• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

12
May

Félagsmenn athugið- hægt að leigja bústað í Vestmannaeyjum

Félagsmenn athugið Verkalýðsfélag Akraness mun aftur bjóða upp á leigu í bústað í Vestmannaeyjum, en bústaðurinn ber heitið Smiðjan og er við Höfðaból.  Þetta er sami bústaður og félagið hefur leigt síðastliðinn sumur og hefur notið mikilla vinsælda hjá okkar félagsmönnum.

Leigutímabilið er frá 3. Júní til 14. ágúst og núna ætlum við að prufa að leigja þennan bústað frá frá miðvikudegi til miðvikudags og sjá hvort félagsmönnum finnst það betra en að leigja frá föstudegi til föstudags eins og tíðkast með aðra bústaði.

Það þarf ekkert að fjölyrða um það að það er alltaf gaman að koma til Vestmannaeyja enda einstök náttúrufegurð hvert sem augum er litið.

Þær vikur sem eru lausar eru eftirfarandi:

 

  • 3. júní til 10. júní
  • 17. júní til 24. júní
  • 24. júní til 1. júlí
  • 1. júlí til 8. Júlí
  • 8. júlí til 15. Júlí
  • 22. júlí til 29. Júlí
  • 29. júlí til 5. ágúst
  • 5. ágúst til 12 ágúst

 

Hægt er að taka panta sumarhús inni á félagavefnum en rétt er að geta þess að nokkrar vikur eru einnig lausar í öðrum sumarhúsum í eigu Verkalýðsfélags Akraness. Til þess að sjá hvaða vikur eru lausar til útleigu í sumar smellið hér.  

(Athugið samt að þessi listi sýnir stöðuna þann 12. maí 2020)

Núna gildir reglan fyrstur kemur fyrstur fær!

Hlýðum Víði og ferðumst innanlands í sumar!

12
May

Starfsmaður Norðuráls fékk leiðrétt 1,6 milljón vegna vikulegs frídags

Í mars sl. féll dómur í Félagsdómi en málið laut að því að Verkalýðsfélag Akraness taldi að verulega hefði vantað uppá svokallaðan vikulegan frídag hjá einum starfsmanni og þrátt fyrir miklar viðræður við Norðurál um lausn á málinu tókst það ekki. Á þeirri forsendu ákvað félagið að stefna Norðuráli fyrir félagsdómi og féll dómur í mars en á ótrúlegan hátt var málinu vísað frá dómi vegna þess að dómurinn taldi ekki sannað að vikulegur frídagur hjá umræddum starfsmanni hafi verið skertur í 125 skipti eins og VLFA hélt fram.

Hins vegar kom skýrt fram í dómnum að ekki væri ágreiningur um að umræddur starfsmaður hafi verið svikinn um greiðslu vegna vikulegs frídags eins sem dómur var ekki sammála um hversu margir dagar þeir hefðu verið.

En orðrétt segir í niðurstöðu Félagsdóms:

„Skipulag vakta er því í samræmi við meginreglu, sem kemur fram í 1. mgr. greinar 2.13.5 í kjarasamningi aðila og 1. mgr. 54 gr. laga nr. 46/1980 um að starfsmaður skuli fá að minnsta kosti einn vikulegan frídag sem tengist beint daglegum hvíldartíma“.

„Fyrir liggur að starfsmaðurinn vann á tímabilinu 15. október 2014 til 15. október 2018 mun meira en þessu nemur. Fyrir vikið urðu samfelldar vinnulotur Daníels mjög oft lengri en sjö dagar og alloft mun lengri. Einnig segir orðrétt í niðurstöðu dómsins. „Norðurál hefur viðurkennt að í þeim tilvikum sem vinnulotur starfsmannsins spönnuðu tveggja vikna tímabil hafi verið farið gegn kjarasamningi í framangreindum ákvæðum laga nr. 4671980.“

Með öðrum orðum ekki nokkur vafi að brotið var gróflega á réttindum starfsmannsins eins og fram kemur í niðurstöðu Félagsdóms en á óskiljanlegan hátt var málinu samt vísað frá dómi vegna þess að dómurinn taldi VLFA hafa fært sönnur á að um væri að ræða 125 skipti. Lögmaður Norðuráls svaraði ekki hvað fyrirtækið teldi að dagarnir ættu að vera margir ef þeir væri ekki 125 eins og Verkalýðsfélag Akraness var búið að telja út.   Það er óskiljanlegt að starfsmaðurinn skildi ekki fá að njóta vafans í ljósi þess að ekki var ágreiningur um að búið var að brjóta gróflega á réttindum starfsmannsins og Norðurál svaraði ekki hvað þeir teldu að dagarnir væru margir ef þeir væru ekki 125.

