• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
25
Sep

Hvalsmálin flutt fyrir Landsrétti í gær

Í gær var stærsta hagsmunamál sem Verkalýðsfélag Akraness hefur farið með fyrir dómstóla flutt í Landsrétti. En hér er formaður að sjálfsögðu að tala um mál er lúta að starfsmönnum Hvals sem störfuðu á hvalvertíðum 2013,2014 og 2015. Rétt er að geta þess að í Héraðsdómi Vesturlands var Hvalur hf. sýknaður af kröfum VLFA á grundvelli tómlætis starfsmanna við að sækja rétt sinn. Því var þessum stórundarlega dómi Héraðsdóms var að sjálfsögðu áfrýjað til Landsréttar.

Málið lýtur að því hvort dómstólar ætli að heimila atvinnurekendum að stela af launafólki launum á grundvelli svokallaðs tómlætis. Formaður VLFA trúir því ekki að dómstólar sýkni atvinnurekenda sem sannarlega hefur verið að hlunnfara sína starfsmenn í mörg ár, á grundvelli „tómlætis“ starfsmanna. Það er skýrt í huga formanns VLFA að það geti alls ekki verið tómlæti starfsmanna þegar þeir höfðu ekki hugmynd um að verið væri að hlunnfara þá í hverjum mánuði. Það er rétt að geta þess að það er mikil aðstöðu munur á milli atvinnurekandans og verkamannsins enda ætti verkamaður treysta því að atvinnurekendi greiði laun samkvæmt ráðningarsamningum og kjarasamningum.

Eins og áður hefur komið fram og margoft hefur verið fjallað um hér á heimasíðunni þá komst Verkalýðsfélag Akraness að því árið 2015 að Hvalur hf. hafi ekki verið að greiða starfsmönnum sínum eins og ráðningarsamningur þeirra kvað á um, né svokallaðan vikulegan frídag. Eftir þessa uppgötun félagsins var reynt ná samkomulagi við forsvarsmann Hvals um að fyrirtækið myndi greiða eftir þeim athugasemdum sem Verkalýðsfélag Akraness hafði komist að, að væri verið að hlunnfara starfsmenn. En þau atriði sem félagið taldi að verið að hlunnfara starfsmenn um voru eftirfarandi:

 

  • Sérstök greiðsla að upphæð 5.736 kr. fyrir hverja 12 tíma vakt sem getið var um í ráðningarsamningi vegna skerðingar á frítökurétti og vegna ferða til og frá vinnustað.
  • Vangreiðsla vegna lágmarkshvíldar
  • Vangreiðsla vegna svokallaðs vikulegs frídags.

 

Þessum athugasemdum félagsins var algerlega hafnað að hálfu forsvarsmanns Hvals hf. og því var ekkert annað að gera en að fara með mál eins starsmanns fyrir dómstóla.  Skemmst er frá því að segja að bæði Héraðsdómur Vesturlands og Hæstiréttur Íslands tóku undir með Verkalýðsfélagi Akraness og var umræddum starfsmanni dæmdar uppundir 1 milljón vegna vangreiddra launa.

Eftir dóm Hæstaréttar vonaði Verkalýðsfélag Akraness að Kristján Loftsson myndi greiða öllum starfsmönnum þau vangreiddu laun sem Hæstiréttur var búinn að staðfesta að Hvalur hf. ætti að greiða. En eins og áður sagði eru allir ráðningarsamningar starfsmanna eins og því alls ekki ágreiningur um að Hvalur hf. hafi brotið á öllum starfsmönnum sínum.

Það kom því verulega á óvart að Hvalur hf. neitaði að greiða öðrum starfsmönnum eftir dóm Hæstaréttar og því þarf að fara með málefni annarra starfsmanna fyrir dómstóla. En það er ekki ágreiningur um hvort Hvalur hf. hafi brotið á starfsmönnum heldur ætlar Hvalur hf. að beita fyrir sig tómlæti starfsmanna sem verður að segjast alveg eins og er að sé lágkúruleg málsvörn enda ekki hægt að saka starfsmenn um tómlæti þegar þeir vissu ekki að verið væri að brjóta á þeim fyrr en þeir leituðu til Verkalýðsfélags Akraness árið 2015.

Aðalmeðferð í máli allra starfsmanna hófst þann 6. mars 2019. En eins og áður sagði þá var eina málsvörn Hvals hf. að beita fyrir sig tómlæti því ekki gat Hvalur hf. beitt öðrum málsvörnum fyrir sig þar sem Hæstiréttur var búinn að staðfesta brot fyrirtækisins á ráðningarsamningi og kjarasamningi.

Formaður VLFA trúði ekki öðru en að Héraðsdómur Vesturlands myndi staðfesta dóm Hæstaréttar fyrir alla starfsmenn og hafna alfarið öllum málatilbúnaði er lýtur að tómlæti starfsmanna.

Það ótrúlega gerðist síðan að Héraðsdómur Vesturlands kvað upp dóm í maí 2019 og tók undir með Hval hf. um að starfsmenn sem voru algerlega grandalausir fyrir því að verið væri að svíkja þá um kjarasamningsbundin laun hefðu sýnt tómlæti og var fyrirtækið sýknað af kröfu allra starfsmanna á þeim grundvelli.

Formaður félagsins undrast það að hægt sé að dæma starfsmenn fyrir tómlæti þegar þeir höfðu ekki hugmynd um að Kristján Loftsson eigandi Hvals hf. væri að svína á réttindum þeirra samkvæmt ráðningarsamningum og ákvæðum kjarasamninga. Um leið og starfsmenn áttuðu sig á því að hugsanlega væri verið að brjóta á réttindum þeirra var farið með prófmál fyrir dómstóla. Takið eftir það var gert um leið og menn höfðu grunsemdir um að ekki væri allt með felldu við kjör starfsmanna.

