• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Sep

Enn einn árángurslausi samningafundurinn við Norðurál

Í gær var enn einn árangurslausi samningafundurinn haldinn hjá ríkissáttasemjara til að leysa kjaradeiluna við Norðurál.

 

En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá eru liðnir 9 mánuðir frá því kjarasamningur starfsmanna rann út og ljóst að það er byrjuð að byggjast upp gremja og reiði á meðal starfsmanna með það skilnings og virðingarleysi forsvarsmanna Norðuráls í garð starfsmanna.

 

Það er algjört virðingarleysi hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki að neita að semja við sína starfsmenn eins og allur íslenskur vinnumarkaður hefur undirgengist að gera, eða með öðrum orðum hafna að hækka laun sinna starfsmanna eins og gert var í lífskjarasamningum.

Það er sorgleg staðreynd að Norðurál sem hefur á að skipa miklum mannauði sem vinnur oft við erfiðar, krefjandi og hættulegar aðstæður skuli voga sér að reyna með öllum tiltækum ráðum að komast hjá því að semja eins og öll fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði hafa undirgengist að gera. Rétt er að geta þess að Norðurál hefur skilað eigendum sínum um 100 milljörðum í hagnað frá því fyrirtækið hóf starfsemi og þessi hagnaður verður til fyrst og fremst vegna afar góðs starfsfólks.

Þessu til viðbótar eru rekstrarforsendur Norðuráls mjög góðar í dag þrátt fyrir covid en fyrirtækið hefur sjálft gefið út að það þurfi um 1400 dollara til að vera rekið á núlli. Hinsvegar er álverð núna í kringum 1800 dollara og gengið einnig afar hagstætt sem leiðir til þess að framlegð fyrirtækisins er afar góð eins og staðan er í dag.

Það er óskiljanlegt að þetta öfluga fyrirtæki skuli voga sér að neita að koma með sömu launabreytingar og allur íslenskur vinnumarkaður hefur gert og sammælst um að gera. Formaður spyr af hverju ætti þetta öfluga fyrirtæki ekki að hækka laun starfsmanna eins og öll fyrirtæki hafa gert? Það eru ekki nokkrar ástæður til að krefja starfsfólkið að semja um miklu minni launahækkanir en lífskjarasamningurinn kveður á um.

Þetta er ótrúleg staða sem upp er komin og að mati formanns er starfsmönnum sýnd yfirgripsleg vanvirðing að hafna að hækka laun eins og allir launamenn á Íslandi hafa fengið í gegnum lífskjarasamninginn. En eins og fram hefur komið þá kusu 97% starfsmanna sem tilheyra VLFA um verkfall sem hefst 1. desember ef ekki semst fyrir þann tíma.

Formaður biðlar til forsvarsmanna Norðuráls að sýna starfsfólki sínu ekki slíka vanvirðingu með því að krefja það um mun lakari launabreytingar en allur íslenskur vinnumarkaður hefur samþykkt að framkvæma.

Grundvallaratriðið er að Verkalýðsfélag Akraness er alls ekki að gera neina umframkröfu en um var samið í lífskjarasamningum, hins vegar eru forsvarsmenn Norðuráls að krefja starfsfólkið um mun lakari launahækkanir en lífskjarasamningurinn gefur.

Hugsið ykkur ef Norðurál væri að óska eftir að Verkalýðsfélag Akraness myndi semja með nákvæmlega sama hætti og allur íslenskur vinnumarkaður hefur gert og við myndum neita og krefja um tugi prósenta til viðbótar. Við yrðum kölluð galin, óferjandi og ósanngjörn en málið er eins og áður hefur komið fram að við erum bara að fara fram á sömu launabreytingar og allir aðrir hafa samið um, ekkert meira né minna.

 

Verkalýðsfélag Akraness ætlar ekki, getur ekki og vill ekki semja um lakari launahækkanir og allur vinnumarkaðurinn hefur sannmælst um að gera, enda ekki nokkrar forsendur til að gera slíkt.  Næsti formlegi samningafundur hefur ekki verið boðaður fyrr en eftir hálfanmánuð eins og lög kveða á um þegar um djúpstæðan ágreining er á milli deiluaðila.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image