• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
04
Sept

Enn einn árángurslausi samningafundurinn við Norðurál

Í gær var enn einn árangurslausi samningafundurinn haldinn hjá ríkissáttasemjara til að leysa kjaradeiluna við Norðurál.

 

En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá eru liðnir 9 mánuðir frá því kjarasamningur starfsmanna rann út og ljóst að það er byrjuð að byggjast upp gremja og reiði á meðal starfsmanna með það skilnings og virðingarleysi forsvarsmanna Norðuráls í garð starfsmanna.

 

Það er algjört virðingarleysi hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki að neita að semja við sína starfsmenn eins og allur íslenskur vinnumarkaður hefur undirgengist að gera, eða með öðrum orðum hafna að hækka laun sinna starfsmanna eins og gert var í lífskjarasamningum.

Það er sorgleg staðreynd að Norðurál sem hefur á að skipa miklum mannauði sem vinnur oft við erfiðar, krefjandi og hættulegar aðstæður skuli voga sér að reyna með öllum tiltækum ráðum að komast hjá því að semja eins og öll fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði hafa undirgengist að gera. Rétt er að geta þess að Norðurál hefur skilað eigendum sínum um 100 milljörðum í hagnað frá því fyrirtækið hóf starfsemi og þessi hagnaður verður til fyrst og fremst vegna afar góðs starfsfólks.

Þessu til viðbótar eru rekstrarforsendur Norðuráls mjög góðar í dag þrátt fyrir covid en fyrirtækið hefur sjálft gefið út að það þurfi um 1400 dollara til að vera rekið á núlli. Hinsvegar er álverð núna í kringum 1800 dollara og gengið einnig afar hagstætt sem leiðir til þess að framlegð fyrirtækisins er afar góð eins og staðan er í dag.

Það er óskiljanlegt að þetta öfluga fyrirtæki skuli voga sér að neita að koma með sömu launabreytingar og allur íslenskur vinnumarkaður hefur gert og sammælst um að gera. Formaður spyr af hverju ætti þetta öfluga fyrirtæki ekki að hækka laun starfsmanna eins og öll fyrirtæki hafa gert? Það eru ekki nokkrar ástæður til að krefja starfsfólkið að semja um miklu minni launahækkanir en lífskjarasamningurinn kveður á um.

Þetta er ótrúleg staða sem upp er komin og að mati formanns er starfsmönnum sýnd yfirgripsleg vanvirðing að hafna að hækka laun eins og allir launamenn á Íslandi hafa fengið í gegnum lífskjarasamninginn. En eins og fram hefur komið þá kusu 97% starfsmanna sem tilheyra VLFA um verkfall sem hefst 1. desember ef ekki semst fyrir þann tíma.

Formaður biðlar til forsvarsmanna Norðuráls að sýna starfsfólki sínu ekki slíka vanvirðingu með því að krefja það um mun lakari launabreytingar en allur íslenskur vinnumarkaður hefur samþykkt að framkvæma.

Grundvallaratriðið er að Verkalýðsfélag Akraness er alls ekki að gera neina umframkröfu en um var samið í lífskjarasamningum, hins vegar eru forsvarsmenn Norðuráls að krefja starfsfólkið um mun lakari launahækkanir en lífskjarasamningurinn gefur.

Hugsið ykkur ef Norðurál væri að óska eftir að Verkalýðsfélag Akraness myndi semja með nákvæmlega sama hætti og allur íslenskur vinnumarkaður hefur gert og við myndum neita og krefja um tugi prósenta til viðbótar. Við yrðum kölluð galin, óferjandi og ósanngjörn en málið er eins og áður hefur komið fram að við erum bara að fara fram á sömu launabreytingar og allir aðrir hafa samið um, ekkert meira né minna.

 

Verkalýðsfélag Akraness ætlar ekki, getur ekki og vill ekki semja um lakari launahækkanir og allur vinnumarkaðurinn hefur sannmælst um að gera, enda ekki nokkrar forsendur til að gera slíkt.  Næsti formlegi samningafundur hefur ekki verið boðaður fyrr en eftir hálfanmánuð eins og lög kveða á um þegar um djúpstæðan ágreining er á milli deiluaðila.

27
Ágúst

Fundað hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu við Norðurál í gær

Í gær var haldinn samningafundur í kjaradeilu Verkalýðsfélags Akraness við Norðurál en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hefur þessi kjaradeila verið hörð enda félagið búið að kjósa um yfirvinnubann og verkfall sem mun skella á 1. desember ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma.

