• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

08
Oct

Formaður VLFA og VR funduðu með framkvæmdastjóra Bónus

Formaður Verkalýðsfélags Akraness og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR áttu mjög góðan fund með Guðmundi Marteinssyni framkvæmdastjóra Bónus.

Umræðuefni fundarins var meðal annars verðlag í dagvöruverslunum og mikilvægi þess að okkur takist að verja lífskjarasamninginn sem við skrifuðum undir í vor og þar skiptir máli að verslun og þjónustuaðilar haldi verðlagshækkunum í algjöru lágmarki.

Fram kom í máli Guðmundar að Bónus muni klárlega gera allt sem í þeirra valdi stendur til að verja lífskjarasamninginn með því að lágmarka verðlagsbreytingar eins og kostur er.

05
Oct

127% hærra greitt fyrir síld í Noregi en á Íslandi!

Sjómenn og sjómannaforystan hafa um alllanga hríð haft sterkan og rökstuddan grun um að útgerðarmenn sem hafa veiðar og vinnslu á sömu hendi séu ekki að fara eftir ákvæðum kjarasamnings sjómanna þar sem skýrt er kveðið á um að útgerðarmönnum beri ætíð að greiða hæsta gangverð fyrir fiskinn.

Í þessari frétt frá Aflafréttum kemur fram að uppsjávarskipið Margrét EA hafi landað norsk-íslenskri síld í Noregi tvívegis nýverið og fram kemur í fréttinni að Margrét EA hafi fengið 82 kr. fyrir kílóið í Noregi, en ef skipið hefði landað á Íslandi þá hefði verðið verið um 36 kr. Þetta þýðir á mannamáli að síld sem veidd er hér við land af íslensku skipi og siglir með aflann til Noregs fær 127% hærra fiskverð heldur en greitt er hér á landi!

Þetta hefur gríðarleg áhrif á ekki bara kjör sjómanna heldur einnig á samfélagið allt. Enda liggur fyrir að ef útgerðarmönnum sem hafa veiðar og vinnslu á sömu hendi tekst að ákvarða fiskverð til sinna sjómanna sem er 127% lægra hér á landi en í Noregi er verið að hafa gríðarlegar upphæðir af ekki bara sjómönnum eins og áður sagði heldur einnig skatttekjur til ríkis og sveitafélaga sem og hafnargjöld sem taka mið af heildar aflaverðmæti.

Skoðum muninn ef Margrét EA hefði landað á Íslandi en ekki í Noregi og það bara á þessum tveimur túrum.


Aflaverðmætið hefði verið 99,8 milljónir ef aflanum hefði verið landað á Íslandi þar sem útgerðamenn ákveða einhliða fiskverðið, en af því að landað var í Noregi þá varð aflaverðmætið 227,4 milljónir.

Aflahluturinn til sjómanna hefði verið 18,1 milljón ef landað hefði verið á Íslandi, en ef því að landað var í Noregi varð aflahlutur sjómanna 41,4 milljónir eða 23,2 milljónum meira en ef landað væri á Íslandi.

Tap ríkis og sveitafélaga

En hvað tapa ríki og sveitarfélög vegna þess að útgerðarmenn svindla og svína á fiskverði til sjómanna í skjóli þess að veiðar og vinnsla eru á sömu hendi? Bara í Þessum tveimur túrum hjá Margréti EA nemur þetta 10,6 milljónum sem ríki og sveitarfélög fá meira vegna þess að landað var í Noregi en ekki á Íslandi.

Eins og áður sagði þá hefur lengi verið rökstuddur grunur um þetta svindl og ekki sé verið að fara eftir ákvæðum kjarasamnings sjómanna þar sem skýrt er kveðið á um að útgerðarmönnum beri ætíð að greiða hæsta gangverð fyrir fiskinn.

Þetta á ekkert bara við um verðlagningu á síld heldur einnig makríl og loðnu, en í fréttum í byrjun september á þessu ári þá upplýsti Verðlagsstofa skiptaverðs í skýrslu sem gefin var út um hver verðmunur á aflaverðmæti á makríl væri á milli Noregs og Íslands og kom fram að norðmenn hafa greitt 226% meira að meðaltali fyrir makrílinn á tímabilinu frá árinu 2012 til 2018, en mesti munur var tæp 300% á árinu 2018.

Þessi samantekt frá Verðlagsstofu var enn ein staðfesting á þessum rökstudda grun sjómanna um að útgerðir í uppsjávarveiðum á Íslandi ástundi gróft svindl og svínarí. Ekki bara á sjómönnum heldur einnig á samfélaginu öllu. Enda má klárlega áætla að á umræddu tímabili hefði verið haft af sjómönnum laun sem nema allt að 10 milljörðum og af ríki og sveitafélögum skatttekjum sem nema allt að 5 milljörðum!

Formaður VLFA ítrekar það enn og aftur að það eru ekki bara skipverjar sem verða fyrir tekjutapi vegna þessa, heldur verða ríkissjóður og sveitarfélög af gríðarlegum skatttekjum.

Formaður skorar enn og aftur á stjórnvöld í ljósi alls þessa sem og að Verðlagsstofa skiptaverðs hefur afhjúpað það svindl og svínarí sem viðgengst í verðmyndun á uppsjávarafla að hefja án tafar opinbera rannsókn á verðlagningu á uppsjávarafla á Íslandi.

