• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

31
Jan

Verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað jafnmikið á einu ári og Icesave hefði kostað íslensku þjóðina.

Í gær var formanni Verkalýðsfélags Akraness boðið að halda erindi hjá Framsóknarmönnum en fundurinn var haldinn á Grand hóteli og var fundarefnið afnám verðtryggingar og skuldavandi heimilanna. Það er óhætt að segja að fundurinn hafi verið afar góður. Kjaftfullt var út úr dyrum en talið er að yfir 300 manns hefðu mætt á fundinn.

Formaður fór meðal annars yfir málsókn Verkalýðsfélags Akraness vegna ólögmæti verðtryggingarinnar og upplýsti að málshöfðunin byggðist á lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, svokölluðum MiFid reglum.

Einnig fór hann yfir þá grafalvarlegu stöðu sem skuldsett heimili eru nú í en það er óhætt að segja að þau logi nú stafnanna á milli enda er áætlað að uppundir 50% íslenskra heimila séu tæknilega gjaldþrota eða með öðrum orðum, þau skulda meira en þau eiga. Verðtryggðar skuldir heimilanna hafa hækkað frá 1. janúar 2008 um 400 milljarða króna sem sýnir svo ekki verður um villst um hverslags skaðvald er að ræða.

Sláandi samhengi

Formaður setti verðtryggðar skuldir heimilanna í samhengi við þann glæsilega sigur sem náðist hjá íslensku þjóðinni vegna Icesave samninganna. En þjóðin steig eðli málsins samkvæmt trylltan dans yfir þeirri glæsilegu niðurstöðu að íslenskum skattgreiðendum væri ekki gert skylt að greiða skuldir einkabanka. Áhrifamenn og fræðimenn hafa sagt að þessi niðurstaða vegna Icesave dómsins skipti íslenska þjóðarbúið gríðarlegu máli og menn hafa jafnvel talað um að lánshæfismat þjóðarinnar muni lagast í kjölfarið sem og að niðurstaðan muni hafa önnur jákvæð efnahagsleg áhrif. Talið er að Lee Buchheit samningurinn hefði kostað íslenska skattgreiðendur um 64 milljarða króna. Verðtryggðar skuldir íslenskra heimila í dag eru um 1400 milljarðar króna. Verðbólga síðustu 12 mánaða er 4,2% sem þýðir að verðtryggðar skuldir íslenskra heimila hækkuðu um tæpa 60 milljarða á einu ári sem er álíka há upphæð og síðasti Icesave samningur átti að kosta íslenska skattgreiðendur. Á þessu sést hvernig verðtryggingin er að leika íslensk heimili og sýnir svo ekki verður um villst hversu gríðarlega mikilvægt það er að hún verði afnumin með öllum tiltækum ráðum. Já, verðtryggðar skuldir heimilanna hækkuðu nánast um sömu upphæð á einu ári og síðasti Icesave samningur átti að kosta íslenska þjóð.

Formaður fór í sínu erindi yfir skjaldborgina sem íslenskum heimilum hafði verið lofað. Skjaldborgin sem aldrei kom og það nema síður sé. Formaður rifjaði upp á fundinum grein sem fyrrverandi efnahags- og viðskiparáðherra, Gylfi Magnússon, skrifaði 1. júní 2009 en í þeirri grein var hann að fara yfir að íslenska ríkið gæti auðveldlega staðið við skuldbindingar vegna Svavars-samningsins vegna Icesave en sá samningur átti að kosta íslenska skattgreiðendur uppundir 250 milljarða króna.  Í greininni sagði Gylfi meðal annars orðrétt: „Því fer þó fjarri að byrðarnar fyrir ríkið eða þjóðarbúið verði slíkar að engin von sé til að hægt verði að standa undir þeim... Byrðarnar verða engan veginn óbærilegar fyrir þjóðarbúið... Það er sama hvernig reiknað er. Ekkert bendir til annars en að landsmenn geti staðið undir skuldbindingum sínum vegna Icesave.“ Já, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra sagði árið 2009 að það væri ekkert mál fyrir ríkissjóð að taka á sig skuldbindingar sem námu allt að 250 milljörðum króna. Og það vegna skulda einkabanka á erlendri grundu. En hvað skyldi þessi sami ráðherra hafa sagt 8 mánuðum síðar eða 1. febrúar 2010, í viðtali þegar hann var spurður hvort ekki ætti að hjálpa skuldsettum heimilum? Orðrétt sagði Gylfi Magnússon „að engar töfralausnir væru í boði hvað varðar skuldavanda heimilanna. Ekki sé hægt að láta skuldir heimilanna hverfa með einu pennastriki, einhver þurfi að greiða reikninginn.“  Já þessi fyrrverandi skjaldborgarráðherra sagði 8 mánuðum áður að íslenskir skattgreiðendur gætu auðveldlega tekið á sig 250 milljarða skuldbindingu en þegar hann var spurður um hvort hægt væri að gera eitthvað fyrir skuldsett heimili þá var slíkt ekki til umræðu og alþýðu landsins gefið langt nef af stjórnvöldum.

