• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

24
Sep

Trúnaðarmannanámskeið á Sunnubrautinni

Í dag og á morgun stendur yfir trúnaðarmannanámskeið í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13. Í dag var farið yfir lestur launaseðla og sátu trúnaðarmenn sveittir yfir launaútreikningum, vaktaálagi og skattþrepum. Á morgun verður farið yfir samskipti á vinnustað og þau skoðuð frá ýmsum hliðum.

Kennarar á námskeiðinu eru þau Guðmundur Hilmarsson og Sigurlaug Gröndal, en þau starfa hjá Félagsmálaskóla Alþýðu.

19
Sep

Er verðtrygging á neytendalánum ólögleg? - Lögfræðilegt álit

Það er mat stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness að afnám verðtryggingar á neytendalánum til einstaklinga sé eitt af þeim aðalhagsmunamálum sem nú þurfi að berjast fyrir með kjafti og klóm. Á þeirri forsendu hefur stjórn og trúnaðarráð ákveðið að leggja fyrir ársþing ASÍ þann 17. október nk. tillögu að ályktun um afnám verðtryggingar á neytendalánum. Enda hefur verðtryggingin leikið skuldsett heimili skelfilega á liðnum árum og áratugum og sem dæmi þá hafa verðtryggðar skuldir heimilanna hækkað um allt að 400 milljarða frá 1. janúar 2008 vegna hækkunar á neysluvísitölunni.

Töluvert hefur verið í umræðunni um að hugsanlega sé verðtrygging á neytendalánum til einstaklinga ólögleg og hafa nokkrir lögmenn fjallað um það í opinberri umræðu á undanförnum mánuðum. Sökum þess hversu gríðarlegir hagsmunir hér eru í húfi fyrir skuldsett heimili ákvað stjórn Verkalýðsfélags Akraness að óska eftir ítarlegu áliti hjá lögmannsstofunni Lögmenn Laugardal ehf. á því hvort verðtrygging á Íslandi væri ólögleg.

Það voru hæstaréttarlögmaðurinn Björn Þorri Viktorsson og héraðsdómslögmaðurinn Bragi Dór Hafþórsson sem unnu 19 síðna álitsgerð um álitaefni í tveimur liðum:

1.      Mögulegt ólögmæti verðtryggingar á Íslandi skv. lögum um neytendalán nr. 121/1994 og tilskipunum Evrópuréttar.

2.      Mögulegt ólögmæti verðtryggingar á Íslandi skv. lögum um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og tilskipunum Evrópuréttar.

Í niðurstöðu úr fyrri spurningunni segir meðal annars:

"Því þurfi svör við þeirri spurningu hvort verðbætur geti talist kostnaður vegna lántökunnar sem lánveitanda hafi borið að upplýsa neytanda um, í aðdraganda lánveitingarinnar. Ekki er gert ráð fyrir verðbótum í umræddri tilskipun enda þekkist verðtrygging ekki í EES ríkjunum þegar um er að ræða lánveitingar til neytenda. Ljóst er þó að verðbætur mynda stóran hluta endanlegs uppgreiðslukostnaðar þegar verðtryggð lán eru annars vegar. Telja undirritaðir að það hljóti að hafa verið tilgangur tilskipunarinnar að ná utan um allan beinan kostnað sem verður vegna lántökunnar og að neytendur eigi ávallt rétt á þeim upplýsingum. Annað fæli í sér mikið frávik frá megin markmiðum umræddrar tilskipunar. Komi í ljós að tilskipunin hafi verið ranglega innleidd í íslenskan rétt þá getur komið til skoðunar hvort íslenska ríkið beri skaðabótaábyrgð vegna þessa, hvort aðili geti sannað tjón sitt og þá hvort orsakatengsl séu milli hinnar röngu innleiðingar og þess tjóns sem aðili hefur orðið fyrir. Gæti þetta því haft í för með sér stórkostlega skaðabótahættu fyrir íslenska ríkið sé tekið mið af öllum þeim verðtryggðu lánasamningum sem gerðir hafa verið við neytendur frá gildistöku tilskipunarinnar."   

