samningaviðræðunum við Samband íslenskra sveitafélaga og gerði oddvitunum algerlega grein fyrir því að sveitastjórnin gæti ekki skýlt sér á bak við samninganefnd sveitafélaga og vísað allri ábyrgð á hana. Það væri morgunljóst að ábyrgð kjörinna fulltrúa fyrir því að starfsmenn sveitafélagsins fái sínar kjarabætur liggja algerlega fyrir.

Formaður gerði bæjarstjóra og oddvitum grein fyrir því að ef ekki muni sjást til lands í þessum viðræðum á næstu dögum mun félagið hefja taktfasta og granítharðan undirbúning að verkfallsaðgerðum, enda eru þessi vinnubrögð ekki boðleg.

Formaður upplýsti að körfugerð félagsins byggðist að 99% á lífskjarasamningum sem samið var um á hinum almenna vinnumarkaði í apríl sl. og á þeirri forsendu einni saman væri óskiljanlegt með öllu hví það hefur tekið yfir 9 mánuði að ganga frá nýjum kjarasamningi.

Formaður upplýsti einnig á fundinum að það væri með ólíkindum að Samband íslenskra sveitafélaga vilji ekki og hafni að svokallaður hagvaxtaauki verði inni eins og gert var í lífskjarasamningum. En hagvaxtaraukin er tannhjólið í lífskjarasamningum og formaður gerði bæjarstjóra og oddvitum flokkanna það algerlega ljóst að Verkalýðsfélag Akraness myndi aldrei skrifa undir kjarasamning þar sem hagvaxtaaukin yrði ekki inni.

Hann fór einnig yfir önnur atriði sem útaf standa, eins og t.d. að það komi ekki til greina að 13 mínúta stytting vinnuvikunnar komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. Janúar 2021, undir slíkan drátt á innleiðingu á þessu atriði yrði aldrei liðið af hálfu félagsins. En í heildina eru þetta einungis 4 til 5 atriði sem standa útaf og þar vega réttindi tímakaupsfólks einnig þungt.

Þegar formaður hafði gert ítarlega grein fyrir stöðunni í kjarasamningsviðræðunum vék hann að nýföllnum dómi Félagsdóms þar sem Akraneskaupstað var gert að greiða öllu tímakaupsfólki eingreiðslu sem samið var um árið 2016 og kom til útborgunar 1. febrúar á síðasta ári.

En fyrir algjöra tilviljun fékk formaður vitneskju um að umrædd einsgreiðsla uppá 42.000 kr. hafi ekki komið til tímakaupsfólks og rakti formaður framhaldið sem endaði eins og fyrr segir fyrir félagsdómi sem staðfesti allar dómskröfur félagsins og tók undir allan málatilbúnað félagsins. En þessi dómur gerir það að verkum að staðfest hefur verið að sveitafélög vítt og breitt um landið hafa þverbrotið á réttindum þessa fólks með því að nota bara dagvinnustundir til að reikna út ávinnslu til orlofs-og desemberuppbótar en dómur Félagsdóms kvað skýrt um að miða ætti við allt vinnuframlag starfsmanna ekki einungis hluta þess.

Formaður sagði einnig í þessu máli að það þýddi ekki fyrir sveitastjórnarmenn að skýla sér á bakvið Sambandið íslenskra sveitafélaga í þessu máli því nú væri fallinn dómur og því þyrfti að leiðrétta þessi brot afturvirkt og verði það ekki gert, þá mun VLFA stefna Akraneskaupstað aftur fyrir Félagsdóm. Fram kom hjá formanni að hann tryði ekki að sveitastjórn Akraneskaupstaðar myndi ekki una dómi félagsdóms og leiðrétta einnig ranglega útreiknaðar orlofs-og desemberuppbætur.

Vissulega gerir formaður sér grein fyrir að sveitarstjórn er vorkunn í málinu, enda eru þessar ólöglegu leiðbeiningar komnar frá Sambandi íslenskra sveitafélaga til sveitafélaganna vítt og breitt um landið. En þessu óréttlæti gagnvart tímakaupsfólki verður að vinda ofan af, ekki bara með því að leiðrétta þetta afturvirkt heldur einnig tryggja í kjarasamningi réttarstöðu tímakaupsfólks. Það liggur fyrir að ólöglegt er að mismuna starfsfólki eftir ráðningarformi eins og tíðkast hefur í kjarasamningi Sambands íslenskra sveitafélaga um all-langa hríð.

