• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Feb

Ísfiskur tekið til gjaldþrotaskipta

Eitt höggið enn sem við Akurnesingar verðum fyrir er orðið að staðreynd, en í dag rann upp sú stund að stjórn Ísfisks hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu og því klárlega komið á hreint að endurkoma tæplega 50 starfsmanna í fiskvinnslu til starfa hjá þessu ágæta fyrirtæki verður ekki að veruleika.

Það liggur fyrir að flestir eygðu þá von að Ísfiskur myndi ná að endurfjármagna sig og hefja vinnslu af fullum krafti að nýju, eftir nokkra mánaða hlé, en nú er þeirri draumsýn endalega lokið.

Það má segja að það séu takmörk fyrir því hvað hægt er að leggja miklar hremmingar á eitt samfélag  í atvinnumálum, en það verður ekkert undan því litið að atvinnuástand hér á Akranesi er ekki glæsilegt um þessar mundir og er þar vægt til orða kveðið.

Að hugsa sér að fyrirkomulag um stjórn fiskveiða skuli vera þess valdandi að einn stærsti útgerðabær landsins skuli hafa verið lagður í rúst, hvað varðar veiðar og vinnslu sjávarafurða.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness vill minna á að fyrir sameiningu Haraldar Böðvarssonar & co við Granda árið 2004 störfuðu 350 manns hjá fyrirtækinu og fyrirtækið greiddi út laun það árið fyrir 2,2 milljarða, núvirt eru þetta 4,7 milljarðar. Það var landað um 170 þúsundum tonna á Akranesi árið 2004, en í dag er allt farið.

Nú kalla sum sveitarfélög eftir mótvægisaðgerðum frá stjórnvöldum vegna loðnubrests, en hvað megum við Akurnesingar segja þar sem öllum aflaheimildum okkar hefur nánast verið rænt af samfélaginu vegna græðgisvæðingar tengdum framsalskerfinu.

Takið eftir, enn og aftur, að árið 2004 greiddi Haraldur Böðvarsson laun vegna veiða og vinnslu inn í okkar samfélag sem námu 2,2 milljörðum, núvirt 4,7 milljarðar og ekkert kom í staðin. Til að setja þetta í samhengi þá væri þetta eins og að Reykjavíkurborg myndi missa launagreiðenda sem greiddi laun fyrir 75 milljarða á ári!

Var einhver að tala um að einhver sveitafélög þyrftu mótvægisaðgerðir? Já, við Akurnesingar þurfum svo sannarlega mótvægisaðgerðir af hálfu stjórnvalda, enda er ábyrgð stjórnmálamanna á þessum hamförum sem nú hefur enn og aftur riðið yfir okkar dásamlega samfélag verið mikil.

Verkalýðsfélag Akraness hefur verið á fullu að aðstoða félagsmenn sína sem ekki fengu greidd laun sín frá því september á síðasta ári og mun Verkalýðsfélag Akraness lána öllum þeim félagsmönnum sínum 250 þúsund krónur strax eftir helgi með veði í kröfu á Ábyrgðarsjóðlauna. En vangreidd laun starfsmanna Ísfisks nema rétt tæpum 42 milljónum króna til félagsmanna VLFA.

Hugur formanns og stjórnar Verkalýðsfélags Akraness er hjá félagsmönnum sínum sem hafa þurft, enn og aftur að upplifa tekjumissi og atvinnumissi, en stór hluti þeirra sem starfaði hjá Ísfiski fengu uppsögn hjá HB Granda þegar þeir fóru í skjóli nætur í burtu frá Akranesi með allar okkar aflaheimildir árið 2017.

Formaður VLFA vísar ábyrðinni á stjórnmálamenn sem hafa skapað þetta umhverfi í kringum fiskveiðistjórnunarkerfið þar sem einstaka útgerðamenn eða útgerðir geta labbað út úr greininni og skilið fólkið eftir í djúpum sárum og um leið veitt samfélaginu öllu þungt högg í kviðinn með þeim afleiðingum að samfélagið er í keng!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image