• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

01
Dec

Á að dusta rykið af svokölluðu Salek samkomulagi?

Eins og fram hefur komið í fréttum þá hefur ríkisstjórn Íslands skipað nefnd um gerð græn­bók­ar um kjara­samn­inga og vinnu­markaðsmál. Nefndinni er ætlað að skila til­lög­um sín­um til for­sæt­is­ráðherra í lok apríl á næsta ári svo unnt verði að taka hana til um­fjöll­un­ar fyr­ir þinglok.

Í nefnd­inni, sem Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra skipaði, eiga sæti þau Henný Hinz, aðstoðarmaður rík­is­stjórn­ar sem er jafn­framt formaður nefnd­ar­inn­ar, Elín Blön­dal, aðjúnkt við laga­deild Há­skól­ans á Bif­röst, og Vil­hjálm­ur Eg­ils­son hag­fræðing­ur. 

Það er mat mitt að með þessari grænbókarnefnd stjórnvalda og gríðarlegum stuðningi Samtaka atvinnulífsins eigi að gera harða atlögu að því að dusta rykið af svokölluðu Salek samkomulagi sem undirritað var í október 2015. Í Salek samkomulaginu var kveðið á um að koma ætti á nýju samningalíkani við gerð kjarasamninga að norrænni fyrirmynd og stefnt var á að þetta nýja samningalíkan tæki gildi fyrir árið 2017.

Það er engum vafa undirorpið að gagnrýni Verkalýðsfélags Akraness á Salek samkomulagið á sínum tíma varð þess valdandi að það komst sem betur fer ekki á laggirnar en það var ekkert stéttarfélag á Íslandi sem barðist jafn mikið gegn þessu Salek samkomulagi og VLFA.

Rétt er að rifja upp að fyrrverandi og að hluta til núverandi forysta ASÍ tók þátt í að undirrita samkomulag um Salek árið 2015 og átti það samkomulag að verða leiðarvísir að nýju vinnumarkaðsmódeli. Þetta nýja vinnumarkaðsmódel gekk út á að takmarka samningsrétt stéttarfélaganna og taka upp miðstýrða ákvörðunartöku um hvert svigrúm til launabreytinga geti verið. Semsagt að ætíð yrði samið um hófstilltar launahækkanir sem væru á bilinu 2 til 3,5%

Það er líka rétt að rifja upp að þeir sem vildu brjóta niður frjálsan samningsrétt launafólks lét aðila frá Noregi gera skýrslu sem bar heitið „Nýtt samningalíkan fyrir Ísland“

Í viðtali við Steinar Holden sem gerði skýrsluna fyrir Salek hópinn árið 2015 kom eftirfarandi fram sem segir allt sem segja þarf um þetta ágæta fólk vildi taka upp:

„Þar sem hóflegar launahækkanir leiða til aukins hagnaðar fyrirtækjanna er mikilvægt að meðlimir stéttarfélaganna sjái þær hafa jákvæð áhrif á fjárfestingar og atvinnustig en hafi ekki eingöngu í för með sér hærri arðgreiðslur eða launahækkanir æðstu stjórnenda.“

Hugsið ykkur að um þetta snerist nýtt vinnumarkaðsmódel, að takmarka og skerða frjálsan samningsrétt launafólks til þess eins að miðstýra kjarasamningsgerð og tryggja að samið yrði með afar hófstilltum hætti til að auka hagnað fyrirtækja enn frekar.

Að hugsa sér að á þessum árum var Verkalýðsfélag Akraness nánast eitt stéttarfélaga í baráttu gegn þessu Salek samkomulagi og fékk meira að segja harða gagnrýni frá mörgum aðilum innan verkalýðshreyfingarinnar og margir hafa ekki enn fyrirgefið Verkalýðsfélagi Akraness fyrir baráttu sína gegn þessu vinnumarkaðsmódeli.

