• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Aug

Norðurál bannar starfsmönnum að hefja yfirvinnubann eins og 97% starfsmanna höfðu samþykkt

Það er óhætt að segja að vanvirðingin hjá forsvarsmönnum Norðuráls og Samtökum atvinnulífsins er algert, en í gær barst Verkalýðsfélagi Akraness bréf frá lögmanni Samtaka atvinnulífsins sem sent var fyrir hönd Norðuráls.

Í því bréfi er skorað á VLFA að aflýsa yfirvinnubanni sem kosið var um og samþykkt með 97% þeirra sem greiddu atkvæði, en yfirvinnubannið átti að hefjast 1. september nk. Ástæðan er sú að árið 1998 var á óskiljanlegan hátt samið um að starfsmenn Norðuráls ættu ekki verkfallsrétt eins og allt íslenskt launafólk. Árið 2005 tókst Verkalýðsfélagi Akraness hins vegar að ná inn verkfallsrétti eftir mikla baráttu við fyrirtækið, en sá verkfallsréttur er samt háður takmörkunum sem er m.a. fólgið í því að ekki er hægt að boða verkfall fyrr en eftir þrjá mánuði frá því kjarasamningur rann út og eftir það þarf að tilkynna verkfallsaðgerðir með 3 mánaða fyrirvara.

Þessar takmarkanir á verkfallsréttinum voru áfangasigur á sínum tíma en það datt ekki nokkrum manni til hugar að starfsmenn Norðuráls hefðu ekki rétt til að boða til yfirvinnubanns á tilfallandi yfirvinnu. En núna ætlar Norðurál sem hefur notið þeirra sérréttinda að hafa kjarasamning sem hefur mun skemmri verkfallsrétt en aðrir launamenn að beita fyrir sé lagaklækjum til að koma í veg fyrir boðað yfirvinnubann starfsmanna allt með það að markmiði að tefja aðgerðir starfsmanna.

Hugsið ykkur Norðurál telur sig hafa heimild til að banna starfsmönnum að hefja yfirvinnubann en eftir ráðfæringar við okkar lögmann þá er niðurstaðan sú að taka ekki þátt í lagaklækjum við Norðurál og leyfa þeim þannig að tefja aðgerðir eins og stefna þeirra er greinilega.

Við höfum því tekið ákvörðun í samráði við okkar lögmann að aflýsa yfirvinnubanninu og verkfallinu sem átti að hefjast 1 desember. Því það er morgunljóst að forsvarsmenn Norðuráls munu ekki víla fyrir sér að fá verkfallið sem einnig var samþykkt með 97% atkvæða ógilt á þeirri forsendu að kosningar um yfirvinnubannið og verkfallið voru framkvæmdar í einni og sömu kosningunni. Það er ömurlegt að verða vitni að því slag í slag að forsvarsmenn Norðuráls skuli sína starfsmönnum sínum fullkomna fyrirlitningu. Formaður þekkir orðið öll vinnubrögðin hjá þessu fólki og við ætlum ekki að taka þátt í þessum lagaklækjum þeirra til að fótum troða þær takmörkuðu verkfallsaðgerðir sem starfsmenn búa yfir samkvæmt kjarasamningi.

Á þeirri forsendu mun Verkalýðsfélag Akraness hefja nýja rafræna kosningu um verkfall eingöngu byggða á gr. 8.11.2. Þótt VLFA þurfi að hefja nýja kosningu um verkfallsaðgerðir mun það ekki hafa teljandi áhrif að verkfallið hefjast á svipuðum tíma og búið var að samþykkja eða nánar tilgetið í kringum mánaðarmótin nóvember/desember.

Þessi vanvirðing við starfsmenn Norðuráls sem hafa verið samningslausir í hartnær 9 mánuði mun kalla á glerhörð viðbrögð af hálfu Verkalýðsfélags Akraness og VR. Þessi vinnubrögð munu til dæmis kalla á viðbótarkröfu þessara félaga þar sem það verður gert að ófrávíkjanlegri kröfu að starfsmenn Norðuráls njóti sömu verkfallsheimildar án nokkurra takmarkanna eins og nánast allt íslensk launafólk. Norðurál bað um stríð með þessari lágkúru sinni og trúið formanni félagsins að þeir fá stríð!

Ég vil enn og aftur minna á að deila félagsins við Norðurál lýtur að því að Norðurál komi með sömu launabreytingar og um var samið í svokölluðum lífskjarasamningi en þeirri kröfu hafa forsvarsmenn Norðuráls hafnað algerlega og bjóða langt um minna en allur íslenskur vinnumarkaður hefur undirgengist að framkvæma.

Ég vil minna á að þetta öfluga starfsfólk sem hefur tekið þátt í því að skila eigendum Norðuráls um 100 milljörðum í hagnað frá árinu 1998 er ekki að biðja um neitt annað en það sama og allir aðrir hafa fengið.

Forherðing þessarra manna er taumlaus eins og birtist í því þegar starfsmenn ætla að reyna að knýja þessa sanngjörnu launakröfu í gegn með eina vopninu sem launafólk hefur þá koma þessir menn og segja „þið eigið og hafið ekki rétt til að fara í yfirvinnubann eins og allt íslenskt launafólk“.

Formaður ítrekar að þessi vanvirðing gagnvart starfsmönnum ríður ekki við einteyming og ljóst að gera verður ófrávíkjanlega kröfu um að starfsmenn njóti sömu verkfallsréttinda og allur íslenskir launamenn njóta.

Verkalýðsfélag Akraness og VR eru nú þegar byrjuð að undirbúa nýja kosningu til að gefa þessum forhertu aðilum færi á því að tefja og tengja aðgerðir með lagaklækjum og öðrum slíkum aðgerðum.

Félagsmenn munu væntanlega fá kjörgögn í næstu viku þar sem kosið verður um verkfall sem byrjar að öllum líkindum í kringum 1. desember og krafan er skýr sömu launahækkanir og allir aðrir hafa fengið og fullur verkfallsréttur eins allt annað launafólk.

Að lokum vill formaður koma því til skila til félagsmanna sem starfa hjá Norðurál að núna ríður á að sína fulla samstöðu því við getum ekki, ætlum ekki og viljum ekki láta sína okkur svona virðingarleysi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image