• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Mar

Kjarasamningur á almennum vinnumarkaði undirritaður í gær

Í gær var undirritaður nýr kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði sem ber heitið Stöðugleika- og velferðarsamningurinn. Að baki þessum kjarasamningi standa Starfsgreinasamband Íslands, Efling, Samiðn og Byggiðn. Þessar viðræður hafa verið langar og strangar og hafa staðið yfir í tæpa 3 mánuði nánast sleitulaust og æði mikið hefur gengið á. Markmið samningsins frá upphafi voru alltaf skýr, að gera langtímasamning til að skapa skilyrði fyrir minni verðbólgu, lægri vöxtum og stöðugleika hjá íslensku launafólki sem og samfélaginu öllu.

Þetta tókst enda er kjarasamningurinn hófstilltur og á að skapa skilyrði til að hægt sé að ná áðurnefndum markmiðum.

Kjarasamningurinn gildir frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028 eða í 4 ár.

 

Launahækkanir verða með eftirfarandi hætti:

1. febrúar 2024 hækka kauptaxtar um 23.750 kr. og almenn launahækkun verður 3,25%

1. janúar 2025 hækka kauptaxtar um 23.750 kr. og almenn launahækkun verður 3,5%

1. janúar 2026 hækka kauptaxtar um 23.750 kr. og almenn launahækkun verður 3,5%

1. janúar 2027 hækka kauptaxtar um 23.750 kr. og almenn launahækkun verður 3,5%

 

Krónutöluhækkun á samningstímanum er 95.000 kr. sem jafngildir 24% hækkun lægstu launa. Að meðaltali hækkar launataflan í lok samningstímabilsins um tæpar 101.000 kr.

 

Samið var um svokallaðan kauptaxtaauka sem gerir það að verkum að kauptaxtar verkafólks eru varðir fyrir launaskriði sem þýðir á mannamáli að ef launavísitala á almennum vinnumarkaði hækkar um meira en prósentuhækkun kauptaxta þá kemur sá mismunur sem verður á milli hækkunar vísitölu og kauptaxta ofan á kauptaxtana.

Í þessum samningi tókst líka að auka orlofsdaga verkafólks en nú mun starfsfólk sem er orðið 22 ára og hefur starfað í 6 mánuði hjá sama fyrirtæki fá 25 orlofsdaga í stað 24 áður og þessu til viðbótar mun koma nýtt þrep sem er eftir 5 ára starf í fyrirtæki en þá verða orlofsdagar 28. Samtals er því orlofsdögum að fjölga um 3 daga. 

Eitt af meginmarkmiðum þessa samnings var líka að laga kjör ræstingarfólks sem hefur oft á tíðum skrapað botninn hvað varðar kjör á íslenskum vinnumarkaði. Samkvæmt rannsókn Vörðu, sem er rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, kom fram að staða ræstingarfólks á íslenskum vinnumarkaði væri afar slæm og því var það niðurstaða samningsaðila að hjá þessum hóp þyrfti að lagfæra kjörin sérstaklega. Það var gert með því að hækka laun þeirra um 2 launaflokka ásamt því að ræstingarfólk fær greitt mánaðarlega 19.500 kr. vegna sérstakra vinnuaðstæðna og síðan leggst orlof ofan á þá upphæð. Samtals eru því laun ræstingarfólks að hækka um tæp 12% á fyrsta ári.

En til að geta gengið frá hófstilltum kjarasamningi skipti aðkoma stjórnvalda höfuðmáli. Nú liggur fyrir að stjórnvöld hafa kynnt aðgerðapakka sinn til stuðnings þessum kjarasamningum og er hann metinn á 20-25 milljarða á ári eða samtals að lágmarki 80 milljarða á samningstímanum. Það er ljóst að það hefði aldrei verið hægt að ganga frá þessum kjarasamningi nema með þessum aðgerðapakka enda styður hann mjög vel við þau markmið sem samningurinn á að stuðla að.

Helstu atriði aðgerðapakkans snúa að húsnæðisstuðningi og stuðningi við barnafjölskyldur sem og að ríkið skuldbindur sig til að hækka ekki gjaldskrár umfram 2,5% á árinu 2025. Framlög til barnabóta verða aukin um 18 milljarða á samningstímanum til að hækka greiðslur og fjölga þeim sem fá barnabætur. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir verða í grunnskólum frá haustinu 2024 með 14 milljarða króna framlagi frá ríkinu á samningstímanum. Framlög til fæðingarorlofs verða aukin um 11,5 milljarða á samningstímanum og hámarksgreiðslur hækkaðar í 900 þúsund á mánuði í þremur skrefum. Ríki og sveitarfélög munu taka höndum saman um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þá verða 5-7 milljarðar settir í sérstakan vaxtastuðning sem greiddur verður til rúmlega 50 þúsund einstaklinga í maí til að koma til móts við þunga vaxtabyrði. Framlög til húsnæðisbóta verða aukin um 9 milljarða á samningstímanum. Eins og sjá má skiptir þessi aðkoma stjórnvalda gríðarlega miklu máli til að ná fram þeim markmiðum sem sett voru fram. 

Hér má sjá kynningu á aðgerðapakka stjórnvalda.

 

 

 

26
Feb

Páskar 2024

Við erum að taka við umsóknum um orlofshús um páska 2024

Félagsmenn sem vilja sækja um eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu eða með tölvupósti This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. (gefa þarf upp nafn, kt, símanúmer og hvaða orlofshúsi óskað er eftir).
Hægt er að sækja um 9 orlofshús og þrjár íbúðir á Akureyri (Ölfusborgir eru ekki lausar).