Verkalýðsfélag Akraness er stolt af því að hafa farið fremst í því að brjóta þessa hugmyndafræði græðginnar fyrir fyrirtækin á kostnað launafólks á bak aftur. Enda gengur þetta vinnumarkaðsmódel út á að skerða og takmarka samningsrétt launafólks. Það átti ekkert að horfa til sambærilegs vaxtastigs, verðtryggingar, tryggingar og vöruverðs á Norðurlöndunum. Nei, bara semja um hóflegar launahækkanir. En rétt er að geta þess að það kostar fjögurra manna fjölskyldu 150.000 krónum meira að greiða af húsnæðislánum, tryggingum og kaupa í matinn í hverjum mánuði en í hinum Norðurlöndunum.

Það er mat mitt að eins og nýtt vinnumarkaðsmódel var hugsað þá var það eðli málsins samkvæmt gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem og á stjórnarskránni enda er samningsfrelsið hornsteinn stéttarfélagsbaráttu á Íslandi.

Að þessu sögðu ítreka formaður að hann óttast að þessi nýja grænbókarnefnd ríkisstjórnarinnar ætli sér að dusta rykið ef þessum Salek hugmyndum og gera enn eina atlögu að frjálsum samningsrétti launafólks til þess eins að þóknast auðvaldinu hér á landi.

Rétt er að rifja upp hvað forsætisráðherra sagði nýverið um að skerða og takmarka einn mikilvægasta rétt launafólks sem er verkfallsrétturinn. En orðrétt sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra: „Við vilj­um leysa deil­ur við samn­inga­borðið og raun­ar finnst mér ljóður á okk­ar kerfi að rík­is­sátta­semj­ari hafi ekki heim­ild til þess að fresta verk­föll­um. Slík­ar heim­ild­ir hafa sátta­semj­ar­ar víða á Norður­lönd­un­um svo dæmi sé tekið.“

Formaður VLFA skal fúslega viðurkenna að maður fær það sterklega á tilfinninguna að nú eigi enn og aftur að þóknast auðvaldinu og vinna að því að takmarka og skerða rétt verkalýðshreyfingarinnar sem hún hefur til að krefjast þess að launafólk fái réttláta og sanngjarna hlutdeild í verðamætasköpun fyrirtækja.

Það kemur formanni verulega á óvart ef slík aðför verður gerð af hálfu félagshyggjuflokka eins og Framsóknarflokksins og Vinstri grænna gagnvart verkalýðshreyfingunni.

Það er nöturlegt að hlusta á stjórnmálamenn og fulltrúa atvinnulífsins dásama vinnumarkaðsmódelið á Norðurlöndunum sem er svo sannarlega ekki gallalaust enda er þátttaka launafólks í verkalýðshreyfingunni á hröðu undanhaldi á Norðurlöndunum m.a. sökum þess hversu miðstýrð hreyfingin er þar. Hér á landi eru um eða yfir 90% launafólks í stéttarfélögum en á Norðurlöndunum er þátttaka þar komin í sumum tilfellum um eða undir 50%.

Mikilvægi stéttarfélaga

Formaður tók við formennsku í Verkalýðsfélagi Akraness árið 2004 og trúið honum að hafi hann efast um mikilvægi stéttarfélaga þá hvarf sá efi strax út um gluggann á fyrstu dögum mínum í því að stýra stéttarfélagi.

Frá árinu 2004 hefur Verkalýðsfélag Akraness innheimt vegna kjarasamningsbrota um einn milljarð og er þá ekki verið að taka tillit til margfeldisáhrifa sem sum innheimtumálin hafa haft á framtíðar leiðréttingar á kjörum minna félagsmanna.

Að sjálfsögðu eru fjölmargir atvinnurekendur sem koma fram af virðingu og sanngirni gagnvart sínum starfsmönnum en formaður segir að það séu svo sannarlega til drullusokkar innan raða atvinnurekanda sem víla ekki fyrir sér að þverbrjóta á kjarasamningsbundnum réttindum launafólks.

Formanni Verklýðsfélags Akraness er það algjörlega til efs að nokkurt stéttarfélag á Íslandi hafi farið jafn oft með ágreiningsmál sem ekki hefur tekist að leysa í sátt við atvinnurekendur fyrir dómstóla, miðað við stærð félagsins. VLFA hefur farið með yfir 20 mál fyrir dómstóla frá árinu 2004 og unnið 90% að hluta eða öllu leyti. Í þessu samhengi er rétt að rifja upp að í síðasta mánuði vann Verkalýðsfélag Akraness mál fyrir Landsrétti sem mun skila félagsmönnum VLFA sem heyrðu undir málið uppundir 100 milljónum.