Formaður upplýsti að hann myndi funda með Sambandi íslenskra sveitafélaga á næsta fimmtudag og ef ekkert kæmi úr þeim viðræðum þá myndi renna upp sú staða sem enginn hefur óskað sér sem eru undirbúningur að verkfallsaðgerðum.

Heilt yfir var þetta mjög góður fundur og ætlaði bæjarstjóri sem og oddvitar sveitafélagsins að leggja sitt lóð á vogaskálarnar til að viðræðurnar myndu skila árangri á næsta fundi.

09
Jan

Fjórði samningafundur með Norðuráli

Fjórði samningafundur Verkalýðsfélags Akraness við forsvarsmenn Norðuráls var haldinn mánudaginn 6. janúar síðastliðinn.

Á þessum fundi kom fram að forsvarsmenn Norðuráls hafna að viðhalda launavísitölunni með sama hætti og gert var í síðasta samningi á milli aðila og er óhætt að segja að það séu gríðarleg vonbrigði.

En formaður VLFA kom því skýrt á framfæri að forsenda fyrir nýjum kjarasamningi milli samningsaðila sé að launabreytingar starfsmanna haldi áfram að taka mið af launavísitölunni með sömu formerkjum og gert var í síðasta samningi. Á þessi kröfu verður ekki gerður afsláttur, en rétt er að geta þess að á þeim fundum sem Verkalýðsfélag Akraness hélt með starfsmönnum kom skýrt fram að ekki þýddi að leggja á borð fyrir starfsmenn kjarasamning þar sem þessi launavísitölutenging væri ekki inni.

En á fundinum kom einnig fram að fyrirtækið er tilbúið í fyrsta skipti að ræða þann möguleika að taka upp 8 tíma vaktakerfi í stað 12 tíma kerfisins eins og nú er. Hér er um mikla stefnubreytingu af hálfu forsvarsmanna Norðuráls að ræða.

En breyting sem byggist á því að fara yfir á 8 tíma vaktakerfi kallar á gríðarlega mikla vinnu og undirbúnings en hingað til hafa verið skiptar skoðanir hjá starfsmönnum um að breyta vaktakerfinu með þessum hætti. Hins vegar er æði margt sem bendir til þess alltaf séu fleiri og fleiri sem vilja breyta yfir í 8 tíma vaktakerfi enda ákall í samfélaginu fyrir að stytta vinnutíma hjá starfsfólki og gera vinnustaði fjölskylduvænni.

En núna er verið að skoða hvaða áhrif þessi breyting myndi hafa á laun starfsmanna, en það blasir við að þegar tekið er upp vaktakerfi þar sem vinnuskylda er einungis 145,6 vinnustundir á mánuði í stað 182 stunda þýðir það breytingar á launum. Allt þetta er til skoðunar núna en formaður er ekki í neinum vafa um að það yrði gríðarlega jákvæð breyting að fara úr 12 tíma vaktakerfi yfir í 8 tíma vaktarkerfi. Enda eru flest allar verksmiðjur komnar í svoleiðis vaktakerfi og síðast var vaktarkerfinu breytt hjá Fjarðaráli og er það mat starfsmanna að þessi breyting hafi gjörbreytt vinnustaðnum til hins betra.

Ekki er búið að boða til næsta fundar en menn eru að skoða öll þessi mál gaumgæfilega m.a. með því að heyra í starfsmönnum til að hlera hver vilji þeirra sé í sambandi við breytt vaktakerfi.

03
Jan

Hinn árlegi jóla-trúnaðarráðsfundur VLFA var haldinn 30. des

Hinn árlegi jólafundur stjórnar-og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness var haldinn 30. desember síðastliðinn og var fundurinn haldinn á Gamla kaupfélaginu.

Eins og alltaf á þessum hátíðarfundi félagsins fer formaðurinn nokkuð ítarlega yfir starfsemi félagsins á árinu 2019. Fram kom í máli formanns að mjög mikið hafi verið í gangi á árinu 2019, enda nánast allir kjarasamningar félagins og annríkið í samræmi við það.

