• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Oct

Frá aldamótum hafa launahækkanir ekki haft áhrif á verðbólgu

Ásgeir Daníelsson, fyrrverandi forstöðumaður á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands, var með vægt til orða tekið afar fróðlega kynningu á málstofu í Seðlabanka Íslands 13. september sl.
Þessi kynning var m.a. um áhrif launahækkana á þróun verðlags á Íslandi og niðurstöðurnar eru sláandi. En fram kom í þessu erindi frá Ásgeiri að frá árinu 2000 hefur ekki verið hægt að greina tölfræðilegt samband milli launahækkana sem samið hefur verið um á íslenskum vinnumarkaði og verðlags.
Takið eftir að frá aldamótum hefur ekki verið hægt að sýna fram á samband milli verðlags og launahækkana. Það kemur einnig fram í þessu erindi að ekki sé lengur tekið tillit til launabreytinga í þjóðhagslíkani Seðlabankans. Ekki hægt að skilja annað en að ástæðan sé sú að ekki sé hægt að byggja á tölfræðilegu sambandi milli launahækkana og verðlags og er því sleppt.
Það er algjörlega magnað að fyrrverandi forstöðumaður á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands skuli upplýsa að á síðustu 22 árum hafi alls ekki verið hægt að sýna fram á að launahækkanir leiði til hækkunar á verðlagi.
Hugsið ykkur að á verkalýðshreyfingunni hefur dunið ár eftir ár að ef við semjum ekki um afar hóflegar hækkanir þá muni það leiða til óðaverðbólgu og ógna stöðugleikanum og þessum óhróðri hafa Seðlabankinn, stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins haldið úti linnulaust í hvert sinn sem kjarasamningar eru lausir.
Núna afhjúpast ósannindin þar sem fram kemur að ekkert tölfræðilegt samband sé á milli launahækkana og verðlags frá árinu 2000 en samt er þessum óhróðri ætíð haldið hátt á lofti.
Þessi niðurstaða frá Ásgeiri Daníelssyni, fyrrverandi forstöðumanni á hagfræði- og peningastefnusviði Seðlabanka Íslands ætti að vera fyrsta frétt í öllum fjölmiðlum, enda stórmerkileg tíðindi.
Eins og allir vita er búið að hræða þjóðina með víxlverkun verðlags og launa stanslaust þegar kjarasamningar eru lausir en sannleikurinn er sá að Seðlabankinn hefur ekki fundið tölfræðilegt samband milli launahækkana og verðlags frá árinu 2000!
Eru stjórnvöld, Seðlabankinn og Samtök atvinnulífsins vísvitandi búin að ljúga að þjóðinni um samband á milli launahækkana og verðlags á liðnum áratugum? Miðað við þessi tíðindi er ekki annað að sjá en að svo sé!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image