• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Aug

Fundað hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu við Norðurál í gær

Í gær var haldinn samningafundur í kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness við Norðurál en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur þessi kjaradeila verið hörð enda félagið búið að kjósa um yfirvinnubann og verkfall sem mun skella á 1. desember ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma.

Á fundinum í gær gerðist ekki ýkja margt annað en að deiluaðilar eru sammála um mikilvægi þess að ná saman en það er ljóst að enn ber umtalsvert á milli deiluaðila. Það undarlega við þessa kjaradeilu er að forsvarsmenn Norðuráls hafna að hækka laun eins og nánast allur íslenskur vinnumarkaður hefur undirgengist að gera eða nánar tilgetið að semja um sömu launahækkanir og gert var í svokölluðum lífskjarasamningi.

Formaður telur að hann sé búinn að koma því eins rækilega á framfæri við forsvarsmenn Norðuráls og hægt er að félagið mun ekki, getur ekki og vill ekki semja um lægri launabreytingar og nánast allur vinnumarkaðurinn hefur undirgengist að gera. Enda eru ekki nokkrar forsendur fyrir því að alþjóðlegt stórfyrirtæki ætli að koma sér undan því að semja með sama hætti og allur vinnumarkaðurinn tók sig saman um að gera. Það liggur fyrir að rekstrarforsendur Norðuráls eru blessunarlega afar góðar um þessar mundir enda álverð á uppleið að nýju og gengi íslensku krónunnar afar hagstætt fyrir útflutningsfyrirtæki um þessar mundir.

Formaður vonar innilega að forsvarsmenn Norðuráls átti sig á því að VLFA mun ekki kvika frá þeirri sanngjörnu kröfu að starfsfólk Norðuráls fái sömu launahækkanir og lífskjarasamningurinn kveður á um. Munum að sá mannauður sem Norðurál hefur á að skipa hefur skilað eigendum Norðuráls uppundir 100 milljörðum í hagnað frá því verksmiðjan hóf starfsemi og því mikilvægt að laun starfsmanna endurspegli góða afkomu fyrirtækisins.

Næsti fundur er boðaður á næsta fimmudag eftir viku og ljóst að ef ekkert nýtt gerist á þeim fundi er einsýnt að slitni endanlega uppúr þessum viðræðum og einungis verði fundað hálfsmánaðarlega eins og lög kveða á um. Það er einnig líklegt að ef forsvarsmenn Norðuráls sjái ekki að sér þá muni verkfall samkvæmt grein 8.11.2 skella á 1. desember nk.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image