• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
                          Hópurinn ásamt Guðna Th. Jóhannessyni fyrir framan Bessastaði Hópurinn ásamt Guðna Th. Jóhannessyni fyrir framan Bessastaði
09
Sep

Frábær ferð með eldri félagsmenn VLFA farin í gær

Í gær var loks komið að því að fara í ferðalag með eldri félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness en þessi ferð sem venjulega er árlegur viðburður hefur fallið niður síðustu tvö ár vegna samkomutakmarkana. Um 60 félagsmenn tóku þátt í ferðinni í ár auk nokkurra fulltrúa félagsins bæði úr stjórn og af skrifstofu. Þess má geta að elsti félagsmaðurinn sem var með í ferðinni að þessu sinni var kona sem fædd er árið 1927 og gekk í félagið 7. mars 1944. Hún hefur því verið félagsmaður í 78 ár.

Að þessu sinni var ferðinni heitið til Reykjavíkur og Bessastaða en áður en lagt var í hann var tekinn hringur innanbæjar á Akranesi til að sjá þau vegglistaverk sem hafa nýlega verið gerð víða um bæinn. Leiðsögumaður í ferðinni var Gísli Einarsson og sá hann um að fræða fólk um hina ýmsu staði og viðburði auk þess að taka reglulega lagið enda var hann með nikkuna góðu meðferðis.

Fyrsti viðkomustaður var hið sögufræga hús Höfði í Borgartúni þar sem leiðtogafundur Reagan og Gorbatsjov átti sér stað árið 1986. Þar fékk hópurinn frábæra leiðsögn og fékk að skoða sig um á þessum merka stað. Að því loknu lá leiðin í Mosfellsbæ á veitingastaðinn Blik Bistro þar sem snæddur var hádegisverður í rúmgóðum sal með glæsilegu útsýni.

Eftir matinn var komið að því að heimsækja Bessastaði og byrjaði hópurinn á að fá fræðslu í kirkjunni á staðnum. Kl. 14 hófst svo móttaka á Bessastöðum og tók forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, vel á móti gestunum ásamt starfsfólki Bessastaða. Guðni heilsaði öllum með handabandi og bauð fólki að skoða sig um. Hann spjallaði á léttum nótum við hópinn og boðið var upp á kaffi, pönnukökur og kleinur. Mikil ánægja var með þessar móttökur.

Að lokinni Bessastaðaheimsókn var haldið í Perluna þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti á efstu hæðinni. Hópurinn endaði á að skoða þær náttúrusýningar sem staðsettar eru í Perlunni og má þar nefna íshelli og norðurljósasýningu.

Eftir góða stund í Perlunni var komið að heimferð og rúturnar renndu inn í bæinn um kl. 18 eftir skemmtilega ferð. Það var sérstaklega ánægjulegt að ná aftur að fara í slíka dagsferð eftir hlé undanfarinna ára enda er þetta alltaf einn af hápunktum starfs félagsins.

 

Hér má sjá myndir úr ferðinni

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image