• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
23
May

Aðalfundur félagsins haldinn í gær

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær og í skýrslu stjórnar fór formaður yfir alla kjarasamninga sem félagið hefur gert á liðnu ári sem og önnur verkefni sem félagið hefur unnið að í þágu sinna félagsmanna. Meðal annars fór formaðurinn yfir vel heppnað 100 ára afmæli félagsins sem var þann 14. október. Félagið hélt upp á afmælið með því að hafa opið hús fyrir félagsmenn sem og aðra gesti og komu uppundir 300 manns og um kvöldið voru vel heppnaðir tónleikar sem félagið bauð félagsmönnum sínum á og voru þeir með Helga Björnssyni og Reiðmönnum vindanna.  Einnig gaf félagið út 100 ára afmælisrit sem var afar vel gert þar sem farið var yfir sögu félagsins.

Rekstrarafkoma samstæðunnar var vel við undandi en hún var jákvæð um sem nemur tæpum 225 milljónum og nemur eigið fé félagsins um 2,7 milljörðum. 

Rétt er að geta þess að rekstrarútgjöld sjúkrasjóðs jukust umtalsvert á liðnu ári og námu þau 205 milljónum og jukust um 52 milljónir eða sem nemur 34%. Mestu munar um gríðarlega aukningu á greiðslu sjúkradagpeninga en þær jukust um 55% á milli ára.

Formaður fór yfir fjölda þeirra sem nýttu sér þjónustu félagsins á síðasta ári og þar kom meðal annars eftirfarandi fram:

 

  • Það voru 1726 félagsmenn sem fengu greiðslu úr sjúkrasjóði
  • 435 einstaklingsstyrkir afgreiddir úr menntasjóðum
  • 176 félagsmenn keyptu útilegu- eða veiðikort
  • 286 félagsmenn keyptu gjafabréf á Íslandshótel.

 

Á gjafabréfum og útilegu-og veiðikortum er umtalsverð niðurgreiðsla til félagsmanna og því ávinningur fyrir félagsmenn af að nýta sér þessa þjónustu umtalsverður.

Félagið keypti nýtt sumarhús í Húsafelli í fyrra en það er í Birkihlíð 11 í Húsafelli og einnig endurnýjaði félagið gestahúsið við Ásenda 9 í Húsafelli. Mikill kostnaður fer í að halda bústöðunum við enda viljum við reyna að hafa okkar bústaði eins aðlaðandi og kostur er og því er afar brýnt að félagsmenn gangi vel um bústaðina enda eru þeir eign okkar allra sem erum í félaginu. Það kom fram hjá formanni að mikilvægt sé að fólk gangi frá bústöðunum eins og það vill sjálft koma að þeim.

Í heildina á Verkalýðsfélag Akraness 14 sumarhús vítt og breitt um landið en nýting á þeim hefur verið mjög góð.

 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image