• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Mar

Kosið um verkfall í Norðuráli

Nú eru liðnir þrír mánuðir frá því að kjarasamningur starfsmanna Norðuráls rann út. Skemmst er frá því að segja að ekkert sé að frétta í þessari deilu og afskaplega lítinn vilja að finna af hálfu fyrirtækisins til þess að ganga frá kjarasamningi þannig að starfsmenn fái launahækkun til að standa undir hinum ýmsu hækkunum sem almenningur í þessu landi hefur þurft að þola á liðnum misserum. Það er þyngra en tárum taki að vita að jafn öflugt fyrirtæki og Norðurál er skuli ekki leggja sig meira fram við að ganga frá kjarasamningi enda eru liðnir 15 mánuðir frá því að starfsmenn fengu síðast launahækkun en á sama tímabili hefur verðlag, afborganir af húsnæði og fleira stökkbreyst.

Það er líka umhugsunarefni að þegar kjarasamningsgerð við þetta öfluga fyrirtæki er skoðuð aftur í tímann tekur oft mjög marga mánuði að ganga frá kjarasamningi og sem dæmi þá tók 9 mánuði að ganga frá samningi þegar kjarasamningur Norðuráls var síðast laus. Það er rétt að geta þess að Norðurál er með umtalsverða vörn hvað vinnustöðvun varðar og sem dæmi þá má ekki kjósa um verkfall fyrr en 3 mánuðum eftir að kjarasamningur rennur út sem er þá núna um mánaðarmótin og síðan líða aðrir 3 mánuðir þar til að niðurkeyrsla á kerjum fyrirtækisins hefst samkvæmt grein um vinnustöðvun í kjarasamningi.

Á þessari forsendu er ekkert annað í stöðunni en að nýta fyrsta tækifæri til þess að kjósa um vinnustöðvun enda engin teikn á lofti um vilja fyrirtækisins til þess að hefja kröftuga vinnu við að ganga frá nýjum kjarasamningi. Kjarasamningi sem tekur tillit til eðli þessarar starfsemi enda er vinna í stóriðjum erfið, krefjandi og oft á tíðum hættuleg. Með öðrum orðum, þetta eru ekki hefðbundin verkamannastörf. Þetta er öflugt útflutningsfyrirtæki sem hefur skilað góðri afkomu í gegnum tíðina og því mikilvægt að fyrirtæki af þessari stærðargráðu sýni vilja til að ganga hratt, vel og örugglega frá launabreytingum til handa sínu starfsfólki. Enda eru fyrirtæki ekkert án öflugra starfsmanna. Að þessu sögðu tilkynnti formaður á fundi hjá ríkissáttasemjara í gær að VLFA muni hefja undirbúning að kosningu um verkfall og stefnir félagið á að hefja kosningu á fimmtudaginn í næstu viku enda engin önnur staða á vellinum en að sýna fulla staðfestu í að knýja fram sanngjarnan og réttlátan kjarasamning.

 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image