• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Jun

15 útskrifuðust úr framhaldsnámi Stóriðjuskóla Norðuráls

Í gær útskrifuðust 15 starfsmenn Norðuráls úr framhaldsnámi Stóriðjuskóla Norðuráls. Frá upphafi eða frá árinu 2011 hafa 177 nemendur verið útskrifaðir úr Stóriðjuskólanum, þar af 99 úr grunnnámi og 78 úr framhaldsnámi.

Stóriðjuskólinn var á sínum tíma eitt af baráttumálum Verkalýðsfélags Akraness og það tókst í kjarasamningunum 2011 enda var það sameignilegur skilningur forsvarsmanna Norðuráls og stéttarfélaganna að það væri ávinningur beggja aðila að setja á laggirnar slíkt stóriðjunám. Starfsmenn hafa ekki einungis gagn af náminu sem slíku heldur veitir námið starfsmönnum hærri laun. Þeir starfsmenn sem ljúka grunnnáminu fá 5% launahækkun og ljúki þeir síðan framhaldsnámi koma önnur 5% til hækkunar svo í heildina er hægt að fá launahækkun upp á 10%.

Það hefur verið mikil ásókn í stóriðjuskólann og oft hafa færri komist að en vilja. Það varð smá stopp á náminu þegar Covid faraldurinn gekk yfir en vonandi er skólinn að fara aftur á fulla ferð svo hægt verði að taka inn fleiri nemendur á komandi árum því ávinningur beggja er eins og áður sagði ótvíræður.

05
Jun

Nýtt gestahús við Ásenda 9 og endurbætur á Ásenda 10

Það er stefna stjórnar VLFA að vera með góða orlofskosti handa félagsmönnum og það kallar á að halda þarf orlofshúsum félagsins vel við. Nú var verið að setja upp nýtt gestahús við Ásenda 9 en um er að ræða rúmgott hús með salerni, sturtu og svefnaðstöðu fyrir fjóra. Þetta er afar jákvæð viðbót við bústaðinn. Gamla gestahúsið var úr sér gengið og því bráðnauðsynlegt að ráðast í þessa endurnýjun sem hefur heppnast gríðarlega vel.

Einnig var orðin mikil þörf á að taka bústaðinn að Ásenda 10 í gegn að utan en klæðningin var farin að láta verulega á sjá. Þar hefur klæðningin nú að stórum hluta verið endurnýjuð og einnig þakkanturinn. Gluggar voru pússaðir niður sem og hurðar og má segja að bústaðurinn sé eins og nýr að utan eftir þessar viðamiklu endurbætur. Það er eins og áður sagði mikið lagt upp úr því hjá félaginu að hafa bústaðina eins góða og kostur er og það er mikilvægt að brýna fyrir félagsmönnum að ganga vel um bústaðina og muna að þetta eru jú eigur okkar allra.

Fleiri myndir af endurbótum í Ásenda 10 og af flutningi gestahússins í Ásenda 9 má sjá hér.

03
Jun

Formannafundur SGS haldinn í Bolungarvík

Formannafundur Starfsgreinasambands Íslands var að þessu sinni haldinn á Vestfjörðum eða nánar tiltekið í Bolungarvík og heppnaðist hann mjög vel. Meðal annars var farið í vinnustaðaheimsóknir í mjólkurvinnsluna Örnu og fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish ehf. Það var afar fróðlegt fyrir formenn vítt og breitt um landið að sjá þá víðtæku starfsemi sem þar er en nú byggist atvinnulífið í Bolungarvík upp á þremur meginstoðum; fiskeldinu, mjólkurvinnslunni Örnu og almennum sjávarútvegi. Lengi vel bjuggu Bolvíkingar einungis við eina meginstoð sem var sjávarútvegur en nú hafa færst fleiri egg í þeirra körfu.