„Leikurinn“ á milli hins vinnandi manns og atvinnurekandans er svo gríðarlega ójafn að það er vart hægt að hafa orð á því. Því er svo mikilvægt fyrir launafólk að hafa sterk og öflug stéttarfélög á bakvið sig til að jafna þennan gríðarlega aðstöðumun á milli launafólks og atvinnurekandans.

Að öllu þessu sögðu er það sorglegt og þyngra en tárum taki að skynja að stjórnvöld skuli hafa einbeittan vilja til að skerða getu stéttarfélaga til að sinna sínu mikilvæga starfi sem er að tryggja lífsafkomu launafólks og verja réttindi þeirra.

Eitt er víst að öllum slíkum skerðingum á getu verkalýðshreyfingarinnar til að sinna þessu hlutverki af hálfu stjórnvalda og atvinnurekenda verður mætt af fullri hörku.

27
Nov

Formaður fundaði með forstjóra Landsvirkjunar

Formaður félagsins átti fund með Herði Arnarssyni forstjóra Landsvirkjunar í morgun, en fundurinn var að frumkvæði forstjóra LV. Eins og margir vita hafa formaður VLFA og forstjóri LV deilt um á opinberum vettvangi hvort Landsvirkjun sé með verðlagningu sinni á raforku til orkusækins iðnaðar að ógna öryggi og lífsafkomu þeirra sem starfa í greininni í hættu.

Á fundinum skiptumst formaður VLFA og forstjóri LV á skoðunum og kom formaður VLFA því vel á framfæri að hann óttaðist um atvinnuöryggi og lífsafkomu sinna félagsmanna vegna hækkunar á raforku til stóriðjufyrirtækja á Grundartanga og fór hann einnig ítarlega yfir mikilvægi sem stóriðjufyrirtækin eru samfélaginu hér á Akranesi.

Þetta var góður fundur þótt ljóst sé að aðilar séu ekki sammála um allt, þá er ljóst að báðir aðilar eru sammála um mikilvægi orkusækins iðnaðar fyrir íslenskt samfélag.

Formaður kom því á framfæri að hann telur mikilvægt að Landsvirkjun nái saman við öll orkusækin fyrirtæki þar sem tryggt verði að stóriðja hér á landi verði samkeppnishæf við sambærilegan iðnað í þeim löndum sem við erum að bera okkur saman við.

Ef það gerist ekki eru umtalsverðar líkur á að þessi mikilvægi iðnaður leggist niður með tímanum og því mikilvægt að fyrirtæki í þessum iðnaði nái samningum við Landsvirkjun þar sem allir aðilar geti vel við unað.

25
Nov

Ykkar skoðun skiptir máli !

Kæru félagar

Nú þurfum við hjá Verkalýðsfélagi Akraness á ykkar hjálp að halda. Við viljum biðja ykkur að taka þátt í stuttri skoðanakönnun um stöðu ykkar á vinnumarkaði. Það tekur stuttan tíma og allir sem svara komast í pott og geta unnið 30.000 króna gjafakort.

Könnunin er á vegum Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, sem var stofnuð af ASÍ og BSRB nýverið. Könnunin er mikilvægur liður í upplýsingaöflun um stöðuna á vinnumarkaði, sér í lagi meðal atvinnuleitenda. Niðurstöður hennar munu hjálpa okkur við að greina hvaða úrræði atvinnulausir telja að komi þeim best og við hvaða erfiðleika þessi hópur glímir.

Könnunin er tvískipt. Fyrri hlutanum svara allir og tekur aðeins fimm mínútur að svara. Þar er spurt um húsnæði, fjárhagsstöðu, fátækt, líðan, heilsufar, heilbrigðisþjónustu, sumarfrístöku, nýtingu hlutabótaleiðarinnar, viðhorf til atvinnuhorfa og breytinga á atvinnuleysisbótakerfinu.

