• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
03
Feb

Formenn, VLFA, VR og bæjarstjóri Akranes funda með íbúum sem leigðu hjá Heimavöllum á morgun

Á morgun mun formaður Verkalýðsfélags Akraness, bæjarstjórinn á Akranesi og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR funda með íbúum á Holtsflöt 4 og Eyrarflöt 2 vegna þess neyðarástands sem hefur skapast eftir að Heimavellir ákváðu að selja allar leiguíbúðir félagsins hér á Akranesi.

Formaður og bæjarstjórinn hafa verið að reyna að aðstoða þá einstaklinga sem eru að lenda í klónum á þessari siðlausu ákvörðun Heimavalla m.a. með því að leita að íbúðum til leigu handa þessum einstaklingum sem þarna eiga í hlut.

Það hefur gengið nokkuð vel og verða möguleikar í stöðunni kynntar fyrir íbúum á fundinum á morgun. Einnig mun formaður VR fara yfir hugmyndir að nýjum svokölluðum hlutdeildarlánum.

En til upprifjunar á málinu þá hefur formaður fjallað um þá framkvæmd sem leigufélagið Heimavellir gerðu og þann ótrúlegan gjörning og siðlausa athæfi sem laut að því að selja bæði Holtsflöt 4 og Eyrarflöt 2 með þeim afleiðingum að nánast 26 fjölskyldur er í fullkominni angist og kvíða vegna þess að þau verða húsnæðislaus á næstu mánuðum.

Eins og flestir vita þá keyptu Heimavellir þessar íbúðir af Íbúðalánasjóði og sérkjörum á sínum tíma með þeim formerkjum að tryggja öflugan og tryggan leigumarkað hér á Akranesi.

En nú örfáum árum síðar hafa Heimavellir pakkað saman og selt nánast allar eignir sem þeir fengu á sérkjörum frá Íbúðalánasjóði á sínum tíma.

En hvað skyldi nú Heimavellir hafa selt íbúðirnar á til nýrra eigenda? Jú, ég hef aflað mér þær upplýsingar og hef kaupsamninga undir höndum og þar kemur í ljós að 18 íbúðir að Holtsflöt 4 voru seldar á 582 milljónir sem gerir að meðaltali rétt rúmar 32 milljónir á íbúð! En rétt er að geta þess að fasteignamat fyrir árið 2020 var rétt tæpar 860 milljónir eða 276 milljónum undir fasteignamati eða 47%.

Heimavellir seldu einnig 8 íbúðir á Eyrarflöt 2 til sömu aðila á 190 milljónir sem gerir að meðaltalsverð á pr. íbúð var 23,7 milljónir. Hins vegar nemur fasteignamat fyrir árið 2020 á þessum 8 íbúðum á Eyrarflötinni um 260 milljónum eða 37% undir fasteignamati.

Með öðrum orðum þá seldu Heimavellir þessum nýju eigendum Eyrarflöt 2 og Holtsflöt 4 þessar tvær blokkir 341 milljónum undir fasteignamati. En rétt er að geta þess að Holtsflöt 4 var byggð árið 2007 og er meðaltals fermetri á íbúð á Holtsflötinni 123 fermetrar. Eyrarflöt 2 var byggð árið 2004 og meðalfermetri á íbúð 78,6 fermetrar.

Það sem líka vekur undrun mína er að Íbúðarlánasjóður virðist blessa söluna á Eyrarflötinni því það voru kvaðir sem kváðu á um að óheimilt væri að hafa eigendaskipti á íbúð sem hvílir lán til leiguhúsnæðis, nema að til komi samþykki stjórnar Íbúðalánssjóðs. Það er ekki að sjá annað en að stjórn Íbúðalánssjóðs hafi heimilað þessi eigendaskipti og það þrátt fyrir að selja eigi allar íbúðirnar!

Það er algjörlega með ólíkindum að Heimavellir skuli hafa vogað sér að selja þessar eignir langt undir fasteignamati án þess að bjóða leigjendum kaup á íbúðunum með sama gríðarlega afslætti og þarna átti sér stað. Siðleysið og vanvirðingin gagnvart sínum leigjendum er algert og það er eins og forsvarsmenn Heimavalla hafa algerlega gleymt þeirri staðreynd að á bakvið þennan gjörning eru manneskjur og barnafólk sem þurfa að þjást og lifa við mikinn kvíða við að finna sér og sínum þak yfir höfuðið.

Ég ítreka enn og aftur það sem ég hef áður skrifað um þetta mál hafi Heimavellir algera skömm fyrir þessa ómanneskjulegu framkomu gagnvart grandalausum leigjendum!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image