• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

29
May

Fundur í Bíóhöllinni með starfsmönnum Norðuráls

Félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Norðuráli eru minntir á fundinn á næsta miðvikudag, þar sem alvarlega staða í kjaraviðræðum við Norðurál verður til umfjöllunar.

Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 3. júní og hefst klukkan 17.00 en fundurinn verður haldinn í Bíóhöllinni á Akranesi.

Formaður mun gera ítarlega grein fyrir stöðunni og fara vel yfir hana og hvetur formaður alla sem tök hafa á að mæta. Þetta er hálfgerð skyldumæting, því nú reynir á samstöðu meðal félagsmanna!

29
May

Kjaradeilu félagsins við Norðurál vísað til ríkissáttasemjara

Á síðasta mánudag var haldinn sautjándi samningafundur vegna kjarasamnings stéttarfélagana við Norðurál.

Eins og fram hefur komið þá hefur lítið þokast áfram í viðræðunum þrátt fyrir að 5 mánuðir séu liðnir frá því að kjarasamningurinn rann út á milli aðila.

Vissulega er þó rétt að geta þess að Kórónufaraldurinn hefur eðlimálsins samkvæmt tafið viðræðurnar en það réttlætir samt ekki þann mikla seinna gang sem hefur einkennt viðræðurnar. Þau atriði sem helst eru eftir liggja að launaliðnum en aðalkrafan var að laun starfsmanna myndu halda áfram að taka mið af hækkun á launavísitölunni eins og samið var um í kjarasamningum 2015.

Hins vegar eftir að Kórónufaraldurinn skall á með öllum þeim efnahagslegu hamförum þá runnu tvær grímur á formann Verkalýðsfélags Akraness að ekki væri skynsamlegt að semja um tengingu við launavísitöluna þegar efnahagslífið er að sigla inní eina mestu efnahagskreppu síðustu 100 ára eins og Seðlabankinn hefur ítrekað bent á með tilheyrandi skerðingu launa og atvinnumissi.

Á þeirri forsendu ákvað VLFA og VR að breyta kröfugerð sinni er lýtur að hækkun kauptaxta og gera kröfu um að laun starfsmanna hækki með sama hætti og samið hefur verið um í svokallaða lífskjarasamningi. Með sömu útfærslu og ríki, sveitafélög, Faxaflóahafnir og fleiri hópar hafa undirgengist.

Ástæðan fyrir því að meðal annars VLFA og VR vilja semja í anda Lífskjarasamningsins er þríþætt.

Í fyrsta lagi liggur fyrir að framundan er eitt mesta samdráttarskeið á íslenskum vinnumarkaði og í íslensku efnahagslífi í hartnær 100 ár eins og áður hefur komið fram og því afar ólíklegt að launavísitalan muni skila starfsmönnum miklum launabreytingum á næstu tveimur til þremur árum.

Í öðru lagi þá hefur formaður VLFA skoðað launabreytingar hjá fjölmörgum hópum sem taka laun eftir launatöxtum eins og starfsmenn Norðuráls gera. Í þeirri skoðun kemur fram að launataxtar t.d. á hinum almenna vinnumarkaði og opinbera markaðnum hafa hækkað mun meira en launavísitalan hefur gert t.d. frá 2014 til 2019. Ástæðan er einföld, áhersla hefur verið á að hækka taxtalaun í kjarasamningum almennt meira en önnur laun og svo virðist vera sem launahækkanir á launatöxtum skili sér frekar illa inn í mælingu á launavísitölunni.

Í þriðja lagi þá liggur fyrir að lífskjarasamningurinn þar sem samið var um fastar krónutöluhækkanir hjá öllum þeim sem taka laun eftir launatöxtum var mjög góður og myndu slíkar hækkanir skila starfsmönnum ásættanlegum launahækkunum á næstu þremur árum.

Það kom hinsvegar formanni VLFA verulega á óvart að forsvarsmenn Norðuráls og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins höfnuðu alfarið að semja í anda Lífskjarasamningsins eins og 95% af öllum íslenskum vinnumarkaði hefur nú þegar gert.

Samkvæmt öllum fyrirliggjandi gögnum þá er það staðreynd að lægsti launataxti Norðuráls hefur á liðnum árum dregist verulega aftur úr öðrum lágmarks launatöxtum á íslenskum vinnumarkaði vegna þess að áhersla verkalýðshreyfingarinnar á liðnum árum hefur verið á sérstaka hækkun á taxtalaunum og því miður hefur launavísitalan ekki fangað þessa umfram hækkun á launatöxtum nema að litlu leyti.