Í niðurstöðu úr seinni spurningunni segir meðal annars: 

"Að gefinni þeirri forsendu að skuldabréf eða lánssamningar teljist vera afleiðusamningar, þar sem þeir tengist vísitölu og séu verðbréf í skilningi 2. gr. laganna, þá telja undirritaðir að slíkir gerningar hljóti að auki að vera flóknir fjármálagerningar. Ef svo er þá hafi ekki mátt bjóða neytendum slíka samninga, nema því skilyrði hafi verið fullnægt að fjármálafyrirtæki hafi með sannarlegum hætti óskað eftir upplýsingum um þekkingu og reynslu viðskiptavinar, til þess að geta metið hvort varan hafi verið viðeigandi fyrir umræddan viðskiptavin, sbr. 1. mgr. 16. gr., eða þá að viðskiptavinur hafi fengið samþykkt að hann teldist fagfjárfestir í skilningi 24. gr. vvl. Þýðir þetta í raun að mati undirritaðra að fjármálafyrirtækjum hafi verið óheimilt að bjóða til sölu og selja almennum fjárfestum (neytendum) verðtryggða lánssamninga eða skuldabréf þar sem uppgjör lánsins var bundið vísitölu neysluverðs, að gefinni framangreindri forsendu."

Á þessu lögfræðilega áliti sést að það eru veruleg álitamál um það hvort verðtrygging á neytendalánum standist lög. Því er afar brýnt að t.d. Alþýðusamband Íslands láti á það reyna fyrir dómsstólum hvort verðtrygging á neytendalánum standist lög eða ekki. Það er morgunljóst að meiri hagsmunir fyrir félagsmenn innan Alþýðusambands Íslands er vart hægt að finna því eins og áður hefur verið rakið hér hefur verðtryggingin leikið íslensk heimili skelfilega á liðnum árum og áratugum.

Hægt er að lesa lögfræðilega álitið í heild sinni með því að smella hér.

18
Sep

Atvinnuleitendur sviknir um tugi ef ekki hundruð milljóna

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur svikið fjölmörg samkomulög við verkalýðshreyfingunaRíkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur svikið fjölmörg samkomulög við verkalýðshreyfingunaÞað er grátbroslegt að heyra stjórnvöld státa sig af því að þeim hafi á tímum niðurskurðar og skattahækkana tekist að standa vörð um þá sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi.  Og hverjir skyldu það vera sem standa hvað höllustum fæti í íslensku samfélagi í dag? Jú, það eru þeir sem hafa orðið að þola það að missa atvinnuna vegna hrunsins og reyna nú að láta enda ná saman til að framfleyta sér og sinni fjölskyldu. Það er hins vegar morgunljóst að það er útilokað fyrir þá 8.200 sem eru nú án atvinnu að framfleyta sér á þeim grunnatvinnuleysisbótum sem atvinnuleitendur eiga rétt á, en þær nema í dag 167.176 kr.

Það sorglega er að núverandi ríkisstjórn hefur svikið grimmilega ýmis samkomulög og yfirlýsingar sem verkalýðshreyfingin hefur gert við stjórnvöld samhliða kjarasamningum undanfarinna ára og það m.a. gagnvart þeim sem eiga í mestum erfiðleikum í okkar samfélagi, þeim sem eru atvinnulausir og gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum.

Ef ríkisstjórn Íslands hefði haft manndóm í sér til að standa við þau loforð sem hún gaf verkalýðshreyfingunni samhliða kjarasamningum bæði 17. febrúar 2008 sem og 5 maí 2011, loforð er lúta að hækkun atvinnuleysisbóta, þá væru grunnatvinnuleysisbætur í dag ekki 167.176 kr. heldur 179.023 kr. og er hér um að ræða mismun sem nemur tæpum 12.000 kr. á mánuði fyrir hvern þann einstakling sem þiggur grunnatvinnuleysisbætur.

Já, hver hefði trúað því að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð, félagshyggju, jöfnuð og réttlæti skuli voga sér að svíkja samkomulög við verkalýðshreyfinguna um hagsmuni þeirra sem orðið hafa fyrir atvinnumissi jafn miskunnarlaust og raun ber vitni.  Það er á kristaltæru að atvinnuleitendur munar svo sannarlega um 12.000 kr. á mánuði og sorglegt til þess að vita að ríkisstjórn félagshyggjunnar hafi svikið atvinnuleitendur um greiðslur sem nema tugum ef ekki hundruðum milljónum króna á liðnum árum.

