• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Sep

Fræðsludagar og formannafundur

Dagana 6. og 7. september stóð Starfsgreinasamband Íslands fyrir fræðsludögum fyrir starfsfólk aðildarfélaga þess og fóru þeir fram á Hótel Keflavík. Starfsmenn skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness tóku þátt í fræðsludögunum að þessu sinni ásamt rúmlega 30 öðrum þátttakendum og var aðstaðan öll til fyrirmyndar. 

Dagskráin var bæði fræðandi og áhugaverð en ekki er síður mikilvægt að hitta aðra sem sinna sömu störfum og geta þannig myndað tengsl sem nýtast vel í þeim fjölbreyttu verkefnum sem starfsfólk stéttarfélaga fæst við. Auk fræðsluerinda fór fram öflugt hópastarf þar sem hin ýmsu mál sem brunnu á þátttakendum voru rædd. Innan Starfsgreinasambandsins eru 18 aðildarfélög víðsvegar um landið og með fræðsludögum sem þessum gefst tækifæri til að styrkja heildina og stuðla að góðri samstöðu.

Að fræðsludögunum loknum mættu formenn aðildarfélaganna á útvíkkaðan formannafund sem fram fór 7. og 8. september. Sá fundur heppnaðist jafnframt mjög vel og eins og hjá starfsfólkinu var þar mikil samstaða sem er mikilvægasta afl verkalýðshreyfingarinnar í þeim flóknu verkefnum sem framundan eru.

31
Aug

Ferð eldri félagsmanna 2023

Í gær, miðvikudaginn 30. ágúst, bauð Verkalýðsfélag Akraness eldri félagsmönnum sínum í árlega dagsferð. Ferðin heppnaðist vel og var dagurinn einstaklega ánægjulegur enda eru þessar ferðir ómissandi hluti af hefðum félagsins.

Lagt var af stað frá Krónuplaninu um 8:30 og stefnt til Hvanneyrar. Leiðsögumaður í ferðinni var Gísli Einarsson og sagði hann frá ýmsu áhugaverðu í umhverfinu auk þess að taka reglulega nokkur lög á harmonikkuna sem hann hafði að sjálfsögðu meðferðis. Veðrið var milt og gott allan daginn.

Hópurinn kom að Hvanneyri rétt fyrir 9:30 og þar tók á móti okkur Bjarni Guðmundsson, prófessor og fyrrum kennari við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann sagði frá ýmsu tengdu staðnum, bæði í fortíð og nútíð og tók einnig lagið með hópnum við undirspil Gísla.

Þá var komið að því að keyra í átt að Bifröst, til stóð að fara yfir gömlu Hvítárbrúna en vegna viðhalds var ekki leyfilegt að fara á rútum þar yfir. Var því farið til baka sömu leið og komið var, keyrt í gegnum Borgarnes og þaðan sem leiðin lá að Bifröst. Á Hótel Bifröst fékk hópurinn höfðinglegar móttökur, þar var nóg pláss til að sitja og spjalla eða ganga um inni og úti á meðan beðið var eftir matnum. Um 11:30 var komið að hádegismatnum sem var dýrindis lambalæri með ýmsu meðlæti og á eftir var boðið upp á úrval eftirrétta og kaffi.

Þegar allir voru orðnir saddir og sælir var haldið aftur af stað og í þetta sinn var farið í Reykholt. Þar byrjaði hópurinn á að hlusta á Sigrúnu Guttormsdóttur Þormar, sviðsstjóra þjónustu, segja frá ýmsu tengdu staðnum og sögu hans. Eftir áhugaverðan fyrirlestur fékk hópurinn að ganga um svæðið, bæði innan- og utandyra. Á meðan sumir skoðuðu Snorrastofu eða bókasafnið voru aðrir sem tóku lagið með Gísla fyrir utan kirkjuna.