Eftir dóminn komst Verkalýðsfélag Akraness að samkomulagi um að starfsmanninum skyldu greiddar 1,6 milljón vegna brota á vikulegum frídegi en það gerir að brotið hafi verið á umræddum starfsmanni 84 sinnum vegna vikulegs frídags.

30
Apr

Sjómennt – rýmkaðar reglur og full fjármögnun

Í ljósi aðstæðna í íslensku samfélagi hefur stjórn Sjómenntar ákveðið að rýmka úthlutunarreglur vegna styrkveitinga og bjóða einstaklingum og fyrirtækjum uppá þann valkost að sækja námskeið á netinu eða í fjarkennslu þeim að kostnaðarlausu.

Átakið gildir frá 15.mars til og með 31.ágúst 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma.

Nánari útfærsla á átaksverkefninu: Gerðir verða samningar við fræðsluaðila sem bjóða upp á vefnám/fjarnám þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er boðin þátttaka í námi/námskeiðum þeim að kostnaðarlausu. Þak á þáttökugjaldi pr. einstakling pr. námskeið er kr. 30.000,- samkvæmt þessum samningum.

Breytingar á úthlutunarreglum eru eftirfarandi:

  • Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, miðað við núverandi reglur, verði hækkaðar úr 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði.
  • Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu verði hins vegar breytt og verði 90% í stað 75% af kostnaði við námið.
  • Tómstundstyrkir sem nú eru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári verði í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið.

Um leið og Sjómennt hvetur stjórnendur fyrirtækja til þess að sinna sí-og endurmenntun starfsmanna sinna, vill stjórnin koma því á framfæri að tekið verði á móti öllum góðum hugmyndum að fræðslu sem kynnu að nýtast og falla vel að úthlutunarreglum sjóðsins.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Njálsdóttir í síma 863 6480 eða á tölvupósti, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

30
Apr

Sveitamennt og Ríkismennt – rýmkaðar reglur

Í ljósi aðstæðna í íslensku samfélagi hafa stjórnir Ríkismenntar og Sveitamenntar ákveðið að rýmka úthlutunarreglur einstaklingsstyrkja í ákveðinn tíma líkt og Landsmennt hefur gert.

Átakið tekur gildi frá 15.mars til og með 31.ágúst 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma.

Breytingar á úthlutunarreglum einstaklingsstyrkja eru eftirfarandi:

  • Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu verði hins vegar breytt og verði 90% í stað 75% af kostnaði við almennt nám. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020.
  • Tómstundstyrkir sem nú eru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári verði í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020.

Til viðbótar viljum við minna á að sl. tvö ár hafa þessir tveir sjóðir verið með samninga við símenntunarmiðstöðvar sem tryggja fulla fjármögnun námskeiða. Samingarnir gilda gagnvart þátttöku félagsmanna aðildarfélaga SGS sem starfa hjá Sveitarfélögum (Sveitamennt) og hjá ríkisstofnunum (Ríkismennt) á landsbyggðinni.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Njálsdóttir, framkvæmdastjóri í síma 863 6480 eða á tölvupósti, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

30
Apr

Landsmennt veitir fulla fjármögnun námskeiða

Landsmennt fræðslusjóður Samtaka atvinnnulífsins og verkafólks á landsbyggðinni býður einstaklingum og fyrirtækum að sækja námskeið þeim að kostnaðarlausu.

Í ljósi aðstæðna í íslensku samfélagi hefur stjórn Landsmenntar fræðslusjóðs ákveðið bjóða einstaklingum og fyrirtækjum uppá þann valkost að sækja námskeið á netinu eða í fjarkennslu þeim að kostnaðarlausu.