Seinna hluta könnunarinnar svara einungis þeir sem eru í atvinnuleit eða á uppsagnarfresti og gæti það tekið um 15 mínútur. Þar er spurt um búferlaflutninga í tengslum við starf, atvinnuleit, hverskonar starfi viðkomandi er tilbúinn að taka, hvort hafi verið leitað að starfi, ef ekki þá hvers vegna, viðhorfi til fræðslu og náms, viðhorf til þjónustu Vinnumálastofnunar og stéttarfélags.

Könnunina finnið þið hér: https://www.research.net/r/vinnumarkadur

Framkvæmd könnunarinnar er alfarið í höndum Vörðu, sem sér um hönnun spurninga, uppsetningu, framkvæmd og mun sjá um úrvinnslu á niðurstöðum.

 

  •  Könnunin verður opin í tvær vikur og hægt er að svara henni í síma, spjaldtölvu eða í tölvu.
  •  Könnunin er á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku.
  •  Þrír þátttakendur vinna 30.000 kr. gjafakort fyrir þátttökuna.
  •  Könnunin opnar þriðjudaginn 24. nóvember og verður lokað þriðjudaginn 8. desember. 

 

Við hvetjum alla okkar félagsmenn til að taka þátt í könnuninni, enda afar mikilvægt að fá sjónarmið sem flestra til að niðurstöðurnar nýtist sem best við að móta og styðja við kröfur verkalýðshreyfingarinnar

20
Nov

Ertu ekki örugglega búinn að endurfjármagna húsnæðislánið þitt?

Eitt af aðalmarkmiðum okkar sem komu að gerð Lífskjarasamningsins var að auka ráðstöfunartekjur okkar félagsmanna með fleiri þáttum en bara beinum launabreytingum.

Þar horfðum við meðal annars á að ná að skapa skilyrði til þess að ná niður því okurvaxtaumhverfi sem íslenskir neytendur og heimili hafa þurft að búa við áratugum saman.

Það má klárlega segja að þetta markmið okkar hafi gengið eftir að miklu leyti og nægir að nefna í þessu samhengi að stýrivextir Seðlabankans hafa lækkað frá undirritun Lífskjarasamningsins sem var í apríl 2019 úr 4,5% í 0,75%.

Vissulega má gagnrýna fjármálakerfið sem hefur því miður ekki skilað þessari miklu lækkun á stýrivöxtum Seðlabankans að fullu til neytenda, en samt hafa húsnæðisvextir lækkað umtalsvert frá undirritun Lífskjarasamningsins.

Það liggur fyrir að fjöldi heimila hefur nýtt sér þessa vaxtalækkun og endurfjármagnað húsnæðislán sín, en því miður hef formaður VLFA heyrt af fólki sem hefur ekki enn nýtt sér tækifærið til að endurfjármagna lánin á lægri vaxtakjörum.

Milljónir í húfi fyrir skuldsett heimili

Fyrir nokkrum dögum hafði einstaklingur samband við formanninn sem tjáði honum að hann væri með 24 milljóna verðtryggt húsnæðislán sem bæri fasta verðtryggða vexti upp á 4,15%. Formaður hvatti umræddan einstakling til að fara eins og skot og óska eftir endurfjármögnun á sínu húsnæðisláni, enda um gríðarlega hagsmuni um að ræða.

Til að sýna fram á hversu mikinn fjárhagslegan ávinning er um að ræða hjá þessum einstaklingi þá ætla ég að sýna útreikning á því hverju hans heimili hefur orðið af frá því Lífskjarasamningurinn var undirritaður 3. apríl 2019 vegna þess að hann hefur ekki farið í endurfjármögnun.

Af þessu 24 milljóna verðtryggða húsnæðisláni sem ber 4,15% fasta vexti er hann að greiða 83 þúsund í vaxtakostnað á mánuði eða 996 þúsund á ári. Frá því Lífskjarasamningarnir voru undirritaðir hefur neysluvísitalan hækkað um 4,73% sem þýðir að af 24 milljóna húsnæðisláni hefur höfuðstóllinn hækkað um tæpar 1,2 milljónir.

