• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Jul

Kosning um yfirvinnubann og verkfallsaðgerðir vegna kjarasamnings Norðuráls hafin

Í gær var fyrri fundur af tveimur sem Verkalýðsfélag Akraness og VR standa sameiginlega að vegna alvarlegrar stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félaganna við Norðurál. En um síðustu áramót rann kjarasamningur starfsmanna út og þrátt fyrir 22 samningafundi ber enn umtalsvert á milli deiluaðila.

Fundurinn var haldinn á Gamla kaupfélaginu og hófst hann klukkan 20:20 og stóð til að verða 22:30. Seinni fundurinn verður á morgun miðvikudaginn 15. júlí og hefst hann einnig kl 20:20  á Gamla kaupfélaginu.

Aðal ágreiningurinn lýtur að því að forsvarsmenn Norðuráls vilja ekki hækka grunnlaun starfsmanna eins og lífskjarasamningurinn kveður á um og 95% af íslenskum vinnumarkaði hefur undirgengist.

Krafa VLFA og VR er að byrjenda grunnlaun starfsmanna hækki frá og með 1. janúar 2020 um 24.000 kr. 1. janúar 2021 um 24.000 kr. og 1. janúar 2022 um 25.000 kr. en þetta eru sömu launahækkanir og lífskjarasamningurinn kvað á um og nánast allur vinnumarkaður hefur undirgengist.

Norðurál býður hins vegar launahækkun frá 1. janúar 2020 um 15.118 kr. 1. janúar 2021 um 17.829 kr. og 1. janúar 2022  um 13.544 kr. En þessar forsendur miðast við að launavísitalan hækki um 4,80% á þessu ári og 4% árið 2021.

Það er með ólíkindum að Norðurál sem hefur skilað eigendum sínum hátt í  100 milljarða í hagnað skuli voga sér að bjóða sínum starfsmönnum hækkun á næstu þremur árum á grunnlaunum byrjanda um 46.491 á sama tíma og lífskjarasamningshækkarnar gefa hækkun sem nemur 73.000 kr. á sama tímabili. Hérna munar 26.509 kr. og er það morgunljóst að VLFA og VR munu alls ekki sætta sig við þessa niðurstöðu enda er félögin einungis að biðja um sömu launabreytingar á grunnlaunum byrjanda eins og langflestir aðilar á íslenskum vinnumarkaði hafa fengið.

Í ljósi alvarleika kjaradeilunnar hefur Verkalýðsfélag Akraness hafið kosningu um yfirvinnubann sem hefst 1. September og verkfallsaðgerðir sem hefjast 1. Desember ef ekki tekst að semja fyrir þann tíma. En verkafallsaðgerðirnar byggjast á grein 8.11.2 í kjarasamningi samningsaðila.

Hægt verður að kjósa um verkafallsaðgerðir og yfirvinnubannið á fundinum á miðvikudaginn kemur  og á skrifstofu VLFA fram til kl. 12.00 miðvikudaginn 29. júlí.

Formanni VLFA er kunnugt um að VR sé einnig að hefja kosningu á meðal sinna félagsmanna um sömu verkfallsaðgerðir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image