Eitt er víst að menn hafa hafið opinberar rannsóknir yfir minna tilefni en þetta, enda tekjutap hjá ríkissjóði og sveitarfélögum mælt í milljörðum á umræddu tímabili!

05
Oct

Störfum í fiskvinnslu hefur fækkað um tæp sjö þúsund á 25 árum!!!

Það er þyngra en tárum taki að horfa uppá hvernig íslenskur sjávarútvegur hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar vítt og breitt um hinar dreifðu byggðir þessa lands.

Nánast öll sjávarþorp og bæir hafa orðið fyrir barðinu á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Öll vitum við hvernig einstaka útgerðarmenn hafa í gegnum árin og áratugina ekki vílað fyrir sér að selja kvótann frá sér og labba í burtu með jafnvel milljarða króna í vasanum.

Þessir sömu útgerðarmenn víla ekki heldur fyrir sér að skilja fólkið og heilu sveitarfélögin eftir bjargarlaus þar sem stór hluti lífsviðurværis fólksins og sveitarfélaganna er kippt í burtu á einni nóttu.

Eins og áður sagði eru fjölmörg þorp og sveitarfélög á landsbyggðinni sem hafa lent í klónum á græðgisvæðingunni í kringum framsalið á aflaheimildum og sum þessara sveitarfélaga hafa ekki enn jafnað sig eftir að allur kvótinn hefur verið tekin í burtu í skjóli græðginnar.

Það er svo sorglegt að stjórnmálamenn skuli láta þessa hluti átölulaust, enda er skýrt kveðið á í 1 gr. laga um stjórn fiskveiða að nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

Takið eftir, tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu! Hvað skildu útgerðarmenn vera oft búnir að kolbrjóta þessa lagagrein? Mér er mjög hugleikið hvernig farið hefur verið með okkur Akurnesinga hvað þetta varðar, en ítreka að fjölmörg önnur sveitarfélög hafa einnig farið gríðarlega illa út úr þessu kerfi.

En árið 2004 voru 350 manns sem störfuðu við veiðar og vinnslu á Akranesi hjá Haraldi Böðvarssyni og þetta sama ár voru 170 þúsundum tonna landað í Akraneshöfn og þetta fyrirtæki greiddi 2,2 milljarða í laun. Í dag er allt farið!

Hvar er samfélagsleg ábyrgð útgerðarmanna? Og munum að markmið laganna er m.a. að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

Hugsið ykkur að fyrir 25 árum Þá störfuðu 9600 manns í fiskvinnslu á Íslandi en árið 2018 var þessi tala komin niður í 2900 sem þýðir að fiskvinnslustörfum í fiskiðnaði hefur fækkað um 6700 á 25 árum!

Vissulega gerir formaður sér grein fyrir að tækniframfarir eiga að sjálfsögðu einhvern þátt í þessari fækkun en alls ekki alla, enda hefur samþjöppun á aflaheimildum verið gríðarleg á undanförnum árum þar sem stórhluti aflaheimilda er kominn á örfáar hendur.

Einnig er með algjörum ólíkindum að við skulum heimila að verið sé að flytja 42 þúsund tonn af óunnum fiski erlendis. Rifjum enn og aftur upp 1. gr. laga um stjórn fiskveiða en þar segir: „hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“

Er verið að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu með því að flytja 42 þúsund tonn óunninn á erlenda markaði? Nei að sjálfsögðu ekki og ljóst að ef þessi 42 þúsund tonn yrðu unnin hér á landi væri hægt að skapa hundruð fiskvinnslustörf fólkinu og sveitarfélögunum til mikilla hagsbóta.

Rifjum einnig upp að fram til september 2008 var svokallað útflutningsálag uppá 10% á allan fisk sem var sendur óunninn frá landinu, sem þýddi að ef útgerð flutti 100 tonn af óunnum fiski erlendis þurfti útgerðin að leggja 10 tonn í svokallað refsiálag.

Þetta útflutningsálag var til að verja störfin vítt og breitt um landið tryggja atvinnu fólksins og sveitarfélögunum til hagsbóta, en á óskiljanlegan hátt var þetta álag fellt á brott í september 2008 af stjórnmálaflokkum sem horfa fyrst og fremst á sérhagsmuni heldur en heildarhagsmuni.

Formaður VLFA er ekki í nokkrum vafa um að það verður að kalla eftir endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða eins og stjórnmálamenn tala um í hvert sinn sem útgerðamenn skilja eftir sig blóðuga slóð í hverju sveitarfélaginu vítt og breitt um landið með tilheyrandi atvinnumissi, en þetta gaspur stjórnmálamanna varir því miður einungis rétt í nokkra daga og svo er allt gleymt!

Þetta er óþolandi staða, en það fyrsta sem Alþingi getur gert er að koma á þessu 10% útflutningsálagi þannig að ekki sé verið að flytja atvinnu frá landinu til annarra landa. Við eigum að nýta allar okkar auðlindir til atvinnuuppbyggingar og atvinnusköpunar en það gerum við ekki með því að flytja 42 þúsund tonn af óunnum fiski erlendis.