Síðasti áfangastaður ferðarinnar var Hótel Hamar þar sem boðið var upp á kaffihlaðborð. Áður en sest var til borðs var stoppað örstutt hjá gamla hótelinu á svæðinu sem er staðsett við golfvöllinn Hamarsvöll en þar er fallegt útsýni. Fyrir heimferð var fyllt á orkuna með því að gæða sér á brauðtertum, kleinum, flatkökum með hangikjöti og súkkulaðiköku.

Hópurinn kom til baka á Krónuplanið um 17:30 og allir voru ánægðir með skemmtilegan dag og góða samveru.

Myndir úr ferðinni má sjá hér.

25
Aug

Stjórn VLFA fundaði í gær

Í gær kom stjórn Verkalýðsfélags Akraness saman en umtalsverð endurnýjun varð í stjórninni eftir síðustu kosningar. Þá komu 7 nýir einstaklingar inn sem starfa vítt og breitt um félagssvæði VLFA. Þetta er ungt fólk sem er áhugasamt um verkalýðsmál og er afar gott að sjá hversu auðvelt var að fá ungt fólk til trúnaðarstarfa fyrir félagið. Á fundinum bauð formaður þau sérstaklega velkomin í aðalstjórn félagsins. 

Á fundinum var farið yfir hin ýmsu mál og eðli málsins samkvæmt bar komandi kjaraviðræður umtalsvert á góma sem og þær glórulausu stýrivaxtahækkanir sem dunið hafa á heimilum og launafólki þessa lands að undanförnu. Kom fram á fundinum að þessar vaxtahækkanir muni síður en svo auðvelda gerð kjarasamninga í haust. Einnig var farið yfir að nú er framundan dagsferð sem félagið býður eldri félagsmönnum sínum í árlega en hún er fyrirhuguð þann 30. ágúst næstkomandi.

Það kom einnig fram að úr stjórn félagsins gengu nú reynslumiklir aðilar sem höfðu gegnt trúnaðarstörfum fyrir félagið í vel á annan tug ára en þau hafa lokið störfum á íslenskum vinnumarkaði og því var tímabært að hleypa nýju fólki inn sem er virkt á vinnumarkaði. Er þessu fólki sem vék úr stjórn þakkað innilega fyrir frábært starf í þágu félagsins en félagið stendur um þessar mundir afar vel félagslega sem fjárhagslega.

16
Aug

Er símenntun ekki eitthvað fyrir þig ? Educational opportunities for you ?

Símenntun á Vesturlandi og Verkalýðsfélag Akraness áætla að setja af stað frístunda- og starfsþróunarnámskeið í vetur.

Til þess að framboð á námskeiðum verði í samræmi við óskir félagsfólks biðjum við okkar frábæra félagsfólk að svara meðfylgjandi könnun.

 

We would like your opinion on courses you would like to attend this winter, in cooperation of Verkalýðsfélag Akraness and Símenntun á Vesturlandi.

Survey form in english and polish.

 

Islenska: https://forms.office.com/e/4DUSLwDZ5j

Könnunin er nafnlaus - The survey is anonymous - Ankieta jest anonimowa

 

 Verkalýðsfélag Akraness  styrkir félagsfólk sitt til að sækja þau námskeið sem í boði verða.

16
Aug

Verða hvalveiðar heimilaðar 1. september?

Eins og fram kom í frétt um daginn þá ákvað Hvalur hf. að bjóða starfsmönnum vinnu áfram þrátt fyrir hið ótrúlega tímabundna bann við hvalveiðum sem matvælaráðherra setti á sólarhring áður en veiðar áttu að hefjast. Formaður VLFA lýsir yfir ánægju með að Hvalur hf. hafi boðið starfsmönnum vinnu í sumar en að sjálfsögðu er Hvalur hf. að tryggja að fyrirtækið hafi mannskap þegar svokallaða „tímabundna“ hvalveiðibann rennur út þann 1. september.

