• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Nov

Starfgreinasamband Íslands, VR og LÍV vísa kjaraviðræðum til ríkissáttasemjara

Íslenskt atvinnulíf stendur styrkum fótum og staða fyrirtækja hefur sjaldan verið betri. Hvert fyrirtækið á fætur öðru skilaði methagnaði á síðasta ári og allt bendir til þess að árið í ár verði ekki síðra. Útflutningsgreinarnar – undirstöður atvinnulífsins – standa afar vel. Sjávarútvegurinn skilaði tugmilljarða króna hagnaði í fyrra og ferðaþjónustan hefur náð flugi á nýjan leik eftir Covid.

 

Vinnuframlag launafólks, þekking þess og kunnátta liggja að baki þessum gríðarlega góða árangri og launafólk á kröfu á umbun í samræmi við það. Um það snúast kjarasamningar – réttláta skiptingu.

 

Lífskjarasamningurinn, sem undirritaður var árið 2019, rann út um síðustu mánaðamót. VR, Landssamband ísl. verzlunarmanna og Starfsgreinasamband Íslands hafa staðið þétt saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins síðustu vikur og freistað þess að ná nýjum samningi. Fundað hefur verið stíft en nú blasir við að of mikið ber í milli. Samningur er ekki í sjónmáli og engar forsendur til að halda viðræðum áfram að óbreyttu.

 

Hrina kostnaðarhækkana skellur nú á launafólki; húsaleiga hefur hækkað, vextir, bensín, matvara og þjónustugjöld svo fátt eitt sé nefnt. Stéttarfélögin krefjast kaupmáttaraukningar launa á samningstímanum en atvinnurekendur segja ekkert svigrúm til þess.

 

 Stéttarfélögin kalla eftir markvissum aðgerðum til að ná niður verðbólgu en atvinnurekendur hafa ekkert fram að færa. Það er holur hljómur í málflutningi atvinnurekenda þegar þeir halda því fram að launahækkanir keyri upp verðbólguna – það er búið að sýna fram á að svo sé ekki.

 

VR/LÍV og SGS eru í forsvari fyrir stóran hluta launafólks á almennum vinnumarkaði og gera kröfu um sanngirni. Á meðan atvinnurekendur hlusta ekki á raddir tugþúsunda einstaklinga sem fyrir þá starfa í samningaviðræðum eins og þeim sem staðið hafa yfir síðustu vikur verður að leita annarra leiða. Því hafa stéttarfélögin tekið þá ákvörðun að vísa viðræðum VR/LÍV og SGS við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjar

 

14. nóvember 2022

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR

Eiður Stefánsson, formaður samninganefndar Landssambands ísl. verzlunarmanna

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image