Heimilin fá að brenna

Það kom einnig fram í erindi formanns að allt slökkvistarf núverandi stjórnvalda hefur miðast við það að slökkva elda í fjármálafyrirtækjum, erlendum vogunarsjóðum og hrægammasjóðum. Stjórnvöld hafa brunað á forgangshraða með blikkandi ljós á milli fjármálastofnana og slökkt þar elda á sama tíma og þau hafa horft á heimilin loga stafna á milli. Þau brunuðu meira að segja á forgangshraða eftir Reykjanesbrautinni til Keflavíkur til að slökkva þar eld vegna íkveikju sem átti sér stað í Sparisjóði Keflavíkur. Íkveikju sem kostaði íslenska skattgreiðendur uppundir 30 milljarða króna. En þetta slökkvistarf núverandi stjórnvalda gagnvart fjármálakerfinu hefur kostað íslenska skattgreiðendur  400 milljarða króna samkvæmd ríkisendurskoðanda. Stjórnvöld voru meira að segja áfjáð í að fá að slökkva elda á erlendri grundu eða nánar tiltekið í Bretlandi og Hollandi vegna Icesave samninganna, samninga sem hefðu getað kostað þessa sömu skattgreiðendur hundruð milljarða.

En hvað hefur verið gert fyrir heimilin? Nánast ekki neitt en samt vilja stjórnvöld meina að afskrifaðar hafi verið skuldir hjá heimilunum fyrir yfir 200 milljarða króna. En mat formanns er einfalt hvað það varðar, þetta er kolrangt. Einu alvöru leiðréttingarnar sem heimilin hafi fengið eru í gegnum dómskerfið en samkvæmt dómi Hæstaréttar vegna gengistryggðu lánanna voru skuldir leiðréttar sem námu 150 milljörðum króna. 50 milljarðar hafa fallið niður vegna svokallaðrar 110% leiðar og vegna sértækrar skuldaaðlögunar en rétt er að geta þess að hér var um sokkinn kostnað að ræða hjá fjármálakerfinu eða með öðrum orðum, tapaðar kröfur. En hvað gerðu stjórnvöld þegar dómurinn vegna gengistryggðu lánanna féll árið 2010? Þá ákváðu stjórnvöld að milda áhrif dómsins með því að setja Árna Pálslögin nr. 151/2010 og þetta var gert þrátt fyrir að allar umsagnir til Alþingis kvæðu á um að það stæðist ekki lög að láta vexti gilda afturvirkt. Í Árna Pálslögunum voru Seðlabankavextir látnir gilda afturvirkt en eins og allir vita voru vextir á þessum erlendu lánum mun hagstæðari en vextir Seðlabankans. Já, stjórnvöld ákváðu að slá skjaldborg utan um fjármálakerfið og það er nöturlegt að rifja upp hvað Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði eftir að dómurinn féll um gengistryggðu lánin árið 2010. Hann sagði það fráleita niðurstöðu að hinir erlendu vextir fengju að standa óhaggaðir því slíkt myndi ógna stöðugleika. Það hefur komið fram í fréttum eftir að Árna Pálslögin voru að hluta dæmd ólögleg að þessi lög hefðu kostað heimilin 64 milljarða sem er enn og aftur sama talan og Icesave samningurinn hefði kostað þjóðina. Já það átti að setja 64 milljarða á skuldsett heimili og það þrátt fyrir að allar umsagnir kvæðu á um að slíkt stæðist ekki lög. Ríkisstjórnin sem kennir sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð og lofaði heimilunum skjaldborg ákvað að setja lög til að slá skjaldborg utan um fjármálafyrirtækin og erlenda vogunarsjóði, lög sem hefðu kostað heimilin 64 milljarða eins og áður sagði. Þarna birtist íslenskum heimilum enn og aftur skjaldborgin sem núverandi stjórnvöld lofuðu í hnotskurn.

Áskorun á Sigmund Davíð

Það kom fram í erindi formanns að verðtryggingin og leiðrétting á skuldavanda heimilanna væri brýnasta hagsmunamál íslenskra heimila. Á þeirri forsendu setti formaður fram áskorun á formann Framsóknarflokksins, Sigmund Davíð Gunnlaugsson og krafðist þess að fá skýr svör við því hvort Framsóknarflokkurinn myndi gera það að kröfu sinni ef þeir kæmust í ríkisstjórn að í stjórnarsáttmála stæði með afgerandi hætti að verðtrygging á skuldum heimilanna verði afnumin og leiðrétting á skuldavanda heimilanna komi til. Sigmundur Davíð svaraði formanni með eftirfarandi hætti og verður ekki annað skilið en að þeir muni setja þetta sem skilyrði í stjórnarsáttmála komist þeir í þá stöðu: „Framsóknarflokkurinn mun ekki mynda ríkisstjórn nema tekið verði á skuldavanda heimilanna og verðtryggingin er órjúfanlegur hluti af skuldavandanum.“

Formaður félagsins var afar ánægður með þennan fund og hefur hann margoft sagt það áður að dropinn holar steininn en nú virðist sem að dropinn sé nú þegar farinn að hola steininn og það svo um munar.

