• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

07
Aug

Mun einn ríkasti maður Íslands komast upp með launaþjófnað?

Eins og mikið hefur verið fjallað um hér á heimasíðu félagsins þá stefndi Verkalýðsfélag Akraness Hval hf. vegna brota á ráðningarkjörum starfsmanns sem var við störf á hvalavertíðinni 2015.

Krafan fyrir hönd félagsmannsins hljóðaði í heildina upp á rétt rúma eina milljón og byggðist á vertíðinni 2015 en krafan var í fjórum þáttum sem eru eftirfarandi:

  • Sérstök greiðsla að upphæð 5.736 kr. fyrir hverja 12 tíma vakt sem getið var um í ráðningarsamningi vegna skerðingar á frítökurétti og vegna ferða til og frá vinnustað.
  • Vangreiðsla vegna lágmarkshvíldar
  • Vangreiðsla vegna bónuss sem samið var um fyrir fiskvinnslufólk árið 2015
  • Vangreiðsla vegna svokallaðs vikulegs frídags.

Málið vannst á báðum dómsstigum en Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Vesturlands þann 14. júní 2018. Hvalur hf. var dæmdur í Héraðsdómi til að greiða starfsmanninum vegna brota á kjörum sem fram komu í ráðningarsamningi upphæð sem nam rétt rúmum 455 þúsund krónum.

Það var ekki einungis að Hæstiréttur hafi staðfest dóm Héraðsdóms heldur tók hann einnig tillit til annarrar kröfu sem laut að svokölluðum vikulegum frídegi og námu því vangoldin laun starfsmannsins 512.947 kr. en einnig var Hval hf. gert að greiða starfsmanninum dráttarvexti frá 19. janúar 2016.

En strax eftir að Hæstaréttardómurinn lá fyrir stefndi Verkalýðsfélags Akraness Hval hf. vegna 97 félagsmanna sinna sem höfðu starfað á vertíðunum árin 2013, 2014 og 2015. Rétt er að geta þess að málið sem var staðfest með dómi frá Hæstarétti var prófmál og náði krafan einungis yfir eina hvalavertíð eða nánar tiltekið vertíðina 2015. Það liggur fyrir að sérstöku greiðslunnar og svokallaðs vikulegs frídags er getið í öllum ráðningarsamningum starfsmanna fyrir vertíðirnar 2013, 2014 og 2015 og því er fordæmisgildi þessa dóms ótvírætt.

Eftir dóm Hæstaréttar vonaði Verkalýðsfélag Akraness að Kristján Loftsson myndi greiða öllum starfsmönnum þau vangreiddu laun sem Hæstiréttur var búinn að staðfesta að Hvalur hf. ætti að greiða. En eins og áður sagði eru allir ráðningarsamningar starfsmanna eins og því alls ekki ágreiningur um að Hvalur hf. hafi brotið á öllum starfsmönnum sínum.

Það kom því verulega á óvart að Hvalur hf. neitaði að greiða öðrum starfsmönnum eftir dóm Hæstaréttar og því þarf að fara með málefni annarra starfsmanna fyrir dómstóla. En það er ekki ágreiningur um hvort Hvalur hf. hafi brotið á starfsmönnum heldur ætlar Hvalur hf. að beita fyrir sig tómlæti starfsmanna sem verður að segjast alveg eins og er að sé lágkúruleg málsvörn enda ekki hægt að saka starfsmenn um tómlæti þegar þeir vissu ekki að verið væri að brjóta á þeim fyrr en þeir leituðu til Verkalýðsfélags Akraness árið 2015.

Aðalmeðferð í máli allra starfsmanna hófst þann 6. mars 2019. En eins og áður sagði þá var eina málsvörn Hvals hf. að beita fyrir sig tómlæti því ekki gat Hvalur hf. beitt öðrum málsvörnum fyrir sig þar sem Hæstiréttur var búinn að staðfesta brot fyrirtækisins á ráðningarsamningi og kjarasamningi.

Formaður VLFA trúði ekki öðru en að Héraðsdómur Vesturlands myndi staðfesta dóm Hæstaréttar fyrir alla starfsmenn og hafna alfarið öllum málatilbúnaði er lýtur að tómlæti starfsmanna.

