• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Aug

Forsætisráðherra fundaði með formanni í gær

Í gær kom Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Henný Hinz aðstoðarmanni ríkistjórnarinnar á sviði vinnumarkaðsmála í heimsókn á skrifstofu félagsins.

Með formanni VLFA og SGS á fundinum sat nýráðinn framkvæmdastjóri SGS Björg Bjarnadóttir. Eðli málsins samkvæmt voru komandi kjaraviðræður á hinum almenna vinnumarkaði aðalumræðuefnið og kom formaður SGS því vel á framfæri hverjar áherslur SGS eru í komandi kjarasamningum.

Það kom fram í máli formanns að hann hefur verulegar áhyggjur af komandi kjaraviðræðum í ljósi þess að enn og aftur hefur grátkór auðvaldsins hafið upp raust sína að ekkert sé til skiptanna og svigrúm til launabreytinga sé ekkert.

Formaður sýndi forsætisráðherra fyrirsagnir sem birst hafa í fjölmiðlum í aðdraganda kjarasamninga á liðum árum og áratugum og þar sést að aldrei hefur við svigrúm til launahækkana þegar kemur að því að semja fyrir verkafólk, aldrei!

Formaður vék einnig að stöðu útflutningsgreina þar sem allar hagtölur sýna að blússandi gangur er hjá þeim öllum.   Álverin skiluðu um 50 milljörðum í hagnað í fyrra, kísilverin skiluðu einnig frábæri afkomu, þrjú stærstu sjávarútvegsfyrirtækin skiluðu yfir 40 milljörðum í hagnað og einnig liggur fyrir að ferðaþjónustan er á blússandi uppleið, enda landið nánast uppselt.

Spáð er að arðgreiðslur til fyrirtækja muni nema um 200 milljörðum á þessu ári og samt voga hagsmunaaðilar auðvaldsins sér að halda því fram að ekkert sé til skiptanna.

Formaður vék einnig að því að í lífskjarasamningum hafi verkalýðshreyfingin lagt grunn að því að skapa stöðugleika í formi lágrar verðbólgu og hagstæðra vaxtakjara fyrir launafólk en ytri aðstæður eins framboðskortur á húsnæði, Covid og stríðið í Úkraníu hafi valdið því að verðbólgan hefur farið á flug að nýju.

Allt atriði sem launafólk ber ekki nokkra ábyrgð á og því fráleitt að ætlast til þess að launafólk leggi til fórnir enn og aftur enda hefur nánast allur ávinningur af síðasta kjarasamningi sogast í burtu yfir til fjármálakerfisins, einnig hafa leigjendur þurft að þola miklar hækkanir að ógleymdum aukum útgjöldum vegna hækkunar á matar og bensínverði sem og aðrar hækkanir sem dunið hafa á neytendum.

Formaður vék einnig að því hvernig munurinn er á milli íslensku vístölunnar og Samræmdri vísitölu neysluverðs sem mæld er eins í 27 ríkjum ESB og EES. En vegna þess að við erum með eigið húsnæði inní íslensku vísitölunni þá hefur hún ætíð mælst mun hærri en samræmda vísitalan sem leiðir til þess að verðtryggðar skuldir heimilanna og leiguverð hefur hækkað mun meira fyrir vikið.

Það var gott að fá tækifæri til að koma þessum áherslum milliliðalaust til forsætisráðherra og ber formaður þá von að hún hafi meðtekið þá alvarlegu stöðu sem blasir við launafólki og heimilum og var m.a. staðfest í könnun sem Fréttablaðið lét gera þar sem fram kom að 33,3% eiga í erfiðleikum að ná endum saman um hver mánaðarmót!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image