Einnig mun sjóðurinn rýmka úthlutunarreglur sjóðsins sem taka til námskeiða sem ekki eru rafræn eða í fjarkennslu.  Stofnað verður til átaks í stafrænni/rafrænni fræðslu innan atvinnulífsins í samstarfi við fræðsluaðila og fyrirtæki.

Átakið  gildir frá  15.mars til og með 31.ágúst 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma. Þessi tímarammi verður endurskoðaður ef tilefni verður til.

Nánari útfærsla á átaksverkefninu:  Gerðir verða samningar við fræðsluaðila sem bjóða upp á vefnám/fjarnám þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er boðin þátttaka í námi/námskeiðum þeim að kostnaðarlausu. Þessir samningar gilda einnig tímabundið og gagnvart því námi/námskeiðum sem fræðsluaðilar bjóða upp á innan þessa tímaramma það er frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020

Um leið og Landsmennt hvetur stjórnendur fyrirtækja til þess að sinna sí-og endurmenntun starfsmanna sinna, vill stjórnin koma því á framfæri að tekið verði á móti öllum góðum hugmyndum að fræðslu sem kynnu að nýtast og falla vel að úthlutunarreglum sjóðsins.

Breytingar á úthlutunarreglum eru eftirfarandi:

  • Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, miðað við núverandi reglur, verði hækkaðar úr allt að 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020.
  • Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu verði hins vegar breytt og verði 90% í stað 75% af kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020.
  • Tómstundstyrkir sem nú eru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári verði í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars  til og með 31. ágúst 2020.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Njálsdóttir, framkvæmdastjóri Landsmenntar í síma 863 6480 eða á tölvupósti, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

                   

30
Apr

1. maí ræða formanns

Ágætu félagar

Ég vil byrja á að óska félagsmönnum mínum sem og öllu launafólki innilega til hamingju með baráttudag verkalýðsins á þessum fordæmalausu tímum.   En eins og allir vita þá hefur Kórónufaraldurinn gert það að verkum að öll hátíðardagskrá verkalýðshreyfingarinnar verið slegin af og er það gert eftir tilmælum frá Almannavörnum. Í fyrsta skipti síðan 1923 getur íslenskt launafólk ekki safnast saman á 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar.

Það er óhætt að segja að Kórónufaraldurinn sé að valda okkur gríðarlegum búsifjum enda er áætlað að verðmætasköp þjóðarbúskapsins dragist saman um allt að 350 milljarða á þessu ári. Enda eru okkar aðalgjaldeyrisskapandi atvinnugreinar við það að stöðvast og nægir að nefna í því samhengi ferðaþjónustuna þar sem hún er við það að stöðvast vegna þess að flugsamgöngur hafa nánast lagst af um allan heim.

Það þarf ekkert að fara í grafgötur með þær afleiðingar sem Kórónufaraldurinn hefur haft á atvinnuöryggi á vinnumarkaðnum og það blasir við að almenni vinnumarkaðurinn á Íslandi er eins og blóðugur vígvöllur vegna Kórónufaraldursins, en á almenna vinnumarkaðnum starfa um 140 þúsund manns, en uppundir 60 þúsund starfa hjá ríki og sveitarfélögum.

Af þessum 140 þúsund manns sem starfa á almenna vinnumarkaðnum eru um 53 þúsund manns sem hafa nú þegar misst vinnuna að fullu eða hluta, sem er um 37% af þeim sem starfa á almenna vinnumarkaðnum, en sára fáir hafa hins vegar misst vinnuna hjá hinu opinbera.

Það er eins og áður sagði áætlað að milli 300 og 350 milljarðar af verðmætasköpun þjóðarinnar muni þurrkast út á þessu ári með skelfilegum afleiðingum fyrir allt samfélagið hér á landi. Það er mikilvægt að almenningur átti sig á því að það eru atvinnugreinar á hinum almenna vinnumarkaði sem knýja samfélagið í heild sinni áfram með þeirri gjaldeyrissköpun sem á sér stað. En þær atvinnugreinar sem skapa mest af gjaldeyristekjum þjóðarinnar er ferðaþjónustan, iðnaðurinn og sjávarútvegurinn, en þessar greinar skapa um eða yfir 80% af öllum gjaldeyristekjum þjóðarinnar sem gerir það að verkum að við náum að reka okkar samfélag.

