• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
24
Jun

Kröfugerð SGS afhent Samtökum atvinnulífsins

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands afhenti fulltrúum Samtaka atvinnulífsins kröfugerð 17 aðildarfélaga sambandsins á síðasta miðvikudag. Í kröfugerðinni kemur skýrt fram að SGS leggur áherslu á að samið verði í anda þeirrar hugmyndafræði sem gert var í svokölluðum lífskjarasamningi þar sem horft var á krónutöluhækkanir sem og hagvaxtarauka ásamt fjölmörgum öðrum kröfum er lúta að hinum ýmsu réttindum félagsmanna.

Það er alveg ljóst að ef það á að takast að ganga frá kjarasamningum í haust þarf að mynda sterka keðju sem samanstendur af aðilum vinnumarkaðarins, stjórnvöldum, sveitarfélögum, verslun og þjónustu sem og aðkomu Seðlabankans. Þær kostnaðarhækkanir sem dunið hafa á launafólki, heimilum og neytendum á liðnum mánuðum, kostnaðarhækkanir sem nema í sumum tilfellum tugþúsunda aukningu á greiðslubyrði, munu ekki verða látnar átölulausar og því mikilvægt að allir komi að borðinu.

Það er einnig ljóst að ef ekki næst að auka ráðstöfunartekjur launafólks með margvíslegum hætti þá er verkalýðshreyfingunni nauðugur sá kostur að gera það að fullu í gegnum kjarasamningna í formi kauphækkana.

Viðræður munu hefjast að fullu að loknum sumarleyfum þó vissulega muni óformlegt spjall eiga sér stað áður en formlegar viðræður hefjast.

13
Jun

Sjómannadagurinn

Verkalýðsfélag Akraness vill óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn.

Sjómannadagurinn byrjaði á minningarorðum við minningarreit um týnda sjómenn í kirkjugarðinum hér á Akranesi, en þar var lagður blómsveigur til minningar um þá sjómenn sem ekki hafa fundist og hvíla hina votu gröf.

Að lokinni minningarstundinni var haldinn guðsþjónusta í Akraneskirkju sem var virkilega falleg, en þar var íslenskum sjómönnum þakkað þeirra frábæra framlag til gjaldeyrisöflunar fyrir þjóðarbúið. Að lokinni guðsþjónustunni var haldið að Akratorgi þar sem blómsveigur var lagður að styttu sjómannsins til minningar um látna sjómenn.

Það er mikilvægt fyrir almenning í þessu landi að þakka og sýna íslenskum sjómönnum virðingu fyrir þeirra störf sem eru oft á tíðum hættuleg og við krefjandi aðstæður, en eitt er víst að íslenskt samfélag væri ekki jafn sterkt ef ekki væri fyrir þá gjaldeyrisöflun sem sjómenn og fiskvinnslufólk skapar dag hvern.

09
Jun

Veiðileyfi í Svínadal endurgreitt að hámarki 5.900 kr.

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn á félagið endurgreiðir félagsmönnum sínum veiðileyfi í vötnunum í Svínadal að fjárhæð 5.900 kr. En í Svínadal í Hvalfirði eru 3 vötn, Eyrarvatn, Þórisstaðavatn og Geitabergsvatn.

Í þeim veiðist urriði, bleikja, sjóbirtingur og eitthvað af laxi þegar kemur fram á sumarið.

Hægt er að kaupa dagleyfi á kr. 2.500.- eða Sumarkort á kr. 5.900.- sem gilda í öll vötnin í allt sumar.

Frítt er fyrir börn 14 ára og yngri í fylgd með veiðileyfishafa.

Dagleyfin og Sumarkortin eru seld í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Eins og áður hefur komið fram endurgreiðir Verkalýðsfélag Akraness veðileyfin að hámarki 5900 kr..

25
May

Kjaramálaráðstefna SGS haldin á Hótel Örk

Kjaramálaráðstefna Starfsgreinasambands Íslands var haldin á Hótel Örk dagana 23. og 24. maí. Þar var unnið að drögum að komandi kröfugerð vegna kjarasamninganna sem losna í haust.

Það er skemmst frá því að segja að öll aðildarfélög SGS hafa nú þegar skilað umboði og kröfugerðum til SGS að undanskildum Stéttarfélagi Vesturlands og Eflingu. Ástæðan fyrir því að Efling hefur ekki skilað umboði og kröfugerð er vegna aðstæðna í félaginu en mikil vinna er við að koma skipulagi á starfsemi félagsins og því dregst hjá þeim að geta gengið frá sinni kröfugerð. Að sjálfsögðu er tekið tillit til slíkra aðstæðna en tíminn mun leiða í ljós hvort Efling muni ekki örugglega koma með okkur í komandi kjaraviðræður og telur formaður umtalsverðar líkur á að svo verði.