Á fundinum var einnig farið yfir stöðuna á vinnumarkaðnum en Róbert Farestveit hagfræðingur hjá ASÍ hélt erindi um hinar ýmsu hagfræðistærðir í islensku samfélagi um þessar mundir. Eðli málsins samkvæmt var rætt um þá kjarasamninga sem á eftir að ganga frá sem eru við Samband íslenskra sveitarfélaga og við ríkið. Fundurinn stóð yfir á fimmtudag og föstudag og heppnaðist eins og áður sagði mjög vel.

03
Jun

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í gær, 2. júní, og óskar Verkalýðsfélag Akraness öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn.

Dagurinn byrjaði á minningarstund í kirkjugarðinum á Akranesi þar sem þeirra sjómanna sem ekki hafa fundist var minnst. Að þeirri stund lokinni var haldin guðsþjónusta í Akraneskirkju. Sú athöfn var mjög falleg og var íslenskum sjómönnum þakkað fyrir þeirra mikilvægu störf.

Í messunni voru tveir fyrrverandi sjómenn heiðraðir eftir langt og gott ævistarf en það voru þeir Eiríkur Dalmann Óskarsson og Páll Guðjón Hannesson. Það er mikilvægt fyrir samfélagið að nýta þennan dag til að sýna sjómönnum þakklæti og virðingu fyrir þeirra störf sem oft eru iðkuð við hættulegar og erfiðar aðstæður.

31
May

Golfmót Samiðnar 2024

Þann 16. júní næstkomandi verður árlegt golfmót Samiðnar haldið í Leirunni hjá Golfklúbbi Suðurnesja. Leikin verður punktakeppni með og án forgjafar og veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hvorum flokki auk þess sem nándarverðlaun verða veitt á öllum par 3 holum (holum 3, 8, 13 og 16).

Mótanefnd Samiðnar hvetur alla golfara í aðildarfélögum Samiðnar til að mæta til leiks og einnig eru makar félagsfólks velkomnir. Skráning fer fram hér í golfboxinu eða á netfanginu This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Hámarksfjöldi þáttakenda er 84 manns og þátttökugjald að upphæð 5.500 kr. greiðist við skráningu. Skráningarfrestur í mótið er til 12. júní kl. 16. 

02
May

1. maí heppnaðist vel á Akranesi

1. maí á Akranesi heppnaðist gríðarlega vel í gær. Fjölmargir tóku þátt í göngunni í góðu veðri en yfir 200 manns mættu á hátíðardagskrá sem stéttarfélögin stóðu fyrir í sal eldri borgara á Akranesi.

Dagskráin  var hefðbundin, kvennakórinn Ymur tók nokkur lög ásamt því að sjá um glæsilegt kaffihlaðborð. Formaður VLFA flutti stutt ávarp þar sem hann kom inn á nýgerða kjarasamninga og mikilvægi þess að ná tökum hér á verðbólgu og ná vaxtastiginu niður. Hátíðarræðuna hélt Björg Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins. Hún flutti kröftuga ræðu þar sem hún meðal annars kom inn á þann mikla árangur sem náðist í síðustu kjarasamningum við að bæta kjör ræstingafólks á hinum almenna vinnumarkaði.

Í ræðunni sagði meðal annars:

„Þegar einkafyrirtæki býður í verk og segist geta boðið lægra verð en samt sem áður veitt sömu þjónustu er vert að staldra við og hugsa sig aðeins um. Eina leiðin til að það gangi upp er að lækka laun starfsfólksins, láta fólk hlaupa ennþá hraðar, bjóða upp á verri starfsaðstæður, nú eða skila verra dagsverki. Allt í nafni sparnaðar. Þetta er ósýnilega fólkið sem oft keyrir á milli vinnustaða en tilheyrir þó engum þeirra. Þeim er ekki endilega boðið á jólahlaðborðið eða árshátíðina, koma kannski ekki á kaffistofuna þannig að þú veist ekki hvað þau heita, þau eru ekki hluti af hópnum."

Ræðu Bjargar í heild sinni má lesa hér.

Hér eru fleiri myndir frá deginum.

 

 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image