30
Jan

Umfjöllun um verðtryggingarmál VLFA sem þingfest var í gær

Þá er prófmál um lögmæti verðtryggingar komið til dómstóla.  Málið var þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur 29. janúar og er málinu stefnt gegn Landsbankanum hf.  Í raun var það tilviljun ein sem réði því hvaða fjármálafyrirtæki varð fyrir valinu sem gagnaðili, vinnist málið verður að telja að niðurstaða þess verði fordæmisgefandi gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum einnig.  Kröfur málsins sem varða verðtrygginguna og lögmæti hennar eru aðallega að ákvæði skuldabréfsins um verðtryggingu sé óskuldbindandi.  Til vara er þess krafist, að viðurkennt verði með dómi að óheimilt sé að uppreikna mánaðarlega höfuðstól skuldabréfsins skv. vísitölu neysluverðs.  Þá fylgir að lokum með krafa í síðari kröfulið stefnunnar, þess efnis að uppgreiðslugjald sem Landsbankinn hf. áskilur sér í stofnskjölum lánsins verði ógilt, en það er í augljósri andstöðu við ákvæði 16. gr. a í lögum um Neytendalán nr. 121/1994, eins og þeim var breytt með lögum 63/2008, en þar er mælt fyrir um að gjaldtaka af slíkum neytendalánum sé með öllu óheimil.

Aðal málsástæður lögmanna Verkalýðsfélags Akraness í þeim hluta málsins sem snýr að verðtryggingunni eru í fyrsta lagi þær að verðtryggingin eins og hún er framkvæmd, fari gegn MiFID tilskipuninni, sem gerir það að kröfu að ekki megi eiga viðskipti með flókna fjármálagerninga (afleiður) við neytendur.  Í öðru lagi er á því byggt, að lánveitingin, framkvæmd greiðsluáætlunar og upplýsingar um birtingu árlegrar hlutfallstölu kostnaðar standist ekki skilyrði neytendalánalaga og þeirra Evróputilskipana sem þau byggja á.  Í þriðja lagi er síðan byggt á því að um sé að ræða ósanngjarna samningsskilmála í skilningi samningalaga og neytendasjónarmiða þeim tengdum.  Með verðtryggingunni og framkvæmd hennar sé allri áhættu af framtíðarverðþróunum í landinu velt yfir á neytendur, um sé að ræða óvenju flókinn skilmála sem í raun enginn leið sé að átta sig á hvaða skuldbindingargildi felist í, því sé um að ræða ósanngjarnan samningsskilmála í skilning laganna og því beri að víkja honum til hliðar (ógilda).  Varakrafan um að óheimilt sé að höfuðstólsfæra verðbætur byggir á þeirri skoðun, að allt frá árinu 2001, hafi verið óheimilt að verðtryggja höfuðstól fjárskuldbindinga hér á landi, heldur einungis greiðslur.  Hagsmunasamtök heimilanna beindu erindi til umboðsmanns Alþingis fyrir einu og hálfu ári vegna þessa.  Umboðsmaður tók málið upp, sendi bréf til Seðlabanka Íslands og krafðist skýringa.  Í svari Seðlabankans kom fram, að bankinn teldi að útfærsla þessa hefði engin áhrif á endanlega efndaskyldu lántakenda, en að vísu treysti Seðlabankinn sér ekki til að senda útreikninga vegna jafngreiðslulána (annuitet), þar sem það væri svo flókið!  Þau lán eru nánast öll húsnæðislán landsmanna, þ.e. þau lán sem fólkið í landinu tók verðtryggð (algengt til 25-40 ára), en ljóst er að afleiðan í tengslum við vaxta- og vaxtavaxtatöku af slíkum lánum, er gegnvænleg, hvað sem snillingarnir í Seðlabankanum segja.   Þar sem umræddur ágreiningur er ekki hluti af því máli sem Hagsmunasamtökin sækja nú gegn Íbúðalánasjóði, þótti lögmönnum Verkalýðsfélags Akraness rétt að grípa boltann og láta á þetta reyna fyrir dómstólum, samfara megin ágreiningi málsins.

