• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Sept

Vilja stjórnvöld ekki 14 milljarða fjárfestingu?

Formaður VLFA skilur ekki af hverju ekkert er að gerast í þessu máli sem lýtur að fjárfestingu Norðuráls við stækkun á steypuskála fyrirtækisins á Grundartanga. En í byrjun mánaðarins kom fram hjá forstjóra Norðuráls að fyrirtækið sé reiðubúið að ráðast í fjárfestingu fyrir vel á annan tug milljarða, fáist nýr raforkusamningur hjá Landsvirkjun til mögulega allt að tuttugu ára þar sem kjörin yrðu sambærileg meðalverði til stóriðjunnar á síðasta ári.

Þessi framkvæmd Norðuráls myndi tryggja um 100 störf á byggingartímanum, 40 varanleg og ugglaust um 40 afleidd störf. Eina sem stendur í vegi fyrir þessari framkvæmd er að fyrirtækið óskar eftir langtíma raforkusamningi við Landsvirkjun og nefnir forstjóri Norðuráls að fyrirtækið sé tilbúið að greiða sama raforkuverð sem er 23 dollarar fyrir utan flutning, en það er meðalverð sem Landsvirkjun fékk fyrir MW frá stóriðjunni á árinu 2019.

En þetta meðalverð uppá 23 dollara tryggði Landsvirkjun á árinu 2019 hagnað sem nam um 14 milljörðum og niðurgreiðslu á skuldum fyrir 24,3 milljarða og ekki bara það heldur gat Landsvirkjun einnig greitt ríkinu 4 milljarða í arðgreiðslu.

Hörður Arnarson kom daginn eftir að forstjóri Norðuráls upplýsti að fyrirtækið væri tilbúið að ráðast í þessa gríðarlegu fjárfestingu og sagði að 23 dollarar væru undir kostnaðarverði. Formaður félagsins er algerlega sammála forstjóra Landsvirkjunar að LV eigi ekki að selja raforku undir kostnaðarverði, en hvað er kostnaðarverðið gagnvart þeim virkjunum sem Norðurál fær sína raforku frá? En raforkuna sem Norðurál fær frá LV er frá Sultartangavirkjun sem byggð var árið 1999 og árið 2001 byggði Landsvirkjun Vatnsfellsstöð, en þessar tvær virkjanir eru undirstaða raforkusölu LV til Norðuráls.

Formaður segir því það þarf að fá hlutlausa aðila til að finna út hvað kostnaðarverð Landsvirkjunar er á þessum virkjunum og inní það kostnaðarverð þarf að taka arðsemiskröfu sem LV gerir.

Það er hins vegar rétt að geta þess að Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar skrifaði grein í maí á þessu ári þar sem fram kom að kostnaðarverð Landsvirkjunar, sé á bilinu $28/MWst til $35/MWst eftir því til hvaða virkjana er horft. Það er hins vegar alveg ljóst að kostnaðarverð á 20 ára á gömlum virkjunum eins og þeim sem Norðurál fær sína raforku frá, er ekki sú sama og þegar um nýja virkjun er að ræða. Því má klárlega áætla að kostnaðarverðið með arðssemiskröfu Landsvirkjunar sé því aldrei hærra en 28 dollarar og því ber ekki mikið á milli Norðuráls og Landsvirkjunar.

Því spyr formaður VLFA, hví í ósköpunum er ekki gengið frá þessu máli þannig að hægt sé að ráðast í 14 milljarða framkvæmd sem skilar uppundir 100 störfum á byggingartímanum, 40 varanlegum störfum auk afleiddra starfa og aukningu á útflutningstekjum á bilinu 5 til 10 milljarðar á ári hverju.

Hvað með orð stjórnvalda um að við þurfum að framleiða meira og við þurfum kröftuga viðspyrnu til að vinna okkur úr þessari efnahagslægð sem við erum nú í vegna COVID.

Það vita allir sem vita vilja að til að hægt sé að reka íslenskt samfélag eins og t.d. góða heilbrigðisþjónustu, löggæslu, menntakerfi og öflugt almannatryggingarkerfi þurfum við öflug og kröftug gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar. Gjaldeyrisöflun þjóðarinnar byggist á þremur megin stoðum, það er ferðaþjónustan, orkufrekur iðnaður og sjávarútvegurinn.

En nú stöndum við frammi fyrir því að ferðamannaiðnaðurinn er um þessar mundir í öndunarvél, enda hefur tekjufallið vegna COVID þurrkað tekjustofna fjölmargra fyrirtækja upp. Þessu til við viðbótar er PCC á Bakka í hjartastoppi, enda búið að slökkva á báðum ofnum fyrirtækisins. Álverið í Straumsvík er keyrt áfram á einungis 85% afköstum og yfirvofandi hótun eigenda fyrirtækisins um að álverinu verði lokað fyrir fullt og allt. Þessu til viðbótar eru rekstrarforsendur Elkem Ísland á Grundartanga afar erfiðar um þessar mundir eftir töluverða hækkun á nýjum raforkusamningi við Landsvirkjun.

Á sama tíma og tvær af þremur grunnstoðum gjaldeyrisöflunar þjóðarinnar er í verulegum vandræðum eins og hér að framan greinir, er öskrað úr öllum áttum, ríkið eigi að gera þetta og hitt og það vanti fjármagn allstaðar.

Hvernig eigum við sem þjóð að standa undir velferð þjóðarinnar þegar það er að molna undan tveimur af gjaldeyrisöflunargreinum þjóðarinnar? Annað er í vandræðum vegna COVID en hin grunnstoðin er af mannavöldum.

Að þessu öllu sögðu er óskiljanlegt að ekkert gerist í ljósi þess að fyrirtækið Norðurál er tilbúið að ráðast í 14 milljarða framkvæmd innan nokkurra vikna með öllum þeim jákvæðu margfeldisáhrifum á hagkerfið.

Hvar eru þingmenn norðvesturkjördæmis? Og hvar er Þórdís Kolbrún iðnaðarráðherra og þingmaður norðvesturkjördæmis? Eiga þessir kjörnu fulltrúar ekki að vera að gæta að hagsmunum kjördæmisins? en formaður ítrekar það að hann er alls ekki frekar en Norðurál að fara fram á að fyrirtækið fái orkuna undir kostnaðarverði með þeirri arðsemiskröfu sem LV settur upp.

Það þarf eitthvað að gerast og það þarf að fá hlutlausa aðila til að reikna út hvert þetta kostnaðarverðið er og ganga frá nýjum raforkusamningi þannig að hægt sé að hefja þessa kröftugu viðspyrnu sem okkar samfélag þarf svo sannarlega á að halda.

Við rekum ekki okkar samfélag á opinberum störfum með fullri virðingu fyrir þeim, við rekum okkar samfélag frá A til Ö á kröftugum gjaldeyrisskapandi fyrirtækjum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image