• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Formaður á fundi hjá Sjálfstæðismönnum vegna verðtryggingarinnar Pétur Blöndal hélt einnig erindi á fundinum
11
Feb

Formaður á fundi hjá Sjálfstæðismönnum vegna verðtryggingarinnar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur formaður félagsins verið beðinn um að halda erindi hjá fjölmörgum aðilum, jafnt stjórnmálaflokkum sem og félagasamtökum á undanförnum misserum og árum.

Um helgina hélt formaðurinn meðal annars erindi hjá Sjálfstæðismönnum í Kópavogi en ásamt formanni var Pétur Blöndal einnig með erindi. Erindi hans laut að kostum og göllum á verðtryggingu en erindi formanns fjallaði um skuldavanda heimilanna, afnám verðtryggingar og lífeyrissjóðina. Fram kom í máli Péturs að hann væri á móti verðtryggingu en eftir að hann hafði flutt erindið var nú ekki annað að skilja á honum en að hann teldi nauðsynlegt að viðhalda henni til að verja sparnaðinn hér á landi. Pétur sagði einnig að verðbólgan væri ekkert annað en sjúkdómseinkenni. Í ljósi þessara ummæla hans spurði formaður Pétur hvort það væri eðlilegt að ákveðnir aðilar, það er að segja lánveitendur, fjármálafyrirtækin og fjármagnseigendur séu bólusettir í bak og fyrir gegn þessum sjúkdómi og fái alla þá lyfjaGJÖF sem til þarf til að forðast þennan sjúkdóm en á sama tíma séu skuldararnir látnir kveljast eins og enginn sé morgundagurinn og fá ekki einu sinni líknandi meðferð við þessum sjúkdómi.

Formaður fór einnig yfir þá grafalvarlegu stöðu sem lífeyrissjóðskerfið okkar er í en eins og fram hefur komið í skýrslu frá Fjármálaeftirlitinu þá er búið að skerða réttindi á hinum almenna vinnumarkaði um 130 milljarða frá hruni og kerfið í heild sinni vantar 700 milljarða til að geta staðið við sínar framtíðarskuldbindingar gagnvart sínum sjóðsfélögum. Formaður spurði í ljósi þessara staðreynda hvort það væri eðlilegt að launafólk á hinum almenna vinnumarkaði sem mátt hefur þola áðurnefnda skerðingu þurfi einnig að taka á sig ábyrgð á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna en halli í lífeyrissjóðskerfi þeirra nemur um 600 milljörðum króna og er þessa mikla halla ekki einu sinni getið í ríkisreikningi.

Það kom skýrt fram í máli formanns að brýnasta hagsmunamál íslenskrar alþýðu í dag er afnám verðtryggingar og að sett verði vaxtaþak á óverðtryggða vexti vegna húsnæðiskaupa einstaklinga. Einnig er ekki hjá því komist að leiðrétta þann skelfilega forsendurbrest sem varð á skuldum heimilanna og kom fram í máli formanns að þar verði allir að koma að máli - fjármálastofnanir, lífeyrissjóðir, Seðlabankinn og ríkissjóður. Við megum ekki gera það sama og Japanir gerðu en þar var ekki tekið á skuldavandanum á sínum tíma sem hefur gert það að verkum að Japan hefur verið án hagvaxtar í ein 20 ár og þar hefur ríkt algjör stöðnun. Það er nefnilega mikilvægt að menn átti sig á því að það getur kostað íslenskt samfélag gríðarlega fjármuni að gera ekki neitt varðandi skuldavanda heimilanna og því er það dálítið undarlegt að menn spyrji aldrei út í þann kostnað.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image