Ef umræddur húsnæðiseigandi hefði hinsvegar endurfjármagnað sig strax í apríl 2019 þá hefði hann getað tekið óverðtryggða húsnæðisvexti á 3,5% sem þýðir að vaxtagjöld á mánuði hefðu verið 70 þúsund sem gerir 840 þúsund á ársgrundvelli.

Þetta þýðir að ef hann hefði endurfjármagnað sig úr verðtryggðu láni á 4,15% vöxtum yfir í óverðtryggða vexti upp á 3,5% þá hefði hann sparað sér 13 þúsund krónur í hverjum mánuði og ekki bara það heldur hefði húsnæðislánið hans ekki hækkað um 1,2 milljónir vegna verðtryggingarinnar!

Það má því segja að þessi einstaklingur hafi orðið af því að geta aukið ráðstöfunartekjur sínar um 156 þúsund á ársgrundvelli og sloppið við að horfa upp á hækkun á höfuðstól lánsins um 1,2 milljónir á 18 mánuðum!

Formaður vill því enn og aftur brýna fyrir öllum sem ekki hafa enn endurfjármagnað sig að gera það strax, enda geta heimilin aukið ráðstöfunartekjur sínar um tugi þúsunda á mánuði og losnað úr viðjum þeirra glæpalána sem verðtryggðu lánin eru.

Það var þetta sem við lögðum gríðarlega áherslu á við gerð Lífskjarasamningsins, að ná að skapa skilyrði fyrir vaxtalækkun og auka þannig ráðstöfunartekjur heimilanna samhliða hækkun launa.

Að þessu sögðu ítrekar formaður mikilvægi þess að þeir sem ekki hafa endurfjármagnað sig drífi sig í að ræða við sinn lánveitanda, enda gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir skuldsett heimili.

16
Nov

Nýr stofnanasamningur við Sjúkrahús Akraness

Verkalýðsfélag Akraness undirritaði nýjan stofnanasamning við Sjúkrahúsið á Akranesi og tekur samningurinn gildi frá og með 1. janúar 2021.

Með nýjum stofnanasamningi og vörpun í nýja launatöflu munu starfsmenn miðað við 100% starfshlutfall vera að hækka frá 36.000 kr. í 42.000 kr. á mánuði.

09
Nov

Verkalýðsfélag Akraness flytur starfsemi sína að Þjóðbraut 1

Verkalýðsfélag Akraness hefur fjárfest í nýju skrifstofuhúsnæði að Þjóðbraut 1 en gamla húsnæðið að Sunnubraut 13 var orðið alltof lítið og rúmaði ekki þá starfsemi sem félagið sinnir á degi hverjum.

Rétt er að geta þess að skrifstofurýmið sem var á Sunnubraut 13 var einungis um 100 fermetrar og fundarsalurinn var rétt rúmir 40 fermetrar en sá salur var undir súð.

Hið nýja skrifstofuhúsnæði að Þjóðbraut 1 er rétt rúmir 300 fermetrar, en inni í þessum 300 fermetrum er góður fundarsalur.

Það má segja að VLFA hafi verið nauðbeygt til að fjárfesta í nýju skrifstofuhúsnæði en félagið hefur verið með starfsemi á Sunnubrautinni frá árinu 2002. Á þeim tíma voru félagsmenn VLFA um 1.500 en í dag eru þeir 3.200 og hefur félagafjöldinn því rúmlega tvöfaldast frá árinu 2002. Það er einnig rétt að vekja athygli á því að frá árinu 2009 hefur Virk starfsendurhæfing haft aðsetur í húsnæði VLFA en VLFA leigir Virk tvö skrifstofurými og á þessu sést að rýmið á Sunnubrautinni var eðli málsins samkvæmt löngu sprungið.

Eins og flestir félagsmenn vita þá átti Verkalýðsfélag Akraness efstu hæðina að Kirkjubraut 40 en þá eign hefur félagið selt og einnig húseignina að Sunnubraut og voru þeir fjármunir notaðir til að fjárfesta í hinu nýja húsnæði að Þjóðbraut 1 og gera þær endurbætur sem þurfti.