Á samningafundinum með forsvarsmönnum Norðuráls lýsti formaður forundrun sína að stórfyrirtæki eins og Norðurál og Samtök atvinnulífsins skuli hafna að semja við starfsmenn Norðuráls eins og nánast allur íslenskur vinnumarkaður hefur nú þegar undirgengist að gera. Rétt er að vekja sérstaka athygli á því að blessunarlega er Norðurál með góðar rekstrarforsendur um þessar mundir, þrátt fyrir erfiðar markaðsforsendur.

Það er alveg morgunljóst að VLFA og VR, ætla ekki, geta ekki og vilja ekki semja um minna en þær launabreytingar sem lífskjarasamningurinn gaf og í ljósi þessa djúpstæða ágreinings var ákveðið að vísa deilunni til ríkissáttasemjara á grundvelli 2. mgr. 24. gr. laga nr. 80/1938 

Ríkissáttasemjari hefur nú þegar boðað til fundar á næsta fimmtudag.

21
May

Aðalfundur VLFA verður haldinn 9. júní á Gamla kaupfélaginu

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness verður haldinn þriðjudaginn 9. Júní kl. 17:00 á Gamla Kaupfélaginu, Kirkjubraut 11

Dagskrá:

  • Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
  • Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
  • Kosningar sem þurfa að fara fram á aðalfundi samkvæmt 28. grein laga félagsins.
  • Reglugerðabreyting á sjúkrasjóði.
  • Önnur mál.

Á aðalfundi verða ekki afgreiddar með atkvæðagreiðslu aðrar tillögur og ályktanir en þær sem borist hafa til skrifstofu félagsins 5 dögum fyrir aðalfund eins og 28. grein laga félagsins kveður á um. Ársreikningur félagsins mun liggja frammi á skrifstofu félagsins 7 dögum fyrir aðalfund. Komi tillögur eða ályktanir fram þá munu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins og verða einnig kynntar á heimasíðu félagsins.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að mæta.

Boðið verður upp á kvöldverð eftir fundinn.

20
May

278 félagsmenn VLFA án atvinnu að fullu eða hluta

Atvinnuleysi meðal félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness hefur aukist gríðarlega eins og vítt og breitt um landið, en í apríl voru 278 félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness atvinnulausir að fullu eða að hluta. En á sama tíma fyrir ári voru 80 félagsmenn á atvinnuleysisbótum og hefur atvinnuleysi meðal félagsmanna VLFA aukist miðað við sama tíma í fyrra um 247%.

Þetta þýðir að um 10% félagsmanna VLFA eru atvinnulausir að fullu eða á hlutabótum það er ekki bara að Covid-19 skýri þessa miklu fjölgun á atvinnuleysi meðal félagsmanna, heldur liggur fyrir að margir misstu lífsviðurværi sitt þegar Ísfiskur varð gjaldþrota.

Það er ekki bara að Ísfiskur hafi orðið gjaldþrota heldur sagði Vignir G Jónsson upp 15 manns og Skaginn 3x 43 starfsmönnum.

Það er alveg ljóst að atvinnuástandið hér á Akranesi er alls ekki viðunandi og ljóst að bæjaryfirvöld og aðrir hagsmunaaðilar verða að taka höndum saman um laða að fleiri atvinnutækifæri. Við Akurnesingar höfum þurft að horfa upp á að nánast öllum aflaheimildum hefur verið rænt af okkur með skelfilegum afleiðingum fyrir allt fiskvinnslufólk sem og samfélagið í heild sinni.

19
May

Fimmtándi samningafundur með forsvarsmönnum Norðuráls haldinn í gær

Fjórtándi samningafundur Verkalýðsfélags Akraness með forsvarsmönnum Norðuráls var haldinn 11. maí eftir langt hlé vegna Covid-19. Á þessum fundi greindi formaður VLFA forsvarsmönnum Norðuráls frá því að aðalkrafa félagsins er laut að því að launabreytingar í samningum myndu taka breytingum eftir launavísitölunni væri ekki lengur uppi á borðinu af hálfu VLFA.

