• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Jan

Fimmti samningafundur vegna kjarasamnings við Norðurál haldinn í gær

Fimmti samningafundur stéttarfélaganna með forsvarsmönnum Norðuráls var haldinn í gær.

Aðalumræðuefnið á þessum samningafundi laut að því að hvort vilji væri fyrir því að halda áfram viðræðum að því að taka upp 8 tíma vaktakerfi í kerskála og steypuskála eins og tíðkast í öllum sambærilegum verksmiðjum á Íslandi.

Niðurstaðan var að halda þeirri vinnu áfram, en rétt er að geta þess að þetta er mjög flókið viðfangsefni enda um gríðarlega mikla breytingu um að ræða. En frá upphafi verkasmiðjunnar hefur verið 12 tíma vaktakerfi þar sem starfsmenn skila 182 tímum á mánuði en í 8 tíma vaktakerfinu er vinnustundafjöldin einungis 145,6 vinnustundir á mánuði. Hér munar hvorki meira en 36,4 vinnustundum á mánuði, miðað við það vaktakerfis er nú er við lýði og þess sem aðrar verksmiður vinna eftir.

Í dag er vinnuskylda starfsmanna 156 vinnustundir á mánuði þannig að starfsmenn fá fasta yfirvinnu í dag upp á 26 tíma en þeir munu eðli málsins falla niður og síðan þarf að finna lausn á tímanum á milli 156 tíma vinnuskyldunnar og 145,6 tímanna sem unnir eru í 8 tíma vaktakerfinu. En það er mjög mikilvægt að ná að eyða langflestum svokölluðum bætivöktum þannig að vinnuskylda starfsmanna verði ekki fleir en þessar 145,6 vinnustundir.

Þetta er það sem við erum að vinna að og ef þetta kerfi nær í gegn þá má áætla aðstarfsmenn muni vinna um 340 vinnustundum minna á ársgrundvelli en þeir gera í dag, sem þýðir að starfsmenn munu vinna rúmum 2 mánuðum minna á ársgrundvelli en þeir gera í 12 tíma vaktakerfinu.

Það er mat samninganefndar að 8 tíma vaktakerfið sé mun fjölskyldu- og manneskjuvæna en það kerfi sem nú er við lýði. Það er ákall í þjóðfélaginu að gera vinnustaði fjölskylduvænni með því að stytta vinnutíma og þá sérstaklega hjá vaktavinnufólki og þessi leið yrði svo sannarlega stórt skref í þeirri viðleitni.

En að sjálfsögðu skipta launin miklu máli, en með minni vinnu eru útborguð laun eðlilega lægri og gefa fyrstu útreikningar formanns Verkalýðsfélags Akraness til kynna að útborguð laun muni lækka á bilinu 50 - 60 þúsund á mánuði, en það skýrist að starfsmenn vinna 36 vinnustundum minna á mánuði sem nemur heili vinnuviku!  En ef starfsmenn taka auka vaktir sem nema 26 tímum munu þeir ekki verða fyrir lækkun launa.

En þessar umræður eru á viðkvæmu stigi og það getur brugðið til beggja átta en samninganefndin er algerlega einhuga um að láta á þetta reyna og leggja þetta síðan fyrir starfsmenn.

Rétt er að geta þess að starfsmenn Fjarðaráls skiptu úr 12 tíma vaktakerfi í 8 tíma kerfi og hefur það heppnast gríðarlega vel og er almenn ánægja meðal starfsmanna um þá breytingu.

Að sjálfsögðu kom aðalkrafa starfsmenna einnig til umræðu á þessum fundi sem lýtur að launavísitölutengingunni, en Norðurál hefur hafnað henni eins og hún var meðhöndluð í síðasta kjarasamningi. Formaður hefur áréttað að þetta sé forgangskafa sem ekki verði kvikað frá.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image