Það ótrúlega gerðist síðan að Héraðsdómur Vesturlands kvað upp dóm í maí 2019 og tók undir með Hval hf. um að starfsmenn sem voru algerlega grandalausir fyrir því að verið væri að svíkja þá um kjarasamningsbundin laun hefðu sýnt tómlæti og var fyrirtækið sýknað af kröfu allra starfsmanna á þeim grundvelli.

Formaður félagsins undrast það að hægt sé að dæma starfsmenn fyrir tómlæti þegar þeir höfðu ekki hugmynd um að Kristján Loftsson eigandi Hvals hf. væri að svína á réttindum þeirra samkvæmt ráðningarsamningum og ákvæðum kjarasamninga. Um leið og starfsmenn áttuðu sig á því að hugsanlega væri verið að brjóta á réttindum þeirra var farið með prófmál fyrir dómstóla. Takið eftir það var gert um leið og menn höfðu grunsemdir um að ekki væri all með felldu við kjör starfsmanna.

Hvernig geta dómstólar talað um tómlæti hjá venjulegu verkafólki sem hafði ekki hugmynd um að verið væri að hlunnfara það um þau laun sem þeim ber? Formaður getur skilið að tómlæti eigi að gilda ef starfsmaður veit að verið sé  að brjóta á réttindum hans og hann gerir ekkert með það árum saman.

En slíku er alls ekki til að dreifa í þessu máli enda var strax farið með prófmál fyrir dómstóla um leið og grunsemdir kviknuðu um brot á kjörum starfsmanna. Það vissi enginn að Hvalur hf. væri að svína á réttindum starfsmanna fyrir en í lok árs 2015 og þá strax var farið af fullum þunga í málið með áðurnefndu prófmáli.

Að sjálfsögðu var þessum fráleita dómi Héraðsdóms Vesturlands áfrýjað til Landsréttar og núna liggur fyrir að málin verða flutt fyrir Landsrétti 24. september. Formaður trúir ekki öðru en að Landsréttur snúi þessum ótrúlega dómi Héraðsdóms Vesturlands við enda var Hæstiréttur búinn að staðfesta í einu prófmáli að verið væri að brjóta á ráðningarkjörum starfsmanna gróflega. Það er aumkunarvert að einn ríkasti maður á Íslandi sem var dæmdur í Hæstarétti fyrir launaþjófnað skuli bera fyrir sig tómlæti starfsmanna til að koma sér hjá því að greiða laun eins og ráðningarsamningur kveður á um.

Ef starfsmaður stelur frá vinnuveitanda er starfsmaðurinn umsvifalaust rekinn þegar þjófnaðurinn kemst upp og honum jafnvel refsað af hinu opinbera. Þetta gildir þó ekki þegar málinu er snúið við. Ef vinnuveitandi stelur frá starfsmanni er vinnuveitanda ekki refsað. Öllu verra er þó að Héraðsdómur Vesturlands hafi lagt upp í þá furðulegu vegferð að hlífa vinnuveitandanum við því að borga þau laun og kjör sem ranglega voru höfð af starfsmönnum Hvals. Með öðrum orðum þá leggur dómstólinn blessun sína yfir að vinnuveitendur standi ekki við lágmarksréttindi.

Hvernig á launafólk sem veit ekki að verið sé að brjóta á réttindum sínum að geta sýnt af sér tómlæti? Hugsið ykkur allt erlenda fólkið sem starfar á íslenskum vinnumarkaði og hefur ekki þekkingu né kunnáttu til að þekkja frumskóg kjarasamningsgreina. Það er þyngra en tárum taki að Héraðsdómur Vesturlands sé að blessa launaþjónað á grundvelli þess að launafólk átti sig ekki strax á því að verið sé að hlunnfara það, þetta er svo mikill skandall að það nær ekki nokkurri átt!

Formaður VLFA trúir ekki öðru en að Landsréttur snúi þessum dómi Héraðsdóms Vesturlands við og standi vörð um launafólk og komi í veg fyrir að stórir og öflugir vinnuveitendur komist upp með að stunda stórfelldan launaþjónað á grandalausum starfsmönnum sínum. Hvernig getur það verið tómlæti starfsmanna þegar þeir höfðu ekki hugmynd um að einn ríkasti maður á Íslandi væri ekki að greiða þau laun sem ráðningarsamningar starfsmanna kveður á um.