Nýja húsnæðið uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til starfsemi stéttarfélaga þar sem aðgengi félagsmanna að hinu nýja skrifstofuhúsnæði er afar gott og staðsetningin er á besta stað í bænum. Einnig er allur aðbúnaður og aðstaða starfsmanna eins og best verður á kosið.

Rétt er að geta þess að eftir rétt rúm 3 ár verður Verkalýðsfélag Akraness 100 ára og ljóst er að þetta nýja skrifstofuhúsnæði mun þjóna starfsemi félagsins næstu tugi ára.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óskar félagsmönnum sínum öllum innilega til hamingju með nýju aðstöðuna, en sökum aðgerða almannavarna vegna Covid 19 er ekki hægt að hafa opið hús að svo stöddu. En um leið og takmörkunum verður aflétt mun verða opið hús þar sem félagsmenn geta skoðað nýju aðstöðu félagsins.

 

 Þ1thumbnail IMG 0682

29
Oct

Norðurál stefnir að taka upp 8 tíma vaktakerfi 1. maí nk.

Norðurál stefnir að því að taka upp nýtt 8 tíma vaktakerfi 1. maí á næsta ári.

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá var skrifað undir nýjan kjarasamning við Norðurál 13. október og var sá samningur gríðarlega góður enda samþykktu um 90% starfsmanna samninginn í allsherjar rafrænni atkvæðagreiðslu sem 90% starfsmanna tóku þátt í.

Í kjarasamningum var kveðið á um að Norðurál ætlaði sér að taka upp nýtt vaktakerfi þ.e.a.s. hætta með 12 tíma vaktir og taka upp 8 tíma vaktakerfi. Það 8 tíma vaktakerfi verður uppbyggt nákvæmlega eins og vaktakerfið er hjá Elkem Ísland á Grundartanga eða það er að segja að starfsmenn taka tvær 8 tíma dagvaktir, tvær 8 tíma næturvaktir og enda á tveimur 8 tíma kvöldvöktum.

Þetta þýðir að starfsmenn munu ekki lengur skila 182 vinnustundum á mánuði heldur 145,6 vinnustundum sem þýðir að starfsmenn munu skila 36 færri vinnustundum á mánuði en í 12 tíma vaktakerfinu. Í núverandi 12 tíma kerfi eru starfsmenn í raun í 120% starfshlutfalli og munu skila 93,33% starfshlutfalli í nýja vaktakerfinu. Í þessu nýja 8 tíma vaktakerfi munu 26 fastir yfirvinnutímar falla niður en til að mæta brottfalli á fastri yfirvinnu mun fyrirtækið skuldbinda sig til að skaffa öllum starfsmönnum sem vilja tvær aukavaktir og ef fyrirtækið getur ekki orðið við því verður samt greitt fyrir þær vaktir. Þessi skuldbinding mun gilda í 12 mánuði. Er þetta gert til að koma til móts við tekjulækkun vegna brottfalls á þessum 26 yfirvinnutímum.

Það er rétt að geta þess að starfsmenn munu skila um 333 vinnustundum minna á ársgrundvelli í 8 tíma vaktakerfinu en 12 tíma vaktakerfinu, þegar tekið hefur verið tillit til sumar- og vetrarorlofs. Rétt er að geta þess að þrátt fyrir þetta mikla fækkun á vinnustundum munu starfsmenn einungis þurfa að skila 1 og upp í 2 svokallaðar skilavaktir en skilavöktum skulu einungis notaðar til fræðslu á dagvinnutíma. Þessi fækkun mun gera það að verkum að vaktamenn sem fara í nýja kerfið munu fá sem nemur 2 mánuðum í auka frí á ári miðað við núverandi kerfi.