Brýnasta hagsmunamál alþýðunnar

Verkalýðsfélag Akraness telur að eitt mikilvægasta kjaramál hins almenna launamanns felist í því að leiðrétta skuldir heimilanna, sem hafa stökkbreyst á síðastliðnum árum, langt umfram launaþróun, á sama tíma og framfærslukostnaður og skattheimta ríkisins hefur stóraukist.  Það er grundvallaratriði ef hægt á að vera að semja um hóflegar launahækkanir verkafólks, að staða og útgjöld heimilanna vegna stökkbreyttra lána verði þá jafnframt leiðrétt.  Stjórn Verkalýðsfélags Akraness var einhuga í því efni að láta á lögmæti verðtryggingarinnar reyna fyrir dómstólum, enda virðist helsta leiðin til réttlætis hér á landi í seinni tíð liggja um dyr dómskerfisins.  Er það miður, enda má til þess ætlast að þjóðkjörnir fulltrúar gæti að hagsmunum venjulegs fólks í störfum sínum, en í stað þess hafa landsmenn mátt þola að horfa uppá grímulausa sérhagsmunagæslu stjórnmálaflokkanna, á meðan heimilum venjulegra landsmanna blæðir út.  Á sama tíma hafa peningaöflin innan Alþýðusambands Íslands algerlega brugðist hlutverki sínu og skyldum við hinn almenna launamann, enda liggur fyrir að þar er að finna nokkra af öflugustu varðhundum verðtryggingarinnar.  Á sama tíma er gríðarlegur verðbólguþrýstingur undirliggjandi og skattahækkanir ríkisstjórnarinnar virka með beinum hætti í þágu banka og fjármálafyrirtækja, enda hækka hinar verðtryggðu skuldir sjálfkrafa við hverja nýja álögu ríkisvaldsins.  Þetta er svikamylla gegn alþýðu landsins, ekkert annað!

Að lokum skorar Verkalýðsfélag Akraness á ríkisstjórnina og Alþingi allt, að kynna sér rækilega málatilbúnaðinn í málinu og bregðast við af ábyrgð.  Því miður var það ekki gert þegar ágreiningurinn um lögmæti gengistryggingarinnar kom upp á fyrri hluta ársins 2009, þá skellti ríkisstjórnin skollaeyrum við málinu og neitaði alfarið að kynna sér efnisatriði þess.  Löggjafarsamkoman hundsaði málið að mestu einnig.  Það varð svo algert uppnám innan stjórnmála- og peningakerfisins þegar ólögmætið var staðfest í Hæstarétti Íslands hinn 16. júní 2010.  Enn sér ekki fyrir endann á þeim málum öllum, enda virðist fjármálakerfið ekki virða lög og reglur nema skv. skipunum Hæstaréttar Íslands í hverju máli fyrir sig.  Vinnist málið um ólögmæti verðtryggingarinnar fyrir dómstólum, er það ekki vilji nokkurs manns að „tjónið“ lendi á ríkissjóði eða skattgreiðendum.  Því er vísasta leiðin til að lágmarka og stýra afleiðingunum að bregðast strax við af ábyrgð og gera þá eðlilegar ráðstafanir til varnar slíkri niðurstöðu í garð ríkisins.  Það er á ábyrgð stjórnmálamanna hvernig til tekst í því efni – til þess eru þeir kjörnir.

29
Jan

Búið að þingfesta verðtryggingarmálið sem VLFA stendur fyrir

Klukkan 10 í morgun var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál sem Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir og snýst um það hvort verðtrygging hér á landi sé ólögmæt eða ekki. Látið verður á það reyna hvort verðtrygging á Íslandi standist lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og tilskipunum Evrópuréttar. Málið lýtur að svokölluðum MiFID neytendaverndarreglum ESB, sem voru lögfestar hér á landi með lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, en samkvæmt þeim er bannað að lána almenningi flókna fjármálagjörninga á borð við afleiður. Þetta er aðalkrafan í stefnunni, en til vara verður látið á það reyna hvort heimilt sé að uppreikna höfuðstól samkvæmt neysluvísitölu.

Ástæða þess að Verkalýðsfélag Akraness fer í þennan málarekstur er sú að fjöldi lögspekinga hefur ýjað að því að þessi áðurnefndu lög heimili ekki verðtryggingu til almennings þar sem um sé að ræða flókna fjármálagjörninga, svokallaðar afleiður. En ekki síður er ástæðan fyrir málsókninni sú að það er orðið fullreynt að stjórnvöld ætli sér að gera eitthvað er lýtur að verðtryggingunni og þeim skelfilega vanda sem af henni hlotist. En verðtryggðar skuldir heimilanna hafa stökkbreyst frá hruni og hafa þær nú hækka um yfir 400 milljarða króna frá 1. janúar 2008. Á meðal annars þessari forsendu sá félagið sig knúið að láta á þetta mál reyna í eitt skipti fyrir öll fyrir dómsstólum.