Núna þegar tannhjól þeirra fyrirtækja sem eru að skapa okkur mestu tekjurnar eru nánast við það að stöðvast, er ljóst að eitthvað verður að gera til að lágmarka skaðann og forða launafólki frá enn frekari uppsögnum.

Verkalýðsfélag Akraness hefur sagt að Lífskjarasamningurinn sem undirritaður var 3. apríl 2019 hafi verið einn sá besti sem gerður hefur verið fyrir íslenskt verkafólk. Samningurinn var byggður upp á því að samið var um krónutöluhækkanir í stað prósentuhækkana enda liggur fyrir að prósentuhækkanir eru aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gerir ekkert annað en að auka á ójöfnuð í íslensku samfélagi.

Lífskjarasamningurinn skilaði krónutöluhækkunum á lægstu launataxtanna sem ekki hafa áður sést hjá verkafólki en þær eru eftirfarandi:

  • 1. apríl 2019 – 17.000 kr.
  • 1. apríl 2020- 24.000 kr.
  • 1. janúar 2021 -24.000 kr.
  • 1. janúar 2020- 25.000 kr.

Auk þessa var samið um svokallaðan hagvaxtarauka sem ætti ef hagkerfið hefði verið í lagi að geta skilað enn hærri krónutölum til handa launafólki.

Lífskjarasamningurinn byggðist líka á því að ná niður verðbólgunni sem tókst, en þegar samningurinn var undirritaður 3. apríl 2019 nam verðbólgan 3,3% en 1. mars á þessu ári var verðbólgan komin niður í 2,1% og hafði því lækkað um 1,2%. Þessu til viðbótar var eitt af aðalmarkmiðum Lífskjarasamningsins að ná niður vaxtastiginu og það hefur svo sannarlega tekist einnig en stýrivextir Seðlabankans voru 3. apríl 4,5% en í dag nema þeir 1,75% og hafa lækkað um 2,75%. Vissulega hefur fjármálakerfið í heild sinni ekki skilað lækkun á stýrivöxtum að fullu til neytenda og fyrirtækja eins og gert var ráð fyrir. En vaxtastigið hefur samt lækkað umtalsvert enda hafa neytendur í miklu mæli verið að endurfjármagna sig og tekist þannig að minnka greiðslubyrði sína umtalsvert, allt eins og lagt var upp með við gerð Lífskjarasamningsins.

En nú eru svo sannarlega blikur á lofti og allur þessi ávinningur sem Lífskjarasamningurinn skilaði okkur í fullkomnu uppnámi enda 37% af fólki á almenna vinnumarkaðnum búið að missa vinnuna að fullu eða að hluta til. Fjölmörg fyrirtæki hafa orðið fyrir gríðarlegu tekjufalli og mörg hver misst alla sína innkomu og alls óvíst hvenær fer að rofa til vegna faraldursins.

Það er rétt að vekja athygli á því að endurskoðunarákvæði Lífskjarasamningsins munu fara fram og því miður eru töluverðar líkur á því að Samtök atvinnulífsins muni segja samningunum upp vegna þess ástands sem hefur teiknast upp á almenna vinnumarkaðnum í kjölfar Kórónufaraldursins.

Að þessu sögðu hefur formaður VLFA og formaður VR sagt að eitt helsta verkefni okkar núna sé að verja störfin, verja kaupmáttinn, verja heimilin og síðast en ekki síst að verja þær launahækkanir sem Lífskjarasamningurinn kvað á um. En núna um síðustu mánaðarmót hækkuðu launataxtar um 24.000 kr. og um næstu áramót eða eftir 8 mánuði eiga launataxtar að hækka aftur um 24.000 kr. eins og áður hefur komið fram.