Formaður félagsins vill taka það skýrt fram að áðurnefnd atriði eru alls ekki það eina sem núverandi ríkisstjórn hefur svikið í þeim samkomulögum sem verkalýðshreyfingin hefur gert samhliða kjarasamningum. Í því samhengi nægir að nefna samkomulag um verðtryggingu persónuafsláttar sem gert var við fyrrverandi stjórnvöld bæði 2006 og 2008, en núverandi stjórnvöld sviku það samkomulag illilega árið 2009.  Persónuafslátturinn ætti að vera alla vega 7.000 kr. hærri en hann er í dag ef stjórnvöld hefðu staðið við áðurnefnd samkomulög.

Á að stefna stjórnvöldum fyrir dómstóla ?

Formaður veltir því fyrir sér hvaða þýðingu undirrituð samkomulög og yfirlýsingar við stjórnvöld hafi fyrir verkalýðshreyfinguna. Er það virkilega þannig að stjórnvöld geti svikið öll þau samkomulög sem gerð eru samhliða kjarasamningum eins og ekkert sé og það án nokkurra afleiðinga.  Það liggur fyrir að verkalýðshreyfingin lítur á þessi samkomulög við stjórnvöld klárlega sem hluta af þeim kjarasamningum sem gerðir eru. Rétt er að benda á að þessi samkomulög við stjórnvöld eru kynnt fyrir félagsmönnum samhliða kynningum á kjarasamningum og því geta samkomulög og yfirlýsingar við stjórnvöld oft ráðið úrslitum hvort kjarasamningar sé samþykktir eða felldir.

Formaður veit hvað gerist þegar atvinnurekendur standa ekki við gerða samninga, jú þeim er stefnt fyrir dómstóla.  Því er algerlega spurning hvort ekki eigi að stefna ríkisstjórn Íslands fyrir dómstóla vegna síendurtekinna svika við alþýðu þessa lands og krefjast þess að stjórnvöld standi við þau samkomulög sem undirrituð hafa verið í hinum ýmsu málum.

Það er eins og áður sagði þyngra en tárum taki að ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð skuli koma svona fram við alþýðufólk í þessu landi.  Ríkisstjórn sem státar sig af því að slá skjaldborg um þá sem standa hvað verst, formaður heldur að þessi svik sem hann hefur rakið hér sýni svo ekki verður um villst að það er algert bull og kjaftæði.      

14
Sep

Dagsferð "eldri deildar" VLFA - ferðasaga

Einn af föstum liðum í starfsemi Verkalýðsfélags Akraness er ferð þeirra félagsmanna sem eru 70 ára og eldri, en félagið hefur árlega boðið þessum hópi og mökum þeirra í dagsferð. Á liðnum árum hefur þessi hópur gert víðreist og m.a. farið um Snæfellsnes, Vesturland, Suðurland, til Vestmannaeyja og í fyrra var farið í menningarferð til Reykjavíkur.

Í gærdag var komið að dagsferð eldri deildar og að þessu sinni var ferðinni heitið í suðurátt undir dyggri leiðsögn Björns Inga Finsen. Þátttakendur voru 115 talsins og var ekið í tveimur rútum suður Hvalfjarðargöng eftir Vesturlandsvegi og síðan til austurs yfir Mosfellsheiði og Grafninginn meðfram Þingvallavatni. Veður var mun betra en veðurspár höfðu gefið vonir um og gat ferðafólk notið haustlitanna og fagurrar fjallasýnar.

Fyrsti áningarstaður var Strandarkirkja í Selvogi en þar tók Silvía Ágústsdóttir kirkjuvörður á móti hópnum og sagði aðeins frá sögu kirkjunnar en fjölmargar helgisagnir eru henni tengdar og hefur hún verið vinsæl til áheita.

Frá Strandarkirkju var ekið áfram vestur hinn nýja Suðurstrandarveg til Grindavíkur þar sem hópsins beið hádegisverður á Salthúsinu. Þar fengu sumir sæti í Paradís á meðan aðrir gengu inn um Gullna hliðið og gerðu veitingunum góð skil.