Það er rétt að geta þess að Hagsmunasamtök Heimilanna þingfestu sitt mál fyrir nokkrum vikum, en það er mikilvægt að fólk átti sig á því að hér er ekki verið að láta reyna á sömu lagaheimildirnar. Hagsmunasamtök heimilanna eru samkvæmt upplýsingum félagsins ekki að láta reyna á það hvort verðtryggingin sé ólögleg eða ekki. Þeir eru hins vegar að láta reyna á það hvort upplýsingaskylda fjármálafyritækja skv. 5., 6. og 7. grein áðurnefndra laga hafi verið uppfyllt, en í þeim greinum er kveðið á um að  heildarlántökukostnaður eigi allur að koma fram á lánasamningum. En eins og almenningur veit þá er oft og tíðum ekki gert ráð fyrir neinni verðbólgu inni í greiðsluáætlunum og það er það sem HH ætla að láta á reyna, að ekki sé verið að fullnægja upplýsingaskyldu lánveitanda.

En eins og áður hefur komið fram lýtur mál Verkalýðsfélags Akraness að allt öðru, þ.e. hvort verðtrygging hér á landi standist lög eða ekki, því það er mat lögmanna félagsins að það sé óheimilt með öllu að lána flókna fjármálagjörninga, svokallaðar afleiður, til einstaklinga.

Stefnan vegna þessa máls er ítarleg og nemur hún á þriðja tug blaðsíðna og það verður afar fróðlegt að sjá hvernig þetta mál fer fyrir dómstólum. Það er mat formanns VLFA að hér sé um að ræða eitt brýnasta mál skuldsettra heimila og alþýðu þessa lands fyrr og síðar og er formaður fullur bjartsýni á að jákvæð niðurstaða muni nást frá dómsstólum í þessu máli.

28
Jan

Flaggað í tilefni sigurs í Icesave-málinu

Verkalýðsfélag Akraness vill óska Íslendingum innilega til hamingju með stórglæsilegan sigur vegna Icesave-málsins. En rétt er að geta þess að stjórn VLFA var alfarið á móti því að semja um þessa greiðslu á sínum tíma og greiddi ávalt atkvæði gegn öllum ályktunum innan verkalýðshreyfingarinnar þar sem kveðið var á um að mikilvægt væri að ganga strax frá samningi við Hollendinga og Breta.

Hann var ótrúlegur sá skefjalausi hræðsluáróður sem haldið var uppi á sínum tíma, m.a. var því á sínum tíma hótað að ekki yrði gengið frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði nema Icesave samningurinn yrði samþykktur. Það er full ástæða til þess að þakka öllum þeim sem börðust af alefli fyrir hagsmunum íslensku þjóðarinnar m.a. In Defence hópnum og þeim stjórnmálamönnum sem höfðu kjark og þor til að standa í lappirnar, en síðast en ekki síst forseta Íslands sem hafði það ómælda hugrekki að gefa þjóðinni kost á að hafa lokaorð í þessu máli.

Í ljósi þessarar glæsilegu niðurstöðu ákváðu starfsmenn félagsins að flagga í tilefni dagsins og ítreka hamingjuóskir til Íslendinga með þessa glæsilegu niðurstöðu.

23
Jan

Launabreytingar 2013

Félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness hækka almennt um 3,25% þann 1. febrúar 2013 auk þess sem reiknitölur og föst álög hækka um 3,25%, en þó ekki lægra en um 9 kr. Athygli er vakin á því að almennir kauptaxtar hækka hins vegar um ákveðna upphæð kr. 11.000,-. Þá verða lágmarkstekjur fyrir fullt starf kr. 204.000,- á mánuði. Unnið er að því að setja nýju taxtana inn á heimasíðu stéttarfélaganna.

Einnig munu laun starfsmanna Elkem Ísland og Klafa hækka frá og með 1. febrúar nk. um 3%.  En laun starfsmanna Norðuráls hækkuðu frá 1. janúar um 3,25% en hægt er að nálgast launataxtana fyrir stóriðjunar hér á heimasíðunni undir kjaramál. 

Hér má sjá kauptaxta sem gilda fyrir þá sem vinna eftir kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness á hinum almenna vinnumarkaði og Samtaka atvinnulífsins.  Kauptaxtana má nálgast hér.

18
Jan

Félagsmenn, munið eftir endurgreiðslu vegna krabbameinsleitar!

Sjúkrasjóður Verkalýðsfélags Akraness veitir félagsmönnum ýmsa styrki vegna kostanaðar við forvarnir og endurhæfingu. Einn er sá forvarnarstyrkur sem er sérstaklega mikið nýttur núna í janúar á meðan leitarstöðin er starfsrækt á Heilsugæslunni á Akranesi, en það er styrkur vegna heilsufarsskoðunar. Það sem af er janúar hafa 60 slíkir styrkir verið skráðir á skrifstofu félagsins sem er sami fjöldi og allan janúarmánuð í fyrra. 