Núna liggur fyrir ef marka má ummæli frá Samtökum atvinnulífsins sem birtust í Morgunblaðinu í síðasta mánuði að allt eins líklegt sé að SA muni segja samningum upp í september þegar endurskoðun á samningum fer fram og ef það gerist þá myndi launahækkunin sem á að koma til framkvæmda um næstu áramót falla niður.

Ef maður er bara alveg heiðarlegur þá eru umtalsverðar líkur á að Samtök atvinnulífsins muni segja samningum upp þegar endurskoðun á kjarasamningunum fer fram í haust og okkar fólk verður þá af þeirri launahækkun sem á að koma um næstu áramót.

Ég tel afar brýnt að unnið verði að því með öllum tiltækum ráðum að verja Lífskjarasamninginn eins og kostur er enda skiptir sköpum að launafólk fái sínar umsömdu launahækkanir sem kveðið er á í samningum.

 

Ágætu félagar.

Það sækir að mér kaldur hrollur yfir þeirri ömurlegu stöðu sem klárlega er að raungerast á hinum almenna vinnumarkaði vegna Kórónufaraldursins. En eins og flestir vita þá eru uppundir 60 þúsund manns búin að missa vinnuna að öllu leiti eða að hluta til.

Ég verð að lýsa yfir gríðarlegum áhyggjum með stöðu launafólks sem hafa og eru að missa lífsviðurværi sitt um þessar mundir. Afleiðingar af þeim hamförum sem eru að ganga yfir íslenskt launafólk um þessar mundir eru ekki enn farin að hafa full áhrif, en þær afleiðingar munu birtast hægt og bítandi á næstu vikum og mánuðum.

Í dag eru réttindi þeirra sem missa atvinnuna sína hjá sínum vinnuveitenda með þeim hætti að það fer fyrst á grunnatvinnuleysisbætur fyrstu 2 vikurnar og svo tekur tekjutengingin við í næstu 3 mánuðina.

Grunnatvinnuleysisbætur eru einungis 289.510 kr. fyrir 100% starfshlutfall, en eftir skatta nemur þessi upphæð einungis rétt rúmum 230.000 kr. Í þrjá mánuði eiga atvinnuleitendur rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum, að hámarksfjárhæð kr. 440.970 á mánuði en eftir það detta þeir aftur niður á grunnbæturnar.

Það er því ljóst að ráðstöfunartekjufall þeirra sem eru að missa vinnuna verður umtalsvert, en það er ekki það eina sem ég hef áhyggjur, af því ég óttast innilega að verðlag muni hækka, hvað það verður mikið er erfitt að spá, en ljóst að það má reikna með það það geti orðið umtalsvert.

Ég velti því fyrir mér hvaða aðgerðapakki frá stjórnvöldum muni bíða launafólks sem er að verða fyrir gríðarlegum búsifjum vegna atvinnumissis, í ljósi þess að stjórnvöld hafa kynnt hvern aðgerðapakkann á fætur öðrum til bjargar atvinnulífinu, aðgerðapakkar sem mun kosta íslenska skattgreiðendur á bilinu 300 til 360 milljarða.

Verður aðgerðapakki launafólks og heimila kannski aftökupakki þar sem heimilin verða látin standa óvarin fyrir hugsanlegu verðbólguskoti og stjarnfræðilegri kaupmáttarskerðingu vegna hækkandi vöruverðs og tekjufalls, spyr sá sem ekki veit.

Kæru félagar.

Ég vil rifja upp ályktun sem stjórn Verkalýðsfélags Akraness sendi frá sér fyrir skemmstu þar sem skorað var á stjórnvöld en þau atriði sem félagið telur að leggja þarf áherslu á eru eftirfarandi:

  • Stjórn Verkalýðsfélag Akraness vill að þak verði sett á vísitölu neysluverðs við útreikning á verðtryggðum húsnæðislánum, í ljósi þess að samfélagið er hugsanlega að sigla inní eina dýpstu efnahagslægð síðustu 100 ára.
  • Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að tryggja að íslensk heimili eigi kost á að sækja um greiðsluhlé, bæði hvað varðar afborganir af lánum, sem og leigu húsnæðis í allt að eitt ár.
  • Stjórn Verkalýðsfélag Akraness skorar á að stjórnvöld að standa við loforð sín sem gerð voru samhliða Lífskjarasamningum er lúta að nýjum hlutdeildarlánum, sem og bann á 40 ára verðtryggðum húsnæðislánum.
  • Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að þau beiti sér af fullum þunga fyrir því að fjármálakerfið skili stýrivaxtalækkun Seðlabankans að fullu til neytenda og fyrirtækja.
  • Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að tryggja afkomu launafólks sem t.d. eru með undirliggjandi sjúkdóma og falla ekki undir lög um hlutabætur eða um laun í sóttkví.
  • Stjórn Verkalýðsfélags Akraness skorar á stjórnvöld að hækka atvinnuleysisbætur umtalsvert enda lífsins ómögulegt að að framfleyta sér á 230.000 þúsund á mánuði.

Að lokum þetta:

Á þessu sést að við erum nú stödd á afar erfiðum tímum, eins og áður sagði eru uppundir 60 þúsund manns er búinn að missa lífsviðurværi sitt að öllu leiti eða að hluta til og það er gjörsamlega ábyrgðarlaust fyrir verkalýðshreyfinguna að standa aðgerðalaus hjá þegar okkar félagsmenn engjast um vegna tekjumissi og atvinnuóöryggis.

Við verðum að finna leiðir, leiðir sem tryggja að okkur takist að verja störfin, verja heimilin, verja kaupmáttinn og verja launahækkanir í Lífskjarasamningum!

29
Apr

Fimmtán starfsmönnum hjá Vigni G. Jónssyni sagt upp störfum

Rétt í þessu var Verkalýðsfélagi Akraness tilkynnt um hópuppsögn hjá fyrirtækinu Vignir G. Jónsson ehf. En 15 manns var sagt upp sem eru um 35% af öllum starfsmönnum fyrirtækisins.

Fyrirtækið Vignir G. Jónsson hefur unnið við vinnslu á ýmsum hrognum en vegna markaðsaðstæðna og loðnubrests síðustu tvö ár eru ástæður þessara uppsagna.

Rétt er að rifja upp að fyrirtækið Skaginn3X sagði upp 43 starfsmönnum fyrir síðustu mánaðarmót.

Þessi uppsögn hjá Vigni G. Jónssyni eru enn eitt risahöggið sem við Akurnesingar verðum fyrir hvað varðar atvinnumissi tengdum vinnslu sjávarafurða en formanni reiknast til að uppundir 300 fiskvinnslustörf hafi tapast í byggðarlaginu á síðustu tveimur og hálfa ári eða svo.

En eins og flestir vita töpuðust öll störf þegar HB Grandi ákvað að hætta vinnslu hér á Akranesi, á svipuðum tíma misstu allir vinnuna hjá hausaþurrkunarfyrirtækinu Laugafiski og fyrir tveimur mánuðum varð fiskvinnslufyrirtækið Ísfiskur gjaldþrota og núna ofan á þetta allt missa 35% starfsmanna hjá Vigni G. Jónssyni vinnuna.

Það er óhægt að fullyrða að staðan á íslenskum vinnumarkaði sé vægast sagt hrollvekjandi, en uppundir 56 þúsund manns eru búnir að missa vinnuna að fullu eða að hluta til. Formaður viðurkennir að hann hefur svo sannarlega áhyggjur af komandi mánuðum í ljósi þess gríðarlega tekjufalls sem launafólk er og á eftir að verða fyrir á næstu mánuðum.

Formaður er ekki í neinum vafa um að það verður að finna leiðir til að verja þau störf sem eftir eru á íslenskum vinnumarkaði með öllum tiltækum ráðum sem og réttindi sem Lífskjarasamningurinn tryggði. En núna eru eins og áður sagði um 56 þúsund manns af 140 þúsundum sem starfa á hinum almenna vinnumarkaði búnir að missa vinnuna að fullu eða að hluta eða sem nemur um 40%

28
Apr

Sjómenn athugið- skiptaverð hækkar þann 1. maí 2020

Meðalverð á skráðu gasolíuverði á Rotterdammarkaði hefur lækkað verulega að undanförnu vegna covid-19 faraldursins. Þetta olíuverð er notað sem viðmiðun í kjarasamningi sjómanna til að ákvarða skiptaverð til sjómanna.