Verjum atvinnuna, fólkinu, sveitafélögunum og okkur öllum til hagsbóta!

30
Sep

Allt að 50 manns sagt upp hjá Ísfiski á Akranesi!

Formaður var rétt í þessu að koma af afar erfiðum starfsmannafundi sem forsvarmenn fiskvinnslufyrirtækisins Ísfisks héldu með starfsmönnum. En á þessum fundi þurfti fyrirtækið að tilkynna að öllum starfsmönnum væri sagt upp störfum frá og með mánaðarmótum, en um er að ræða uppundir 60 starfsmenn.

Fram kom í máli forsvarsmanna fyrirtækisins, að allar uppsagnir séu gerðar með fyrirvara um að fyrirtækinu takist að endurfjármagna sig, en til þessa hefur það ekki tekist, en sú vinna er enn í gangi.

Það er óhætt að segja að þessi tíðindi séu enn eitt þunga höggið sem við Akurnesingar höfum þurft að þola í atvinnumálum á liðnum árum og misserum, en rétt er að geta þess að stór hluti þeirra sem fengu þessi tíðindi í dag, gengu í gegnum uppsagnir þegar HB Grandi lokaði og hætti allri starfsemi á Akranesi árið 2017.  Einnig er rétt að geta þess að Ísfiskur keypti hluta fiskvinnsluhúsa HB Granda við Bárugötu á Akranesi haustið 2017 og flutti starfsemi sína frá Kársnesi í Kópavogi á síðata ári. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í vinnslu á ýsu og sölu á mörkuðum erlendis, en hráefni til vinnslunnar er að stærstum hluta keypt á markaði. 

Það er lítið annað að gera, en að vona að forsvarsmönnum Ísfisks takist á næstu dögum og vikum að endurfjármagna sig, þannig að ekki komi til þessara uppsagna, en það er ljóst að lítið annað er hægt að gera í stöðunni núna, en að vona það besta, en búa sig undir það versta.

Það er engum vafa undirorpið að enn og aftur eru verulegar blikur á lofti hér á Akranesi í atvinnumálum. Það er ekki bara að það vofi yfir okkur að tæplega 50 fiskvinnslukonur og menn séu við það að missa lífsviðurværi sitt ef fyrirtækinu tekst ekki að endurfjármagna sig, heldur eru líka verið að ógna stórkostlega atvinnuöryggi og lífsviðurværi þeirra sem starfa hjá fyrirtækjunum á Grundartanga.

En eins og hefur komið fram þá hefur Landsvirkjun hækkað raforkuverð hjá Norðuráli og Elkem Ísland um 5 til 6 milljarða á ári, en þessi hækkun er nú þegar farinn að hafa verulega neikvæð áhrif á atvinnuöryggi og lífsviðurværi starfsmanna Elkem Ísland. En fyrirtækið hefur nú þegar tilkynnt að 10 til 15% fækkun starfsmanna muni koma til með svokallaðri náttúrlegri fækkun. Einnig liggur fyrir algert fjárfestingar stopp hjá fyrirtækinu vegna óvissu í raforkumálum fyrirtækisins.

Það er þyngra en tárum taki þessi staða sem er að teiknast upp í atvinnumálum okkar Akurnesinga, en viðbótarhækkun á raforku til stóriðjunnar á Grundartanga er eins og áður sagði milli 5 og 6 milljarðar sem er litlu minna er allur sjávarútvegurinn greiðir í auðlindagjöld.  Það liggur fyrir að þegar nánast öll framlegð fyrirtækjanna er þurrkuð upp vegna græðgisvæðingar Landsvirkjunar þá mun það leiða til þess að verið er að ógna lífsviðurværi og atvinnuöryggi fjölda fólks.

Formaður VLFA telur einsýnt að bæjarbúar á Akranesi þétti nú raðirnar, því við getum ekki endalaust látið fara svona með okkur þegar kemur að atvinnuöryggi og lífsviðurværi bæjarbúa.

Það er rétt að rifja upp að árið 2004 voru 250 manns í vinnu hjá fiskvinnslufyrirtækinu Haraldi Böðvarssyni á Akranesi og það ár var landað um 170 þúsund tonnum og fyrirtækið greiddi á þriðja milljarð í laun. Núna er allt farið og næsta skemmdarverk sem nú er unnið að er að Landsvirkjun er að takast að eyðileggja rekstrarskilyrði stóriðjufyrirtækjanna á Grundartanga, sem mun valda okkur Akurnesingum og nærsveitungum ómældum skaða.

Eins og áður sagði telur formaður mikilvægt að bæjarbúar þétti raðirnar og á þeirri forsendu mun félagið skoða það alvarlega að halda íbúafund þar sem farið yrði yfir þessa alvarlegu stöðu sem er að teiknast upp í okkar atvinnulífi og á þann fund yrði að sjálfsögðu þingmönnum kjördæmisins boðið sem virðast þessa daganna ekki hafa miklar áhyggjur af stöðu mála hér á Akranesi !

15
Sep

Fundur í stjórnarráðinu

Forsetateymi Alþýðusambands Íslands fundaði með forsætisráðherra, félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra í stjórnarráðinu á föstudaginn.