Þær konur sem voru í krabbameinsleit á heilsugæslunni í vikunni geta komið með kvittunina á skrifstofu VLFA og fengið fulla endurgreiðslu hafi þær ekki nýtt styrkinn í eitthvað annað sl. 12 mánuði. Styrkur vegna heilsufarsskoðunar er að hámarki kr. 15.000 á hverjum 12 mánuðum og er hann 50% af kvittunum yfir 4.000 kr., en 100% þegar kvittunin er undir 4.000 kr. Að sjálfsögðu gildir þetta líka um karlmenn sem fara í krabbameinsleit.

Styrk vegna heilsufarsskoðunar er einnig hægt að nýta þegar farið er í skoðun hjá Hjartavernd, í speglanir eða röntgenmyndatökur. Félagsmenn, bæði konur og karlar, eru eindregið hvattir til að kynna sér málið. Það gæti borgað sig.

17
Jan

Fundur um verðtrygginguna í kvöld!

Það er orðið afar algengt að háskólasamfélagið, félagasamtök og stjórnmálaflokkar leiti til formanns Verkalýðsfélags Akraness og óski eftir að hann haldi erindi sem tengd eru verkalýðsmálum og þeim baráttumálum sem Verkalýðsfélag Akraness stendur fyrir.

Núna liggur til dæmis fyrir að formaður félagsins mun flytja erindi á þremur fundum á næstu dögum og vikum. Þeir fundir sem formaðurinn hefur nú þegar bókað sig á eru hjá Rotarý, Sjálfstæðismönnum í Kópavogi og í kvöld kl. 20 mun formaðurinn vera með erindi um verðtrygginguna á opnum fundi um það málefni á vegum Framsóknar en fundurinn verður haldinn í Gamla Kaupfélaginu á Akranesi.

Auk formanns félagsins mun Elsa Lára Arnardóttir, grunnskólakennari, fjalla um hvort hægt sé að lifa með verðtryggðu láni.  Síðan um Elvira Mendez Pinedo, prófessor í Evrópurétti flytja erindi um lögmæti verðtryggingar í ljósi Evrópuréttar. Einnig mun formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ávarpa fundinn.

Formaður hvetur alla til að mæta á þennan fund sem hefst í kvöld kl. 20:00 í Gamla Kaupfélaginu enda verður m.a fróðlegt að hlusta á erindið frá Elviru Mendez en mál sem Verkalýðsfélag Akraness er nú að fara að höfða vegna verðtryggingarinnar byggist m.a á því sem Elvira hefur verið að benda á.  

15
Jan

Nú fá félagsmenn VLFA afslátt hjá Skeljungi og Orkunni

Enn fjölgar samstarfsaðilum VLFA sem bjóða félagsmönnum afslátt og sérkjör. Nú geta félagsmenn notið sérkjara hjá Orkunni og Shell: 6 króna afslátt af lítranum hjá Shell og 5 kr. afslátt hjá Orkunni auk annarra sértilboða eins og sjá má hér.
Til að virkja afsláttinn geta félagsmenn haft samband við skrifstofu félagsins í síma 4309900 eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og fengið uppgefið hópanúmer.

15
Jan

Hækkun iðgjalda í lífeyrissjóð galin

Bullandi sóknarfæri fyrir launahækkun fiskvinnslufólks var ekki nýttRétt í þessu var að ljúka formannafundi Starfsgreinasambands Íslands. Þar fór Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ yfir drög að samkomulagi við Samtök atvinnulífsins vegna endurskoðunarákvæðis í kjarasamningum, en eins og flestir vita þá þarf að liggja fyrir niðurstaða fyrir 21. janúar nk. hvort aðildarfélög ASÍ vilja segja samningum upp eða ekki.  Það verður að segjast alveg eins og er að niðurstaðan í þessum drögum er afar rýr. Þau atriði sem um ræðir í þessu samkomulagi SA og ASÍ eru eftirfarandi:

Gildistími kjarasamninga milli aðila sem undirritaðir voru 5. maí styttist og gilda þeir til 30. nóvember 2013 en ekki 31. janúar 2014. Vissulega er það fagnaðarefni að samningurinn sé styttur um 2 mánuði en formaður vill minna menn á að síðasti kjarasamningur rann út 30. nóvember 2010 en ekki var lokið við gerð nýs kjarasamnings fyrr en 5. maí 2011 eða nánar tiltekið 6 mánuðum eftir að samningurinn rann út og samt var hann ekki látinn gilda frá þeim tíma sem hann rann út. Hins vegar var greidd 50.000 kr. eingreiðsla sem dekkaði alls ekki þá 6 mánuði sem launafólk var án launahækkana.  Á þeirri forsendu verður að tryggja að kjarasamningar gildi frá þeim tíma sem þeir renna út til að koma í veg fyrir það að atvinnurekendur hagnist á því að draga kjarasamningsgerðina úr hófi eins og gert var í síðustu samningum.