Enda blasir við að Hvalur mun fara á veiðar 1. september og reyna að lágmarka það gríðarlega fjárhagstjón sem matvælaráðherra hefur valdið starfsmönnum og fyrirtækinu.

Rétt er að geta þess að sú vinna sem er í boði hjá Hval hf. er einungis dagvinna ef formaður skilur þetta rétt og nema þær launatekjur einungis brot af þeim tekjum sem starfsmenn hefðu annars haft ef þetta ólöglega tímabundna hvalveiðibann hefði ekki komið til.

Það verður fróðlegt að sjá hvort matvælaráðherra ætli að halda áfram að ástunda ógeðfelld stjórnsýsluvinnubrögð og heimila ekki veiðarnar 1. september eins og ráðherrann hefur nú þegar gefið í skyn að hún ætli sér að gera.

Það er alveg ljóst að Hvalur hf. er að undirbúa margra milljarða skaðabótakröfu á hendur ríkinu. Það er bara spurning hversu há hún verður, en það mun væntanlega ráðast á því hvort veiðarnar verða heimilaðar 1. september eða ekki.

Núna er hins vegar stóra spurningin hvort hvalveiðar verði heimilaðar 1. september eða ekki en eitt er víst að matvælaræaðherra hefur sýnt í verki að hún er svo sannarlega tilbúin að víkja lagabókstafnum til hliðar til að koma sínum pólitískum áherslum í gegn.

Það verður hins vegar fróðlegt að sjá viðbrögð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins ef matvælaráðherra heimilar ekki veiðar frá og með 1. september.

Það er mat formanns VLFA að ef veiðarnar verði ekki heimilaðar þá hljóti þetta ríkisstjórnarsamstarf að springa, annað er nánast útilokað.

15
Aug

Stjórn VLFA sjálfkjörin

Frestur til að skila inn framboðslistum til stjórnarkjörs rann út á hádegi í dag. Þar sem ekki bárust aðrir listar en sá sem stjórn og trúnaðarráð lagði fram telst sá listi sjálfkjörinn eins og 24. gr. laga félagsins kveður á um..

Umtalsverðar breytingar verða á stjórn félagsins en úr stjórn fara nokkrir stjórnarmenn sem hafa látið af störfum á íslenskum vinnumarkaði sökum aldurs. Rétt er að geta þess að þessir einstaklingar hafa verið í stjórn félagsins allt frá árinu 2004. En þau eru Sigríður Sigurðardóttir, Elí Halldórsson, Sigurður Guðjónsson, Alma M. Jóhannsdóttir og Jóna Á. Adolfsdóttir.

Einnig fór úr stjórn Kristófer Jónsson en hann tilheyrir ekki lengur VLFA sökum þess að hann er orðinn stýrimaður skuttogara og einnig Tómas Rúnar Andrésson en hann lést á síðasta ári.

Stjórn félagsins vill færa þeim kærar þakkir fyrir frábært samstarf og vel unnin störf í þágu félagsins og þátttöku þeirra í þeirri miklu uppbyggingu sem verið hefur á starfsemi félagsins á undanförnum árum.

Nýir í stjórn Verkalýðsfélag Akraness eru Jón Vilhelm Ákason, Katrín Ósk Sigurdórsdóttir, Allan Freyr Vilhjálmsson, Steinunn Guðmundsdóttir, Dagbjört Guðmundsdóttir og Ingibjörg Helga Rögnvaldsdóttir.

Að öðru leyti hafa ekki orðið fleiri mannabreytingar í stjórn. Vill formaður bjóða stjórnarmenn hjartanlega velkomna til starfa með von um að samstarfið verði félaginu áfram jafn farsælt og það hefur verið hingað til.

Það er rétt að geta þess að stjórn Verkalýðsfélags Akraness er eins sú fjölmennasta sem gerist í verkalýðshreyfingunni en í heildina skipa 18 stjórnarmenn stjórn félagsins. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image