• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
06
Apr

156 félagsmenn án atvinnu í febrúar 2021

Það er engum vafa undirorpið að atvinnuleysi er eitur í beinum íslensks samfélags og eitt af hlutverkum stéttarfélaga er klárlega að verja störf og atvinnustig á sínum félagssvæðum.

En eftir að COVID 19 skall á í febrúar í fyrra jókst atvinnuleysi vítt og breitt um landið gríðarlega en sem betur fer hefur félagssvæði VLFA farið betur út úr atvinnuleysinu sem fylgdi í kjölfarið en mörg sveitarfélög. Þrátt fyrir að félagssvæði VLFA sé undir landsmeðaltalinu og langt undir atvinnuleysistölum sem Suðurnesjamenn eru að glíma við er atvinnuleysið of mikið.  

Eftir að COVID skall á fór atvinnuleysið mest í að 314 félagsmenn VLFA voru án atvinnu en það var í mars í fyrra. Eftir mars í fyrra hefur dregið úr atvinnuleysi og hefur það verið nokkuð stöðugt á bilinu 180 niður í 160 félagsmenn sem eru án atvinnu í mánuði hverjum. Í febrúar síðastliðnum voru 156 félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness án atvinnu.

Í febrúar voru 88 karlar og 69 konur sem tilheyrðu VLFA án atvinnu. Rétt er að geta þess að hugsanlega eru fleiri án atvinnu en þetta eru þeir sem taka ákvörðun um að greiða til stéttarfélagsins til að viðhalda sínum réttindum í félaginu.

Það er einnig rétt að upplýsa að áður en COVID skall á þá voru 93 félagsmenn án atvinnu, en eru í dag 156 eins og áður sagði.

Það er einlæg von allra að ljósið við enda ganganna fari að sjást enda hafa sóttvarnaryfirvöld talað um að von sé til að búið verði að bólusetja þorra þjóðarinnar fyrir júlílok og þá ætti ferðaþjónustan að geta tekið við sér á nýjan leik.

Þrátt fyrir að það sjái vonandi fyrir endann á afleiðingum af COVID vegna bólusetningar þjóðarinnar þá er rétt að geta þess að stjórnvöld hafa gripið til víðtækra vinnumarkaðsaðgerða sem klárlega eiga að geta dregið umtalsvert úr núverandi atvinnuleysi og er það von verkalýðshreyfingarinnar að sem flestir nýti sér þau úrræði sem þar eru í boði og kynni sér þau vel inni á vef Vinnumálastofnunar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image