Myndu dómstólar sýkna launafólk sem myndi stunda það að stela frá sínum vinnuveitenda á grundvelli tómlætis því atvinnurekendinn áttaði sig ekki á því fyrir en of seint? Að sjálfsögðu ekki og því er það ótrúlegt að dómstólar eigi það til að sýkna og blessa launaþjófnað vinnuveitenda á grundvelli tómlætis starfsmanna.

Eins og áður sagði þá verða Hvalsmálin flutt í Landsrétti 24. september og í huga formanns VLFA er trúverðugleiki dómstólanna undir í þessu máli því í þessu máli mun koma í ljós hvort Landsréttur muni blessa launaþjónað og standa vörð um að lágmarksréttindi launafólks á íslenskum vinnumakaði séu virt af atvinnurekendum.

Þetta mál er eitt stærsta hagsmunamál sem launafólk hefur staðið frammi fyrir í áratugi því ef dómstólar ætla að blessa launaþjófnað atvinnurekenda og fótum troða lágmarksréttindi á íslenskum vinnumarkaði er illa komið fyrir launafólki.

Á sama tíma og ASÍ er að berjast fyrir því að launaþjófnaður verði gerður refsiverður eru dómstólar að sýkna og blessa launaþjófnað á lágmarksréttindum launafólks á grundvelli tómlætis starfsmanna. Trúverðugleiki dómstóla er undir í þessu máli!

06
Aug

Ríkissáttasemjari í heimsókn á skrifstofu VLFA

Í morgun kom Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í heimsókn á skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness og átti formaður gott samtal við ríkissáttasemjara.

Það skiptir alla aðila sem koma að kjarasamningsgerð að eiga í góðu samstarfi við ríkissáttasemjara og hans fólk og telur formaður VLFA að núna eins og svo oft áður hafi tekist afar vel að velja nýjan ríkissáttasemjara.

Það er að mati formanns afar virðingarvert hjá ríkissáttasemjara að heimsækja stéttarfélögin til að afla sér upplýsinga um starfsemi stéttarfélaganna.

29
Jul

97% þeirra sem greiddu atkvæði um yfirvinnubann og verkfall í Norðuráli samþykktu

Rétt í þessu lauk kosningu í Norðuráli um ótímabundið yfirvinnubann sem hefst 1. september og verkfall sem hefst 1. desember. Kosningin náði til félagsmanna sem starfa hjá Norðuráli og er skemmst frá því að segja að 97% greiddu atkvæði með yfirvinnubanni og verkfalli.

Kosningin fór með eftirfarandi hætti:

Á kjörskrá: 361

Þeir sem kusu: 100 eða 27,7%

Já: 97 eða 97%

Nei: 2 eða 2%

Auðir: 1 eða 1%

Á þessu sést að kosningin var gjörsamlega afgerandi og vilji starfsmanna hvellskýr en þeir sætta sig ekki við að fyrirtækið ætli sér að bjóða hækkanir á grunnlaunum sem eru langt undir því sem samið var um í lífskjarasamningum.

Það liggur fyrir í hverju ágreiningurinn milli deiluaðila kristallast en það liggur fyrir að forsvarsmenn Norðuráls hafni nánast eitt allra fyrirtækja á Íslandi að hækka laun eins og kveðið er á um í lífskjarasamningum. Miðað við þær forsendur sem fram koma í tilboði Norðuráls til stéttarfélaganna þá býður félagið eftirfarandi launahækkanir á byrjenda launataxtann næstu 3 árin:

1 janúar 2020    15.118 kr.

1 janúar 2021     17.829 kr.

1 janúar 2022     13.544 kr.

Samtals:              46.491 kr.

Krafa Verkalýðsfélags Akraness er hins vegar að byrjenda launataxti starfsmanna hækki eins og gert var í lífskjarasamningum og 95% af íslenskum vinnumarkaði hefur undirgengist að gera án vandræða. En lífskjarasamningurinn tryggir eftirfarandi taxtahækkanir auk tryggingu fyrir svokölluðum hagvaxtarauka. En hækkanir lífskjarasamningsins eru eftirfarandi og eru kröfur VLFA og VR:

1 janúar 2020     24.000 kr.

1 janúar 2021     24.000 kr.

1 janúar 2022     25.000 kr.

Samtals:              73.000 kr.

