• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
May

1. maí heppnaðist vel á Akranesi

1. maí á Akranesi heppnaðist gríðarlega vel í gær. Fjölmargir tóku þátt í göngunni í góðu veðri en yfir 200 manns mættu á hátíðardagskrá sem stéttarfélögin stóðu fyrir í sal eldri borgara á Akranesi.

Dagskráin  var hefðbundin, kvennakórinn Ymur tók nokkur lög ásamt því að sjá um glæsilegt kaffihlaðborð. Formaður VLFA flutti stutt ávarp þar sem hann kom inn á nýgerða kjarasamninga og mikilvægi þess að ná tökum hér á verðbólgu og ná vaxtastiginu niður. Hátíðarræðuna hélt Björg Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins. Hún flutti kröftuga ræðu þar sem hún meðal annars kom inn á þann mikla árangur sem náðist í síðustu kjarasamningum við að bæta kjör ræstingafólks á hinum almenna vinnumarkaði.

Í ræðunni sagði meðal annars:

„Þegar einkafyrirtæki býður í verk og segist geta boðið lægra verð en samt sem áður veitt sömu þjónustu er vert að staldra við og hugsa sig aðeins um. Eina leiðin til að það gangi upp er að lækka laun starfsfólksins, láta fólk hlaupa ennþá hraðar, bjóða upp á verri starfsaðstæður, nú eða skila verra dagsverki. Allt í nafni sparnaðar. Þetta er ósýnilega fólkið sem oft keyrir á milli vinnustaða en tilheyrir þó engum þeirra. Þeim er ekki endilega boðið á jólahlaðborðið eða árshátíðina, koma kannski ekki á kaffistofuna þannig að þú veist ekki hvað þau heita, þau eru ekki hluti af hópnum."

Ræðu Bjargar í heild sinni má lesa hér.

Hér eru fleiri myndir frá deginum.

 

 

24
Apr

Fimm nýir heiðursfélagar

Á aðalfundinum í gær voru fimm aðilar gerðir að heiðursfélögum fyrir óeigingjarnt og frábært starf í þágu félagsins í tugi ára. Þeir aðilar sem áttu hlut hér að máli hafa meðal annars verið í stjórn félagsins frá 19. nóvember 2003 og sum þeirra hafa gegnt trúnaðarstörfum lengur en það og því var tímabært að heiðra þetta ágæta fólk með þessari nafnbót.

Þeir aðilar sem um ræðir eru:

  • Alma María Jóhannsdóttir
  • Elí Halldórsson
  • Jóna Ágústa Adolfsdóttir
  • Sigríður Selma Sigurðardóttir
  • Sigurður Guðjónsson

 

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill þakka þessu fólki fyrir þeirra framlag í þágu félagsins, framlag sem byggist á því að hafa tekið þátt í að efla og styrkja Verkalýðsfélag Akraness á liðnum áratugum og tekið þátt í að gera það að því afli sem það er í dag. Það er ekki sjálfgefið að fólk helgi sig starfi sem tengist verkalýðsbaráttu með þeim hætti sem áðurnefndir aðilar hafa gert.

Þeir sem áður hafa verið heiðursfélagar í Verkalýðsfélagi Akraness eru eftirfarandi en þau eru öll látin:

  • Agnar Jónsson
  • Ásmundur Uni Guðmundsson
  • Bjarnfríður Leósdóttir
  • Garðar Halldórsson
  • Herdís Ólafsdóttir
  • Sigrún Clausen
  • Skúli Þórðarson

 

Allt þetta fólk lék veigamikið hlutverk í starfi félagsins í gegnum tíðina og er það ómetanlegt að fólk láti sig starf félagsins varða.

Myndir frá aðalfundinum má sjá hér.

24
Apr

Aðalfundur félagsins haldinn í gær

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær á Nítjándu í golfskálanum. Er skemmst frá því að segja að félagið er bæði félagslega og fjárhagslega sterkt. Í skýrslu stjórnar var farið yfir starfsemi félagsins á liðnu ári og var af ýmsu að taka enda viðburðaríkt ár að baki.

Rekstrarafkoma allra sjóða félagsins var jákvæð um samtals 285 milljónir og eiga vaxtatekjur þar töluverðan þátt enda vaxtastig hér á landi alltof hátt um þessar mundir. Félagsmönnum hefur fjölgað jafnt og þétt í félaginu á liðnum árum og eru nú tæplega 3.300. Það endurspeglast meðal annars í því að félagsgjöld jukust um 14,5% á milli ára. Það hefur verið stefna stjórnar að láta félagsmenn ætíð njóta góðs af góðri afkomu félagsins og það hefur verið gert undanfarin ár. Meðal annars hefur félagið á undanförnum 12 mánuðum keypt tvö ný sumarhús ásamt því að bjóða upp á niðurgreiðslu á svoköllum flugávísunum þar sem félagsmaður getur keypt 5 flugávísanir á 19.000 kr. hverja ávísun en raunvirði er 25.000 þannig að félagsmaðurinn sparar sér 30.000 kr. fullnýti hann sér þessa þjónustu. Sem dæmi þá voru 519 flugávísanir seldar frá maí í fyrra til ársloka sem þýðir að félagsmenn hafa sparað sér á fjórðu milljón vegna niðurgreiðslu félagsins.