Talað er um í þessum drögum að iðgjöld í mennta- og fræðslusjóðina hækki um 0,1% í áföngum. Vissulega ber að fanga þessu en það skondna í þessu er að þetta á ekkert að koma til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2014 og hefur í raun ekkert með þessa endurskoðun á kjarasamningunum að gera, enda hefði það verið í lófa lagið fyrir stéttarfélögin að semja um þetta í næstu samningum.

 Í bókun sem gerð var í kjarasamningunum 2011 er talað um jöfnun á lífeyrisréttindum á hinum almenna vinnumarkaði við opinbera starfsmenn og þar er talað um að hækka iðgjöld í lífeyrissjóði úr 12% í 15,5% eða sem nemur 3,5% á næstu árum. Í þessum drögum sem nú liggja fyrir vegna endurskoðunar er talað um að þessi bókun haldi sér og iðgjöld hækki úr 12% í 15,5% frá árinu 2014 til 2020. Þessu varar formaður Verkalýðsfélags Akraness stórlega við, því það er algert glapræði að setja meira inn í lífeyrissjóðskerfið á hinum almenna vinnumarkaði á meðan kerfið hefur ekki náð að sýna fram á sjálfbærni sína. En í dag er tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða innan ASÍ neikvæð sem nemur 100 milljörðum og það þrátt fyrir að búið sé að skerða lífeyrisréttindi á hinum almenna vinnumarkaði um 130 milljarða frá hruni. Á þessari forsendu leggst Verkalýðsfélag Akraness alfarið gegn því að framlagið verði aukið um 3,5% á næstu árum því það er engin ástæða fyrir sjóðsfélaga að leggja meira inn í þessa hít á meðan sjóðirnir geta ekki sýnt fram á að þeir geti staðið við sínar skuldbindingar nú þegar.

Í málflutningi stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness hefur margoft komið fram að hafi menn í hyggju að segja upp samningum þá verði að fara fram allsherjaratkvæðagreiðsla á meðal allra félagsmanna sem vinna eftir kjarasamningunum. Það getur ekki verið hlutverk fámenns hóps að taka slíka ákvörðun, eins og gerðist m.a. við endurskoðun kjarasamninganna 2009 þegar umsamdar launahækkanir voru hafðar af launafólki með því að fresta þeim um nokkra mánuði. Verkalýðsfélag Akraness hefur sagt að hafi atvinnugreinar burði og getu til að hækka laun, eins og t.d. útgerðarfyrirtækin, þá eigi þau að gera slíkt, enda voru gerð stórfelld mistök í síðustu kjarasamningsgerð með svokallaðri samræmdri launastefnu þar sem ekki mátti taka tillit til sterkrar stöðu útgerðarfyrirækja. En nú er komið í ljós að það er sögulegur hagnaður hjá útgerðinni en hreinn hagnaður hennar á síðasta ári nam 60 milljörðum króna.

11
Jan

Matarverð hækkað um 115%!

Síðastliðinn miðvikudag var formaður félagsins í viðtali í Reykjavík síðdegis þar sem formaður spurði hvort það væri virkilega þannig að enginn hefði eftirlit með mælingu Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að mælingin hefur gríðarleg áhrif á skuldir heimila og fyrirtækja. Sem dæmi þá hækkaði neysluvísitalan um 1% á milli mánaða í febrúar 2012 sem gerði það að verkum að verðtryggðar skuldir heimilanna hækkuðu um 14 milljarða króna og það bara á 29 daga tímabili. Á síðustu 12 mánuðum hafa bara verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um tæpa 60 milljarða en rétt er að geta þess að frá 1. janúar 2008 hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hins vegar hækkað yfir 400 milljarða. Á þessu sést hverlags grímulaust rugl þessi verðtrygging er gagnvart skuldsettum heimilum enda hefur verðtrygging gert það að verkum að uppundir 50% af heimilum landsmanna eru tæknilega gjaldþrota.

Í mínum huga liggur það algerlega fyrir að framkvæmd mælinga neysluvísitölunnar þarf að vera hafin yfir allan vafa í ljósi þeirrar staðreyndar að verið er að mæla verðlagsbreytingar á 4.000 vöruflokkum í hverjum mánuði. Ástæða þess að mælingin þarf að vera hafin yfir alla vafa er augljós enda eru milljarða tugir að færast frá skuldsettum heimilum og fyrirtækjum yfir til fjármálafyrirtækja og þeirra sem eiga fjármagnið í þessu landi og upphæðin ræðst af því hversu mikið neysluvísitalan hækkar. Á þeirri forsendu skilur formaður félagsins alls ekki þann gríðarlega leyndarhjúp sem liggur yfir störfum þeirra sem vinna við mælingu á neysluvísitölunni og kallar formaður því eftir skýrum svörum um hver hefur eftirlit með störfum þeirra en formaður hefur reyndar grun um enginn sjái um þetta eftirlit.