Eftir hádegisverð og rjúkandi kaffisopa í Grindavík var haldið til Víkingaheima í Reykjanesbæ, en það safn tekur á nýstárlegan hátt fyrir þátt Íslands í landafundum Norður-Ameríku.  Þar má finna víkingaskipið Íslending sem sigldi til Ameríku sumarið 2000 og einnig eru fleiri sýningar í húsinu sem tengjast sögu víkinga í Norður-Atlantshafi. Þegar Víkingaheimar höfðu verið skoðaðir var haldið út á Reykjanesbraut, í gegnum Hafnarfjörð og út á Álftanes því komið var að hápunkti ferðarinnar, en ferðafólk hafði mælt sér mót við forseta Íslands á Bessastöðum.

Móttakan á Bessastöðum var með miklum glæsibrag, en þar tók Hr. Ólafur Ragnar Grímsson á móti hópnum, heilsaði hverjum og einum með handabandi og bauð upp á hressingu. Forsetinn ávarpaði hópinn og rifjaði m.a. upp brot úr sögu Bessastaða sem full er af andstæðum og minnti fólk á hversu stuttur tími er í raun liðinn frá því Jón Hreggviðsson sat í varðhaldi í dýflissu á Bessastöðum á 17. öld og Fjölnismenn og aðrir leiðtogar sjálfstæðisbaráttu Íslendinga fengu sitt veganesti í Latínuskólanum á Bessastöðum á 19. öld.

Eftir gott spjall við forsetann var hópnum gefinn kostur á að skoða hið sögufræga hús hátt og lágt undir leiðsögn forsetans og hans góða starfsfólks, eða eins og forsetinn orðaði það: „látið bara eins og heima hjá ykkur“.

Það var stoltur og ánægður hópur sem kvaddi Bessastaði og hélt inn í Reykjavík þar sem boðið var upp á síðdegishressingu, kaffi og tertusneið, á Múlakaffi áður en haldið var upp á Skaga.

Þykir ferðin í ár hafa heppnast einstaklega vel og kann félagið öllum þeim sem að undirbúningi og framkvæmd hennar komu bestu þakkir fyrir. Sérstakar þakkir fær hinn fróði Björn Ingi Finsen sem  miðlaði sögum og fróðleik og leiddi hópinn af miklum myndarskap eins og honum einum er lagið.

Myndir úr ferðinni er að finna hér.

13
Sep

Myndir úr dagsferð "Eldri deildar" VLFA komnar á heimasíðuna

Í gærdag fór "Eldri deild" Verkalýðsfélags Akraness dagsferð sína en þessi ferð er einn af föstum liðum í starfsemi Verkalýðsfélags Akraness. Myndir úr ferðinni eru komnar á heimasíðunna og verður ferðasagan sett hér á heimasíðuna á morgun.

11
Sep

Trúnaðarmannanámskeið verður haldið 24. og 25. september

Dagana 24. og 25. september nk. býður Verkalýðsfélag Akraness trúnaðarmönnum sínum á námskeið. Um er að ræða 2. þrep, en á síðasta námskeiði sem haldið var í febrúar var farið í gegnum 1. þrepið. Á fyrri degi námskeiðsins fræðast trúnaðarmenn um lestur launaseðla og seinni daginn verður farið yfir samskipti á vinnustað.

Starf trúnaðarmanna er afar mikilvægt fyrir starfsemi félagsins og þurfa þeir að taka á ýmsum erfiðum málum í sínu starfi. Námskeiðinu er ætlað að gera trúnaðarmönnunum betur kleift að takast á við starf sitt. Samkvæmt kjarasamningum er trúnaðarmanni heimilt að sækja slík námskeið í allt að eina viku á ári án skerðingar á dagvinnulaunum.

Skráning á námskeiðið stendur nú yfir á skrifstofu VLFA í síma 4309900.

05
Sep

Ferð eldri félagsmanna í undirbúningi

Núna stendur sem hæst skráning í dagsferð eldri félagsmanna Verkalýðsfélags Akraness, en í síðustu viku fengu allir félagsmenn 70 ára og eldri boðsbréf frá skrifstofu félagsins. Yfir 100 manns hafa þegar skráð sig og eru aðeins örfá sæti laus.