Tilefni fundarins var að fara yfir innleiðingu aðgerða af hálfu stjórnvalda í tengslum við lífskjarasamninganna á hinum almenna vinnumarkaði sem undirritaðir voru þann 3. apríl sl.

En eins og flestir vita þá var aðkoma stjórnvalda að lausn kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði mjög yfirgripsmikil og er formanni VLFA og fyrsta varaforseta ASÍ til efs að stjórnvöld hafi áður komið jafn mikið að lausn á kjaradeilu eins í lífskjarasamningum.

Á fundinum var farið efnislega yfir yfirlýsinguna um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamningana og hvar hvert atriði væri statt.

En þessir yfirflokkar í yfirlýsingu stjórnvalda lúta að eftirfarandi atriðum:

  • Tekjuskattur
  • Fæðingarorlof
  • Barnabætur
  • Húsnæðismál
  • Lífeyrismál
  • Félagsleg undirboð
  • Hagstjórn vinnumarkaður og verðlag
  • Einföldum regluverks og eftirlit
  • Markviss skerf til afnáms verðtryggingar

 

Varðandi tekjuskattinn liggur fyrir að stjórnvöld eru að efna loforð sitt sem fram kom í yfirlýsingu stjórnvalda en nú liggur fyrir að tekjuskattur verður lækkaður um rúmar 10.000 krónur á tekjulægstu hópana. Framkvæmdin mun koma inn á tveimur árum en ekki þremur eins og talað var um, sem er gott enda lagði verkalýðshreyfingin hart að stjórnvöldum að hraða þessum lækkunum. Á ársgrundvelli munu ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu hækka um 120.000 kr. þegar þær verða komnar inn að fullu og aukning ráðstöfunartekna mun nema um 21 milljarði.

Fæðingarorlof mun lengjast úr níu mánuðum í tíu mánuði í byrjun árs 2020 og í byrjun árs 2021 verður fæðingarorlof orðið12 mánuðir.

Skerðingarmörk barnabóta munu hækka í 325 þúsund krónur á mánuði á árinu 2020 sem mun klárlega koma þeim tekjulægstu til góða.

Félagsleg undirboð: Tekið verði á kennitöluflakki á skilvirkan hátt og heimildir til refsinga verði auknar í samráði við aðila vinnumarkaðarins ef atvinnurekandi brýtur gegn lágmarkskjörum launamanns. Stefnt er að því að unnt verði að leggja fram frumvarp á Alþingi eigi síðar en á vorþingi 2020 sem tæki á þessum málum.

Varðandi yfirlýsingu stjórnvalda um að stíga markviss skerf til afnáms verðtryggingar kom fram að það liggi fyrir frumvarp sem bannar 40 ára jafngreiðslulán en þó með mjög víðrækum undanþágum. Það er ljóst að þessi drög að frumvarpi eru ekki í anda þess sem talað var um í aðdraganda lífskjarasamninganna og sagði fyrsti varaforseti á fundinum að hann liti á þessi drög sem svik ef þau yrðu að veruleika.

Niðurstaðan var að þessi mál yrðu skoðuð betur og mikilvægt er að sjá hvað kemur varðandi úrræði og aðgerðir til handa fyrstu kaupendum, því bann við 40 ára jafngreiðslulánum hanga eilítið saman við lausnir handa þeim hópi.

Heilt yfir var þetta góður fundur í stjórnarráðinu og ljóst er miðað við þennan fund að fullur vilji sé hjá stjórnvöldum að standa við sína yfirlýsingu í tengslum við lífskjarasamninganna en vissulega hef ég verulegar áhyggjur brotalöm geti orðið á yfirlýsingu varðandi að stíga markviss skref til afnáms verðtryggingar og eitt er víst að við það verður ekki unað.

15
Sep

Skattalækkun nemur allt að 120.000 á ársgrundvelli

Fjármálaráðherra kynnti nýtt fjárlagafrumvarp á mánudaginn síðastliðinn. Í frumvarpinu má sjá að nýtt skattþrep verður kynnt til sögunnar á næsta ári. Skattþrepið er lágtekjuskattþrep fyrir tekjur undir 325.000 krónur. Skattbreytingin verður gerð í tveimur þrepum, árin 2020 og 2021.

Barátta verkalýðshreyfingarinnar var að mestu skattalækkanir myndu koma til handa þeim sem væru á lægstu laununum og það viðrist hafa tekist.

Það getur hins vegar verið flókið að átta sig á því hvað þetta hefur að segja fyrir hvern og einn. Þess vegna viljum við benda á sniðuga reiknivél þar sem hver og einn getur séð hvaða áhrif þessar lækkanir hafa á sína afkomu.

Reiknivélina má nálgast hér.

05
Sep

Ferð eldri félagsmanna VLFA

Verkalýðsfélag Akraness býður á hverju ári eldri félagsmönnum sínum í dagsferð. Í ár var farið um Suðurnesin og var Gísli Einarsson fararstjóri í þessari ferð. Eins og allir vita er alltaf gaman þar sem Gísli er og að sjálfsögðu tók hann harmonikkuna með í þessa ferð.