Að hugsa sér að Norðurál skuli voga sé að hafna því að hækka launataxta sinna starfsmanna eins og lífskjarasamningurinn kveður á um og bjóða þess í stað starfsmönnum að byrjendalaunataxti hækki um 26.509 kr. minna en hækkanir í lífskjarasamningum kveður á um eða sem nemur 57% lægri taxtahækkun, en allur vinnumarkaðurinn hefur samþykkt að gera. Rétt er að upplýsa að rekstur Norðuráls gengur mjög vel um þessar mundir þrátt fyrir COVID 19.

Þessi afdráttarlausa niðurstaða um kosningu um yfirvinnubann og verkfall er gott veganesti fyrir Verkalýðsfélag Akraness í þeim átökum sem framundan eru við fyrirtækið.

Formaður VLFA hefur sent niðurstöðu úr kosningunni til forstjóra Norðuráls, fulltrúa Samtaka atvinnulífsins og ríkissáttasemjara og ef ekki semst fyrir 1. september mun ótímabundið yfirvinnubann hefjast og í framhaldi af því mun verkfall hefjast 1. desember ef ekki verður enn búið að semja þá. En verkafallsaðgerðir byggjast á grein 8.11.2 í kjarasamningi aðila.

27
Jul

Kosningu um yfirvinnubann og verkfall hjá Norðuráli lýkur á miðvikudaginn

Verkalýðsfélag Akraness vill minna félagsmenn sína sem starfa hjá Norðuráli að kosningu um ótímabundið yfirvinnubann sem hefst á miðnætti 1. september og verkfalli sem hefst á miðnætti 1. desember lýkur á hádegi á næsta miðvikudag eða nánar tilgetið 29. júlí.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá rann kjarasamningur starfsmanna út um síðustu áramót og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að ná samningi í þá rúma 6 mánuði frá því samningur rann út hefur það ekki tekist.

Krafa VLFA er að launahækkanir verði með sambærilegum hætti og um var samið í svokölluðum lífskjarasamningi en því hefur Norðurál alfarið hafnað og bjóða að byrjandalaunataxti hækki um 26.000 kr. minna en lífskjarasamningurinn kveður á um.

Slíkt er eitthvað sem VLFA mun og ætlar sér alls ekki að sætta sig við enda ekki nokkur ástæða til þess að Norðurál hækki ekki sína grunnlaunataxta eins og nánast allur íslenskur vinnumarkaður hefur undirgengist að gera. VLFA vill ítreka að félagið er ekki að fara fram á að launabreytingar á grunntöxtum hækki meira en það sem samið var um í lífskjarasamningum og því er það með öllu óskiljanlegt að þessari kröfu sé hafnað af þessu stórfyrirtæki sem er blessunarlega með nokkuð góða rekstrarstöðu um þessar mundir. En rétt er að geta þess að Norðurál hefur skilað uppundir 100 milljörðum í hagnað frá því fyrirtækið hóf starfsemi hér á landi árið 1998.

Félagið vill hvetja starfsmenn til að kjósa og nýta kosningarrétt sinn, en rétt að geta þess að hægt er að kjósa á skrifstofu Verkalýðsfélagss Akraness. Formaður gerir sér grein fyrir að kosningar yfir hásumarið er ekki besti tíminn en vegna takmörkunar á verkfallsrétti starfsmanna er félagið nauðugur kostur einn að framkvæma kosningar núna enda þarf að tilkynna verkfall með þriggja mánaða fyrirvara samkvæmt grein 8.11.2 í kjarasamningi milli aðila.

21
Jul

Búið að greiða vangreidd laun vegna gjaldþrots Ísfisks

Eins og fram kom hér á heimsíðunni þá vann Verkalýðsfélag Akraness vangreiddar launakröfur fyrir félagsmenn sína vegna gjaldþrots Ísfisks. En nú hefur Ábyrgðarsjóður launa afgreitt kröfu félagsins og nam heildarsamþykkt sjóðsins tæpum 25 milljónum.

Það er ánægjulegt að þessum hremmingum sem starfsmenn Ísfisks urðu fyrir vegna gjaldþrots fyrirtækisins sé á enda en VLFA hljóp undir bagga með starfsmönnum vegna þess tíma sem tekur að afgreiða vangreidd laun vegna gjaldþrota. En félagið lánaði hverjum starfsmanni 250 þúsund með veði í kröfu frá Ábyrgðarsjóði launa og núna hafa starfsmenn endurgreitt félaginu Þetta lán.

