• Sunnubraut 13, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Sept

Starfsmönnum Norðuráls sýnd ótrúleg vanvirðing

Enn einn árangurslausi samningafundurinn milli Verkalýðsfélags Akraness og forsvarsmanna Norðuráls var haldinn hjá ríkissáttasemjara í gær. Núna hafa starfsmenn Norðuráls verið samningslausir í 262 daga eða sem nemur tæpum 9 mánuðum.

Það er soglegt og þyngra en tárum taki sú ofboðslega vanvirðing sem starfsmönnum Norðuráls er sýnd í þessum viðræðum. Af hverju segir formaður VLFA, jú það er vegna þess að launakröfur félagsins byggjast eingöngu út frá því sem lífskjarasamningurinn kveður á um. Það liggur fyrir að nánast allur vinnumarkaðurinn á Íslandi hefur undirgengist að fara eftir honum í hvívetna.

Það er mjög mikilvægt að verkalýðshreyfingin, Samtök atvinnulífsins, stjórnvöld og Samband íslenskra sveitafélaga tóku öll höndum saman um að búa til það módel sem lífskjarasamningurinn byggir á. Allir þessir ofangreindu aðilar voru sammála um mikilvægi þess að allur vinnumarkaðurinn myndi virða það form sem lífskjarasamningurinn kveður á um.

Að þessu sögðu er alls ekki hægt að horfa framhjá ábyrgð Samtaka atvinnulífsins í þessari kjaradeilu en fulltrúi frá SA hefur verið með forsvarsmönnum Norðuráls í viðræðunum. Ábyrgðin lýtur að því að Samtök atvinnulífsins hafa staðið á öllum torgum eftir að lífskjarasamningurinn var undirritaður 3. apríl 2019 og krafist að allur vinnumarkaðurinn í heildsinni fari alfarið eftir módelinu sem lífskjarasamningurinn byggir á. En núna þegar eitt að aðildarfélögum SA neitar og krefur sína starfsmenn um að semja með 40 til 70% minni grunnlaunahækkun en lífskjarasamningurinn kveður á um þá heyrist ekki eitt einasta orð frá SA. Formaður væri hræddur um að forysta Samtaka atvinnulífsins væri búin að æpa á formann VLFA á opinberum vettvangi ef VLFA væri að fara fram á tugprósentan hærri grunnlaunahækkun en lífskjarasamningurinn kveður á um.

Það er ömurlegt að sjá svona gríðarlega stórt og öflugt alþjóðlegt fyrirtæki eins og Norðurál koma og fótum troða það samkomulag sem náðist á íslenskum vinnumarkaði og ef fyrirtækið heldur eina einustu mínútu að það komist upp með það ofbeldi gagnvart sínum starfsmönnum þá vaða forsvarsmenn fyrirtækisins svo sannarlega villu vegar hvað það varðar.

Sem dæmi þá liggur fyrir að á árunum 2020 til 2022 munu launataxtar þeirra sem taka laun eftir lífskjarasamningum hækka um 73.000 krónur og með starfsaldurshækkunum eins og t.d. hjá ríki og sveitafélögum, Faxaflóahöfnum og fleirum mun þessi hækkun geta numið allt að 88 þúsundum. Það sem Norðurál hefur lagt til er að á þriggja ára tímabili eigi launataxti hjá starfsmanni með 10 ára starfsreynslu að hækka einungis um 51 þúsund krónur á meðan þeir sem taka laun eftir lífskjarasamningum eru að hækka frá 73 þúsundum uppí allt að 88 þúsund. Hérna biður Norðurál um afslátt sem nemur frá 21 þúsund uppí allt að 37 þúsund miðað við starfsmann á 10 ára taxta.

Það er einnig rétt að geta þess að ef Norðuráli tækist að beita slíku ofbeldi á sína starfsmenn að þvinga í gegn hugmyndir sínar að launahækkunum og að launahækkanir myndu ekki taka mið af lífskjarasamningum þá yrði hver verkamaður á 12 tíma vöktum af tæpri 1 milljón á ársgrundvelli í lok samningstímans.

Fjöldatakmarkanir sóttvarnaryfirvalda gera það að verkum að ekki er hægt að halda fjölmenna baráttufundi eins og afar nauðsynlegt væri nú að gera. Til að útskýra á mannamáli þá vanvirðingu sem forsvarsmenn Norðuráls eru að sína starfsmönnum sínum í þessum viðræðum, er formaður að skoða hvernig hann getur komið alvöru kynningu til skila til félagsmanna sinna sem starfa hjá Norðuráli og til að sýna almenningi um hvað þessi kjaradeila snýst um. Eitt af því sem nú er til skoðunar er að taka upp kynningarmyndband þar sem allar staðreyndir um kjaradeiluna verða útskýrðar á mannamáli og deila því kynningarmyndbandi á heimasíðu félagsins. Í þessu myndbandi formanns yrði farið yfir alla deiluna og einnig hver rekstrarstaða fyrirtækisins er um þessar mundir, en rétt er að geta þess að sá mannauður sem hefur unnið hjá Norðuráli hefur gert það að verkum að fyrirtækið hefur skilað uppundir 100 milljörðum í hagnað frá því það hóf starfsemi árið 1998.

Það er alla vega ljóst að núna stefnir í verkfall 1. desember því það mun aldrei gerast á vakt formanns VLFA að skrifað verði undir svona kjarasamning sem kveður á um langt um minni launabreytingar en allur íslenskur vinnumarkaður hefur undirgengist að gera.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image