Ástæðan er þríþætt. Í fyrsta lagi liggur fyrir að framundan er eitt mesta samdráttarskeið á íslenskum vinnumarkaði og í íslensku efnahagslífi í hartnær 100 ár og því afar ólíklegt að launavísitalan muni skila starfsmönnum miklum launabreytingum á næstu tveimur til þremur árum.

Í öðru lagi þá hefur formaður VLFA skoðað launabreytingar hjá fjölmörgum hópum sem taka laun eftir launatöxtum eins og starfsmenn Norðuráls gera. Í þeirri skoðun kemur fram að launataxtar t.d. á hinum almenna vinnumarkaði hafa hækkað mun meira en launavísitalan hefur gert t.d. frá 2014 til 2019. Ástæðan er einföld, áhersla hefur verið á að hækka taxtalaun í kjarasamningum almennt meira en önnur laun og svo virðist vera sem launahækkanir á launatöxtum skili sér frekar illa inn í mælingu á launavísitölunni.

Í þriðja lagi þá liggur fyrir að lífskjarasamningurinn þar sem samið var um fastar krónutöluhækkanir hjá öllum þeim sem taka laun eftir launatöxtum var mjög góður og myndu slíkar hækkanir skila starfsmönnum mjög góðum launahækkunum á næstu þremur árum.

Þær launataxtahækkanir sem samið var um í lífskjarasamningum voru eftirfarandi:

  1. 1. janúar 2020 24.000 kr.
  2. 1. janúar 2021 24.000 kr.
  3. 1. janúar 2022 25.000 kr.

Þessar hækkanir myndu því skila verkamönnum hjá Norðuráli yfir 7% launahækkun fyrir hvert ár, sem klárlega yrði langt umfram það sem launavísitalan mun skila enda erum við að sigla inn í eitt mesta samdráttarskeið á íslenskum vinnumarkaði eins og áður sagði.

Þessum upplýsingum kom formaður á framfæri á þessum fjórtánda samningafundi. Í gær var síðan fimmtándi samningafundurinn haldinn með forsvarsmönnum Norðuráls og á ótrúlegan hátt var ekki annað að skilja á forsvarsmönnum Norðuráls og forsvarsmanni Samtaka atvinnulífsins en að hækkunum samkvæmt lífskjarasamningum hafi algerlega verið hafnað. En næsti fundur verður 25. maí eða á næsta mánudag og þá munu forsvarsmenn Norðuráls leggja fram tillögu að hækkun á launaliðnum.

Það er alveg morgunljóst að VLFA ætlar ekki, getur ekki og vill ekki semja um minna en þær launabreytingar sem lífskjarasamningurinn gaf og því er allt eins líklegt að deilunni verði vísað strax á næsta mánudag til ríkissáttasemjara ef tilboð Norðuráls verður á skjön við það sem aðrir hópar hafa verið að semja um þar sem lífskjarasamningurinn hefur verið hafður til hliðsjónar.

VLFA mun ekki gefa neitt eftir í þessum viðræðum enda engin ástæða til enda gengur rekstur fyrirtækisins blessunarlega bara nokkuð vel miðað við krefjandi markaðsaðstæður.

12
May

Félagsmenn athugið- hægt að leigja bústað í Vestmannaeyjum

Félagsmenn athugið Verkalýðsfélag Akraness mun aftur bjóða upp á leigu í bústað í Vestmannaeyjum, en bústaðurinn ber heitið Smiðjan og er við Höfðaból.  Þetta er sami bústaður og félagið hefur leigt síðastliðinn sumur og hefur notið mikilla vinsælda hjá okkar félagsmönnum.

Leigutímabilið er frá 3. Júní til 14. ágúst og núna ætlum við að prufa að leigja þennan bústað frá frá miðvikudegi til miðvikudags og sjá hvort félagsmönnum finnst það betra en að leigja frá föstudegi til föstudags eins og tíðkast með aðra bústaði.

Það þarf ekkert að fjölyrða um það að það er alltaf gaman að koma til Vestmannaeyja enda einstök náttúrufegurð hvert sem augum er litið.