Það er rétt að geta þess að það eru skiptar skoðanir um 8 eða 12 tíma vaktakerfi og ber að virða ólíkar skoðanir starfsmanna. Það er skoðun formanns að hann sé ekki í nokkrum vafa um að til lengri tíma litið eru kostirnir við 8 tíma vaktakerfi mun fleiri en kostir við 12 tíma vaktakerfið. Það er mat hans að það sé ekki gott að vinna við krefjandi aðstæður í 12 tíma og 8 tíma kerfið sé mun fjölskylduvænna en 12 tíma kerfið. Nægir að nefna að nánast allar sambærilegar verksmiðjur eru með 8 tíma vaktakerfi og í þeim verksmiðjum ríkir almenn ánægja með það vinnufyrirkomulag. Það er í raun lýðheilsumál að hverfa frá þessu 12 tíma vaktakerfi yfir í 8 tíma kerfið sem byggist á því að teknar eru sex vaktir á fimm dögum og fimm dagar í frí.

Eins og áður sagði þá hefur fyrirtækið tilkynnt vaktamönnum í ker-og steypuskála að nýja kerfið taki gildi 1. maí á næsta ári en skýrt var kveðið á um í kjarasamningnum að Norðurál yrði að segja núverandi kerfi upp með sex mánaða fyrirvara.

Laun starfsmanna í nýja 8 tíma vaktakerfi fyrir 145,6 vinnustundir á mánuði verða eins og fram kemur hér að neðan en þetta er með öllu þ.e.a.s, bónusum og orlofs-og desemberuppbótum deilt niður á 12 mánuði. En þá verður byrjandinn með 620.529 kr. og starfsmaður eftir 10 ára starf með 745.614 kr. og á bakvið þessi heildarlaun liggja 145,6 vinnustundir eða 33,6 vinnustundir á viku.

   

Norðurál

 

 

 

 

 

 

Byrjun

 

 

 

 

 

 

1 ár

 

 

 

 

 

 

3 ár

 

 

 

 

 

 

5 ár

 

 

 

 

 

 

7 ár

 

 

 

 

 

 

10 ár

Grunnlaun (vaktamenn)

347.527

378.804

400.907

411.646

415.225

422.384

Meðalvaktaálag (37,62%)+

130.740

142.506

150.821

154.861

156.208

158.901

Föst yfirvinna 26 t.

0

0

0

0

0

0

Ferðap.(0,90%*19)

59.427

64.776

68.555

70.391

71.004

72.228

Bónusar og álög (8%)

43.016

46.887

49.623

50.952

51.395

52.281

Orlofsuppb.(mán.)

19.910

19.910

19.910

19.910

19.910

19.910

Desemberuppb.(mán.)

19.910

19.910

19.910

19.910

19.910

19.910

Samtals á mán

620.529

672.793

709.726

727.670

733.651

745.614

29
Oct

Frábærar fréttir !

-Starfsmiðuð fjarnámskeið-

-að fullu fjármögnuð af starfsmenntasjóðum-

 

Gerður hefur verið samningur við NTV skólann um fulla fjármögnun á 6 námskeiðum/námsleiðum sem allt eru starfsþróunarmiðuð og verkefnadrifin fjarnámskeið sem boðið verður upp á í samstarfi við aðildarfélög Landsmenntar, Ríkismenntar, Sveitamenntar og Sjómenntar. Félagsmenn aðildarfélaga sjóðanna munu fá námskeið að fullu niðurgreidd. 

Öll námskeiðin (námsefni, verkefnavinna, verkefnaskil og samskipti) eru inni á nemendaumhverfi NTV skólans í gegnum nettengingu. Stefnt er að því að námskeiðin hefjist í byrjun nóvember. 

Nánari upplýsingar um námskeiðin má finn áhttp://www.ntv.is/is/um-ntv/yfirlit-flokka/view/stettarfelags-namskeid

Einstaklingar skrá sig hjá NTV skólanum og mun skólinn senda reikninga beint á skrifstofu fræðslusjóðanna. Skráning:http://www.ntv.is/is/namskeid/nam-i-bodi-stettarfelags

Námskeiðin sem um ræðir eru:
Bókhald Grunnur - 8 vikur (120 kes.)
Digital marketing - 7 vikur (112 kes.)
Frá hugmynd að eigin rekstri - 4 vikur (60 kes.)
App og vefhönnun - 6 vikur (90 kes.)
Vefsíðugerð í WordPress - 4 vikur (50 kes.)
Skrifstofu og tölvufærni - 6 vikur (96 kes.) 