Það liggur umtalsverð vinna við að reikna út launakröfur og er þetta enn eitt dæmið sem sýnir hversu mikilvægt það er fyrir launafólk að hafa aðgengi að stéttarfélögum til að verja sín réttindi.

16
Jul

Starfsmenn Norðuráls athugið, hægt að kjósa um yfirvinnubann og verkfall á skrifstofu VLFA

Seinni kjaramálafundurinn sem Verkalýðsfélag Akraness og VR standa saman að var haldinn í gær á Gamla kaupfélaginu.

Á þessum fundum fór formaður VLFA ítarlega yfir í hverju ágreiningurinn milli deiluaðila kristallast og kom fram í máli hans að forsvarsmenn Norðuráls hafni nánast eitt allra fyrirtækja á Íslandi að hækka laun eins og kveðið er að um í lífskjarasamningum. Miðað við þær forsendur sem fram koma í tilboði Norðuráls til stéttarfélaganna þá býður félagið eftirfarandi launahækkanir á byrjanda launataxtann næstu 3 árin:

1 Janúar 2020    15.118 kr.

1 janúar 2021     17.829 kr.

1 janúar 2022     13.544 kr.

Samtals:              46.491 kr.

Krafa Verkalýðsfélags Akraness er hins vegar að byrjanda launataxti starfsmanna hækki eins og gert var í lífskjarasamningum og 95% af íslenskum vinnumarkaði hefur undirgengist að gera á vandræða. En lífskjarasamningurinn tryggir eftirfarandi taxtahækkanir auk tryggingu fyrir svokölluðum hagvaxtarauka. En hækkanir lífskjarasamningsins eru eftirfarandi og eru kröfur VLFA og VR:

1 janúar 2020     24.000 kr.

1 janúar 2021     24.000 kr.

1 janúar 2022     25.000 kr.

Samtals:              73.000 kr.

Að hugsa sér að Norðurál skuli voga sé að hafna því að hækka launataxta sinna starfsmanna eins og lífskjarasamningurinn kveður á um og bjóða þess í stað starfsmönnum að byrjendalaunataxti hækki um 26.509 kr. minna en hækkanir í lífskjarasamningum kveður á um eða sem nemur 57% lægri taxtahækkun, en allur vinnumarkaðurinn hefur samþykkt að gera.

Þetta munu Verkalýðsfélag Akraness og VR aldrei samþykkja, enda ekki nokkrar forsendur til þess. Rekstrarforsendur Norðuráls eru blessunarlega mjög góðar um þessar mundir. Á þessum forsendum hafa áðurnefnd stéttarfélög hafið kosningu um yfirvinnubann og verkfall sem mun hefjast þann 1. desember en yfirvinnubannið þann 1. september nk..

Kosning stendur nú yfir og er hægt að kjósa á skrifstofu félagsins fram til hádegis 29. júlí og eru starfsmenn Norðuráls sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness eindregið hvattir til að koma á skrifstofuna og kjósa.

Oft er þörf á samstöðu, en nú er nauðsyn!

14
Jul

Kosning um yfirvinnubann og verkfallsaðgerðir vegna kjarasamnings Norðuráls hafin

Í gær var fyrri fundur af tveimur sem Verkalýðsfélag Akraness og VR standa sameiginlega að vegna alvarlegrar stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félaganna við Norðurál. En um síðustu áramót rann kjarasamningur starfsmanna út og þrátt fyrir 22 samningafundi ber enn umtalsvert á milli deiluaðila.

Fundurinn var haldinn á Gamla kaupfélaginu og hófst hann klukkan 20:20 og stóð til að verða 22:30. Seinni fundurinn verður á morgun miðvikudaginn 15. júlí og hefst hann einnig kl 20:20  á Gamla kaupfélaginu.

Aðal ágreiningurinn lýtur að því að forsvarsmenn Norðuráls vilja ekki hækka grunnlaun starfsmanna eins og lífskjarasamningurinn kveður á um og 95% af íslenskum vinnumarkaði hefur undirgengist.

Krafa VLFA og VR er að byrjenda grunnlaun starfsmanna hækki frá og með 1. janúar 2020 um 24.000 kr. 1. janúar 2021 um 24.000 kr. og 1. janúar 2022 um 25.000 kr. en þetta eru sömu launahækkanir og lífskjarasamningurinn kvað á um og nánast allur vinnumarkaður hefur undirgengist.

