• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Apr

Kjarasamningur við Elkem Ísland undirritaður hjá Ríkissáttasemjara í dag

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni var kjarasamningur Elkem Ísland felldur ekki alls fyrir löngu. Því fékk samninganefndin það hlutverk að leita leiða til að ganga frá nýjum kjarasamningi og það skal fúslega viðurkennast að það hefur ekki gengið þrautalaust því það er ætíð erfitt að vinna með slík verkefni enda hafa samningsaðilar yfirleitt teygt sig eins langt og kostur er við gerð upphaflega kjarasamningsins.

Þrátt fyrir þá staðreynd þá náðist að bæta við kjarasamninginn en dagmenn eru að fá 0,11% viðbót við sínar launabreytingar og hjá vaktmönnum náðist samkomulag um svokallaða rauða daga sem falla frá mánudegi til föstudags en það var sett inn í vaktaálagið sem gerir það að verkum að vaktaálagið fer úr 37,62% í 38,26% sem skilar vaktmönnum 0,43% launahækkun eða tæpum 50.000 kr. á ársgrundvelli. Öll laun hækka um tæp 6,1% eða með sambærilegum hætti og var gert í Norðurálssamningnum. Einnig náðist að tryggja að greitt verði fyrir stórhátíðardaga sem sambærilegum hætti og gert er í Norðuráli en ágreiningur um þetta mál mun fara fyrir Félagsdóm og ef það mál vinnst þar mun koma til afturvirkni eða eins og dómur mun kveða á um. En þessi breyting mun skila því að starfsmenn munu fá allt að 20.000 kr. fyrir 8 tíma vakt á stórhátíðardegi en voru áður einungis að fá rétt um 2.900 kr. Hér er um umtalsverða kjarabót að ræða sem getur skilað, þegar allir stórhátíðardagar eru teknir með, allt að 80.000 kr. kjarauppbót á ársgrundvelli. 

Orlofs- og desemberuppbætur hækka umtalsvert eða í 308.776 kr. og verða samtals 617.551 kr. og hækka því um 35.595 kr. á ári. 

Samningurinn gildir í 4 ár og munu launabreytingar verða tengdar við 95% af launavísitölu en þá aðferðafræði þekkja starfsmenn stóriðju á Grundartanga mjög vel og hefur hún reynst ábatasöm fyrir þá á liðnum árum enda tryggir launavísitalan allt það launaskrið sem verður á íslenskum vinnumarkaði. Heildarlaun ofngæslumanna frá 1. janúar 2025 eru að hækka um 49.552 kr. hjá byrjanda og hjá starfsmanni með 10 ára starfsreynslu um tæpar 60.000 kr. eða 6,67%. Með hækkun á orlofs- og desemberuppbótum nemur prósentuhækkunin yfir 7%. Dagmenn eru að hækka frá 36.378 kr. upp í tæpar 43.000 kr. á mánuði og með orlofs- og desemberuppbótum nemur þeirra hækkun 6,5%. 

Hægt er að skoða kynningu um samninginn hér og skorar formaður VLFA á alla starfsmenn að kynna sér ítarlega hvað fellst í þessum samningi enda er það mat hans að kjarasamningurinn sé gríðarlega góður þó alltaf sé það þannig að menn vilji fá meira. En samningurinn er að skila meira en þeir samningar sem gerðir hafa verið í þessari kjarasamningslotu sé tekið tillit til meðaltals hækkunar launavísitölunnar á liðnum árum og áratugum. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image