23
Oct

Hvalur hf. dæmdur í Landsrétti til að leiðrétta laun starfsmanna sem störfuðu á hvalvertíðum

Verkalýðsfélag Akraness hefur frá árinu 2015 staðið í baráttu fyrir kjörum starfsmanna á hvalvertíðum hjá Hval hf.

Fyrirtækið neitaði að greiða starfsmönnum sínum svokallaða „sérstaka greiðslu“ þótt skýrlega hefði verið kveðið á um greiðsluna í ráðningarsamningi.

Auk þess greiddi Hvalur hf. ekki neinar greiðslur fyrir þá lögbundnu vikulegu frídaga sem starfsmenn misstu vegna mikils og stöðugs vinnuálags.

Afleiðingin var sú að starfsmenn urðu af töluverðum fjárhæðum á hverri hvalvertíð.

Verkalýðsfélagið stóð að dómsmáli gegn Hval hf. vegna þessa og með dómi 14. júní 2018 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Hval hf. bæri að greiða starfsmönnum hina svokölluðu „sérstöku greiðslu“ og bætur vegna missis frídaga.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu Hæstaréttar neitaði Hvalur hf. enn að greiða starfsmönnum og bar því við að kröfurnar væru fallnar niður fyrir tómlæti.

Verkalýðsfélag Akraness neyddist því til þess að höfða annað mál gegn Hval hf. til þess að fá fyrirtækið til þess að greiða starfsmönnum þau réttindi sem Hæstiréttur var þegar búinn að staðfesta að fyrirtækið hefði hlunnfarið þá um með ólögmætum hætti.

Héraðsdómur Vesturlands sýknaði Hval hf. af öllum kröfum starfsmanna en ágreiningnum var áfrýjað til Landsréttar.

Með dómi Landsréttar í dag var tekið undir kröfur starfsmanna að mestu leyti.

Hval hf. er gert að greiða öllum starfsmönnum „sérstaka greiðslu“ fyrir hverja einustu vakt sem unnin var á hvalvertíð 2015.  En var hins vegar sýknað að leiðrétta fyrir vertíðarnar 2013 og 2014

Þá ber í sumum tilvikum einnig að greiða „sérstaka greiðslu“ fyrir vaktir á hvalvertíð 2014.

Auk þess ber Hval hf. að rétta hlut starfsmanna sem ekki fengu lögboðinn vikulegan frídag á hvalvertíðum 2013, 2014 og 2015.

Hval hf. er að lokum gert að greiða starfsmönnum dráttarvexti af skuldum sínum við starfsmenn frá 21. júlí 2017 og málskostnað fyrir Landsrétti og nemur sá málskostnaður sem Hvalur þarf að greiða VLFA rétt tæpum 3,5 milljónum.

Það má áætla að þessi dómur muni skila þeim 100 starfsmönnum sem munu heyra undir dóminn rúmum 100 milljónum.

Þótt þetta sé  sigur að hafa tekist að snúa við sýknu dómi Héraðsdóms Vesturlands þá er það umhugsunar efni að atvinnurekendur skuli komast upp með launaþjófnað að hluta á grundvelli svokallaðs tómlætis!

Dómarnir eru birtir á vef Landsréttar þann 23. október 2020

22
Oct

Kjarasamningur Norðuráls samþykktur með tæpum 90%

Það er greinilegt að starfsmenn Norðuráls voru gríðarlega ánægðir með nýgerðan kjarasamning en rétt tæp 90% þeirra sem kusu sögðu já við kjarasamningnum. 

Það er einnig rétt að geta þess að kosningaþátttakan var frábær en af þeim sem voru á kjörskrá kusu 88,9%.

  • Já sögðu:                          356 starfsmenn eða 89,22%
  • Nei sögðu:                           32 starfsmenn eða   8,02%
  • Tóku ekki afstöðu sögðu:    11 starfsmenn eða    2,76%

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er gríðarlega ánægður með þessa niðurstöðu og vil þakka öllum sínum félagsmönnum sem starfa hjá Norðuráli með þessa frábæru niðurstöðu og takk fyrir samstöðuna og stuðninginn í þessum erfiðu kjaraviðræðum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image