Ferðasagan:

Lagt var af stað frá Jaðarsbökkum, stundvíslega kl 8:30, fyrsti viðkomustaðurinn var Hvalasafnið úti á Granda.  Þar var hópnum skipt í tvo hluta og fengum við flotta leiðsögn um þetta merkilega safn.  Þaðan var brunað út á Garðskagavita þar sem Jóhann og starfsfólk á veitingastaðnum Röstin tók á móti okkur með dýrindis hádegismat.  Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Suðurnesjabæ borðaði með okkur og sagði okkur ýmislegt áhugavert um svæðið.

Eftir matinn var farið ásamt Reyni Sveinssyni leiðsögumanni og skoðað sig um í Hvalsneskirkju, það var mjög gaman að hlusta á sögu þessarar fallegu kirkju.  Reynir er alveg frábær sögumaður og sagði okkur svo margt um Suðurnesin, bæði um það sem er að gerast þar núna sem og það sem gerðist í fornöld. 

Næst var brunað á Salthúsið í Grindavík, þar tók hann Láki á móti okkur með glæsibrag og bauð okkur upp á kaffi og með því. Heimalöguðu flatkökurnar vöktu mikla lukku hjá hópnum, enda einstaklega góðar.  Kvikan - Auðlindar og menningarhús Grindvíkinga var svo síðasti viðkomustaðurinn, en þar mátti sjá þrjár sýningar: ein var um jarðorku á svæðinu, ein um saltfiskinn okkar og ein um Guðberg Bergsson rithöfund.  

Eftir þetta stopp var svo farið heim, en Krýsuvíkur leiðin varð fyrir valinu, mjög skemmtileg keyrsla , enda var veðrið eins gott og hægt var að biðja um.

Við, bæði stjórn og starfsfólk Verkalýðsfélags Akraness viljum þakka þeim Gísla Einars, bílstjórum Skagaverks og að sjálfsögðu þeim félagsmönnum okkar sem sáu sér fært um að koma með okkur í þessa ferð alveg kærlega fyrir góðan dag.

02
Sep

Hefja þarf opinbera rannókn á verðlagningu á uppsjávarafla

Það hefur lengi verið uppi harður ágreiningur á milli sjómannaforystunnar og útgerðamanna um verðlagningu á uppsjávarafla, en þessi ágreiningur lýtur að sjávarútvegsfyrirtækjum sem eru með veiðar og vinnslu á sömu hendi.

Þessi ágreiningur kom m.a. upp í síðustu kjarasamningum vegna þess að sjómenn hafa lengi talið og haft sterkan og rökstuddan grun um að útgerðamenn sem hafa veiðar og vinnslu á sömu hendi séu ekki að fara eftir ákvæðum kjarasamnings sjómanna þar sem skýrt er kveðið á um að útgerðarmönnum beri ætíð að greiða hæsta gangverð fyrir fiskinn.

Vegna þessa vantrausts og tortryggni á milli sjómanna og útgerðamann lagði formaður Verkalýðsfélags Akraness fram tillögu sem laut að því að skipuð yrði fjögurra manna óháð rannsóknarnefnd sem hefði það hlutverk að kanna verðalagningu á uppsjávarafla og kanna hví Norðmenn greiða langtum hærra verð til sinna sjómanna og á það við um allar uppsjávarafurðir þ.e.a.s makríl, loðnu, síld og kolmuna.

Það er skemmst frá því að segja viðbrögð samninganefndar útgerðamanna hafi nánast verið ofsafenginn og var þessari tillögu snarlega hafnað og það með látum. Því til staðfestingar nægir að nefna yfirlýsingu frá SFS þar sem samtökin töldu að sjómannaforystan væri að leggja fram nýja kröfu en það eina í þessari tillögu okkar var að fá á hreint hvort útgerðarmenn væru að svindla og svína á íslenskum sjómönnum og samfélaginu öllu með því að greiða minna fyrir afurðirnar en eðlilegt teljist. Við í sjómannaforystunni töldum að hérna væri kjörið tækifæri fyrir útgerðarmenn að fá á hreint hvort þessar rökstuddu grunsemdir ættu við rök að styðjast eða ekki. Að skipa þessa óháðu nefnd kom ekki til greina af hálfu útgerðamanna sem er og var óskiljanlegt.

Það sem síðan gerðist var að Verðlagstofa skiptaverðs gaf út skýrslu um hver verðmunur á aflaverðmæti á makríl væri á milli Noregs og Íslands og kom fram að norðmenn hafa greitt 226% meira að meðaltali fyrir makrílinn á tímabilinu frá árinu 2012 til 2018 en mesti munur var tæp 300% á árinu 2018.

Þessi samantekt frá Verðlagsstofu er staðfesting á þessum rökstudda grun sjómanna sem klárlega má áætla að á umræddu tímabili hefi verið haft af sjómönnum laun sem nema allt að 10 milljörðum og af ríki og sveitafélögum skatttekjum sem nema allt að 5 milljörðum

Formaður VLFA mætti Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í Kastljósi á síðasta fimmtudag (29.ágúst 2019) þar sem umræðuefnið var þessi gríðarlegi verðmunur á aflaverðmæti á makríll á milli Noregs og Íslands.