Þær vikur sem eru lausar eru eftirfarandi:

 

  • 3. júní til 10. júní
  • 17. júní til 24. júní
  • 24. júní til 1. júlí
  • 1. júlí til 8. Júlí
  • 8. júlí til 15. Júlí
  • 22. júlí til 29. Júlí
  • 29. júlí til 5. ágúst
  • 5. ágúst til 12 ágúst

 

Hægt er að taka panta sumarhús inni á félagavefnum en rétt er að geta þess að nokkrar vikur eru einnig lausar í öðrum sumarhúsum í eigu Verkalýðsfélags Akraness. Til þess að sjá hvaða vikur eru lausar til útleigu í sumar smellið hér.  

(Athugið samt að þessi listi sýnir stöðuna þann 12. maí 2020)

Núna gildir reglan fyrstur kemur fyrstur fær!

Hlýðum Víði og ferðumst innanlands í sumar!

12
May

Starfsmaður Norðuráls fékk leiðrétt 1,6 milljón vegna vikulegs frídags

Í mars sl. féll dómur í Félagsdómi en málið laut að því að Verkalýðsfélag Akraness taldi að verulega hefði vantað uppá svokallaðan vikulegan frídag hjá einum starfsmanni og þrátt fyrir miklar viðræður við Norðurál um lausn á málinu tókst það ekki. Á þeirri forsendu ákvað félagið að stefna Norðuráli fyrir félagsdómi og féll dómur í mars en á ótrúlegan hátt var málinu vísað frá dómi vegna þess að dómurinn taldi ekki sannað að vikulegur frídagur hjá umræddum starfsmanni hafi verið skertur í 125 skipti eins og VLFA hélt fram.

Hins vegar kom skýrt fram í dómnum að ekki væri ágreiningur um að umræddur starfsmaður hafi verið svikinn um greiðslu vegna vikulegs frídags eins sem dómur var ekki sammála um hversu margir dagar þeir hefðu verið.

En orðrétt segir í niðurstöðu Félagsdóms:

„Skipulag vakta er því í samræmi við meginreglu, sem kemur fram í 1. mgr. greinar 2.13.5 í kjarasamningi aðila og 1. mgr. 54 gr. laga nr. 46/1980 um að starfsmaður skuli fá að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma“.

„Fyrir liggur að starfsmaðurinn vann á tímabilinu 15. október 2014 til 15. október 2018 mun meira en þessu nemur. Fyrir vikið urðu samfelldar vinnulotur Daníels mjög oft lengri en sjö dagar og alloft mun lengri. Einnig segir orðrétt í niðurstöðu dómsins. „Norðurál hefur viðurkennt að í þeim tilvikum sem vinnulotur starfsmannsins spönnuðu tveggja vikna tímabil hafi verið farið gegn kjarasamningi í framangreindum ákvæðum laga nr. 4671980.“

Með öðrum orðum ekki nokkur vafi að brotið var gróflega á réttindum starfsmannsins eins og fram kemur í niðurstöðu Félagsdóms en á óskiljanlegan hátt var málinu samt vísað frá dómi vegna þess að dómurinn taldi VLFA hafa fært sönnur á að um væri að ræða 125 skipti. Lögmaður Norðuráls svaraði ekki hvað fyrirtækið teldi að dagarnir ættu að vera margir ef þeir væri ekki 125 eins og Verkalýðsfélag Akraness var búið að telja út.   Það er óskiljanlegt að starfsmaðurinn skildi ekki fá að njóta vafans í ljósi þess að ekki var ágreiningur um að búið var að brjóta gróflega á réttindum starfsmannsins og Norðurál svaraði ekki hvað þeir teldu að dagarnir væru margir ef þeir væru ekki 125.

Eftir dóminn komst Verkalýðsfélag Akraness að samkomulagi um að starfsmanninum skyldu greiddar 1,6 milljón vegna brota á vikulegum frídegi en það gerir að brotið hafi verið á umræddum starfsmanni 84 sinnum vegna vikulegs frídags.

30
Apr

Sjómennt – rýmkaðar reglur og full fjármögnun

Í ljósi aðstæðna í íslensku samfélagi hefur stjórn Sjómenntar ákveðið að rýmka úthlutunarreglur vegna styrkveitinga og bjóða einstaklingum og fyrirtækjum uppá þann valkost að sækja námskeið á netinu eða í fjarkennslu þeim að kostnaðarlausu.

Átakið gildir frá 15.mars til og með 31.ágúst 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma.

Nánari útfærsla á átaksverkefninu: Gerðir verða samningar við fræðsluaðila sem bjóða upp á vefnám/fjarnám þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er boðin þátttaka í námi/námskeiðum þeim að kostnaðarlausu. Þak á þáttökugjaldi pr. einstakling pr. námskeið er kr. 30.000,- samkvæmt þessum samningum.