Hvernig geta dómstólar talað um tómlæti hjá venjulegu verkafólki sem hafði ekki hugmynd um að verið væri að hlunnfara það um þau laun sem þeim ber? Formaður getur skilið að tómlæti eigi að gilda ef starfsmaður veit að verið sé  að brjóta á réttindum hans og hann gerir ekkert með það árum saman.

En slíku er alls ekki til að dreifa í þessu máli enda var strax farið með prófmál fyrir dómstóla um leið og grunsemdir kviknuðu um brot á kjörum starfsmanna. Það vissi enginn að Hvalur hf. væri að svína á réttindum starfsmanna fyrir en í lok árs 2015 og þá strax var farið af fullum þunga í málið með áðurnefndu prófmáli.

Að sjálfsögðu var þessum fráleita dómi Héraðsdóms Vesturlands áfrýjað til Landsréttar og núna liggur fyrir að málin verða flutt fyrir Landsrétti 24. september nk. Formaður trúir ekki öðru en að Landsréttur snúi þessum ótrúlega dómi Héraðsdóms Vesturlands við enda var Hæstiréttur búinn að staðfesta í einu prófmáli að verið væri að brjóta á ráðningarkjörum starfsmanna gróflega. Það er aumkunarvert að einn ríkasti maður á Íslandi sem var dæmdur í Hæstarétti fyrir launaþjófnað skuli bera fyrir sig tómlæti starfsmanna til að koma sér hjá því að greiða laun eins og ráðningarsamningur kveður á um.

Ef starfsmaður stelur frá vinnuveitanda er starfsmaðurinn umsvifalaust rekinn þegar þjófnaðurinn kemst upp og honum jafnvel refsað af hinu opinbera. Þetta gildir þó ekki þegar málinu er snúið við. Ef vinnuveitandi stelur frá starfsmanni er vinnuveitanda ekki refsað. Öllu verra er þó að Héraðsdómur Vesturlands hafi lagt upp í þá furðulegu vegferð að hlífa vinnuveitandanum við því að borga þau laun og kjör sem ranglega voru höfð af starfsmönnum Hvals. Með öðrum orðum þá leggur dómstólinn blessun sína yfir að vinnuveitendur standi ekki við lágmarksréttindi.

Hvernig á launafólk sem veit ekki að verið sé að brjóta á réttindum sínum að geta sýnt af sér tómlæti? Hugsið ykkur allt erlenda fólkið sem starfar á íslenskum vinnumarkaði og hefur ekki þekkingu né kunnáttu til að þekkja frumskóg kjarasamningsgreina. Það er þyngra en tárum taki að Héraðsdómur Vesturlands sé að blessa launaþjónað á grundvelli þess að launafólk átti sig ekki strax á því að verið sé að hlunnfara það, þetta er svo mikill skandall að það nær ekki nokkurri átt!

Formaður VLFA trúir ekki öðru en að Landsréttur snúi þessum dómi Héraðsdóms Vesturlands við og standi vörð um launafólk og komi í veg fyrir að stórir og öflugir vinnuveitendur komist upp með að stunda stórfelldan launaþjónað á grandalausum starfsmönnum sínum. Hvernig getur það verið tómlæti starfsmanna þegar þeir höfðu ekki hugmynd um að einn ríkasti maður á Íslandi væri ekki að greiða þau laun sem ráðningarsamningar starfsmanna kveður á um.

Myndu dómstólar sýkna launafólk sem myndi stunda það að stela frá sínum vinnuveitenda á grundvelli tómlætis því atvinnurekendinn áttaði sig ekki á því fyrir en of seint? Að sjálfsögðu ekki og því er það ótrúlegt að dómstólar eigi það til að sýkna og blessa launaþjófnað vinnuveitenda á grundvelli tómlætis starfsmanna.

Eins og áður sagði þá voru Hvalsmálin flutt í Landsrétti í gær og í huga formanns VLFA er trúverðugleiki dómstólanna undir í þessu máli því í þessu máli mun koma í ljós hvort Landsréttur muni blessa launaþjónað og standa vörð um að lágmarksréttindi launafólks á íslenskum vinnumakaði séu virt af atvinnurekendum.

Þetta mál er eitt stærsta hagsmunamál sem launafólk hefur staðið frammi fyrir í áratugi því ef dómstólar ætla að blessa launaþjófnað atvinnurekenda og fótum troða lágmarksréttindi á íslenskum vinnumarkaði er illa komið fyrir launafólki.

Ef Landsréttur myndi staðfesta ítrustu launakröfu  Verkalýðsfélags Akraness vegna hvalvertíða fyrir árin 2013,2014 og 2015 má áætla að leiðréttingin nemi á bilinu 200 til 400 milljónir í heildina. Á þessu sést að hér er um gríðarlega mikinn launaþjófnað um að ræða og ótrúlegt ef einn ríkasti maður á Íslandi kæmist um með slíkan launaþjónað á grundvelli orðs eins og svokallað tómlæti sem hinn almenni verkamaður hefur oft á tímum ekki hugmynd um hvað það þýðir yfir höfuð.

Á sama tíma og ASÍ er að berjast fyrir því að launaþjófnaður verði gerður refsiverður eru dómstólar að sýkna og blessa launaþjófnað á lágmarksréttindum launafólks á grundvelli tómlætis starfsmanna.

Trúverðugleiki dómstóla er undir í þessu máli !

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image