• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
07
Dec

Skattastefna stjórnvalda stefnir atvinnuöryggi fólks í sjávarútvegi í stórhættu

Eins og fram hefur komið í fréttum ríkir nú umtalsverð óvissa varðandi atvinnuöryggi sjómanna, fiskvinnslufólks og annarra sem starfa í sjávarútvegi. Ástæðan er einföld, hið nýja auðlindagjald ríkisstjórnarinnar hefur stefnt atvinnuöryggi þessa fólks í verulega hættu. Í fréttum í gær kom fram að 62 starfsmönnum hefur nú verið sagt upp hjá þremur útgerðarfyrirtækjum og er ekki ólíklegt að mun fleiri uppsagnir séu nú í burðarliðnum.

Þetta nýja auðlindagjald virðist í fljótu bragði vera algjörlega vanhugsað enda er verið að leggja umtalsverðar byrðar á útgerðina. Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur verið í sambandi við tvo útgerðarmenn sem eru í smábátaútgerð hér á Akranesi og í máli þeirra kom fram að það sé algjörlega búið að rústa þessari grein og þeir hafi ekki nokkurn áhuga á að starfa áfram við þessar aðstæður. Annar þeirra sagðist hafa greitt rétt rúmar 600 þúsund krónur í auðlindagjald fyrir ári síðan en nú væri hann hins vegar kominn með reikning í hendurnar sem kveður á um 2,7 milljónir í auðlindagjald og hann áætlar að af þessum litla kvóta sem hann er með fari aflaverðmæti 20-30 tonna í það eitt að standa undir kostnaði vegna hins nýja auðlindagjalds. Sömu sögu er að segja af hinum útgerðarmanninum, hann greiddi 800 þúsund krónur í auðlindagjald á síðasta ári en hefur nú fengið reikning upp á 4 milljónir króna. Báðir sögðu þeir að þeir hefðu í hyggju að hætta þessari starfsemi vegna skattastefnu stjórnvalda, enda er þeim ekki lengur gert kleift að starfa í þessari grein. Það kom einnig fram í fréttum í dag að fjölmargar smærri útgerðir séu nú að íhuga að selja sínar útgerðir og hætta starfsemi.

Formaður félagsins óttast að atvinnuöryggi hundruð ef ekki þúsunda sjómanna sé stefnt í voða vegna þessa auðlindagjalds. Rétt væri að sjávarútvegurinn myndi greiða eðlilegt og sanngjarnt auðlindagjald en það auðlindagjald má ekki vera með þeim hætti að atvinnuöryggi áðurnefndra aðila sé stefnt í tvísýnu eins og nú er gert. Formaður VLFA vill sjá útgerðina geta vaxið og dafnað þannig að hún geti hækkað laun þeirra sem starfa í greininni sem klárlega myndi skila sér í auknum tekjum fyrir ríkissjóð sem og sveitarfélög og einnig að útgerðinni séu gerð þannig rekstrarskilyrði af hálfu stjórnvalda að það leiði til fjölgunar starfa í greininni en ekki fækkunar eins og nú er að eiga sér stað enda er það til hagsbóta fyrir allt samfélagið.

Það er þyngra en tárum taki að núverandi stjórnvöld virðast eiga í heilögu stríði við þrjár mikilvægustu atvinnugreinar þessa lands, það er að segja útgerðina, stóriðjuna og nú síðast ferðaþjónustuna. Það var t.d. gengið frá samkomulagi við stóriðjurnar um fyrirframgreiddan skatt árið 2010 sem átti að renna út á þessu ári en nú hafa stjórnvöld tilkynnt eins og svo oft áður að þau ætli að svíkja það samkomulag og hafa framlengt skattheimtuna. Hvernig eiga erlendir fjárfestar að hafa nokkurn áhuga á að fjárfesta hér á landi þegar ekki er hægt að treysta undirrituðum samkomulögum þar að lútandi. Ekki þar fyrir utan að verkalýðshreyfingin þekkir það mætavel að ekki er hægt að treysta núverandi stjórnvöldum þó undirritað samkomulag hafi verið gert og nægir að nefna í því samhengi öll þau samkomulög sem gerð hafa verið samhliða kjarasamningum sem nú hafa verið svikin að stórum hluta.

Það er hins vegar alveg ljóst að ríkissjóður þarf að auka skatttekjur sínar en það má ekki vera með þeim hætti að það hafi þveröfug áhrif og leiði frekar til tekjurýrnunar ríkissjóðs heldur en aukningar. Sem dæmi þá hafa skattahækkanir ríkisstjórnarinnar frá því hún tók við hækkað verðtryggðar skuldir heimilanna um vel á þriðja tug milljarða vegna áhrifa hækkana á neysluvísitölunni.

Samtök atvinnulífsins hafa bent á að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar frá því hún tók við hafi leitt til þess að skattbyrði hverrar fjögurra manna fjölskyldu hafi aukist um 1 milljón króna á hverju ári. Verkalýðsfélag Akraness skorar á stjórnvöld að endurskoða þessa skattastefnu sína því það gengur ekki upp að verið sé að ganga af heimilunum dauðum sem og að fyrirtækjum og atvinnuöryggi heillar atvinnugreinar sé stefnt í voða eins og nú er að gerast. Hér er um dauðans alvöru að ræða og Verkalýðsfélagi Akraness ber skylda til þess að verja störf sinna félagsmanna með kjafti og klóm. Hér fara hagsmunir atvinnulífsins og stéttarfélagsins svo sannarlega saman enda er hér um lífsafkomu félagsmanna í húfi. VLFA skorar einnig á stjórnvöld og útgerðarmenn að setjast niður og reyna að finna lausn á þessari deilu þar sem það má ekki undir nokkrum kringumstæðum gerast að störfum innan sjávarútvegsins sé stefnt í hættu á þennan hátt.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image