Á fundinum í gær gerðist ekki ýkja margt annað en að deiluaðilar eru sammála um mikilvægi þess að ná saman en það er ljóst að enn ber umtalsvert á milli deiluaðila. Það undarlega við þessa kjaradeilu er að forsvarsmenn Norðuráls hafna að hækka laun eins og nánast allur íslenskur vinnumarkaður hefur undirgengist að gera eða nánar tilgetið að semja um sömu launahækkanir og gert var í svokölluðum lífskjarasamningi.

Formaður telur að hann sé búinn að koma því eins rækilega á framfæri við forsvarsmenn Norðuráls og hægt er að félagið mun ekki, getur ekki og vill ekki semja um lægri launabreytingar og nánast allur vinnumarkaðurinn hefur undirgengist að gera. Enda eru ekki nokkrar forsendur fyrir því að alþjóðlegt stórfyrirtæki ætli að koma sér undan því að semja með sama hætti og allur vinnumarkaðurinn tók sig saman um að gera. Það liggur fyrir að rekstrarforsendur Norðuráls eru blessunarlega afar góðar um þessar mundir enda álverð á uppleið að nýju og gengi íslensku krónunnar afar hagstætt fyrir útflutningsfyrirtæki um þessar mundir.

Formaður vonar innilega að forsvarsmenn Norðuráls átti sig á því að VLFA mun ekki kvika frá þeirri sanngjörnu kröfu að starfsfólk Norðuráls fái sömu launahækkanir og lífskjarasamningurinn kveður á um. Munum að sá mannauður sem Norðurál hefur á að skipa hefur skilað eigendum Norðuráls uppundir 100 milljörðum í hagnað frá því verksmiðjan hóf starfsemi og því mikilvægt að laun starfsmanna endurspegli góða afkomu fyrirtækisins.

Næsti fundur er boðaður á næsta fimmudag eftir viku og ljóst að ef ekkert nýtt gerist á þeim fundi er einsýnt að slitni endanlega uppúr þessum viðræðum og einungis verði fundað hálfsmánaðarlega eins og lög kveða á um. Það er einnig líklegt að ef forsvarsmenn Norðuráls sjái ekki að sér þá muni verkfall samkvæmt grein 8.11.2 skella á 1. desember nk.

24
Ágúst

Þarf ekki að endurtaka kosninguna um verkfall í Norðuráli

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá hafði lögmaður Norðuráls óskað eftir að Verkalýðsfélag Akraness myndi aflýsa yfirvinnubanni sem félagið hafði látið kjósa um í júlí og var samþykkt með 97% atkvæða.

Verkalýðsfélag Akraness ákvað í samráði við lögmann félagsins að aflýsa bæði yfirvinnubanninu og verkfallinu vegna þess að félagið ætlaði ekki að taka þátt í lagaklækjum sem myndu ekki gera neitt annað en tefja og takmarka þann skerta verkfallsrétt sem starfsmenn hafa.

Hins vegnar tilkynnti formaður forsvarsmönnum Norðuráls að Verkalýðsfélag Akraness ætlaði að endurtaka kosninguna til að taka af allan vafa um þá lagaklæki sem félagið óttaðist að Norðurál ætlaði sér að ástunda.

Allt var klárt til að byrja kosninguna um verkfall sem myndi hefjast 1. desember nk. ef ekki yrði búið að semja fyrir þann tíma, en mikil reiði greip um sig hjá starfsmönnum með þessa kröfu Norðuráls um að aflýsa yfirvinnubanninu.

Í dag hafði forstjóri Norðuráls samband og sagði að fyrirtækið myndi ekki gera athugasemdir við kosninguna sem framkvæmd var í júlí um yfirvinnubann og verkfall að öðru leiti en því að tilkynna þurfi yfirvinnubannið með þriggja mánaða fyrirvara eins og þarf að gera með verkfallið. Eina sem breytist er að yfirvinnubannið mun ekki geta hafist 1. september heldur 1. desember eins og sjálft verkfallið.

Þetta gerir það að verkum að ekki þarf að kjósa að nýju um verkfall og yfirvinnubann og mun kosningin sem samþykkt var með 97% atkvæða, skella á 1. desember nk. ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma en og áður sagði.  Eina breytingin er því eins og áður sagði að yfirvinnubannið frestast um þrjá mánuði.

24
Ágúst

Fræðsluátak starfsmenntasjóðanna framlengt

Fræðsluátak framlengt til ársloka!

 

Við vorum að fá þessar frábæru fréttir frá Landsmennt, Sveitamennt og Ríkismennt !!

Átakið tók gildi 15.mars og verður nú framlengt frá 31. ágúst til 31. desember 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma.