Þessi ferð er árlegur liður í starfsemi félagsins, en síðustu ár hefur hópurinn gert víðreist og m.a. farið um Snæfellsnes, Vesturland, Suðurland, til Vestmannaeyja og í fyrra var farið í menningarferð til Reykjavíkur. Í ár er ferðinni heitið á ýmsa viðkomustaði á Reykjanesi og nágrenni þess, m.a. mun forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, taka á móti hópnum á Bessastöðum seinnipartinn. Félagið býður upp á hádegisverð og aðrar veitingar um kaffileytið.

Ferðasagan verður birt hér á heimasíðunni að ferð lokinni. Áhugasamir geta skoðað myndir úr ferðinni 2011 hér.

04
Sep

Starfsmaður óskast

Verkalýðsfélag Akraness óskar eftir öflugum starfskrafti í 75% starf á skrifstofu félagsins.  Vinnutími er frá kl. 10 til 16. Um framtíðarstarf er að ræða á lifandi vinnustað.

Í starfinu felst öll almenn þjónusta við félagsmenn svo sem símsvörun, iðgjaldaskráning og önnur tilfallandi verkefni.

Hæfniskröfur:

·         Stúdentspróf

·         Mjög góð tölvukunnátta í helstu kerfum svo sem Word, Excel og Power Point

·         Góð enskukunnátta nauðsynleg

Félagið leitar að einstaklingi sem uppfyllir ofangreind skilyrði og er jákvæður, lipur í mannlegum samskiptum, tekur frumkvæði og getur unnið sjálfstætt.

Nánari upplýsingar veitir Vilhjálmur formaður félagsins í símum 865-1294 og 430-9902.

Umsóknarfrestur er til kl. 16 fimmtudaginn 13. september.  Umsóknum skal skilað á skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13, 300 Akranes eða á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

30
Aug

Kjarasamningur fyrir smábátasjómenn undirritaður

Sjómannasamband Íslands skrifaði undir kjarasamning við Landssamband smábátaeigenda í nótt og er því þrautagöngu um samningsleysi smábátasjómanna loks á enda. Þetta er nánast eina starfsstéttin á Íslandi sem ekki hefur notið þeirra lágmarksmannréttinda að hafa í gildi kjarasamning.

Skrifstofu félagsins var að berast samningurinn í hús og hefur því ekki náðst að fara ítarlega yfir innihald samningsins en það er gríðarlega mikilvægt að þeir sjómenn sem munu koma til með að vinna eftir áðurnefndum kjarasamningi kynni sér innihald hans vel og rækilega. Hægt er að sjá kjarasamninginn með því að smella hér.  

30
Aug

Hressilegur og kröftugur fundur með forseta ASÍ í gær

Í gær var tæplega þriggja tíma langur fundur með forseta ASÍ haldinn í fundarsal Verkalýðsfélags Akraness en um þessar mundir er forsetinn í fundaherferð með stjórnum aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Fundarefnin voru kjaramál, atvinnumál, endurskoðun kjarasamninga og jöfnuð lífeyrisréttindi við opinbera starfsmenn.

Það er óhætt að segja að það hafi verið skipst á skoðunum á þessum fundi og það er morgunljóst að oft á tíðum er stjórn VLFA á öndverðum meiði við forystu ASÍ í hinum ýmsu málum er lúta að hagsmunum íslensks launafólks. Á fundinum í gær gagnrýndi formaður félagsins harðlega samræmdu launastefnuna sem gengið var frá í maí í fyrra en í þeirri launastefnu var kveðið á um að flestir íslenskir launþegar fengju sambærilegar launahækkanir óháð getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Forseti ASÍ benti á að fiskvinnslufólk hefði fengið meiri hækkanir heldur en almennt hefði verið samið um en formaður benti forseta á að grundvallaratriðið væri að horfa á þá krónutölu sem fiskvinnslufólk hefði í laun og stöðu íslenskrar útgerðar um þessar mundir. En meðallaun í fiskvinnslu í dag með bónus eru einungis 219 þúsund krónur eftir kjarasamning. Og fiskvinnslukona sem hefur starfað í 20 ár í greininni og náð sér í öll þau réttindi sem standa til boða er einungis með 237 þúsund með bónusgreiðslum. Formaður tjáði forseta að það væri morgunljóst að það hefðu verið gerð mikil mistök að sækja ekki mun fastar að fiskvinnslufyrirtækjum enda hefðu þau svo sannarlega borð fyrir báru og nefndi hann sem dæmi að fjölmörg fiskvinnslufyrirtæki hafi á undanförnum árum greitt launauppbætur umfram kjarasamninga sem nema yfir einni milljón króna. Þetta sýndi svo ekki væri um villst að það væri svo sannarlega til svigrúm hjá útgerðinni til að leiðrétta laun fiskvinnslufólks. Hins vegar eru fyrirtæki eins og til að mynda HB Grandi sem hafa skýlt sér á bak við kjarasamninginn og neitað alfarið að koma með launauppbætur eins og önnur útgerðarfyrirtæki þó svo að um milljarðahagnað hjá fyrirtækinu sé að ræða og arðgreiðslur upp á hundruðir milljóna til eigenda. Þarna var kjörið tækifæri til að lagfæra laun fiskvinnslufólks svo um munaði en því miður var það tækifæri látið renna úr greipum í þessari svokölluðu samræmdu launastefnu.

