• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
15
Feb

Óskað eftir upplýsingum frá Landssamtökum lífeyrissjóða

Formaður VLFA hefur sent fyrirspurn til Þóreyjar S. Þórðardóttur framkvæmdastjóra LL varðandi tap lífeyrissjóðanna vegna gjaldmiðlavarnarsamningannaEins og fram kom í úttektarskýrslu um lífeyrissjóðina sem var gerð opinber í fyrra töpuðu lífeyrissjóðirnir uppundir 500 milljörðum króna af lífeyri launafólks. Af þessum 500 milljörðum voru 36,4 milljarðar bókfærðir sem tap hjá lífeyrissjóðunum vegna gjaldmiðlavarnarsamninga. Hinsvegar var skýrt kveðið á um það í úttektarskýrslunni að hugsanlega væri uppundir 70 milljarða tap til viðbótar vegna gjaldmiðlasamninganna. Ástæðan fyrir því var sú að lífeyrissjóðirnir vildu gera gjaldmiðlasamningana upp á gengisvísitölunni 175 en slitastjórnir Kaupþings og Glitnis vildu gera þessa samninga upp á því gengi sem var þegar samningarnir runnu út.

Fram kom í fréttum fyrir nokkrum vikum síðan að lífeyrissjóðirnir væru búnir að ná samningum við slitastjórn Kaupþings vegna þessara samninga en það kom einnig fram í fréttum að innihald samninganna væri leyndarmál á milli lífeyrissjóðanna og slitastjórnar Kaupþings. Hinsvegar kom fram hjá Arnari Sigmundssyni sem var í forsvari fyrir lífeyrissjóðina við gerð þessara samninga að „þeir“ væru nokkuð sáttir með innihaldið. Það er með ólíkindum að sjóðsfélagarnir sem eiga þessa fjármuni skuli ekki vera upplýstir um gerð þessara samninga og hvert hugsanlegt viðbótartap lífeyrissjóðanna er vegna þeirra. Sérstaklega í ljósi þess að þessir samningar voru harðlega gagnrýndir, bæði í rannsóknarskýrslu Alþingis sem og í úttektarskýrslunni og ýjað var sterklega að því að þeir stæðust vart lög.

Á þessum forsendum er gríðarlega mikilvægt að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna upplýsi sjóðsfélagana um þessa samninga því það er óþolandi með öllu að verða vitni að því hvernig forsvarsmenn lífeyrissjóðanna haga sér og neita að upplýsa eigendur fjármunanna um þá samninga sem gerðir hafa verið, meðal annars vegna gjaldmiðlasamninganna, og hvert tapið er. Enda er mikilvægt fyrir forsvarsmenn lífeyrissjóðina að muna að það eru sjóðsfélagarnir sem eiga þessa fjármuni og hafa fullan rétt á að fá upplýsingar um hvernig þeim er varið.

Nú hefur komið fram að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafa verið í miklu stríði við slitastjórn Glitnis vegna ofurlauna og ofurkjara sem slitastjórnin hafði en það skal tekið skýrt fram að formaður VLFA er algjörlega sammála forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna hvað þetta varðar því þarna er græðgivæðingin algjör.

Hinsvegar vekur það furðu að einungis sé krafist upplýsinga hvað varðar ofurlaun slitastjórnar Glitnis en ekki slitastjórna Landsbankans eða Kaupþings. Getur það verið að ástæðan fyrir því sé að búið sé að ná samningum við slitastjórnir Kaupþings og Landsbankans en ekki Glitni? Einfaldlega vegna þess að nú liggur fyrir að slitastjórn Glitnis er t.d búin að stefna Lífeyrissjóði Verslunarmanna vegna þessara gjaldmiðlasamninga og hefur krafið lífeyrissjóðinn um 19 milljarða vegna þeirra. Eru forsvarsmenn lífeyrissjóðsins að hlífa hinum slitastjórnunum á grundvelli áðurnefndra samninga en ætla að ganga fram af fullri hörku gagnvart slitastjórn Glitnis vegna þess að þeir hafa ekki náð samningum við þá, spyr sá sem ekki veit.

Á grundvelli alls þessa og þeirrar leyndarhyggju sem ríkt hefur yfir viðbótartapi lífeyrissjóðanna vegna þessara glórulausu gjaldmiðlasamninga hefur formaður VLFA lagt fram spurningar til framkvæmdastjóra Landssambands lífeyrisssjóðanna, Þóreyjar Þórðardóttur, þar sem þess er krafist að fá upplýsingar um hvert tap sjóðanna er vegna þessara gjaldmiðlasamninga til viðbótar því sem fram kemur í úttektarskýrslunni og einnig hvað samningurinn við slitastjórn Kaupþings hljóðaði upp á. Einnig óskaði formaður eftir skýringum á því við framkvæmdastjóra Landssambands lífeyrissjóðanna , af hverju forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafa ekki krafið slitastjórnir Kaupþings og Landsbankans um upplýsingar um gjaldskrár og launakjör eins og gert var við slitastjórn Glitnis. Það vekur alla vega upp furðu hjá formanni VLFA af hverju hinar slitastjórnirnar eru ekki einnig krafðar um sambærilegar upplýsingar  um launakjör og kostnað eins og slitastjórn Glitnis.

Þess vegna skal ítrekað að það er mikilvægt fyrir forsvarsmenn lífeyrissjóðanna að átta sig á því að þetta eru peningar launafólks og því ber þeim skylda til að upplýsa sjóðsfélaga um hvert heildartap lífeyrissjóðanna var vegna þessara glórulausu gjaldmiðlasamninga því það er nöturlegt til þess að vita að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna beri fyrir sig leyndarhyggju þegar um lífeyri launafólks er að ræða.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image