En eins og áður sagði að frá árinu 2012 til 2018 þá munar að meðaltali 226% sem norðmenn greiða meira fyrir markílinn heldur en íslenskar útgerðir greiða. Vandinn liggur í því þegar veiðar og vinnsla eru á sömu hendi þá hafa útgerðamenn á Íslandi komist upp með að ákvarða verðið nánast einhliða hvaða verð þeir eru tilbúnir að greiða íslenskum sjómönnum.

Það er mjög mikilvægt að allir átti sig á því að það eru ekki bara sjómenn sem verða fyrir tekjutapi vegna þessa ,heldur hafa ríki og sveitafélög orðið af milljörðum í skatttekjur.

Það er óhætt að segja það að oft hefur formaður VLFA fengið ansi sterk viðbrögð við hinum ýmsu málum sem lúta að hagsmunum launafólks sem ég hef vakið athygli á í gegnum árin. En drottinn minn dýri, viðbrögðin sem formaðurinn hefur fengið eftir Kastljósþáttinn í gær þar sem fjallað var um þann gríðarlega verðmun á makríll milli Íslands og Noregs eru gríðarleg.

En eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er þessi munur að meðaltali 226% frá árinu 2012 til 2018 en hæst fór verðmunurinn uppí tæp 300% árið 2018.

Aðalmálsvörn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi eru að gæði makrílsins sem norðmenn veiða sé mun betri en okkar og talaði framkvæmdastjóri SFS um að verið sé að bera saman epli og appelsínur. Þvílíkur útúrsnúningur enda verið að bera saman makríl og makríl en epli og appelsínur eru ekki einu sinni sami ávöxturinn!

Nú hafa mér borist upplýsingar frá sjómönnum að togarinn Margrét EA 710 hafi landað makríl í Færeyjum fyrir hálfum mánuði og fengið meðalverð sem var í kringum 150 krónur en á sama tíma er mér tjáð að meðalverð á Íslandi sé í kringum 60 kr.

Það væri fróðlegt að SFS útskýri fyrir almenningi af hverju séu greiddar 150 krónur fyrir kílóið í Færeyjum en ef þetta íslenska skip hefði landað í Íslandi hefði verðið verið í kringum 60 krónur.

Þessu til viðbótar er rétt að rifja upp að norðmenn veiddu á loðnuvertíðinni hér við land árið 2017,  41 þúsund tonn og var meðalverðið hjá norðmönnunum um 80 krónur fyrir kílóið á meðan meðalveriðið sem íslensku sjómennirnir fengu var í kringum 35 krónur. Samt var hér um sama loðnustofn að ræða með sömu gæði!

Ég ítreka það enn og aftur að það eru ekki bara skipverjar sem verða fyrir tekjutapi vegna þessa, heldur verða ríkissjóður og sveitafélög af gríðarlegum skatttekjum.

Ég skora á stjórnvöld í ljósi þess að Verðlagsstofa skiptaverðs hefur afhjúpað það svindl og svínarí sem viðgengst í verðmyndun á uppsjávarafla að hefja án tafar opinbera rannsókn á verðlagningu á uppsjávarafla á Íslandi.

Eitt er víst að menn hafa hafið opinberar rannsóknir yfir minna tilefni en þetta, enda tekjutap hjá ríkissjóði og sveitafélögum mælt í milljörðum á umræddu tímabili !

27
Aug

Ferð eldri félagsmanna á lokastigi

Undirbúningur fyrir hina árlegu ferð með eldri félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness er nú á lokastigi. En í ár verður farið um Reykjanesið, enda æði margt þar að sjá og hægt að skoða, en í gegnum árin hefur þátttaka verið gríðarlega góð en um eða yfir 100 eldri félagsmenn þiggja boð í þessar árlegu ferðir sem eru að eldri félagsmönnunum okkar að sjálfsögðu að kostnaðarlausu.

Farið er frá Akranesi um 8:30 á næsta þriðjudag og er áætluð heimkoma um 19:00, en í ár verður Gísli Einarsson fyrrverandi þingmaður og bæjarstjóri farastjóri en hann var einnig fararstjóri í fyrra og stóð sig gríðarlega vel en þá var Suðurlandið skoðað.

Það er stjórn Verkalýðsfélags Akraness mikill heiður að geta þakkað eldri félagsmönnum okkar fyrir sitt framlag við að taka þátt í að byggja upp okkar öfluga stéttarfélag með því að bjóða þeim í dagsferð eins og við höfum gert í fjölmörg ár.

16
Aug

Launaþjófnaður og kjarasamningsbrot í boði Hæstaréttar

Launaþjófnaður og kjarasamningsbrot stórfyrirtækja í boði Hæstaréttar

Síðasta þriðjudag kynnti ASÍ niðurstöðu rannsóknar um launaþjófnað og kjarasamningsbrot á íslenskum vinnumarkaði. Í fréttum af rannsókninni hefur aðallega verið fókuserað á að mest hafi verið brotið á erlendu launafólki og að hæstu kröfurnar væru í ferðaþjónustu og mannvirkjagerð. Niðurstöður rannsóknarinnar eru grafalvarlegar og því var leitt að sjá

framkvæmdastjóra Samtaka aðila í ferðaþjónustu gera lítið úr alvarleikanum og halda því fram að það væri „gjarnan um heiðarleg mistök að ræða“ hjá ungum, óreyndum fyrirtækjum.