Það kom einnig fram í skýrslu stjórnar að í gegnum sjúkrasjóðinn, menntastyrki og allar niðurgreiðslur sem orlofssjóður býður upp á voru 3.001 skráningar (skráðir styrkir, keypt veiðikort, útilegukort, hótelgjafabréf og flugávísanir) sem sýnir hversu vel félagsmenn eru meðvitaðir um þá þjónustu sem félagið er að veita. Það má áætla að stór hluti félagsmanna nýti sér þjónustuna á einn eða annan hátt þó vissulega geti verið sami einstaklingurinn á bak við nokkrar einingar.

Á hverjum aðalfundi hækkar stjórn félagsins styrki ef afkoma félagsins gefur tilefni til og þannig hefur það verið frá upphafi en félagið greiddi styrki sem námu 123,3 milljónum út á síðasta ári sem er aukning upp á 25% milli ára. Á þessum aðalfundi tilkynnti formaður félagsins að vegna jákvæðrar afkomu félagsins þá hafi verið ákveðið að frá og með 1. maí muni eftirfarandi styrkir hækka með þessum hætti:

  • Hámark sjúkradagpeninga hækkar úr 700.000 í 780.000 kr.
  • Styrkur vegna sálfræðiþjónustu hækkar úr 50.000 kr. í 100.000 kr.
  • Fæðingarstyrkur hækkar úr 155.000 kr. í 170.000 kr.
  • Styrkur vegna heilsufarsskoðunar hækkar úr 50.000 kr. í 55.000 kr.
  • Heilsueflingarstyrkur hækkar úr 50.000 kr. í 55.000 kr.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að stjórn félagsins er umhugað um að skila ætíð góðri afkomu félagsins til félagsmanna í formi hærri styrkja og aukinnar þjónustu úr orlofssjóði enda er það stefna stjórnar að reyna eftir fremsta megni að bjóða upp á góð réttindi og góða þjónustu, félagsmönnum til hagsbóta.

Að loknum fundi var fundargestum boðið upp á lambalæri og meðlæti. Myndir frá fundinu má sjá hér.

11
Apr

Aðalfundur VLFA 2024

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn

þriðjudaginn 23. apríl 2024 kl. 17:00 á Nítjándu (Golfskálanum)

Dagskrá:

  1. 1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
  2. 2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
  3. 3. Kosningar sem þurfa að fara fram á aðalfundi samkvæmt 28. grein laga félagsins.
  4. 4. Heiðrun fyrir vel unnin störf í þágu félagsins.
  5. 5. Önnur mál.

Á aðalfundi verða ekki afgreiddar með atkvæðagreiðslu aðrar tillögur og ályktanir en þær sem borist hafa til skrifstofu félagsins 5 dögum fyrir aðalfund eins og 28. grein laga félagsins kveður á um.

Ársreikningur félagsins mun liggja frammi á skrifstofu félagsins 10 dögum fyrir aðalfund. Komi tillögur eða ályktanir fram þá munu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins og verða einnig kynntar á heimasíðu félagsins,  vlfa.is.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta.

Boðið verður upp á kvöldverð eftir fundinn.

02
Apr

Erum að taka á móti umsóknum - Orlofshús sumar 2024

Orlofshús sumar 2024 

Við erum að taka á móti umsóknum - Hvetjum félagsmenn til að sækja um í gegnum félagavefinn

Einnig er hægt að nálgast umsónareyðublöð á skrifstofu félagsins.

Umsóknarfrestur er til 15. apríl

Nánari upplýsingar um orlofskosti.

We are accepting applications for vacation houses summer 2024.

Application can be made on Félagavefur or by filling out application form at the office.

Application deadline is april 15.

Information about the houses and options this summer. 

20
Mar

Kjarasamningur SGS samþykktur með 82% atkvæða

Rétt í þessu lauk kosningu um nýjan kjarasamning Starfsgreinasamband Íslands við Samtök atvinnulífsins og er óhætt að segja að niðurstaðan hafi verið frábær en kjarasamningurinn var samþykktur með 82% greiddra atkvæða. Það er mat formanns VLFA og SGS að þetta sýni og sanni að sú stefna sem tekin var við gerð þessa kjarasamnings hafi farið vel í okkar félagsmenn. Sú stefna laut að því að ganga hér frá langtímasamningi þar sem aðalmarkmið yrði lækkun verðbólgu og vaxta ásamt ríkulegum aðgerðapakka frá stjórnvöldum.

Já, það er ljóst að félagsmenn SGS eru ánægðir með kjarasamninginn enda er þetta samningur sem skilar félagsmönnum á kauptöxtum 23,6% á samningstímanum ásamt hinum ýmsu greiðslum í gegnum tilfærslukerfin, svosem hækkun barnabóta, húsaleigubóta og fríum skólamáltíðum. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image