Breytingar á úthlutunarreglum eru eftirfarandi:

  • Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, miðað við núverandi reglur, verði hækkaðar úr 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði.
  • Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu verði hins vegar breytt og verði 90% í stað 75% af kostnaði við námið.
  • Tómstundstyrkir sem nú eru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári verði í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið.

Um leið og Sjómennt hvetur stjórnendur fyrirtækja til þess að sinna sí-og endurmenntun starfsmanna sinna, vill stjórnin koma því á framfæri að tekið verði á móti öllum góðum hugmyndum að fræðslu sem kynnu að nýtast og falla vel að úthlutunarreglum sjóðsins.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Njálsdóttir í síma 863 6480 eða á tölvupósti, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

30
Apr

Sveitamennt og Ríkismennt – rýmkaðar reglur

Í ljósi aðstæðna í íslensku samfélagi hafa stjórnir Ríkismenntar og Sveitamenntar ákveðið að rýmka úthlutunarreglur einstaklingsstyrkja í ákveðinn tíma líkt og Landsmennt hefur gert.

Átakið tekur gildi frá 15.mars til og með 31.ágúst 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma.

Breytingar á úthlutunarreglum einstaklingsstyrkja eru eftirfarandi:

  • Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu verði hins vegar breytt og verði 90% í stað 75% af kostnaði við almennt nám. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020.
  • Tómstundstyrkir sem nú eru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári verði í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020.

Til viðbótar viljum við minna á að sl. tvö ár hafa þessir tveir sjóðir verið með samninga við símenntunarmiðstöðvar sem tryggja fulla fjármögnun námskeiða. Samingarnir gilda gagnvart þátttöku félagsmanna aðildarfélaga SGS sem starfa hjá Sveitarfélögum (Sveitamennt) og hjá ríkisstofnunum (Ríkismennt) á landsbyggðinni.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Njálsdóttir, framkvæmdastjóri í síma 863 6480 eða á tölvupósti, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

30
Apr

Landsmennt veitir fulla fjármögnun námskeiða

Landsmennt fræðslusjóður Samtaka atvinnnulífsins og verkafólks á landsbyggðinni býður einstaklingum og fyrirtækum að sækja námskeið þeim að kostnaðarlausu.

Í ljósi aðstæðna í íslensku samfélagi hefur stjórn Landsmenntar fræðslusjóðs ákveðið bjóða einstaklingum og fyrirtækjum uppá þann valkost að sækja námskeið á netinu eða í fjarkennslu þeim að kostnaðarlausu.

Einnig mun sjóðurinn rýmka úthlutunarreglur sjóðsins sem taka til námskeiða sem ekki eru rafræn eða í fjarkennslu.  Stofnað verður til átaks í stafrænni/rafrænni fræðslu innan atvinnulífsins í samstarfi við fræðsluaðila og fyrirtæki.

Átakið  gildir frá  15.mars til og með 31.ágúst 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma. Þessi tímarammi verður endurskoðaður ef tilefni verður til.

Nánari útfærsla á átaksverkefninu:  Gerðir verða samningar við fræðsluaðila sem bjóða upp á vefnám/fjarnám þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er boðin þátttaka í námi/námskeiðum þeim að kostnaðarlausu. Þessir samningar gilda einnig tímabundið og gagnvart því námi/námskeiðum sem fræðsluaðilar bjóða upp á innan þessa tímaramma það er frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020

Um leið og Landsmennt hvetur stjórnendur fyrirtækja til þess að sinna sí-og endurmenntun starfsmanna sinna, vill stjórnin koma því á framfæri að tekið verði á móti öllum góðum hugmyndum að fræðslu sem kynnu að nýtast og falla vel að úthlutunarreglum sjóðsins.

Breytingar á úthlutunarreglum eru eftirfarandi:

  • Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, miðað við núverandi reglur, verði hækkaðar úr allt að 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020.
  • Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu verði hins vegar breytt og verði 90% í stað 75% af kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020.
  • Tómstundstyrkir sem nú eru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári verði í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars  til og með 31. ágúst 2020.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Njálsdóttir, framkvæmdastjóri Landsmenntar í síma 863 6480 eða á tölvupósti, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

                   

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image