Ekki bara lítil óreynd fyrirtæki sem hlunnfara starfsmenn sína heldur líka stór og rótgróin fyrirtæki

Ég ætla ekki að eltast við þessar ótrúverðugu skýringar enda er mikilvægara að minna á að launaþjófnaður er alls ekki einskorðaður við lítil, ung og óreynd fyrirtæki. Á undanförnum árum hef ég orðið vitni að því að sum af rógrónustu og stærstu fyrirtækjum landsins hlunnfara starfsmenn sína og hafa af þeim lágmarksréttindi samkvæmt kjarasamningum. Ég verð að viðurkenna að það hefur komið mér verulega á óvart hvað stórfyrirtæki sem velta milljörðum árlega, eiga eignir upp á milljarða og hagnast um hundruð milljóna ef ekki milljarða geta engu að síður verið miskunnarlaus í því að hafa nokkra hundraðþúsundkalla af starfsmönnum sínum. Oft eru þessi fyrirtæki að hafa réttindi af þeim sem síst skyldi, harðduglegu starfsfólki sem hefur unnið myrkranna á milli jafnvel í margar vikur í senn. Hér er ég að tala um stórfyrirtæki eins og Skagann hf. ogHval hf. Bæði þessi fyrirtæki hafa haft kjarasamningsbundin réttindi af starfsfólki sínu á síðustu árum.

Fyrirtækin þráast við þótt þeim sé bent á brotin og þau liggi skýrt fyrir.

Stórfyrirtækin hafa öll fengið tækifæri til þess að lagfæra brot sín. Ef um væri að ræða „heiðarleg mistök“ þá myndi maður ætla að fyrirtækin leiðréttu þau um leið og „mistökin“ koma í ljós. Því miður er það allt of sjaldgæft. Hér má sem dæmi nefna stórfyrirtækið Hval hf. sem á eignir upp á marga milljarða og er meðal annars einn stærsti eigandi Arion banka. Dómstólar komust að þeirri niðurstöðu í fyrra að Hvalur hf. hefði hlunnfarið starfsmann sinn um ca. hálfa milljón í laun á hvalvertíðinni 2015. Auk þess hafði Hvalur hf. lögbundna frídaga af starfsmanninum þegar hann vann á stanslausum vöktum allan sólarhringinn í fleiri vikur. Rúmlega hundrað starfsmenn á hvalvertíðum undanfarinnar ára voru einnig hlunnfarnir með sama hætti. Einhver hefði haldið að stórt, öflugt og síðast en ekki síst forríkt fyrirtæki eins og Hvalur hf. myndi strax leiðrétta kjör harðduglegra starfsmanna sem hafa unnið í fyrirtækinu daga og nætur til þess að fyrirtækið geti haldið úti hvalvertíðum sínum. Einhver hefði haldið til að fyrirtækið myndi hlaupa til og greiða það sem óumdeilanlega vantaði upp á umsamin laun og kjarasamningsbundna frídaga starfsmanna. Hvalur hf. sá þó ekki sóma sinn í að greiða starfsmönum það sem þeir áttu rétt á og báru því við að starfsmennirnir væru of seinir að koma með kröfur (svokallað „tómlæti“). Slík afstaða stenst enga heilbrigða skynsemi enda er það skylda vinnuveitanda að greiða rétt laun og veita réttindi samkvæmt lögum og kjarasamningum. Það er ekki skylda starfsmannsins. Því miður virðist þó sem Hæstiréttur Íslands hafi á síðustu mánuðum ákveðið að taka sér stöðu með stórfyrirtækjum gegn starfsmönnum í málum sem þessum.

Hæstiréttur vinnur markvisst gegn gildi og markmiðum kjarasamninga

Ef starfsmaður stelur frá vinnuveitanda er starfsmaðurinn umsvifalaust rekinn þegar þjófnaðurinn kemst upp og honum jafnvel refsað af hinu opinbera. Þetta gildir þó ekki þegar málinu er snúið við. Ef vinnuveitandi stelur frá starfsmanni er vinnuveitanda ekki refsað. Öllu verra er þó að Hæstiréttur hefur á síðustu mánuðum lagt upp í þá furðulegu vegferð að hlífa vinnuveitandanum við því að borga þau laun og kjör sem ranglega voru höfð af starfsmanninum. Með öðrum orðum þá leggur Hæstiréttur blessun sína yfir að vinnuveitendur standi ekki við lágmarksréttindi.

Í forkastanlegum dómi Hæstaréttar í lok mars síðastliðnum var niðurstaðan sú að vinnuveitandi gæti látið starfsmann sinn vinna á kjörum sem eru undir þeim lágmarkskjörum sem fram koma í kjarasamningi og lögum. Þessi dómur fékk litla opinbera umfjöllun en fór alls ekki framhjá verkalýðshreyfingunni sem trúði varla sínum eigin augum. Dómurinn felur einfaldlega í sér grundvallarbreytingu á lagareglum sem hafa verið óumdeildar á íslenskum vinnumarkaði í tugi ára. Með dóminum ákvað Hæstiréttur bara upp á sitt einsdæmi að víkja frá þeirri grundvallarreglu að kjarasamningar stéttarfélaga feli í sér lágmarksréttindi. Hæstiréttur tók það einfaldlega upp hjá sjálfum sér að veikja stoðir og grundvöll kjarasamninga gríðarlega. Niðurstaða Hæstaréttar er að vinnuveitendur geta nú gert ólögmæta ráðningarsamninga og komist algerlega upp með það.

