• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Sep

Fimm stjórnarmeðlimir kvaddir í gær

Á stjórnarfundi Verkalýðsfélags Akraness í gær voru fimm stjórnarmeðlimir kvaddir eftir langt og farsælt starf. Þetta eru þau Alma María Jóhannsdóttir, Elí Halldórsson, Jóna Ágústa Adolfsdóttir, Sigríður Sigurðardóttir og Sigurður Guðjónsson. Þau hafa öll starfað í núverandi stjórn frá því hún tók við árið 2003 og hafa því tekið þátt í að byggja upp félagið í öllum þeim áskorunum sem upp hafa komið á þeim tíma. Formaður félagsins þakkaði þeim fyrir gott samstarf og tók fram hversu mikilvægt það er að hafa fólk í stjórninni sem er tilbúið að leggja sig fram í baráttunni og gefa af sér í starfinu. Jafnframt þökkuðu fráfarandi stjórnarmeðlimir fyrir samstarfið og óskuðu nýjum meðlimum alls hins besta í sínu starfi. Á meðfylgjandi mynd má sjá Sigríði Sigurðardóttur (Systu), Elí Halldórsson, Sigurð Guðjónsson, Jónu Á. Adolfsdóttur og Vilhjálm Birgisson.

27
Sep

Kjarasamningur við sveitafélögin samþykktur

Atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga er lokið. Niðurstöður liggja nú fyrir og var samningurinn samþykktur með rúmlega 78% þeirra sem greiddu atkvæði.

Atkvæðagreiðslan var rafræn og sameiginleg hjá 18 aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins. Stóð hún yfir frá 14. til 26. september. Á kjörskrá voru 5.950 manns og var kjörsókn 14,62%. Já sögðu 684 eða 78,62%. Nei sögðu 144 eða 16,55%. 4,83% tóku ekki afstöðu.

Samningurinn gildir frá 1. október 2023 til 31. mars 2024 og tekur til allra félagsmanna aðildarfélaga SGS sem starfa hjá sveitarfélögum. Kjarasamninginn má nálgast hér.  

Eftirtalin félög eiga aðild að samningnum: AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélag Vesturlands, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Grindavíkur, Verkalýðsfélagið Hlíf, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis og Verkalýðsfélag Þórshafnar.

21
Sep

Tveggja daga kjötiðnaðarnámskeið 30. sept og 1. okt. 2023

Símenntun á Vesturlandi kynnir tveggja daga kjötiðnaðarnámskeið 30. sept - 1. okt. 2023

Nánari upplýsingar www.simenntun.is 

kjötiðnaðarnámsk. símenntun sept2023

15
Sep

Kynningarfundur um nýgerðan kjarasamning SGS við Samband íslenskra sveitafélaga

Verkalýðsfélag Akraness heldur opinn kynningarfund um framlengdan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands við Samband íslenskra sveitafélaga í golfskálanum á Akranesi mánudaginn 18. september og hefst kynningin kl 17:00

 

Þeir félagsmenn sem tilheyra undir viðkomandi kjarasamning starfa hjá Akraneskaupsstað, Hvalfjarðasveit og Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða.

 

Félagsmenn sem starfa samkvæmt þessum samningi eru eindregið hvattir til að mætta.

14
Sep

Kosning um samning SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga

Rafræn atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefst í dag 14. september kl. 12. Atkvæðagreiðslan er sameiginleg hjá þeim 18 aðildarfélögum sem eru aðilar að samningnum og lýkur henni þann 26. september kl. 9:00.

Félagið hvetur alla þá sem starfa eftir þessum samningi til að samþykkja hann enda um stuttan samning að ræða sem þó felur í sér ýmsar jákvæðar breytingar. Hér má skoða glærur um samninginn og jafnframt er kynningarefni aðgengilegt inni á heimasíðu Starfsgreinasambandsins.

 

14
Sep

Nýr kjarasamningur við Samband íslenskra sveitarfélaga

Í gær undirrituðu 18 aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga en Verkalýðsfélag Akraness er aðili að þessum samningi og gildir hann fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar, Hvalfjarðarsveitar og hjúkrunar- og dvalarheimilisins Höfða.

Það má segja að þetta sé framlenging á síðasta kjarasamningi enda gildir þessi samningur einungis til 31. mars 2024.

Það sem er nýtt í þessum samningi lýtur að svokölluðum sérstökum greiðslum lægstu launa en hér er verið að samræma samninga sem gerðir hafa verið að undanförnu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þetta gildir þannig að frá launaflokki 117 til launaflokks 130 koma inn sérstakar greiðslur á hvern launaflokk en eðli málsins samkvæmt er hæsta greiðslan á launaflokk 117 eða 19.500 kr. og lægsta greiðslan á launaflokk 130 eða 2.600 kr.

Einnig er rétt að geta þess að þessar sérstöku greiðslur lægstu launa gilda afturvirkt frá 1. apríl og sem dæmi þá munu launaflokkar frá 117-124 fá sérstaka greiðslu sem nemur 19.500 kr. og mun hún gilda afturvirkt eins og áður sagði. Það þýðir að afturvirknin getur numið 136.500 kr. ef þetta kemur til greiðslu 1. nóvember.

Einnig eru viðbótarlaun á einstök starfsheiti og er þar sérstaklega verið að horfa á starfsheiti í leikskólum og heimaþjónustu. Rétt er að geta þess að þessi viðbótarlaun gilda frá 1. október og nemur hækkunin til dæmis hjá starfsmanni/leiðbeinanda í leikskóla 39.270 kr. en til að eiga rétt á þessari greiðslu er getið um að starfsfólk matist með börnum á leikskóla. Persónuálag verður samkvæmt grein 10.2.1., starfsþróunarnámskeið, gr. 10.2.3. menntun á framhaldsskólastigi og gr. 10.2.4 meistarabréf. Þau geta að hámarki orðið 6%. Hinsvegar er persónuálag vegna símenntunar og starfsreynslu óbreytt.

Í þessum samningi er einnig fest í sessi breyting á greiðslum vegna vaktarálags þar sem til dæmis vaktarálag vegna stórhátíðardaga fer upp í 120% en á aðfangadag og gamlársdag kl. 16-24 og jóladag og nýársdag kl. 00:00-8:00 verður 165% álag.  

Desemberuppbót verður þann 1. desember 2023 131.000 kr. en var árið 2022 124.750 kr.

Sameiginleg atkvæðagreiðsla hjá öllum 18 aðildarfélögum SGS verður rafræn í gegnum Advania og hefst í dag 14. september kl. 12 og lýkur 26. september kl. 9 en tengill inn á kosninguna mun birtast hér á forsíðu heimasíðunnar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image