Það var ánægjulegt að sjá að mikill samhljómur var í kröfugerðum aðildarfélaga SGS en fyrri dag ráðstefnunnar gerðu formenn aðildarfélaga SGS grein fyrir kröfugerðum frá sínum félögum og eins og áður sagði voru kröfugerðirnar margar hverjar samhljóma.

Það sem stóð upp úr var að flestir vilja halda áfram með þá hugmyndafræði sem byggð var upp í lífskjarasamningnum sem undirritaður var í apríl 2019 og mun kröfugerð SGS væntanlega endurspegla þá hugmyndafræði. En það er ljóst að aðkoma stjórnvalda að kjarasamningunum í haust þarf að vera umtalsverð eins og hún var 2019. Því er mikilvægt að þríhliða viðræður eigi sér stað, það er að segja atvinnurekendur, verkalýðshreyfingin og stjórnvöld, ef á að vera hægt að ganga frá kjarasamningum í haust.

Gengið verður endanlega frá kröfugerðinni 8. júní en þá verður fundur haldinn á Grand Hóteli þar sem kosið verður um kröfugerðina og kosið í viðræðunefnd sem og tilkynnt hverjir munu leiða hvern hóp fyrir sig.

19
May

Aðalfundur VLFA

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær, miðvikudaginn 18. maí á Gamla kaupfélaginu. Í skýrslu stjórnar fór formaður yfir helstu atriði í starfsemi félagsins á liðnu ári og kom fram í máli hans að félagið stendur gríðarlega vel jafnt félagslega sem fjárhagslega. 

Rekstrarafgangur samstæðunnar var 151 milljón og nemur eigið fé félagsins rétt tæpum 2 milljörðum. Formaður fór yfir kjarasamninga liðins árs og jafnframt yfir þau verkefni sem framundan eru en þar má nefna að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði eru lausir á þessu ári.  

Félagsmenn hafa verið afar duglegir að nýta sér þá þjónustu sem félagið býður þeim upp á og sýnir öll tölfræði það. Sem dæmi má nefna að 1.269 manns fengu greiðslu úr sjúkrasjóði, 363 keyptu afsláttarkort og 302 fengu greidda menntastyrki. Samtals eru þetta um 70% félagsmanna og er það fyrir utan alla aðra þjónustu sem félagið veitir dag hvern. Það er einnig afar ánægjulegt að heyra að félagsmenn séu ánægðir og stoltir af félaginu sínu.  

Eins og alltaf þá er það regla stjórnar að láta félagsmenn njóta góðs af góðri afkomu félagsins og í ár var engin undantekning þar á. En vegna góðrar afkomu var heilsueflingarstyrkurinn hækkaður úr 40.000 kr. í 45.000 kr. og heilsufarskoðunarstyrkurinn hækkaður úr 30.000 kr. í 35.000 kr. Einnig voru dánarbætur hækkaðar úr 360.000 kr. í 400.000 kr. og hámark sjúkradagpeninga úr 500.000 kr. í 550.000 kr.  

Ýmislegt jákvætt er framundan hvað varðar uppbyggingu á félagssvæði VLFA enda atvinnulíf að glæðast aftur eftir þau slæmu áhrif sem Covid hafði. Það sama má segja um hefðir innan félagsins sem ekki hefur verið hægt að halda í af sömu ástæðum en í ár var loks hægt að halda kröfugöngu og hátíðarhöld vegna 1. maí og í ár verður hægt að fara í ferðalag með eldri félagsmenn sem alltaf er mikilvægur partur af starfinu. Það má því segja að bjart sé framundan og staða félagsins mjög góð.  

Að fundi loknum bauð félagið fundargestum upp á ljúfengt lambakjöt með öllu tilheyrandi að hætti Gamla Kaupfélagsins.

 

09
May

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn miðvikudaginn 18. maí kl. 17:00 á Gamla Kaupfélaginu, Kirkjubraut 11

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn miðvikudaginn 18. maí kl. 17:00 á Gamla Kaupfélaginu, Kirkjubraut 11

Dagskrá:

  • Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
  • Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
  • Kosningar sem þurfa að fara fram á aðalfundi samkvæmt 28. grein laga félagsins
  • Lagabreytingar á greinum. 9, 14,21,22, 29 og 36
  • Önnur mál.

Á aðalfundi verða ekki afgreiddar með atkvæðagreiðslu aðrar tillögur og ályktanir en þær sem borist hafa til skrifstofu félagsins 5 dögum fyrir aðalfund eins og 28. grein laga félagsins kveður á um. Ársreikningur félagsins mun liggja frammi á skrifstofu félagsins 7 dögum fyrir aðalfund. Komi tillögur eða ályktanir fram þá munu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins og verða einnig kynntar á heimasíðu félagsins.

Boðið verður upp á kvöldverð eftir fundinn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image