• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Apr

Aðalfundur VLFA haldinn í gær

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í gær, miðvikudaginn 18. apríl á Gamla kaupfélaginu. Í skýrslu stjórnar fór formaður yfir helstu atriði í starfsemi félagsins á liðnu ári og kom fram í máli hans að félagið stendur gríðarlega vel jafnt félagslega sem fjárhagslega. 

Rekstrarafgangur samstæðunnar var 232 milljónir og nemur eigið fé félagsins rétt rúmum 2 milljörðum. Formaður fór yfir kjarasamninga liðins árs og jafnframt yfir þau verkefni sem framundan eru.  

Félagsmenn hafa verið afar duglegir að nýta sér þá þjónustu sem félagið býður þeim upp á og sýnir öll tölfræði það. Sem dæmi má nefna að 1378 félagsmenn fengu greiðslu úr sjúkrasjóði, 381 keyptu afsláttarkort og 305 fengu greidda menntastyrki. Samtals eru þetta um 70% félagsmanna og er það fyrir utan alla aðra þjónustu sem félagið veitir dag hvern. Það er einnig afar ánægjulegt að heyra að félagsmenn séu ánægðir og stoltir af félaginu sínu.  

Eins og alltaf þá er það regla stjórnar að láta félagsmenn njóta góðs af góðri afkomu félagsins og í ár var svo sannarlega engin undantekning þar á. En vegna góðrar afkomu var heilsueflingarstyrkurinn hækkaður úr 45.000 kr. í 50.000 kr. og heilsufarskoðunarstyrkurinn hækkaður úr 35.000 kr. í 50.000 kr. Einnig var gleraugnastyrkur hækkaður úr 50.000 kr. í 70.000 kr. Heyrnatækjastyrkur hækkar úr 40.000 kr. í 100.000 kr. og fæðingarstyrkur fer úr 150.000 kr. í 155.000 kr.  Þessar hækkanir taka gildi frá og með 1. maí 2023.

Formaður fór einnig yfir að í mars 2023 var tekin upp sú nýjung að bjóða félagsfólki upp á afslætti í gegnum gjafabréf hjá bæði Icelandair og Play en félagsfólk getur sparað sér allt að 30.000 kr. í gegnum þessa nýjung sem félagið bíður upp á. Viðtökurnar hafa verið gríðarlega góðar á þeim stutta tíma sem liðinn er og þetta mun svo sannarlega nýtast félagsfólki vel.

Að fundi loknum bauð félagið fundargestum upp á ljúffengt lambakjöt með öllu tilheyrandi að hætti Gamla Kaupfélagsins.

 

 

thumbnail IMG 5351thumbnail_IMG_5352.jpgthumbnail_IMG_5362.jpgthumbnail_IMG_5354.jpg

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image