• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Frá setningu þingsins (Mynd: ASÍ) Frá setningu þingsins (Mynd: ASÍ)
12
Oct

Átök á 45. þingi ASÍ

Á mánudaginn hófst 45. þing Alþýðusambands Íslands og er skemmst frá því að segja að formaður VLFA bar gríðarlega miklar vonir til þess að þetta þing yrði upphafið að mikilli samstöðu og sátt innan hreyfingarinnar. En eins og allir vita hafa hatrammar deilur, persónulegt níð og hatur einkennt starfsemina á liðnum árum.

Það er ljóst að fyrir þingið lá fyrir tillaga um að stilla upp öflugri forystusveit innan Alþýðusambands Íslands skipaða reynslumiklu forystufólki sem hefur látið mikið til sín taka í íslenskri verkalýðsbaráttu. Til forseta ASÍ bauð Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR sig fram og í embætti 1. varaforseta Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður RSÍ, til 2. varaforseta Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og til 3. varaforseta Vilhjálmur Birgisson formaður VLFA og Starfsgreinasambands Íslands.

Þessi hópur var tilbúinn til að taka þetta erfiða verkefni að sér ef það myndi ríkja full samstaða um að snúa bökum saman og tryggja að þingið yrði notað til að lægja þær miklu öldur sem hafa einkennt starf ASÍ. Vonin var að takast myndi að ljúka þinginu þannig að allir kæmu út sem ein risastór heild með mikinn slagkraft, íslensku launafólki til hagsbóta.

Það var hinsvegar ömurlegt og dapurlegt að verða vitni að því strax á fyrsta degi þingsins að þar voru aðilar sem voru svo sannarlega ekki komnir þangað með það að markmiði að sætta ólík sjónarmið og stilla upp öflugri forystusveit Alþýðusambands Íslands. Þvert á móti var persónulega níðið og hatrið allsráðandi frá fyrstu mínútu. Nægir að nefna í því samhengi þá fordæmalausu tillögu sem Ólöf Adolfsdóttir, ritari Eflingar, ásamt 16 þingfulltrúum frá 11 aðildarfélögum lagði fram um að kjörbréf Eflingar, samtals 54 talsins, yrðu dæmd ólögleg. Það hefði þá þýtt að öllum fulltrúum Eflingar hefði verið vísað út af þinginu. Eins og áður sagði var þetta fordæmalaus tillaga og stóðst ekki eina einustu skoðun, hvorki lagalega né siðferðislega. En tónninn sem var sleginn með tillögunni var algjörlega kristalskýr, tilgangurinn var að valda frekari úlfúð og leiðindum. Það sorglega í þessu var að það voru formenn sumra aðildarfélaga ASÍ sem voguðu sér að skrifa undir þessa tillögu sem staðfesti þær áhyggjur að þarna væri fólk ekki mætt til að hafa hagsmuni launafólks að leiðarljósi og ná sáttum.

Síðan gerist það til viðbótar að formaður stéttarfélagsins Bárunnar skrifar stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hún lýsir því að formenn SGS, VR og Eflingar hafi ástundað ofbeldismenningu innan hreyfingarinnar og hafi í hyggju að hreinsa út af skrifstofu Alþýðusambands Íslands. Þessum fræjum var sáð um þingsalinn eins og enginn væri morgundagurinn og á þessum tímapunkti var orðið ljóst að tilgangur þessa ágæta fólks var að viðhalda þessu hatri, persónulega níði og rógburði. Því var það niðurstaða formanna VLFA og VR að sætta sig ekki við að sitja undir svo alvarlegum ávirðingum dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár. Niðurstaðan eftir allt þetta var að þeir tóku ákvörðun um að afturkalla framboð sín í ljósi þess að engan vilja var að sjá til sátta og samstöðu. Tilkynntu þeir formanni Eflingar þessa niðurstöðu sem sagðist vera sammála greiningu þeirra og ákvað hún í kjölfarið að gera slíkt hið sama.

Í framhaldi af þessari ákvörðun var öllum þingfulltrúum VR og VLFA hóað saman þar sem formenn félaganna gerðu grein fyrir henni. Á þessum fundi voru miklar tilfinningar enda gríðarleg vonbrigði að sjá að sátt og samstaða voru ekki til staðar á þinginu. Það var 100% eining og samstaða á þessum fundi og skildu þingfulltrúarnir fullkomlega afstöðu Vilhjálms og Ragnars þó vissulega hafi fjölmargir biðlað til þeirra um að endurskoða þessa ákvörðun og reyna að ná sátt innan hreyfingarinnar. Þeir fóru ítarlega yfir þessa baráttu sem hefur verið háð, ekki bara í núinu heldur er þetta áralöng barátta og von þeirra var að hægt yrði að labba út af þinginu sem risastórt afl þar sem farið yrði í kjarasamningana með breiðri samstöðu allra aðildarfélaga ASÍ. Sú tilraun mistókst illilega vegna þess persónulega haturs sem ríkir í garð einstakra forystumanna. Var niðurstaðan sú að fulltrúar þessara félaga myndu víkja af þinginu og það gerði stór hluti þeirra. Tíminn einn mun leiða í ljós hvort hægt verði að laga ástandið en eins og staðan er í dag eru áðurnefndir formenn ekki bjartsýnir á að vilji sé til slíks.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image