Það liggur fyrir að Hagstofan segist virða trúnaðarskyldur við þátttakendur í mælingum og gefur ekki þriðja aðila upplýsingar um hvar eða hvað er mælt og segist alls ekki gefa upp upplýsingar um einstakar vörur eða verðmælingar þeirra, það er þessi leyndarhjúpur sem formaður gagnrýnir harðlega.  Formaður spyr: hví í ósköpunum eiga t.d. fulltrúar heimilanna eða launafólks ekki sæti í þessari nefnd til að sinna eftirliti með að mælingin sé örugglega rétt framkvæmd í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru í húfi.

En er neysluvísitalan rétt mæld?

Um það hef formaðurinn engar forsendur til að meta enda ríkir mikil leynd yfir öllum störfum Hagstofunnar hvað mælinguna varðar og má eiginlega segja að nefndin starfi inní reykfylltum bakherbergjum og allt bendir til þess að það sé án nokkurs eftirlits. Það skiptir gríðarlegu máli að almenningur hafi vitneskju um verðlagsþróun, ekki aðeins vegna áhrifa neysluvísitölunnar á verðtryggðar skuldir landsmanna, heldur einnig vegna þróunar kaupmáttur launafólks á milli ára.

Fjölmargir félagsmenn hafa haft samband við formann félagsins og kvartað sáran yfir þeim skefjalausu hækkunum sem dunið hafa á neytendum á liðnum árum og það úr öllum áttum. Ríki, sveitarfélög, tryggingafélög, orkufyrirtæki, verslunareigendur og aðrir þjónustuaðilar hafa varpað sínum vanda grímulaust yfir á neytendur og eru heimilin gjörsamlega að sligast undan öllum þessum verðhækkunum.

Nokkrir aðilar hafa nefnt við formann að þeir hafi það á tilfinningunni að verðhækkanir undanfarin misseri séu heldur meiri en hækkun neysluvísitölunnar segir til um og vilja meina að staðan sé fegruð með því láta hækkun neysluvístölunnar vera minni en hún er í raun. Formaður vill taka fram að hann vonar að þetta sé ekki raunin enda er verðbólgan næg fyrir og maður hefur eins áður sagði ekki nokkra forsendur til að gefa sér af mælingin sé ekki rétt hjá Hagstofunni.

Hins vegar var formanni hugsað sterklega til þeirra einstaklinga sem hafa nefnt þessar áhyggjur við formanninn  þegar hann fékk fyrir fáeinum dögum send gögn frá manneskju sem sýna að vöruverð í Bónus hefur hækkað að meðaltali um 115% frá júní 2007 til desember 2012 á þeim vörutegundum sem hann keypti. Málið er að þessi einstaklingur keypti 40 vörur Bónus í júní 2007 og geymdi strimilinn. Í desember 2012 fór viðkomandi aftur í Bónus og keypti nákvæmlega sömu 40 vörunar og bar síðan saman strimlana. Þá kom í ljós að á þessu tímabili höfðu þessar vörur hækkað gríðarlega eða eins og áður sagði að meðaltali um 115%. Þessi einstaklingur nefndi einnig að á sama tímabili hafi bensínverð hækkað um 101%. Hins vegar var hækkun neysluvísitölunnar fyrir sama tímabil eða frá júní 2007 til desember 2012 einungis 47,6%.

Formaður verður að viðurkenna að hann hrekkur ögn við þegar hann skoðar þetta í ljósi þess að verð á þessum vörum hækkaði um 115% og bensínverð um 101% en neysluvísitalan hækkaði um rúm 47% á sama tíma.  Vissulega eru þetta fáar vörutegundir sem um ræðir en það er ekki ein einasta vara sem hefur hækkað um minna 47% og því gefur þessi mikla verðhækkun vísbendingar um þær gríðarlegu verðhækkanir sem orðið hafa á undanförnum árum.

Getur verið að verðlagshækkanir séu mun meiri en Hagstofan mælir? Alla vega benda þær upplýsingar sem þessi einstaklingur gaf mér til þess að svo sé.  Formaður félagsins spyr: geta verslunareigendur blekkt Hagstofuna þegar verðkannanir eiga sér stað mánaðarlega?  Það hefur alla vega komið fram hjá Hagstofunni að verslanir og fyrirtæki viti í flestum tilvikum ef þau eru þátttakendur í mælingu á vísitölu neysluverðs.

Í ljósi þeirrar staðreyndar að gríðarlegir hagsmunir er hér í húfi þá krefst formaður þess að upplýst verði hvort einhverjir hafi eftirlit með mælingum Hagstofunnar og fari yfir störf hennar og ef svo er, hverjir það eru. Þessi leyndarhjúpur yfir mælingu á neysluvísitölunni er ólíðandi með öllu og getur ekki verið eðlilegur í ljósi þeirra hagsmuna sem almenningur í þessu landi hefur af því að hún sé rétt framkvæmd og því kallar formaður eftir gagnsæi á störfum hennar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image