• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Apr

Kosningu um verkföll í báðum verksmiðjunum á Grundartanga frestað fram í næstu viku

Í gær var fundað í kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness og þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að kjarasamningi við Elkem Ísland á Grundartanga í húsakynnum ríkissáttasemjara. En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá átti kosning til verkfalls í verksmiðjunni að hefjast á morgun en undirbúningi að kosningunni er lokið.

Í ljósi þess að ögn betri tónn var í forsvarsmönnum Elkem til að reyna að leysa þau örfáu ágreiningsatriði sem starfsmenn hafa haft orð á að vanti til að hægt sé að skrifa undir samning hefur VLFA ákveðið að fresta kosningu um verkfall fram í næstu viku. Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar næsta föstudag þar sem reynt verður að leysa endanlega úr þessum deiluatriðum.

Það er rétt að geta þess að það átti ekki einungis að hefjast kosning um verkfall hjá Elkem heldur einnig hjá Norðuráli en samningur Norðuráls rann út um síðustu áramót eins og hjá Elkem. Til þessa hafa viðræður þar verið algjörlega árangurslausar.

Í gær átti formaður óformlegt samtal við Gunnar Guðlaugsson forstjóra Norðuráls á Grundartanga og var það samtal að mörgu leyti ágætt og gaf formanni von um að hægt yrði að leysa þá deilu án átaka þótt vissulega sé ekkert fast í hendi hvað það varðar. 

Ríkissáttasemjari hefur einnig boðað samningsaðila sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls til fundar á næsta föstudag og í ljósi þessa samtals formanns VLFA og forstjóra Norðuráls og vilja forstjórans til að koma viðræðunum á fullt skrið þá hefur Verkalýðsfélag Akraness einnig ákveðið að fresta kosningu um vinnustöðvun í Norðuráli fram í næstu viku.

Vonandi tekst að leysa þessi ágreiningsmál í báðum verksmiðjunum enda ótækt að starfsfólk sé búið að vera án launahækkana í 15 mánuði á sama tíma og allt hefur hækkað í íslensku samfélagi.

Vissulega getur brugðið til beggja vona í báðum þessum viðræðum en eftir jákvæðari tón þá telur VLFA það skynsamlegt að gera loka atlögu að þessum viðræðum á föstudaginn. Ef það ekki tekst er ljóst að kosning um vinnustöðvun mun hefjast í næstu viku í báðum verksmiðjunum hjá félagsmönnum VLFA.

En það er ögn bjartara yfir þessum viðræðum núna en ljóst eins og áður sagði að það geti dregið snöggt fyrir sólu en það kemur í ljós á föstudaginn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image