Nánari útfærsla á átaksverkefninu: Gerðir voru samningar við fræðsluaðila sem bjóða upp á vefnám/fjarnám þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er boðin þátttaka í námi/námskeiðum þeim að kostnaðarlausu. Þessir samningar gilda einnig tímabundið og gagnvart því námi/námskeiðum sem fræðsluaðilar bjóða upp á innan þessa tímaramma það er núna frá 15. mars til og með 31.desember 2020. Einstaklingar og fyrirtæki geta skráð sig hjá viðkomandi fræðsluaðilum sem sjóðurinn er með samninga við án þess að greiða (gildir gagnvart námi/námskeiði sem kostar að hámarki 30.000,-). Fræðsluaðilarnir senda reikninga beint á sjóðina.

Breytingar á úthlutunarreglum voru eftirfarandi:
• Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, voru hækkaðar úr allt að 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. desember 2020.
• Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu var hins vegar breytt og er 90% í stað 75% af kostnaði við námið. Gildistími frá 15. mars til og með 31. desember 2020.
• Tómstundstyrkir sem voru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári eru í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. desember 2020.

21
Ágúst

Auglýsing- Kosning um verkfall hjá Norðuráli!

Kosning um verkfallsaðgerðir 

 

Kæru félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness sem starfið hjá Norðuráli athugið. 

Verkalýðsfélag Akraness hefur ákveðið að endurtaka kosningu um verkfall sem framkvæmd var í júlí og var samþykkt með 97% atkvæða þeirra sem greiddu atkvæði.  Þessi ákvörðun er tekin vegna þess að Norðurál kaus að beita fyrir sér lagaklækjum sem byggist á því að þeir telja ykkur ekki hafa heimild til að fara í yfirvinnubann frá og með 1. september. 

Þegar krafa frá lögmanni Norðuráls barst var ljóst að Verkalýðsfélag Akraness hefur ekki í hyggju að taka þátt í lagaklækjum fyrirtækisins sem hefur það markmið að tefja og torvelda þær takmörkuðu verkfallsheimildir sem starfsmenn Norðuráls hafa.  Í ljósi þess ákvað félagið að aflýsa þeim vinnustöðvununum sem kosið var um í júlí til að forðast þessa lagaklæki. 

Hins vegar hefur félagið ákveðið eins og áður sagði að endurtaka kosninguna og verður kosningin með rafrænum hætti, kosið verður um verkfall sem hefst á miðnætti 1. desember ef ekki semst fyrir þann tíma.  Framkvæmd verkfallsins  byggist á  grein 8.11.2 í kjarasamningi félagsins við Norðurál. 

Kosningin hefst á hádegi þriðjudaginn 25. ágúst og mun standa til klukkan 12 mánudaginn 31. ágúst.  Hægt verður að kjósa með því að fara á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness www.vlfa.is og þar verður linkur á forsíðunni sem mun bera heitið „Kosning Norðurál“.
Félagsmenn smella á linkinn og skrá sig inn með rafrænum skilríkjum og þá er hægt að kjósa. 

Stöndum saman! Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn! 

Virðingarfyllst, 

__________________________________________ 

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness  

20
Ágúst

Norðurál bannar starfsmönnum að hefja yfirvinnubann eins og 97% starfsmanna höfðu samþykkt

Það er óhætt að segja að vanvirðingin hjá forsvarsmönnum Norðuráls og Samtökum atvinnulífsins er algert, en í gær barst Verkalýðsfélagi Akraness bréf frá lögmanni Samtaka atvinnulífsins sem sent var fyrir hönd Norðuráls.

Í því bréfi er skorað á VLFA að aflýsa yfirvinnubanni sem kosið var um og samþykkt með 97% þeirra sem greiddu atkvæði, en yfirvinnubannið átti að hefjast 1. september nk. Ástæðan er sú að árið 1998 var á óskiljanlegan hátt samið um að starfsmenn Norðuráls ættu ekki verkfallsrétt eins og allt íslenskt launafólk. Árið 2005 tókst Verkalýðsfélagi Akraness hins vegar að ná inn verkfallsrétti eftir mikla baráttu við fyrirtækið, en sá verkfallsréttur er samt háður takmörkunum sem er m.a. fólgið í því að ekki er hægt að boða verkfall fyrr en eftir þrjá mánuði frá því kjarasamningur rann út og eftir það þarf að tilkynna verkfallsaðgerðir með 3 mánaða fyrirvara.

Þessar takmarkanir á verkfallsréttinum voru áfangasigur á sínum tíma en það datt ekki nokkrum manni til hugar að starfsmenn Norðuráls hefðu ekki rétt til að boða til yfirvinnubanns á tilfallandi yfirvinnu. En núna ætlar Norðurál sem hefur notið þeirra sérréttinda að hafa kjarasamning sem hefur mun skemmri verkfallsrétt en aðrir launamenn að beita fyrir sé lagaklækjum til að koma í veg fyrir boðað yfirvinnubann starfsmanna allt með það að markmiði að tefja aðgerðir starfsmanna.