Norðurál býður hins vegar launahækkun frá 1. janúar 2020 um 15.118 kr. 1. janúar 2021 um 17.829 kr. og 1. janúar 2022  um 13.544 kr. En þessar forsendur miðast við að launavísitalan hækki um 4,80% á þessu ári og 4% árið 2021.

Það er með ólíkindum að Norðurál sem hefur skilað eigendum sínum hátt í  100 milljarða í hagnað skuli voga sér að bjóða sínum starfsmönnum hækkun á næstu þremur árum á grunnlaunum byrjanda um 46.491 á sama tíma og lífskjarasamningshækkarnar gefa hækkun sem nemur 73.000 kr. á sama tímabili. Hérna munar 26.509 kr. og er það morgunljóst að VLFA og VR munu alls ekki sætta sig við þessa niðurstöðu enda er félögin einungis að biðja um sömu launabreytingar á grunnlaunum byrjanda eins og langflestir aðilar á íslenskum vinnumarkaði hafa fengið.

Í ljósi alvarleika kjaradeilunnar hefur Verkalýðsfélag Akraness hafið kosningu um yfirvinnubann sem hefst 1. September og verkfallsaðgerðir sem hefjast 1. Desember ef ekki tekst að semja fyrir þann tíma. En verkafallsaðgerðirnar byggjast á grein 8.11.2 í kjarasamningi samningsaðila.

Hægt verður að kjósa um verkafallsaðgerðir og yfirvinnubannið á fundinum á miðvikudaginn kemur  og á skrifstofu VLFA fram til kl. 12.00 miðvikudaginn 29. júlí.

Formanni VLFA er kunnugt um að VR sé einnig að hefja kosningu á meðal sinna félagsmanna um sömu verkfallsaðgerðir.

06
Jul

Kosið um yfirvinnubann og verkfall hjá félagsmönnum VLFA í Norðuráli

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hafa stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi við Norðurál ítrekað reynt að ná samkomulagi við Norðurál um nýjan kjarasamning en nú eru liðnir 6 mánuðir frá því kjarasamningur starfsmanna rann út.

Búið er að funda oft og títt að undanförnu til að ná fram nýjum kjarasamningi, undir handleiðslu ríkissáttasemjara. Á fundi síðasta þriðjudag lögðu stéttarfélögin fram lokatilboð sem byggðist á grunni lífskjarasamningsins, en á þeim fundi kom tilkynning frá Norðuráli um að þessu lokatilboði stéttarfélaganna hafi verið hafnað af hálfu forsvarsmanna Norðuráls.

Í ljósi þessarar höfnunar á lokatilboðinu hefur verið bókað hjá ríkissáttasemjara árangurslausar viðræður sem þýðir á mannamáli að stéttarfélögin hafa samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur heimild til að hefja undirbúning að kosningu um allsherjar yfirvinnubann og verkfalls á meðal starfsmanna Norðuráls.

Það liggur fyrir að tilboð Norðuráls er umtalsvert lægra en þær kauptaxtahækkanir sem um var samið í lífskjarasamningum og er það þyngra en tárum taki að jafn öflugt fyrirtæki eins og Norðurál skuli voga sér að hafna að hækka kauptaxtakerfi sinna starfsmanna með sama hætti og yfir 90% af íslenskum vinnumarkaði hefur undirgengist að gera.

Eins og flestir vita þá hækkuðu grunnlaunataxtar verkafólks í lífskjarasamningum með eftirfarandi hætti:

  • Árið 2020 24.000 kr.
  • Árið 2021 24.000 kr.
  • Árið 2022 25.000 kr.
  • Samtals:   73.000 kr.

 

Norðurál hafnar alfarið að semja í anda lífskjarasamningsins og vill miða launabreytingar við 95% af launavísitölu Hagstofunnar og koma með aukalega handa verkamönnum 2000 kr. fyrir árið 2020 og 3000 kr. fyrir árið 2021. Norðurál vill gera 5 ára samning þar sem miðað verði síðan við 95% af launavísitölunni á samningstímanum.  Við vitum að launavísitalan var 4,25% í fyrra en Norðurál gerir ráð fyrir að launavísitalan verði 4,58% fyrir árið 2020 og 4% árið 2021. Þetta þýðir að launahækkanir fyrstu þrjú ár samningsins yrðu með eftirfarandi hætti ef forsendur Norðuráls ganga eftir:

  • Árið 2020 15.118 kr.
  • Árið 2021 17.829 kr.
  • Árið 2022 13.664 kr.
  • Samtals:   46.611 kr.