Páskaúthlutun fer þannig fram að umsóknir fyrir hvert orlofshús fara í pott og svo er einn dreginn út. 
Þannig eiga allir jafna möguleika á úthlutun. 

- ekki eru dregnir frá punktar vegna páska -

Umsóknir þurfa að hafa borist fyrir lok dags 12. mars.
Dregið verður 13. mars og haft verður samband við þá sem fá úthlutað orlofshúsi

 

- English -

We are accepting applications for vacation houses for Easter 2024

Members who wish to apply are asked to contact the office or by e-mail This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. (name, ID, telephone number and which vacaton option are requested must be given).

You can apply for 9 vacation houses and three apartments in Akureyri (Ölfusborgir is not available).

Easter allocation is done in such a way that applications for each holiday home go into a pool and then one is drawn.

In this way, everyone has an equal chance of being allocated.

- points are not deducted due to Easter -

Applications must be received by the end of March 12.

The draw will take place on March 13 and those who will be allocated a holiday home will be contacted

19
Feb

Samningur sjómanna samþykktur

Talningu er lokið í kosningum Sjómannasambandsfélaga um nýgerðan kjarasamning við SFS - sem undirritaður var 6. febrúar.

Á kjörskrá voru 1104 og kusu 592 eða 53,6%

Já sögðu 367 eða 62% af greiddum atkvæðum

Nei sögðu 217 eða 36,7% af greiddum atkvæðum

Auðir/ógildir voru 8 eða 1,3% af greiddum atkvæðum.

Samningurinn var því samþykktur með góðum meirihluta atkvæða og eru því sjómenn aftur komnir með kjarasamning en fyrri samningi lauk 2019.

Hér má sjá samninginn í heild

 

12
Feb

Kosning: Nýr kjarasamnningur sjómanna 12.-16. febrúar

Í dag, 12. febrúar kl. 12:00 til 16. febrúar kl.15:00 stendur yfir kosning á nýjum samningi sjómanna.

Athugið að hver einstaklingur getur aðeins kosið einu sinni og því ekki hægt að breyta atkvæðinu eftir að búið er að kjósa.

Því er mikilvægt að sjómenn kynni sér samninginn vel áður en þeir kjósa.

Hér er má sjá kynningu á samningi.

Hér má sjá samninginn í heild sinni.

 

Samningurinn er byggður á þeim samningi sem felldur var í fyrra en búið er að taka tillit til þeirra atriða sem gagnrýnd voru í fyrri samningi.

Hér er linkur á rafræna kosningu.

 

07
Feb

Kjarasamningur sjómanna, - kosningar

Nýr kjarasamningur á milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) var undirritaður í gær í húsnæði Ríkissáttasemjara. Samningar á milli aðila hafa verið lausir frá árinu 2019. Árið 2023 var nýr kjarasamningur felldur í atkvæðagreiðslu sjómanna.
Samningaviðræður um nýjan samning hafa staðið yfir síðustu mánuði. Í þeim viðræðum var lögð mikil áhersla á að taka tillit til þeirra athugasemda og gagnrýni sem fram kom í umræðum um samninginn á síðasta ári og hefur það gengið eftir í helstu atriðum.

Í nýja samningnum er binditími samningsins styttur verulega eða úr 10 árum í 5 ár. Það felur í sér að sjómenn geta sagt samningnum upp eftir 5 ár og svo aftur eftir 7 ár. Þetta er gundvallarbreyting á samningnum.

Önnur mikilvæg breyting er að grein 1.39 í samningnum hefur verið breytt. Tekið er út að samningsbundinn gerðardómur leysi úr ágreiningi sem komið getur upp milli aðila vegna ákvæðisins. Í staðinn skipa samningsaðilar hlutlausa óvinhalla nefnd sem hefur það hlutverk. Ef ekki næst samkomulag um nefndarmenn mun Ríkissáttasemjari koma að skipan nefndarmanna.

Þá má finna mikilvæga breytingu um ísun yfir kör sem fara í gáma til sölu erlendis og verður sú ísun ekki á hendi skipverja nema í neyðartilvikum, samkvæmt nýjum samningi. Útgerðarmenn eiga að semja við löndunargengi á staðnum um að ísa yfir körin sem fara í gámana, eigi skipverjar frí við löndun skv. kjarasamningi. Ef sjómenn sjá um yfirísun sjálfir í neyðartilfellum fár þeir greidda yfirvinnu fyrir.

Í samningunum nú er að finna sambærilegt ákvæði og var í síðasta samningi um að framlag í lífeyrissjóð geti hækkað úr 12,0% í 15,5% en sjómenn hafa þó val um þetta atriði.

Sjómenn fá 400.000 króna eingreiðslu frá útgerðarfyrirtækjum ef samningur verður samþykktur. Þetta er viðbót frá fyrri samningi sem skiptir máli. Kemur til greiðslu 1. mars 2024.

Desemberuppbót kemur inn í samninginn þann 15. desember 2028. Miðað verður við 160 lögskráningardaga á ári.

Kynningarglærur er hægt að nálgast hér

Nánari upplýsingar um kjarasamningana má finna á vefsvæði Sjómannasambandsins og facebooksíðu sambandsins www.ssi.is og https://www.facebook.com/sjomannasamband

Nú að lokinni undirritun verða samningarnir kynntir fyrir félagsmönnum og að því loknu hefst rafræn atkvæðagreiðsla 12. febrúar kl. 12:00 og lýkur föstudaginn 16. febrúar kl. 15:00

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image