• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Aug

Samtök atvinnulífsins og Norðurál hafna að hækka laun eins og lífskjarasamningurinn kveður á um!

Í gær var haldinn samningafundur við Norðurál en síðasti samningafundurinn var í byrjun júlímánaðar og því er liðinn einn og hálfur mánuður frá því síðasti samningafundur var haldinn á milli samningsaðila. Rétt er að geta þess að ríkissáttasemjari hélt fundinn á Grand hóteli til að hægt væri að virða tveggja metra regluna og þau sóttvarnarviðmið sem yfirvöld hafa gefið út.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá rann kjarasamningur milli aðila út um síðustu áramót og eru því að verða liðnir 9 mánuðir frá því kjarasamningur starfsmanna rann út. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og fjölmarga samningafundi hefur lítið sem ekkert þokast áfram hvað launalið samningsins varðar.

Á þeirri forsendu sáu Verkalýðsfélag Akraness og VR sig knúna til að láta kjósa um algert yfirvinnubann sem mun hefjast 1. september nk. og verkfall frá og með miðnætti 1. desember. Kosning félagsmanna var algerlega afdráttarlaus en hjá VLFA samþykktu 97% þeirra sem kusu að hefja áður nefndar aðgerðir og 95% hjá VR.

Það kom formanni VLFA svo sem ekkert á óvart að forsvarsmenn NA skyldu mæta á fundinn í gær með sama skilnings- og skeytingarleysið í garð starfsmanna enda orðinn öllu vanur hvað það varðar. Það er hins vegar vanvirðing við starfsmenn Norðuráls sem hafa skilað fyrirtækinu um 100 milljarða í hagnað frá því að fyrirtækið hóf starfsemi að láta það viðgangast að þeir séu búnir að vera samningslausir í tæpa 9 mánuði.

En um hvað snýst deilan? Jú, hún snýst um það að þetta öfluga fyrirtæki sem Norðurál semji við sína starfsmenn um sömu launahækkanir og hagvaxtarauka eins og kveðið er á um í lífskjarasamningum. Takið eftir það er ekkert verið að fara fram á meira en nánast allur íslenskur vinnumarkaður hefur nú þegar undirgengst að gera. Nei, alþjóðlega stórfyrirtækið Norðurál hafnar að taka þátt í því að lífskjarasamningshækkanir gildi fyrir starfsmenn Norðuráls.

Það sorglega í þessu öllu saman er að þeir eru studdir dyggilega af Samtökum atvinnulífsins sem komu að því að barna lífskjarasamninginn með verkalýðshreyfingunni, en núna vilja þeir ekki kannast við króann og haga sér eins og argasti drullusokkur sem fer á sveitaball og barnar konu og vill síðan ekki kannast við getnaðinn!

Rétt er að geta þess að grunnlaun starfsmanna eru hægt og bítandi að sogast niður og í dag er lægsti grunntaxti verkamanns í Norðuráli jafn hár og lægsti taxti verkamanns á hinum almenna vinnumarkaði. Rétt er líka að vekja athygli á því að starfsmaður sem er að byrja í mötuneyti á sjúkrahúsi Akraness er með jafn há grunnlaun og starfsmaður sem hefur starfað í yfir 10 ár í stóriðju.

En eins og allir vita sem hafa unnið í stóriðju þá geta störfin þar verið hættuleg, krefjandi og loftgæði alls ekki þau sömu og gengur og gerist í öðrum störfum.

Norðurál hafnar alfarið að semja í anda lífskjarasamningsins og vill miða launabreytingar við 95% af launavísitölu Hagstofunnar og koma með aukalega handa verkamönnum 2000 kr. fyrir árið 2020 og 3000 kr. fyrir árið 2021 og sú upphæð kemur einungis ef 8 tímavaktakerfi verður að veruleika. Því er alls ekki fast í hendi að sá 3000 kall kæmi til starfsmanna og því ekki hægt að taka hann með.

Norðurál vill gera 5 ára samning þar sem miðað verði síðan við 95% af launavísitölunni á samningstímanum.  Við vitum að launavísitalan var 4,25% í fyrra en Norðurál gerir ráð fyrir að launavísitalan verði 4,58% fyrir árið 2020 og 4% árið 2021. Þetta þýðir að launahækkanir fyrstu þrjú ár samningsins yrðu með eftirfarandi hætti ef forsendur Norðuráls ganga eftir:

  • Árið 2020 15.118 kr.
  • Árið 2021 14.829 kr.
  • Árið 2022 13.664 kr.
  • Samtals:   43.611 kr.

Eins og flestir vita þá hækkuðu grunnlaunataxtar verkafólks í lífskjarasamningum með eftirfarandi hætti:

  • Árið 2020 24.000 kr.
  • Árið 2021 24.000 kr.
  • Árið 2022 25.000 kr.
  • Samtals:   73.000 kr.

Á þessu sést að Norðurál ætlast til þess að byrjendalaun starfsmanna Norðuráls hækki um 29.389 kr. minna en lífskjarasamningurinn myndi gefa og það er eitthvað sem félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfa hjá Norðuráli geta ekki, vilja ekki og ætla ekki að sætta sig við.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til næsta samningafundar 26. ágúst eða 5 dögum áður en allsherjar yfirvinnubann skellur á og því þarf nánast kraftaverk til að forða því og reiknar formaður með löngu yfirvinnubanni og verkfalli í framhaldinu.

Félögin eru að byrja að undirbúa eftirlit með yfirvinnubanninu og eins og staðan er núna er mjög líklegt að félögin VR og VLFA boði alla starfsmenn til fundar fyrir mánaðarmót til að leggja enn frekar línurnar fyrir komandi átök, átök sem byggjast á þeirri sjálfsögðu kröfu að stórfyrirtækið Norðurál hækki laun sinna starfsmanna eins og öll önnur fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði hafa undirgengist að gera. Eitt er víst að Verkalýðsfélag Akraness og VR munu ekki gefa tommu eftir í því að tryggja félagsmönnum sínum sömu launabreytingar og lífskjarasamningurinn kveður á um.

Enda komu formenn VLFA og VR að stórumhluta að því að barna lífskjarasamninginn með Samtökum atvinnulífsins og munu formenn þessara félaga ekki haga sér eins og Samtök atvinnulífsins sem vilja núna ekki kannast við króann og neita að greiða það meðlag sem lífskjarasamningurinn kvað á um að greiða ætti.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image