Fyrir tímabilið frá og með 21. mars til og með 20. apríl síðastliðinn var meðalverð á olíunni sem notað er til viðmiðunar 262,20 $/tonn og hafði þá lækkað úr 379,96 $/tonn frá síðasta viðmiðunartímabili.

Þetta þýðir að skiptaverð, þegar ísaður afli er seldur skyldum aðila, hækkar úr 70,5% í 75,5% af aflaverðmæti skipsins. Þegar ísaður afli er seldur óskyldum aðila eða á fiskmarkaði hækkar skiptaverðið úr 70% í 75% af aflaverðmætinu (uppboðskostnaður á fiskmörkuðunum dreginn frá áður en skiptaverð er reiknað).

Á frystitogurunum sem selja með fob söluskilmálun hækkar skiptaverðið úr 72% í 74,5% af fob verðmætinu og ef aflinn er seldur með cif söluskilmálum hækkar skiptaverðið úr 66,5% í 69% af cif verðmætinu.

Á skipum sem frysta rækju um borð hækkar skiptaverðið úr 69% í 71,5% af fob verðmætinu  og úr 63,5% í 66% af cif verðmætinu.

Skiptaverð þegar siglt er með uppsjávarfisk á erlendan markað er óbreytt 70% af söluvirði aflans. Þegar siglt er með ferkan fisk á erlendan markað er skiptaverðið einnig óbreytt eða 66% af heildarsöluverðmæti aflans.

Framangreindar breytingar taka gildi frá og með 1. maí næstkomandi.

20
Apr

Félagsmenn athugið- frítt að veiða í vötnunum í Svínadal, Borgarfirði

Eins og undanfarin ár þá býður Verkalýðsfélag Akraness öllum sínum félagsmönnum að veiða frítt í vötnunum í Svínadal, Borgarfirði allt sumarið 2020 eða nánar tiltekið frá og með 1. apríl til og með 25. september. Um er að ræða norðanvert Eyrarvatn, allt Þórisstaðavatn og allt Geitabergsvatn. Leyfið gildir fyrir 1 félagsmann með 1 veiðistöng, en hann má bjóða með sér frítt 3 börnum sem eru 15 ára eða yngri.

Félagsskírteini hjá Verkalýðsfélagi Akraness gildir sem sumarkort fyrir hann og skal hann framvísa því ef þess er óskað hjá veiðivörðum. Veiðitímabilið er frá og með 1. apríl til og með 25. september. Daglegur veiðitími er kl. 7-23 en eftir 20. ágúst kl. 7-21

Leyfilegt agn er fluga, maðkur og spúnn.

16
Apr

Ertu búin að sækja um orlofshús í sumar ?

 

- Umsóknarfrestur er framlengdur til 26. apríl -

- Úthlutun fer fram mánudaginn 27.apríl -

 

Opið er fyrir umsóknir til 23. apríl.

 

Bæklingur um orlofshúsin er hér

Umsóknareyðublað er hér

Félagavefurinn okkar er hér  

 

Helstu dagssetningar 2020:

23. apríl - 26. apríl  Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús

24. apríl -  27. apríl  Fyrri úthlutun fer fram, allir umsækjendur fá svarbréf í pósti (einnig er hægt að sjá strax hvort bókun hafi myndast inni á Félagavefnum)

6. maí  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

7. maí  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

7. maí - Kl. 12:00 - Fyrstir koma, fyrstir fá! Þeir sem fyrstir koma geta bókað lausar vikur, líka á Félagavefnum (athugið að eftir eindaga endurúthlutunar getur lausum vikum fjölgað)

14. maí  - Eindagi endurúthlutunar, ógreiddar vikur verða lausar til bókunar á Félagavefnum.

Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá eldri úthlutað. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu.

Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Fyrir endurúthlutun er heimilt að breyta umsóknum og leggja inn nýjar. Eftir eindaga endurúthlutunar verða lausar vikur auglýstar hér á heimasíðunni og hægt verður að bóka þær á Félagavefnum og á skrifstofu félagsins. Gildir þá hin ágæta regla: Fyrstur kemur, fyrstur fær.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image