• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
05
Feb

Formaður VLFA og bæjarstjóri Akraneskaupstaðar funduðu með íbúum Holtsflatar og Eyraflatar

Í gær hélt Verkalýðsfélag Akraness og bæjarstjóri Akraneskaupstaðar fund með íbúum á Holtsflöt 4 og Eyrarflöt 2 og var fundurinn haldinn á Gamla kaupfélaginu.

En til fundarins var boðað vegna þeirrar skelfilegu stöðu sem upp kom þegar leigufélagið Heimavellir ákvað allt í einu að selja allar leiguíbúðir félagsins til nýrra aðila sem ekki hafa í hyggju að leigja þær áfram út, heldur að selja þær.

Við þennan siðlausa gjörning Heimavalla voru 26 fjölskyldur settar í fullkoma óvissu um framtíð þess að hafa öruggt húsnæði.

Það var mat formanns VLFA og bæjarstjóra Akraneskaupstaðar að við þessu neyðarástandi hjá þessu ágæta fólki yrði að bregðast við og á þeirri forsendu fór formaður VLFA í það að leita að íbúðum til að lágmarka þann skaða og óvissu sem þetta siðlausa framferði Heimavalla hafði skapað umræddum íbúum.

Það jákvæða var að á fyrstu stigum málsins höfðu eigendur Uppbyggingar sem eiga Asparskóga 29 sem er nýtt fjölbýlishús samband við formann VLFA og bæjarstjóra Akraneskaupstaðar og bauðst til að bregðast við þessu neyðarástandi með því að koma með allt að 10 íbúðir inná leigumarkaðinn handa þessu fólki.

En hér er um að ræða 5 þriggja herbergja íbúðir og 5 fjögurra herbergja íbúðir og er vert að þakka eigendum Uppbyggingar fyrir að bregðast svona vel við þessum aðstæðum.

En eftir samtal við eigendur Uppbyggingar var ákveðið að bjóða fólki að taka íbúðirnar á svokallaðri kaupleigu sem byggist á því að þegar svokölluð hlutdeildarlán verða orðin að lögum og fólkið uppfyllir þau skilyrði sem verða í kringum hlutdeildarlánin þá verði hægt að nota hluta af leiguverðinu sem útborgun í íbúðinni ef fólk vill kaupa hana.  Þetta er mjög jákvætt en nú er bara að bíða eftir að hlutdeildarlánin verða lögfest en áætlað er að það verði á vorþinginu.

Hins vegar liggur fyrir að fjögra herbergja íbúðirnar munu ekki rúmast innan tekjumarka hlutdeildarlánanna og því verða þær leigðar í langtímaleigu.  Það ber svo sannarlega að þakka eigendum Uppbyggingar fyrir þeirra framlag við að koma til móts við þetta neyðarástand sem skapast hefur hjá þessu fólki.

Þetta voru ekki einu íbúðirnar sem formaður VLFA og bæjarstjóri Akraness náðu að útvega í þetta neyðarverkefni heldur var íbúum tilkynnt að íbúðir væru lausar á Holtsflöt 6.  En þar var um þrjár þriggja herbergja og ein fjögurra herberja.  Síðan var íbúum einnig tilkynnt að formaður VLFA og bæjarstjóri Akraneskaupstaðar hefðu reddað þremur þriggja herbergja leiguíbúðum á Asparskógum.

Einnig fór bæjarstjóri Akraneskaupstaðar yfir aðrar lausnir sem hann er að vinna að með Mannvirkjastofnun og einnig leigufélaginu Bjargi en ekki væri hægt að greina nákvæmlega frá þeirri vinnu þar sem hún væri á frumstigi.

Þetta var mjög góður fundur og ánægjulegt að finna þakklætið frá íbúum í okkar garð vegna þeirra vinnu sem við höfum lagt í þetta neyðarverkefni.  En ljóst er að öll þessi úrræði munu ekki uppfylla þarfir og væntingar allra, því miður.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image