En þeir kjarasamningar sem voru og eru við það að losna eru eftirfarandi samningar:

 

 • Kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði
 • Sveitafélagasamningurinn
 • Fiskimjölssamningurinn
 • Kjarasamningur Norðuráls
 • Kjarasamningur Elkem Ísland
 • Kjarasamningur Sjómanna

 

Eðlimálsins samkvæmt fór mesta vinnan í kjarasamninginn í samningnn á hinum almenna vinnumarkaði, en í honum lék Verkalýðsfélag Akraness stórt hlutverk, en félagið myndaði bandalag með Eflingu, VR og Verkalýðsfélagi Grindavíkur, en kröfugerð þessara stéttarfélaga miðaðist að því að semja með þeim hætti að það sem væri til skiptanna myndi renna krónutölulega og hlutfallslega meira til þeirra sem væru á lökustu kjörunum á hinum almenna vinnumarkaði.

Það var gert með því að gera kröfu um að eingöngu yrði samið með krónutöluhækkunum en ekki með prósentum. Einnig voru þessi félög með skýra sýn á að gera markvissa kröfu á hendur ríkinu sem byggðist á að ráðist yrði í róttækar kerfisbreytingar. En samspil þessara þátta miðuðust að því að auka ráðstöfunartekjur okkar félagsmanna með margvíslegum hætti eins og t.d. að gera kjarasamning sem myndi leiða til lækkunar vaxta á Íslandi ásamt skattabreytingum sem kæmu þeim tekjulægstu hvað best.

Formaður rifjaði upp að þessi hugmyndarfræði gekk öll upp og 4. apríl var undirritaður nýr kjarasamningur sem fékk nafnið lífkjarasamningurinn. Eins og formaður fór yfir á fundinum þá er það hans mat að lífskjarasamningurinn sé sá besti sem hann hefur tekið þátt í að gera hvað verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði varðar þau 15 ár sem hann hefur verið í verkalýðshreyfingunni.

Formaður rifjaði einnig upp þær launahækkanir sem eru í samningum sem og þá snilldar hugmynd er lýtur að svokölluðum hagvaxtarauka sem mun skila launafólki viðbótar krónutöluhækkunum ef hagvöxtur pr. mann verður til staðar.

Formaður nefndi að allt væri á áætlun eins að stýrivextir Seðlabankans væru búnir að lækka um 1,5% og hefðu ekki verið lægri um langt áratugaskeið en fjölmargir hafa endurfjármagnað lán sín og lækkað greiðslubyrgði sína jafnvel um tugi þúsunda. Einnig kom fram í erindi formanns að verðbólga hefi verið 3,3% við undirritun lífskjarasamningsins en í dag væri verðbólgan búin að lækka um 1,3% og stæði í 2%   Þetta þýddi að verðtryggðarskuldir heimilanna væri 22 milljörðum lægri ef ekki hefðu skapast þessi skilyrði fyrir lækkun verðbólgunnar niður í 2%

Formaður fór yfir aðra kjarasamninga eins og t.d. fiskimjölssamninginn en hann var algerlega í anda þess sem um var samið í lífskjarasamningum. Um aðra samninga væri lítið að segja þar sem þeir væru á viðkvæmu stigi eins og viðræðurnar við stóriðjunnar en þeir samningar runnu út um áramótin.

Hins vegar kom fram í máli formanns að sveitafélagasamningarnir sem runnu út í lok mars á síðasta ári væru komnir á það stig að þolinmæði starfsmanna væri að þrotum komin enda liðnir tæpir 10 mánuðir frá því þeir runnu út. Ekki væri hægt að útiloka að til verkafallsátaka kæmi hjá félaginu til að knýja fram nýjan samning. En rétt er að geta þess að félagið er ekki að fara fram á neitt meira en það sem um var samið í lífskjarasamningum og því ótrúlegur sá dráttur sem hefur verið á því að fá nýjan samning við Samband íslenskra sveitafélaga.

Formaður fór einnig fyrir innheimtu og dómsmál sem félagið er með í gangi en það kom fram í máli formanns að honum sé það til efs að nokkurt stéttafélag sé með jafnmörg dómsmál og VLFA en það er yfirlýst stefna stjórnarfélagsins að ef minnsti vafi er á að verið sé að brjóta á réttindum okkar félagsmanna þá ver félagið þau réttindi með kjafti og klóm.

Í lokin nefndi formaður að félagið stæði mjög vel ekki bara félagslaga heldur einnig fjárhagslega og birtist það m.a. í því að félagið lætur félagsmenn ætíð njóta góðs af jákvæðri rekstrarafkomu birtast í fjölgun styrkja eða hækkun þeirra.

Í lok fundarins var öllum boðið uppá góðan fiskrétt að hætti Gunna Hó!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image