Einnig voru lífeyrissjóðsmál umtalsvert til umræðu á fundinum og gagnrýndi formaður félagsins harðlega þá hugmynd að ætla að hækka iðgjöld úr 12% í 15,5% og skýla sér á bak við að hér sé um jöfnuð á lífeyrisréttindum við opinbera starfsmenn að ræða. En þessi hækkun á að koma til framkvæmda á árunum 2014 til 2020. Það er mat formanns að það væri miklu nær að þessi 3,5% sem um ræðir myndu renna í séreign launafólks sem er erfanleg en ekki í samtrygginguna enda hefur staða lífeyrissjóðanna verið með þeim hætti að þeir hafa misst allt traust sjóðsfélaga enda er til að mynda búið að skerða lífeyrisréttindi sjóðsfélaga innan ASÍ um 130 milljarða frá áramótum og ennþá eru sjóðir á hinum almenna vinnumarkaði með neikvæða tryggingafræðilega stöðu upp á 119 milljarða. Það má ekki blekkja sjóðsfélaga á hinum almenna vinnumarkaði með því að verið sé að jafna lífeyrisréttindi við opinbera starfsmenn í ljósi þeirrar bláköldu staðreyndar að opinberir starfsmenn eru með ríkisábyrgð á sínum lífeyri sem þýðir að það skiptir engu máli hvort lífeyrissjóður þeirra nái 3,5% raunávöxtun eða ekki, reikningurinn er því bara sendur til skattgreiðenda til að mæta þeim mismun sem þar er. Formaður benti forsetanum einnig á að nú hefur Fjármálaeftirlitið krafist þess að lífeyrissjóður opinberra starfsmanna hækki framlag sitt úr 15,5% í 19,5% og var krafa FME að það gerðist í júní í fyrra. Því spurði formaður forseta ASÍ hvernig gæti verið um jöfnuð á lífeyrisréttindum að ræða þegar krafan er að hækka framlag A deildar LSR úr 15,5% í 19,5%. Það er auðvelt að lofa fyrst og skerða svo eins og raunin hefur verið með lífeyrissjóðina á hinum almenna vinnumarkaði.

Stjórn félagsins telur það gríðarlega mikilvægt að lífeyrissjóðskerfið í heild sinni verði endurkoðað frá grunni og farið yfir alla þessa þætti, meðal annars hvort örorkan eigi yfirhöfuð heima inni í lífeyrissjóðunum því eins og fram kom á fundinum í gær þá er örorkubyrgði lífeyrissjóða verkafólks mun hærri en í öðrum lífeyrissjóðum. Slíkt er ekkert annað en óréttlæti því aukin örorkubyrgði þýðir ekkert annað en skerðing á réttindum þeirra sem tilheyra viðkomandi lífeyrissjóðum. Þessa hluti þarf alla að skoða frá grunni með gagnrýni að leiðarljósi.

Formaður telur að það sé ekki ofsögum sagt að stjórn VLFA sé oft á tíðum æði ósammála forystu ASÍ í hinum ýmsu aðgerðum og aðgerðaleysi þegar kemur að bættum hag íslensks launafólks og er félagið algjörlega óhrætt við að láta vel í sér heyra þegar hagsmunir okkar félagsmanna eru í húfi og svo verður áfram um ókomna tíð.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image