• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Mar

Kosning um verkfall í Elkem hefst í næstu viku

Í gær var haldinn fyrsti fundur hjá ríkissáttasemjara eftir að kjarasamningur við Elkem var felldur með 58% greiddra atkvæða. Frá því að kjarasamningurinn var felldur hefur formaður talað við tugi manna til að reyna að átta sig á hvað varð þess valdandi að kjarasamningurinn var felldur. Almennt voru starfsmenn eftir þessum samtölum að dæma sáttir við kjarasamninginn. Það sem stendur upp úr eftir þessi samtöl er að það er launamunur á milli grunnlauna dagmanna og vaktmanna sem er búinn að vera við lýði í hartnær 30 ár sem vaktmenn eru afar ósáttir með en sá munur nemur 2,15%. Einnig komu fram einhver atriði til viðbótar sem þyrfti að lagfæra þó það hafi ekki komið skýrt fram en þó ber að geta þess að dagvinnumenn sem vinna 5. hverju helgi telja mikilvægt að fá einhverja umbun fyrir þá vinnutörn.

Þessum skilaboðum kom formaður VLFA rækilega á framfæri og hefur svosem átt í samtölum bæði við forsvarsmenn fyrirtækisins og SA sem fara með samningsumboð fyrir fyrirtækið en það hefur ekki borið árangur til þessa né bar það árangur á fundinum í gær.

Í ljósi þeirra staðreynda tilkynnti formaður Verkalýðsfélags Akraness á fundinum í gær að félagið væri nauðbeygt  til að boða til vinnustöðvunar og að undirbúningur að kosningu um verkfall meðal félagsmanna VLFA færi á fulla ferð. Stefnt verður að því að kosning um vinnustöðvun muni hefjast á fimmtudaginn í næstu viku. Félagið hefur ekki aðra kosti eftir að starfsmenn hafa fellt samninginn með jafn afgerandi hætti og raun ber vitni og samtöl til að finna lausn á málinu hafa ekki borið árangur. Formaður er að undirbúa hvaða hópar innan fyrirtækisins munu taka þátt í slíkri kosningu.

Formanni er ekki kunnugt um hvort hin fjögur stéttarfélögin sem eiga aðild að samningnum ætli að fylgja VLFA eftir með kosningu um vinnustöðvun en það er þeirra að svara því hvort þau hafi í hyggju að gera slíkt eða ekki en VLFA er staðráðið í að svara kalli starfsmanna sem felldu samninginn með 58% atkvæða enda ekkert annað í stöðunni eins og áður sagði. 

En vissulega er það einlæg von Verkalýðsfélags Akraness að hægt verði að leysa þessa deilu áður en til kosninga kemur enda er það bjargföst trú félagsins að kjarasamningurinn sé mjög góður. Félagið gerir sér hinsvegar algjörlega grein fyrir því að áðurnefndu atriði þarf að finna lausn á til að sátt ríki til framtíðar.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image