Hugsið ykkur Norðurál telur sig hafa heimild til að banna starfsmönnum að hefja yfirvinnubann en eftir ráðfæringar við okkar lögmann þá er niðurstaðan sú að taka ekki þátt í lagaklækjum við Norðurál og leyfa þeim þannig að tefja aðgerðir eins og stefna þeirra er greinilega.

Við höfum því tekið ákvörðun í samráði við okkar lögmann að aflýsa yfirvinnubanninu og verkfallinu sem átti að hefjast 1 desember. Því það er morgunljóst að forsvarsmenn Norðuráls munu ekki víla fyrir sér að fá verkfallið sem einnig var samþykkt með 97% atkvæða ógilt á þeirri forsendu að kosningar um yfirvinnubannið og verkfallið voru framkvæmdar í einni og sömu kosningunni. Það er ömurlegt að verða vitni að því slag í slag að forsvarsmenn Norðuráls skuli sína starfsmönnum sínum fullkomna fyrirlitningu. Formaður þekkir orðið öll vinnubrögðin hjá þessu fólki og við ætlum ekki að taka þátt í þessum lagaklækjum þeirra til að fótum troða þær takmörkuðu verkfallsaðgerðir sem starfsmenn búa yfir samkvæmt kjarasamningi.

Á þeirri forsendu mun Verkalýðsfélag Akraness hefja nýja rafræna kosningu um verkfall eingöngu byggða á gr. 8.11.2. Þótt VLFA þurfi að hefja nýja kosningu um verkfallsaðgerðir mun það ekki hafa teljandi áhrif að verkfallið hefjast á svipuðum tíma og búið var að samþykkja eða nánar tilgetið í kringum mánaðarmótin nóvember/desember.

Þessi vanvirðing við starfsmenn Norðuráls sem hafa verið samningslausir í hartnær 9 mánuði mun kalla á glerhörð viðbrögð af hálfu Verkalýðsfélags Akraness og VR. Þessi vinnubrögð munu til dæmis kalla á viðbótarkröfu þessara félaga þar sem það verður gert að ófrávíkjanlegri kröfu að starfsmenn Norðuráls njóti sömu verkfallsheimildar án nokkurra takmarkanna eins og nánast allt íslensk launafólk. Norðurál bað um stríð með þessari lágkúru sinni og trúið formanni félagsins að þeir fá stríð!

Ég vil enn og aftur minna á að deila félagsins við Norðurál lýtur að því að Norðurál komi með sömu launabreytingar og um var samið í svokölluðum lífskjarasamningi en þeirri kröfu hafa forsvarsmenn Norðuráls hafnað algerlega og bjóða langt um minna en allur íslenskur vinnumarkaður hefur undirgengist að framkvæma.

Ég vil minna á að þetta öfluga starfsfólk sem hefur tekið þátt í því að skila eigendum Norðuráls um 100 milljörðum í hagnað frá árinu 1998 er ekki að biðja um neitt annað en það sama og allir aðrir hafa fengið.

Forherðing þessarra manna er taumlaus eins og birtist í því þegar starfsmenn ætla að reyna að knýja þessa sanngjörnu launakröfu í gegn með eina vopninu sem launafólk hefur þá koma þessir menn og segja „þið eigið og hafið ekki rétt til að fara í yfirvinnubann eins og allt íslenskt launafólk“.

Formaður ítrekar að þessi vanvirðing gagnvart starfsmönnum ríður ekki við einteyming og ljóst að gera verður ófrávíkjanlega kröfu um að starfsmenn njóti sömu verkfallsréttinda og allur íslenskir launamenn njóta.

Verkalýðsfélag Akraness og VR eru nú þegar byrjuð að undirbúa nýja kosningu til að gefa þessum forhertu aðilum færi á því að tefja og tengja aðgerðir með lagaklækjum og öðrum slíkum aðgerðum.

Félagsmenn munu væntanlega fá kjörgögn í næstu viku þar sem kosið verður um verkfall sem byrjar að öllum líkindum í kringum 1. desember og krafan er skýr sömu launahækkanir og allir aðrir hafa fengið og fullur verkfallsréttur eins allt annað launafólk.

Að lokum vill formaður koma því til skila til félagsmanna sem starfa hjá Norðurál að núna ríður á að sína fulla samstöðu því við getum ekki, ætlum ekki og viljum ekki láta sína okkur svona virðingarleysi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image