Á þessu sést að Norðurál ætlast til þess að byrjandalaun starfsmanna Norðuráls hækki um 26.389 kr. minna en lífskjarasamningurinn myndi gefa og það er eitthvað sem Verkalýðsfélag Akraness getur ekki, vill ekki og ætlar ekki að sætta sig við.

Það er þannig að prósentuhækkanir hafa valdið því að byrjandalaunataxti í Norðurál er að sogast niður í það sama og lægsti launataxti á íslenskum vinnumarkaði og er langt undir byrjendalaunum hjá verkafólki sem starfar hjá ríki, sveitafélögum, Faxaflóahöfum, Elkem, Klafa og svona mætti lengi telja.

Það er algjörlega ótækt að grunnlaun í Norðuráli séu að sogast þarna niður, enda getur vinna í stóriðjum verið kerfjandi, hættuleg og loftgæði eru alls ekki þau hreinustu sem þekkjast á íslenskum vinnumarkaði. Á þessum forsendum m.a. eiga launakjör í stóriðjum að vera mjög góð og hærri en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði.

Það eru hinir almennu starfsmenn sem fyrst og fremst skapa arðsemi fyrirtækja og til fróðleiks þá hefur Norðuráli gengið gríðarlega vel rekstrarlega séð frá því fyrirtækið hóf starfsemi hér á landi. Frá því að fyrirtækið hóf starfsemi hér á landi árið 1998 hefur það skilað um 100 milljörðum í hagnað.

Það liggur líka fyrir að rekstrarforsendur fyrirtækisins eru mjög góðar um þessar mundir en samkvæmt móðurfélaginu þarf Norðurál á Grundartanga að meðaltali 1360 dollara fyrir tonnið af áli til að vera rekið á núlli.

Í dag er álverð um 1600 dollarar fyrir tonnið sem þýðir að framlegð Norðuráls verður milli 8 til 10 milljarðar miðað við þessar forsendur sem móðurfélagið gaf í apríl lok. Á þessu sést að það eru engar forsendur til þess að Norðurál hækki ekki laun til samræmis við lífskjarasamninginn eins og nánast allur vinnumarkaðurinn hefur undirgengist.

Það liggur fyrir að frá árinu 1998 hafa lægstu launataxtar á almenna vinnumarkaðnum hækkað um 388% á meðan byrjanda launataxti í Norðuráli hefur hækkað um 263% og 10 ára launataxtinn um 305%. Starfsmaður sem er búinn að starfa frá 1998 hjá Norðuráli hefur hækkað um 327% með starfsaldurshækkunum. Á þessu sést að það er umtalsvert minna en launahækkun kauptaxta á almenna vinnumarkaðnum og rétt að geta þess að launavísitala Hagstofunnar hefur hækkað um 336% frá árinu 1998 og 95% af launavísitölunni gefur einungis 319%

Á þessu sést að launavísitalan er að hækka umtalsvert minna en kauptaxtar og því er ekki ráðlegt að tengja við launavísitöluna eins og gert hefur verið því þá sogast launataxtar niður eins og við erum nú að verða vitni að.

Á fundinum hjá ríkissáttasemjara var bókað árangurslaus fundur og því munu Verkalýðsfélag Akraness og VR funda með starfsmönnum í næstu viku þar sem farið verður yfir stöðuna og mjög líklegt er að kosið verði um allsherjar yfirvinnubann og síðan verkfallsaðgerðir samkvæmt grein 11.8.2 í kjarasamningi félaganna við Norðurál.

Báðir fundirnir hefjast klukkan 20:20 og er gríðarlega mikilvægt að starfsmenn fjölmenni oft hefur verið nauðsyn að sýna samstöðu en nú er það skilyrði!

VLFA og VR munu funda á næsta mánudag og miðvikudag með starfsmönnum á Gamla kaupfélaginu og hefjast fundirnir kl. 20.20 þar sem farið verður yfir þessi mál öll.