Það er forkastanlegt að Hæstiréttur sé á þeirri vegferð að blessa gróf kjarasamningsbrot á íslenskum vinnumarkaði á grundvelli þess að ef launafólk áttar sig ekki á því nánast innan þriggja mánaða að verið sé að brjóta á réttindum þeirra, þá skuli sýkna fyrirtæki vegna þess að launamaðurinn á að hafa sýnt af sér „tómlæti“

Hvernig á launafólk sem veit ekki að verið sé að brjóta á réttindum sínum að geta sýnt af sér tómlæti?  Hugsið ykkur með allt erlenda fólkið sem starfar hjá íslenskum vinnumarkaði og hefur ekki þekkingu né kunnáttu til að þekkja frumskóg kjarasamningsgreina.  Það er þyngra en tárum taki að Hæstiréttur sé að blessa launaþjónað á grundvelli þess að launafólk áttar sig ekki strax á því að verið sé að hlunnfara það, þetta er svo mikill skandall að það nær ekki nokkurri átt!

Eftir dóminn er ekki hægt að treysta því að kjör launþega fari eftir umsömdum lágmarksréttindum. Með dóminum heimilaði Hæstiréttur að vinnuveitendur gætu haft lágmarksréttindi af starfsmönnum án nokkurra afleiðinga. Dómurinn hafði strax áhrif á dómsúrlausnir héraðsdóms og Landsréttar enda hlýða þeir Hæstarétti. Á þeim tæpu fimm mánuðum sem liðnir eru frá dóminum hefur hann því nú þegar valdið gríðarlegu tjóni en það er aðeins sýnishorn af því tjóni sem verður ef þessari niðurstöðu verður ekki breytt.

Það er sérstakt að þessi vegferð Hæstaréttar byrjaði nánast á sama tíma og verið var að skrifa undir lífskjarasamningana um mánaðamótin mars/apríl þar sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld voru sammála um að taka þyrfti af hörku á brotastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði.

Já, það er t.d. kaldhæðnislegt að Hæstiréttur hafi með „tómlætisdómi“ sínum verið að kippa fótunum undan kjarasamningum á Íslandi á sama tíma og aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld voru að klára lífskjarasamningana til þess að reyna að ná jafnvægi og sanngirni á vinnumarkaði m.a. með loforði frá stjórnvöldum um að heimildir til refsinga verði auknar, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, ef atvinnurekandi brýtur gegn lágmarkskjörum launamanns.

Skilaboð Hæstaréttar Íslands er til fyrirtækja sem vilja ástunda launaþjónað er að það er í lagi svo lengi sem starfsmaðurinn áttar sig ekki strax á því að verið sé að brjóta á réttindum hans og á sömu forsendu er það að mati dómsins líka í lagi að gera ólöglega ráðningarsamninga.  Já, skilaboð Hæstaréttar til fyrirtækja sem ástunda launaþjónað er að þið fáið sýknu ef starfsmaðurinn áttar sig ekki strax á því að verið sé að hlunnfara hann!  

Það er ekki nóg að stoppa óheiðarleg fyrirtæki, það þarf að stoppa dómstólana

Viðbrögð framkvæmdastjóra SA við skýrslu ASÍ um launaþjófnað voru að lýsa því yfir að samtökin standi fyrir „ábyrgu atvinnulífi“ og þegar fyrirtæki standi ekki við kjarasamninga brjóta þau ekki bara gegn sínu starfsfólki heldur á samfélaginu í heild og öðrum atvinnurekendum með því að skekkja samkeppnisstöðuna. Ég get tekið undir þetta enda eru kjarasamningar gríðarlega mikilvægir fyrir stöðugleikann á Íslandi (eins og SA hefur ítrekað stanslaust) og þegar brotið er gegn kjarasamningum er því í raun ekki bara verið að stela af starfsfólkinu heldur samfélaginu öllu.

Þegar áðurnefnd rannsókn ASÍ um launaþjófnað var kynnt var um leið nefnt að verið væri að leita leiða til þess að finn leiðir til að berjast gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. SA segist taka heilshugar undir það enda var það hluti af lífskjarasamningunum að skoða hvort hægt væri að skerpa á ábyrgð vinnuveitanda með því að beita launaþjófa refsingu eins og öðrum þjófum.

Það þarf að vinna fljótt og vel í þessu: ASÍ, SA og stjórnvöld þurfa að búa svo um hnútana að það sé ekki með nokkru móti hægt að komast upp með að brjóta kjarasamninga. Eitt af því sem þarf að gera er að setja lög ekki seinna en í haust til þess að stöðva Hæstarétt Íslands og vegferð réttarins, enda er það mat mitt að þessir tómlætisdómar séu ein mesta ógn sem íslenskt launafólk á íslensk verkalýðshreyfing hefur staðið frammi fyrir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image