01
Jul

Samið um 8 tíma vaktakerfi fyrir gæslumenn á Grundartanga

Fyrir helgina gekk Verkalýðsfélag Akraness frá breytingu á vaktakerfi starfsmanna Faxaflóahafna sem starfa í hliðgæslu á Grundartanga. En í síðasta kjarasamningi var gerð bókun um að lagt yrði niður 12 tíma vaktakerfi og tekið yrði upp 8 tíma vaktakerfi eins og er hjá Elkem Ísland á Grundartanga.

Það vaktakerfi hefur reynst afar vel og eru þeir starfsmenn sem þar starfa afar ánægðir með það vaktakerfi sem byggist á því að unnar eru sex átta tíma vaktir á fimm dögum og svo fimm dagar í frí.

Þetta þýðir að dagvinnuskylda starfsmanna fer úr 173,33 í 156 tíma á mánuði og heildar vinnutímafjöldi á mánuði fer úr 182 tímum í 145,6 tíma og er hér um gríðarlega vinnutímastyttingu um að ræða.

Samningsaðilar og starfsmenn eru sammála að það sé lýðheilsumál að hætta með tólf tíma vaktakerfi enda er það afar lýjandi og slítandi að starfa eftir svoleiðis vaktakerfi til langs tíma.

Formaður er afar ánægður að tekist hafi að uppfylla umrædda bókun á tilsettum tíma og mun nýja vaktakerfið taka gildi 1. september nk. Grunnlaun gæslumanna á Grundartanga eru frá 387.473 kr. uppí 423.680 kr. og munu heildarlaun á nýja vaktarkerfinu nema frá 614.000 kr. uppí 664.000 kr. fyrir utan orlofs og desemberuppbætur.

Formaður vil þakka forstjóra Faxaflóhafna Gísla Gíslasyni innilega fyrir afar gott samstarf á liðnum árum, en eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er Gísli að ljúka störfum sem forstjóri Faxaflóahafna á næstu dögum eða vikum.

01
Jul

Stéttarfélögin lögðu fram lokatilboð til Norðuráls í gær

Fundað var í deilu stéttarfélaganna við Norðurál í gær í húskynnum ríkissáttasemjara, en það er óhætt að segja að búið sé að funda oft í þessari deilu, enda eru liðnir 6 mánuðir frá því kjarasamningurinn rann út.

Nú er ljóst að það fer að draga til ögurstundar í þessari deilu, en eins og staðan er í dag þá ber talsvert á milli samningaaðila. Verkalýðsfélag Akraness hefur lagt ofuráherslu á að grunntaxtar verkamanna taki hækkunum eins og gert var í lífskjarasamningum en því hafa Norðurálsmenn og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins alfarið hafnað til þessa.

Norðurál og fulltrúi SA vilja tengja launabreytingar við launavísitölu, en við þær efnahagslegu hamfarir sem nú eru uppi hér á landi sem og víðsvegar um heimsbyggðina vegna Covid 19 er algerlega galið að tengja launabreytingar við umrædda vísitölu.

Það er reyndar grátbroslegt að alþjóðlegt stórfyrirtæki eins og Norðurál skuli hafna að semja eins og allur íslenskur vinnumarkaður hefur undirgengist að gera og bjóða launabreytingar sem eru umtalsvert lægri en samið var um í lífskjarasamningum.

Það er í raun sprenghlægilegt að Samtök atvinnulífsins sem tóku þátt í því skapa og fæða lífskjarasamninginn skuli nú ekki vilja kannast við króann og leggja hins vegnar til að semja um launabreytingar sem miðast við hækkun launavísitölunnar. Það verður fróðlegt að sjá þegar kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði verða lausir eftir tvö ár hvort SA verði þá tilbúið að semja við hálaunahópanna t.d. hjá VR um launavísitöluhækkanir.

Á fundinum í gær lögðu félögin fram lokatilboð til Norðuráls sem byggist á lífskjarasamningum og ef því tilboði verður hafnað eða gerð tilraun til lækkunar á því munu stéttarfélögin lýsa yfir árangurslausum fundi hjá ríkissáttasemjara og funda með starfsmönnum þar sem lagt verður til að kosið verði um að hefjast aðgerða til að knýja fram sanngjarna og réttlátar kröfur stéttarfélaganna sem allur vinnumarkaðurinn hefur nú þegar undirgengist.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image